Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Hvaða skemmtun velur þú?

Hvaða skemmtun velur þú?

Hvaða skemmtun velur þú?

ÞAÐ er eitt að hafa öfgalaust viðhorf til skemmtunar en allt annað að vera öfgalaus í vali sínu á skemmtiefni. Það er harla auðvelt að sjá að skemmtun er við hæfi á sínum stað en stór hluti skemmtiefnis er bara sorp og tímasóun að ljá því athygli sína. En þrátt fyrir það þurfum við að taka ákvarðanir dags daglega — og það er ekki alltaf auðvelt.

Eins og við höfum séð gerir skemmtanaiðnaðurinn okkur svo sannarlega ekki auðveldara fyrir að velja milli skemmtiefnis. Úrvalið er næstum ótakmarkað. Biblían hefur hins vegar um árþúsundir verið hjartahreinum mönnum sá vegvísir sem þeir þarfnast. Nútímatækni hefur ekki gert meginreglur Biblíunnar úreltar; þvert á móti eru þær nytsamari og nauðsynlegri á okkar erfiðu tímum en nokkru sinni fyrr. Við skulum því sjá hvernig við getum notfært okkur slíkar meginreglur á tveim helstu hættusvæðum skemmtiefnis og skemmtunar — en þau eru innihaldið og tíminn sem hún gleypir.

Hvaða leiðbeiningar gefur Biblían?

Unglingur sviptir sig lífi og það kemur í ljós að hann var á kafi í þungarokki þar sem hvatt var til sjálfsmorðs. Fjórtán ára stúlka ber móður sína til bana með lurk og hún virðist líka hafa verið gagntekin af þungarokki. Fimmtán ára drengur drepur konu og lögfræðingur hans heldur því fram að hann hafi orðið fyrir áhrifum af hryllingskvikmyndum sem sýndu hrottalegt ofbeldi. Við frumsýningu kvikmyndar um ofbeldisverk óaldarflokka brjótast út átök milli óaldarflokka bæði í kvikmyndahúsunum og biðröðunum við miðasöluna.

Ljóst er að innihald þess skemmtiefnis, sem við veljum okkur, hefur einhver áhrif á okkur. Sumir sérfræðingar segja kannski að dæmin, sem hér hafa verið nefnd, séu einangruð tilvik og að ekki sé hægt að draga sérstakar ályktanir af þeim. Meginreglur Biblíunnar snúa sér þó beint að vandanum. Líttu til dæmis á þessi viturlegu orð: „Haf umgengni við vitra menn, þá verður þú vitur, en illa fer þeim, sem leggur lag sitt við heimskingja.“ (Orðskviðirnir 13:20) Er ekki sum skemmtun jafngildi þessa — að hafa umgengni við heimskingja eða siðblindingja? Fyrra Korintubréf 15:33 tekur í sama streng: „Villist ekki. Vondur félagsskapur spillir góðum siðum.“ Hér er ekkert tvírætt eða óljóst, engir sérfræðingar með ólíkar skoðanir sem skjóta hver á annan með talnaskýrslum. Þessi orð lýsa einföldu lögmáli mannlegs eðlis. Við spillum góðum siðum okkar ef við höfum reglulegan félagsskap við siðspillta menn.

Slíkar meginreglur eru jafnverðmætar til að forðast það að dýrka stjörnur í heimi íþrótta, kvikmynda, sjónvarps og tónlistar. Enda þótt stjörnurnar beri oft lof á ofbeldi eða siðleysi, bæði þegar þær koma fram og í einkalífi sínu, virðast aðdáendur þeirra — einkum hinir ungu — dýrka þær hvað sem því líður. Dagblaðið The European sagði fyrir nokkru: „Félagsfræðingar benda á að í þjóðfélagi, sem verður æ veraldlegra, kunni poppstjörnur að vera komnar í það hlutverk sem trúin gegndi áður í lífi margra ungmenna.“ En taktu eftir því sem Sálmur 146:3 segir: „Treystið eigi tignarmennum, mönnum sem enga hjálp geta veitt.“ Og Orðskviðirnir 3:31 segja: „Öfunda ekki ofbeldismanninn og haf engar mætur á neinum gjörðum hans.“

Önnur grundvallarregla: Þegar kristinn maður tekur ákvörðun ætti hann ekki aðeins að hugsa um þau áhrif sem hún hefur á hann sjálfan heldur líka á aðra í kristna söfnuðinum, einnig þá sem hafa viðkvæma samvisku. (1. Korintubréf 10:23-33) Biblían hjálpar okkur einnig að setja okkur reglur um hvaða skemmtiefni við getum valið okkur að skaðlausu. Páll postuli ráðlagði: „Að endingu, bræður, allt sem er satt, allt sem er göfugt, rétt og hreint, allt sem er elskuvert og gott afspurnar, hvað sem er dyggð og hvað sem er lofsvert, hugfestið það.“ — Filippíbréfið 4:8.

Þessar meginreglur hafa um aldaraðir vísað þjónum Guðs veginn. Kristnir menn í Róm til forna þurftu ekki að hafa lög sem tiltóku berum orðum að skylmingaleikirnir, með öllum sínum blóðsúthellingum og kvalafýsn, væru ekki við þeirra hæfi sem skemmtiefni. Þeir tóku einfaldlega mið af meginreglum eins og þeim sem eru tilteknar hér á undan og vernduðu þar með sjálfa sig, fjölskyldur sínar og söfnuði.

Hvernig á að velja?

Sannkristnir menn fara eins að nú á dögum. Þegar þeir velja sér skemmtiefni byrja þeir á því að kynna sér siðferðilegt innihald þess. Hvernig? Áður en þeir festa til dæmis kaup á hljómplötu skoða þeir umslagið. Hvernig er tónlistin auglýst? Hvetur hún til siðspillingar, haturs, uppreisnar, reiði, kynlífs eða þess að draga einhvern á tálar? Stundum fylgja prentaðir textar. Á bókarkápu er oft stutt yfirlit yfir efni bókarinnar og stundum er hægt að lesa ritdóma. Dagblöð og tímarit birta oft umsagnir um kvikmyndir. Í sumum löndum starfar kvikmyndaeftirlit sem getur ákveðið að kvikmynd sé bönnuð börnum undir ákveðnum aldri, og það má hugsanlega nota sér til leiðbeiningar. Ef heimurinn, sem er spilltur, álítur að ákveðið skemmtiefni sýni of djörf kynlífsatriði, of mikið siðleysi eða ofbeldi til að það sé við hæfi allra aldurshópa, er erfitt að ímynda sér að kristinn maður setji sér enn lægri viðmiðunarmörk og innbyrði það fúslega í huga sinn og hjarta.

Á hinn bóginn aðvaraði hinn vitri konungur Salómon einu sinni: „Ver þú ekki of réttlátur og sýn þig ekki frábærlega vitran — hví vilt þú tortíma sjálfum þér?“ (Prédikarinn 7:16) Það er mjög auðvelt að falla í þá gildru að vera sjálfréttvís í sambandi við skemmtiefni. Við erum kannski harðákveðin í því að við höfum komist að réttri niðurstöðu eftir að hafa íhugað meginreglur Biblíunnar vandlega og rætt þær í bæn. En svo uppgötvum við að aðrir, sem lifa eftir sömu meginreglum, komast að eilítið annarri niðurstöðu en við. Látum það ekki spilla gleði okkar. Hver og einn verður að bera ábyrgð á ákvörðunum sínum. — Galatabréfið 6:4.

Hve mikið er of mikið?

Heimurinn fer út í algerar öfgar í mati sínu á því hve hæfilegt sé að verja miklum tíma til tómstundaiðkana. Til dæmis kallaði ritstjórnargrein í fagtímaritinu Parks & Recreation afþreyingu „kjarna lífsins.“ The New York Times Magazine tók svipaða afstöðu er það sagði um laugardagskvöldin sem eru vinsælt afþreyingarkvöld fólks: „Þegar allt er talið saman eru virku dagarnir í lífi okkar miklu fleiri en laugardagskvöldin, en það eru laugardagskvöldin sem eru þess virði að lifa fyrir.“ Sumir félagsfræðingar halda því jafnvel fram að í hinum efnameiri löndum heims sé frítíminn orðinn undirstaða samfélagsins og að trú og trúariðkanir séu aðeins eitt frístundagaman af mörgum.

Það kemur kristnum mönnum ekki á óvart að forgangsmál manna skuli komin í þetta horf. Biblían sagði endur fyrir löngu að á okkar erfiðu „síðustu dögum“ myndu menn ‚elska munaðarlífið meira en Guð.‘ (2. Tímóteusarbréf 3:1-4) Meginreglur Biblíunnar hjálpa okkur aftur á móti að hafa réttar áherslur í lífi okkar. Eins og Jesús sagði verðum við að ‚elska Jehóva, Guð okkar, af öllu hjarta okkar, allri sálu okkar, öllum huga okkar og öllum mætti okkar.‘ (Markús 12:30) Þess vegna gengur kærleikur til Guðs fyrir öllu öðru í lífi þjóna hans. Það er svo sannarlega fjarri því að þeir láti kristna þjónustu sína vera frístundagaman. Hún er fremsta forgangsverkefni þeirra. Jafnvel veraldleg vinna þeirra á aðeins að vera stuðningur við þessa mikilvægu þjónustu. — Matteus 6:33.

Þess vegna verða kristnir menn að reikna kostnaðinn þegar skemmtanir eiga í hlut. Þeir verða að ákveða hve mikinn tíma hún má taka miðað við það hvers virði hún er. (Lúkas 14:28) Ef það að stunda einhverja skemmtun hefur í för með sér að vanrækja það sem mikilvægara er, svo sem einkabiblíunám og fjölskyldubiblíunám, samveru með trúbræðrum, hina kristnu þjónustu eða skyldur gagnvart fjölskyldunni, þá er hún ekki þess virði.

Það sem val þitt segir um þig

Sá tími, sem við eyðum í skemmtanir, segir ýmislegt um áherslur okkar í lífinu og það sem við veljum okkur til skemmtunar segir margt um siðferði okkar og hversu einlæg vígsla okkar við Guð er. Val okkar segir öðrum í byggðarlaginu hvers konar fólk við erum og hvaða lífsgildi við aðhyllumst. Val okkar segir vinum okkar, fjölskyldu og söfnuði hvort við erum öfgalaus eða öfgafull, einlæg eða hræsnisfull, réttlát eða sannfærð um siðferðilega yfirburði sjálfra okkar.

Láttu ákvarðanir þínar endurspegla þig og þína fjölskyldu, því að þú stendur frammi fyrir skapara þínum sem rannsakar hjörtu og áhugahvatir okkar allra. Hebreabréfið 4:13 segir: „Enginn skapaður hlutur er honum hulinn, allt er bert og öndvert augum hans. Honum eigum vér reikningsskil að gjöra.“ Guð einn getur séð hvert er svarið við spurningunni sem er þungamiðja alls þessa: Ætlum við að láta meginreglur hans leiða okkur á öllum sviðum lífsins?

[Mynd á blaðsíðu 19]

Það sem þú velur þér til skemmtunar segir heilmikið um þig og fjölskyldu þína.