Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Okkar óstöðugi heimur — Hvað ber framtíðin í skauti sér?

Okkar óstöðugi heimur — Hvað ber framtíðin í skauti sér?

Okkar óstöðugi heimur — Hvað ber framtíðin í skauti sér?

EIGI heimurinn okkar að breytast til batnaðar hverjir eru þá valkostirnir sem við höfum? Einn kosturinn er að trúa því að valdhafar og leiðtogar heimsins hætti með tímanum að hugsa um eigin hag og byrji að leiða mannkynið í átt til friðar, skilnings og gagnkvæms umburðarlyndis.

Það hefur í för með sér að trúa því að þjóðernishyggja og ættflokkarígur víkji fyrir yfirþjóðlegu viðhorfi sem getur stuðlað að einingu í heiminum.

Í því fellst líka að trúa því að leiðtogar hinna kapítalísku landa viðurkenni að gróðahyggjan ein sé ekki nothæf siðfræði í heimi þar sem er stórfellt atvinnuleysi, húsnæðisskortur og svimhár heilbrigðiskostnaður.

Auk þess hefur það í för með sér að trúa því að allir vopnaframleiðendur snúist á sveif með friði í heiminum og smíði plógjárn úr sverðum sínum.

Enn fremur þýðir það að glæpaöflin í heiminum, þeirra á meðal leiðtogar Mafíunnar, foringjar glæpaflokka Austurlanda og fíkniefnabarónar Suður-Ameríku iðrist synda sinna og snúi við blaðinu!

Með öðrum orðum þýðir þetta að trúa á útópíu af mannavöldum — draum sem aldrei getur ræst. Ef ekki er gert ráð fyrir að Guð komi nærri erum við í svipaðri aðstöðu og sagnfræðingurinn Paul Johnson lýsti í bók sinni A History of the Modern World. Hann sagði að ein aðalmeinsemdin, sem stuðlar að „hörmulegum mistökum og harmleikjum“ okkar aldar, sé „sú hrokafulla trú að karlar og konur geti ráðið alla leyndardóma alheimsins hjálparlaust með vitsmunum sínum.“ — Samanber Jesaja 2:2-4.

Hvað snertir jákvæða breytingu höfum við hins vegar raunhæfan valkost til að hallast að. Það er að trúa því að skapari jarðar og eigandi, Jehóva Guð, skakki leikinn í þeim tilgangi að bjarga handaverki sínu. Biblíusagan sýnir að Guð hefur gripið til aðgerða áður til að hrinda tilgangi sínum í framkvæmd, og spádómar Biblíunnar gefa til kynna að hann muni bráðlega skerast í leikinn á ný til að láta upphaflegan tilgang sinn með mannkynið og jörðina ná fram að ganga. — Jesaja 45:18.

Einstæð uppspretta áreiðanlegra upplýsinga

Þessari einstæðu uppsprettu sannrar vitneskju um það hvað framtíðin ber í skauti sér fyrir mannkynið er lýst í spádómsbók Jesaja í Biblíunni: „Minnist þess hins fyrra frá upphafi, að ég er Guð og enginn annar, hinn sanni Guð og enginn minn líki. Ég kunngjörði endalokin frá öndverðu og sagði fyrir fram það, sem eigi var enn fram komið.“ — Jesaja 46:9-11.

Hvers vegna ætti Jehóva Guð að vita fyrir þá atburði sem eiga eftir að hafa áhrif á mannkynið? Enn svarar Jesaja: „Svo miklu sem himinninn er hærri en jörðin, svo miklu hærri eru mínir vegir yðar vegum og mínar hugsanir yðar hugsunum.“ Hugsanir Guðs um framtíð mannkyns eru skráðar í Biblíunni. — Jesaja 55:9.

„Örðugar tíðir“

Hvað segir orð Guðs, Biblían, fyrir um okkar kynslóð? Kristni postulinn Páll aðvaraði: „Vita skalt þú þetta, að á síðustu dögum munu koma örðugar tíðir.“ (2. Tímóteusarbréf 3:1) Allt frá 1914 og dögum fyrri heimsstyrjaldarinnar höfum við lifað æ örðugari og hættulegri tíma. Eigingirni mannsins, ágirnd og valdagræðgi hefur komið honum til að fremja verri og verri hermdarverk, ekki aðeins gegn náunga sínum heldur einnig sjálfri náttúrunni. Skeytingarleysi mannsins um umhverfi sitt ógnar tilveru barna hans og barnabarna.

Forseti Tékkíu, Vaclav Havel, vakti athygli á þessari hættu er hann skrifaði um ástandið í heimalandi sínu. Segja má að orð hans eigi við heiminn allan: „Þetta eru aðeins afleiðingar af . . . viðhorfum mannsins til heimsins, til náttúrunnar, til annarra manna, til lífsins sjálfs. Þetta eru afleiðingarnar . . . af hroka nútímamannsins sem heldur að hann skilji allt og viti allt, sem kallar sig herra náttúrunnar og heimsins. . . . Þannig var hugsunarháttur þess manns sem neitaði að viðurkenna nokkuð . . . sér æðra.“

Al Gore, sem vitnað var til í greininni á undan, skrifaði: „Ég er sannfærður um að margir hafa misst trúna á framtíðina vegna þess að við erum á nærri öllum sviðum siðmenningarinnar farnir að hegða okkur eins og framtíðin sé svo óviss að það sé skynsamlegra að einbeita sér bara að þörfum líðandi stundar og skammtímavandamálum.“ (Earth in the Balance) Viðhorf manna til framtíðarinnar virðast vissulega einkennast af svartsýni.

Þetta ástand hefur að nokkru leyti komið til af því að eftirfarandi orð Páls postula hafa ræst: „Mennirnir verða sérgóðir, fégjarnir, raupsamir, hrokafullir, lastmælendur, foreldrum óhlýðnir, vanþakklátir, vanheilagir, kærleikslausir, ósáttfúsir, rógberandi, taumlausir, grimmir, ekki elskandi það sem gott er, sviksamir, framhleypnir, ofmetnaðarfullir, elskandi munaðarlífið meira en Guð. Þeir hafa á sér yfirskin guðhræðslunnar, en afneita krafti hennar. Snú þér burt frá slíkum!“ — 2. Tímóteusarbréf 3:2-5.

Betri valkostur

En Guð hefur í hyggju að breyta ástandinu á jörðinni — til hins betra. Hann hefur heitið því að skapa ‚nýjan himin og nýja jörð þar sem réttlæti býr.‘ (2. Pétursbréf 3:13) Til að breyta þessari menguðu jörð í paradís verður Jehóva Guð fyrst að „eyða þeim, sem jörðina eyða.“ (Opinberunarbókin 11:18) Hvernig á það að gerast?

Á táknmáli lýsir Biblían því að Guð muni bráðlega leggja stjórnmálaöflunum, þeirra á meðal Sameinuðu þjóðunum, í brjóst að svipta eitthvert neikvæðasta afl mannkynssögunnar — hin þjóðernissinnuðu og sundrandi trúarbrögð um heim allan — völdum og virðingu. a Að því er Martin van Creveld segir í bók sinni The Transformation of War „virðist fullt tilefni til að ætla að trúarviðhorf, -skoðanir og -ofstæki eigi eftir að gegna stærra hlutverki í vopnuðum átökum en það hefur gert á Vesturlöndum, að minnsta kosti síðastliðin 300 ár.“ Stjórnmálaöflin eiga eftir að ráðast á trúarbrögðin, ef til vill vegna afskipta þeirra af stjórnmálum. Óafvitandi verða stjórnmálaöflin þar með að þjóna vilja Guðs. — Opinberunarbókin 17:16, 17; 18:21, 24.

Biblían sýnir síðan að Guð muni þessu næst beina athygli sinni að dýrslegum stjórnmálaöflum hins spillta heimskerfis Satans og heyja við þau lokastríð, stríðið við Harmagedón. Eftir að hin grimmu stjórnmálakerfi hafa verið þurrkuð út og Satan, sem ráðskast með þau, verið fjötraður, er brautin rudd að friðsömum nýjum heimi sem Guð hefur heitið. b — Opinberunarbókin 13:1, 2; 16:14-16.

Vottar Jehóva hafa prédikað þessar breytingar hús úr húsi í nálega 80 ár. Á því tímabili hafa þeir líka séð og fundið fyrir þeim mörgu breytingum sem mannkynið hefur gengið í gegnum. Þeir hafa af eigin raun kynnst fangelsum og fangabúðum nasista vegna fastheldni sinnar við meginreglur Biblíunnar. Þeir hafa mátt þola kvöl og þjáningar lífsins víða um Afríkulönd, meðal annars borgarastríð og ættflokkaátök. Þeir hafa mátt þola ofsóknir af hendi flestra stjórnmála- og trúarkerfa heims vegna hlutleysis síns og kostgæfrar prédikunar. Þrátt fyrir það allt hafa þeir séð Guð blessa fræðslustarf sitt um allan heim og þeim hefur fjölgað úr nokkrum þúsundum árið 1914 í um það bil fjórar og hálfa milljón árið 1993.

Tilefni til bjartsýni

Í stað þess að láta svartsýni ná tökum á sér eru vottar Jehóva bjartsýnir vegna þess að þeir vita að bestu og mestu breytingarnar eiga enn eftir að eiga sér stað á jörðinni. Atburðir frá 1914 hafa uppfyllt spádómana sem Jesús bar fram og einkennt tíma ósýnilegrar nærveru hans sem konungur Guðsríkis og gefa til kynna að við lifum endalokatíma sérhverrar „nýrrar heimsóreiðu“ af mannavöldum eins og franskur rithöfundur lýsti nánustu framtíðarhorfum í dagblaðinu Le Monde. Jesús sagði: „Eins skuluð þér vita, þegar þér sjáið þetta verða, að Guðs ríki er í nánd.“ — Lúkas 21:7-32.

Hin „nýja heimsskipan“ manna er ótrygg vegna þeirra galla sem liggja í eðli mannsins — metnaðargirni, valdagræðgi, ágirndar, spillingar og óréttlætis. Nýr heimur Guðs mun tryggja réttlæti. Um Guð er sagt: „Bjargið — fullkomin eru verk hans, því að allir vegir hans eru réttlæti. Trúfastur Guð og tállaus, réttlátur og réttvís er hann.“ — 5. Mósebók 32:4.

„Ný heimsskipan“ manna er berskjölduð fyrir því sem McGeorge Bundy, bandarískur sérfræðingur í utanríkismálum, kallaði „þröngsýna þjóðerniskennd sem lýðskrumarar geta höfðað til.“ Hann hélt áfram: „Við vitum af spjöldum sögunnar hvernig efnahagsleg og þjóðfélagsleg skakkaföll geta gefið slíkum öfgamönnum byr í seglin. Við vitum líka að þess háttar þjóðernishyggja er hættuleg, hvar sem hún kemur upp.“

Nýr heimur Guðs tryggir frið og einingu milli manna af öllum kynþáttum og þjóðum vegna þess að þeir verða menntaðir í kærleika og óhlutdrægni Jehóva. Jesaja spáði: „Allir synir þínir eru lærisveinar [Jehóva] og njóta mikils friðar.“ (Jesaja 54:13) Og kristni postulinn Pétur sagði: „Sannlega skil ég nú, að Guð fer ekki í manngreinarálit. Hann tekur opnum örmum hverjum þeim, sem óttast hann og ástundar réttlæti, hverrar þjóðar sem er.“ — Postulasagan 10:34, 35.

Enginn vafi leikur á að sá heimur, sem við þekkjum, á eftir að breytast mikið í náinni framtíð. En mestu breytingarnar, þær sem eru varanlegar og til góðs, eru þær sem Guð hefur heitið að koma til leiðar, og hann ‚lýgur ekki.‘ — Títusarbréfið 1:2.

[Neðanmáls]

a Heimsveldi falskra trúarbragða er í Biblíunni kallað „Babýlon hin mikla, móðir hórkvenna,“ blóði drifin drottning sem er svo lýst að ‚syndir hennar hafi hlaðist allt upp til himins.‘ (Opinberunarbókin 17:3-6, 16-18; 18:5-7) Ítarlegri skýringar á því hver Babýlon hin mikla er má finna í bókinni Mankind’s Search for God, bls. 368-71, gefin úr af Watchtower Bible and Tract Society of New York, Inc.

b Nánari skýringar á þessum atburðum, sem Biblían spáir, er að finna í bókinni Revelation — Its Grand Climax At Hand! 30.-42. kafla, gefin út árið 1988 af Watchtower Bible and Tract Society of New York, Inc.