Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Hvers vegna blótsyrði eru ekki fyrir kristna menn

Hvers vegna blótsyrði eru ekki fyrir kristna menn

Sjónarmið Biblíunnar

Hvers vegna blótsyrði eru ekki fyrir kristna menn

FRÉTTARITARI BBC í Wales var áminntur fyrir að neita að klippa burt „hneykslanleg orð“ úr viðtali við kynvilling sem notaði, að sögn talsmanns BBC í viðtali við dagblaðið The Guardian, „afar óviðurkvæmilegt málfar til að lýsa athöfnum sem geta valdið alnæmissmiti.“ Auk þess innihéldu 22 af hundraði dagskrárefnis, sem fylgst var með í tveggja vikna könnun er náði til hinna fjögurra sjónvarpsstöðva Bretlands, „gróft málfar, blótsyrði og/eða guðlast.“

Fréttir af þessu tagi vekja okkur til umhugsunar um mikla þversögn í viðhorfum manna. Mörgum þykir hneykslanlegt þegar mál manna er fullt af blótsyrðum. Aðrir yppa öxlum og segja slík orð ekki vera neitt áhyggjuefni heldur aðeins krydda mál manna. En eiga blótsyrði heima í máli kristinna manna sem meta mikils samband sitt við Guð og náungann?

Hvers vegna svona algengt?

Blót og formælingar eru hvers konar ljótur munnsöfnuður, blótsyrði, bölv, ragn og guðlast sem menn temja sér. Formælingar láta í ljós reiði og jafnvel fyrirlitningu og fordæmingu. Mary Marshall, höfundur bókarinnar Origins & Meanings of Oaths & Swear Words (Uppruni og merking blótsyrða og formælingarorða) segir að „blótsyrða og formælinga gæti miklum mun meira í talmáli en ritmáli.“ Margar skáldsögur eru þó fullar af blótsyrðum.

Hvers vegna eru blótsyrði svona algeng? Sumir reyna kannski að bæta upp takmarkaðan orðaforða með ríkulegri notkun blótsyrða. Aðrir nota blótsyrði til áhersluauka. Samkvæmt skilgreiningu er ljótur munnsöfnuður oft tengdur gremju, vonbrigðum og reiði. Þegar reynir á þolrifin í mönnum gefa margir „innibyrgðum tilfinningum útrás“ með blótsyrðum. Mary Marshall segir að í spjaldskrá hennar um ensk blótsyrði sé spjaldabunkinn þykkastur undir orðum sem hefjast á lokhljóðum eða hvæsandi samhljóðum.

Þótt blótsyrði geti virst gefa tilfinningunum útrás er það reynsla margra að blótsyrði kalla á svipuð andsvör. Hvers vegna? Ljótur munnsöfnuður er eins og olía á tilfinningaeldinn. Í umferðarhnút í höfuðborg einni í Vestur-Afríku stökk argur ökumaður út úr bílnum sínum til að hella sér yfir ökumann bifreiðar sem var í veginum fyrir honum. Hvor um sig reyndi að ganga fram af hinum og fúkyrðin mögnuðust stig af stigi. Aðrir ökumenn í umferðarhnútnum hölluðu sér út um bílgluggana og eggjuðu mennina tvo til að ausa æ grófari fúkyrðum hvor yfir annan.

Meiðandi orð, sem gera lítið úr öðrum, geta hleypt af stað flaumi fúkyrða. Sumir bregða á það ráð að líkja skotspæni sínum við skepnu eða jafnvel skordýr, lítilsvirða foreldra hans eða ýja að vafasömum uppruna hans, vekja athygli á vissum líkamseinkennum, og auka jafnvel á svívirðuna með blótsyrðum, guðlasti og kynferðislega ósæmilegum og klúrum athugasemdum.

Viðhorf Guðs til blótsyrða

Það er að sjálfsögðu frekleg móðgun við Guð að misnota nafn hans. Önnur Mósebók 20:7 segir: „Þú skalt ekki leggja nafn [Jehóva] Guðs þíns við hégóma.“ Setti tilbiðjandi Guðs sig í hættu með því að virða ekki þessi fyrirmæli? Já, lögmálið hélt áfram: „[Jehóva] mun ekki láta þeim óhegnt, sem leggur nafn hans við hégóma.“

Til að sýna fram á mikilvægi þess að hlýða þessu boði segir Biblían frá átökum milli Ísraelsmanns og annars manns. Sá hinn síðarnefndi „lastmælti nafninu og formælti.“ Hvernig dæmdi Guð í málinu? Hann úrskurðaði: „Sá er lastmælir nafni [Jehóva], skal líflátinn verða.“ (3. Mósebók 24:10-16) Þótt lastmælin sjálf séu ekki tíunduð sýnir þetta dæmi úr Biblíunni viðhorf Guðs til þess að svívirða hann í orðum eða hegðun.

Kristnu Grísku ritningarnar sögðu fyrir að okkar dagar yrðu „örðugar tíðir. Mennirnir verða . . . lastmælendur [á grísku: blaʹsphemoi], . . . Snú þér burt frá slíkum!“ (2. Tímóteusarbréf 3:1, 2, 5) Gríska orðið blaʹsphemoi felur í sér meira en aðeins virðingarlaust tal um það sem haldið er heilagt. Það felur í sér hvers kyns hallmæli, níð og róg sem skaðar annan einstakling.

Lastmált fólk endurspeglar ‚hinn gamla mann‘ sem kristnir menn eru hvattir til að ‚afklæðast‘ eins og illa lyktandi flík sem þeir hafa engin not fyrir framar. a Páll postuli ráðleggur: „En nú skuluð þér segja skilið við allt þetta: Reiði, bræði, vonsku, lastmæli, svívirðilegt orðbragð.“ „Látið hvers konar beiskju, ofsa, reiði, hávaða og lastmæli vera fjarlægt yður og alla mannvonsku yfirleitt.“ (Kólossubréfið 3:8, 9; Efesusbréfið 4:31) Veitum enn fremur eftirtekt að þeir sem móðga og lastmæla öðrum, þeir sem Páll kallar ‚lastmála,‘ eru í hópi ‚ranglátra‘ sem munu ekki „Guðs ríki erfa.“ — 1. Korintubréf 6:9, 10.

Hafnaðu ljótum munnsöfnuði

Ósvikinn kærleikur til Guðs fær kristinn mann til að gera allt sem hann getur til að þóknast honum. (1. Jóhannesarbréf 5:3) Á sama hátt og Guð ber umhyggju fyrir öllum mönnum, eins mun kristinn maður vilja endurspegla sama viðhorf til annarra og hlýða þar með tveim mestu boðorðunum, það er að segja að elska Guð og náungann. (Matteus 22:37-39) Við skulum þar af leiðandi ‚hugsa um náungann og það sem honum er gott og til uppbyggingar.‘ (Rómverjabréfið 15:2) Spyrðu þig hvort orðaval þitt sé móðgandi eða uppbyggjandi.

Það er vissulega ekki auðvelt fyrir þann mann að hreinsa mál sitt sem hefur lengi tamið sér ljótan munnsöfnuð. Það er samt sem áður hægt — með hjálp. Andi Guðs getur hjálpað manni að venja sig af illri munnshöfn. En fyrst verður maðurinn að vera fús til að byggja upp orðaforða sinn með góðum orðum — og nota þau svo reglulega. — Rómverjabréfið 12:2.

„Illmálug tunga verður stöðvuð,“ aðvaraði hinn vitri konungur Salómon. Leyfðu því ekki saurugum orðum að óhreinka mál þitt. Gerðu þér far um að vera þess konar maður sem kann að nota hrein orð og gerir það smekklega! — Orðskviðirnir 10:31, 32, Today’s English Version; Kólossubréfið 4:6.

[Neðanmáls]

a Taktu eftir Efesusbréfinu 5:3, 4 þar sem samhengið tengir „svívirðilegt hjal“ og „ósæmandi spé“ kynferðismálum. Gróft tal og gamansögur tengdar kynferðismálum eru því ekki við hæfi kristins manns.