Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Horft á heiminn

Horft á heiminn

Horft á heiminn

‚Engir prestar — engin kirkja‘

Kaþólska prestastéttin í Frakklandi stendur frammi fyrir alvarlegu vandamáli — ellinni. Of fáir nýir prestar eru til að fylla í skörðin þegar hinir eldri deyja eða setjast í helgan stein, með þeim afleiðingum að prestum í Frakklandi fækkar jafnt og þétt. Dagblaðið Ouest-France segir að í Bretagne, sem almennt er álitið vígi kaþólskrar trúar í Vestur-Frakklandi, hafi prestum fækkað niður í aðeins 2207. Aðeins 180 prestar eru undir fimmtugu, 900 eru milli fimmtugs og sjötugs og yfir helmingur yfir sjötugt. Erkibiskupinn í Rennes, Jacques Jullien, segir að kreppuástand geti skapast í kirkjunni ef núverandi þróun heldur áfram: „Prestaskortur er stærsta vandamál okkar. . . . Engir prestar er eitt og hið sama og engin kirkja.“

Verðbólgan grefur undan siðferði

Hvaða áhrif hefur há og langvinn verðbólga á fólk? Hagfræðingurinn Eduardo Giannetti da Fonseca við háskólann í São Paulo svaraði þeirri spurningu í tímaritinu Veja: „Verðbólgan hefur áhrif á siðferðisstaðla þjóðfélagsins. Þjóð sem býr við það að vita ekki hve mikils virði peningarnir verða í næsta mánuði slakar um síðir á grundvallarsiðfræðireglum mannlegra samskipta. Óstöðugt efnahagslíf grefur undan trausti, sannleika, stundvísi, heiðarleika og ráðvendi.“ Til að vernda sig gegn háum framfærslukostnaði kann bæði yfirvöldum og almenningi að finnast tilgangurinn helga meðalið. Fonseca segir: „Verðbólgan kennir fólki tækifærishyggju, spillingu og að eyða peningum um leið og þeirra er aflað.“

Fíkniefni í Forn-Egyptalandi

„Vísindamenn við háskólana í München og Ulm [í Þýskalandi] hafa fundið merki um hass, kókaín og nikótín í egypskum múmíum,“ segir Frankfurter Allgemeine Zeitung. Vísindamenn rannsökuðu bein-, hár- og vefjasýni úr nokkrum múmíum frá tímabilinu 1070 f.o.t. til 395 e.o.t. Hvað segja rannsóknirnar okkur um líf manna í Egyptalandi til forna? „Egyptar notuðu greinilega fíkniefni, jafnvel til að sefa grátandi börn,“ segir dagblaðið. Hvernig vita vísindamenn það? Papýrusrit lýsir blöndu úr flugnasaur og valmúafræi sem öflugu deyfilyfi.

Steralyf — útlitsins vegna

Menn hafa lengi vitað að íþróttamenn nota steralyf í von um að auka hæfni sína. Á síðustu árum hefur notkun steralyfja hins vegar aukist meðal annarra og er það útlitsins vegna. Nýleg könnun, sem skýrt var frá á vegum Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar, leiddi í ljós að 6,6 af hundraði pilta í síðasta bekk almennra framhaldsskóla í Bandaríkjunum höfðu neytt steralyfja. Þar af sögðu 26 af hundraði að aðalástæðan fyrir steralyfjaneyslunni væri að bæta útlitið. Hættulegar aukaverkanir af völdum steralyfjaneyslu eru hækkað kólesteról, bjúgur, aukin hætta á kransæðasjúkdómum, stækkun blöðruhálskirtils, æxli í lifur, eistnavisnun og getuleysi. Steralyf eru einnig talin örva árásarhneigð og keppnisanda.

Hættuleg hafsvæði

Hvað á að gera við öll ónotuðu vopnin þegar stríð er afstaðið? Að sögn þýska dagblaðsins Hannoversche Allgemeine fundu Bandamenn einfalda en fremur skammsýna lausn eftir síðari heimsstyrjöldina: Henda þeim í sjóinn. Blaðið segir að milli 700.000 og 1.500.000 tonnum af vopnum Þriðja ríkisins hafi verið kastað í sjóinn og síðar hentu Bandamenn einhverju af eigin vopnum. Valin voru svæði í Norðursjó, á Eystrasalti og Skagerrak en ekki ýkja nákvæmlega skráð. Sumt af þessu hættulega sorpi var fjarlægt á sjötta áratugnum en um 500.000 tonn eru þó talin vera eftir. Menn hafa vaxandi áhyggjur af hættunni sem stafar af þessu neðansjávarsorpi. Kafarar á vegum yfirvalda eru nú að kanna sum svæðin og reyna að meta hve mikið sé af vopnum þar og hve hættuleg þau séu. Sum sprengiefnin eru enn virk og sum leka hættulegum eiturefnum út í sjóinn, svo sem blýasíði, kvikasilfri og TNT.

Blý jafnvirði þyngdar sinnar í gulli

Skipsfarmur af blýstöngum, sem fannst í flaki rómversks skips er sökk út af strönd Sardiníu fyrir tvö þúsund árum, er „jafnvirði þyngdar sinnar í gulli,“ að því er ítalska dagblaðið Il Messaggero segir. Í Róm til forna, sem talin er hafa verið upphaflegur áfangastaður blýsins, hefði það verið verðmætt sem hráefni í rör, til að lóða saman pípur og steypa lóð.“ En vísindamenn telja fundinn afar verðmætan. Þar eð blýið lá „undir þykku sandlagi“ á hafsbotni þar sem geimgeislar náðu ekki til þess hefur tíminn útilokað hvern einasta snefil geislavirkni. Þetta hreina blý, sem er ófinnanlegt annars staðar, hefur ómetanlegt gildi fyrir rannsóknarvísindamenn sem efni í hlífðarskildi þar eð blýið hefur engin áhrif á þær mælingar sem gerðar eru á rannsóknarstofum þeirra.

Áhrif ofbeldiskvikmynda

Í viðtali við brasilíska tímaritið Veja var kvikmyndaleikstjórinn Steven Spielberg spurður hvaða áhrif ofbeldi í kvikmyndum kynni að hafa á áhorfendur. Spielberg svaraði: „Að horfa á ofbeldi í kvikmyndum eða sjónvarpi örvar áhorfendur miklu frekar til að líkja eftir því sem þeir sjá en hefðu þeir séð það í veruleikanum eða í sjónvarpsfréttunum. Í kvikmyndum er ofbeldið myndað við fullkomin birtuskilyrði, í sérstæðu landslagi og í hægtöku þannig að það verður jafnvel rómantískt. Í fréttunum hefur almenningur hins vegar miklu betra skyn á því hve hræðlegt ofbeldi getur verið og markmið þess eru allt önnur en í kvikmyndunum.“ Spielberg bætir við að enn sem komið er hafi hann ekki leyft ungum syni sínum að sjá sumar af hinum velþekktu kvikmyndum sínum (Ókindin, Indiana Jones-myndirnar) vegna þess hve mikið blóð og ofbeldi sé sýnt í þeim.

Þagað yfir leyndarmáli

Danskur prófessor í læknisfræði, Margareta Mikkelsen, minntist fyrir nokkru á eitthvert best varðveitta leyndarmál danskra lækna. Hún upplýsti að heilbrigðisstarfsmenn, sem rannsaka sjúklinga með tilliti til arfgengra sjúkdóma, uppgötvi oft við litningarannsóknir að börn eru ekki rétt feðruð. Að sögn þýska dagblaðsins Süddeutsche Zeitung eru á bilinu 5 til 8 af hundraði danskra feðra ekki kynfeður barna sinna. Það þýðir að minnst 3000 af þeim 60.000 börnum, sem fæðast í Danmörku á ári, eru til komin vegna ótryggðar í hjónabandi. Karlmönnunum er þó ekki sagt frá þótt slíkt uppgötvist, ella gæti fjölskyldan sundrast.

Sveitasinfóníur

Kúabændur í Japan hafa verið að leita hentugari og fljótvirkari leiða til að smala kúm dreifðum um hæðótt land þar sem útsýni er takmarkað. Þeir gerðu því tilraun til að kanna hvort nota mætti tónlist til að smala kúnum. Í 13 daga léku þeir japanskt lag, Haru no Ogawa (Lækur að vori), fyrir 16 kýr í þrjár mínútur í senn, tvisvar til fjórum sinnum á dag. Strax á eftir gáfu þeir þeim uppáhaldsfóðrið þeirra. Eftir vetrarhléið, þegar kýrnar höfðu borið, voru tíu af „þjálfuðu“ kúnum látnar út á beit ásamt kálfum sínum sem voru níu. Síðan var lagið leikið. „Á tveim mínútum,“ segir dagblaðið Asahi Evening News, „var öll hjörðin komin heim til svars við tónlistinni sem hún hafði ekki heyrt í um fjóra mánuði.“

„Harmleikur á harmleik ofan“

Í málstofu, sem Alþjóðaheilbrigðisstofnunin og Alþjóðamiðstöð rannsókna og hjálparstarfs stofnuðu til fyrir nokkru í Róm, kom í ljós „langur listi yfir svik, sóun og ótrúleg glöp sem alþjóðlegar hjálparstofnanir eru alltaf að gera sig sekar um,“ segir Economia, viðauki við dagblaðið Corriere della Sera. Á listanum mátti finna dæmi af þessu tagi: Sykurskert sælgæti var sent til hungursvæða í Eþíópíu, sumartjöld voru send eftir jarðskjálfta í Anatolia í Tyrklandi þar sem frostið fór niður í -12° C og fyrnd lyf og bóluefni, sem þurfti að geyma í kæli, voru send til rafmagnslausra svæða. Hjálpargögn liggja oft langtímum saman í vörugeymslum eða komast ekki til þeirra sem þarfnast þeirra. Hvers vegna halda stofnanirnar áfram að gerast sekar um slík afglöp? Economia segir: „Alþjóðlegar hjálparstofnanir þurfa að geta sýnt fram á áþreifanlegan árangur, helst stórkostlegan. . . . Almenningsálitið krefst þess þannig að það skiptir ekki máli þótt nánast alltaf sé verið að henda peningum út í veður og vind.“ Sérfræðingar kalla þetta „harmleik á harmleik ofan.“

Líkamshitinn endurskoðaður

Í meira en öld hefur meðallíkamshiti manna verið talinn 37° C. Sú tala var sótt í vísindagrein eftir Carl Wunderlich frá árinu 1868 og var byggð á liðlega einni milljón mælinga á líkamshita 25.000 fullvaxta manna. Þessar mælingar voru mikið afrek á sínum tíma því að hitamælarnir þurftu um 15 til 20 mínútur til að mæla rétt hitastig og það þurfti að lesa á þá meðan menn voru með þá í handarkrikanum. Philip A. Mackowiak við University of Maryland School of Medicine segir þurfa að breyta þessari tölu því að rannsóknir hans sýna að 37° C „var ekki meðallíkamshiti manna á heildina litið, ekki meðallíkamshiti nokkurs þess tímabils sem rannsakað var og ekki heldur algengasti líkamshiti sem skráður var.“ Aðeins 8 prósent hinna 700 mælinga, sem gerðar voru, gáfu 37° C. Hann segir að meðallíkamshiti manna sé 36,8° C.