Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Okkar óstöðugi heimur — Hvert stefnir?

Okkar óstöðugi heimur — Hvert stefnir?

Okkar óstöðugi heimur — Hvert stefnir?

SUMAR breytingar hafa mikil og langvinn áhrif á líf milljóna manna, jafnvel alla jarðarbúa og ókomnar kynslóðir. Ofbeldisglæpir, fíkniefnanotkun, útbreiðsla alnæmis, vatns- og loftmengun og eyðing skóga eru aðeins nokkur dæmi um breytingar sem hafa áhrif á okkur öll. Endir kalda stríðsins og útbreiðsla lýðræðis að hætti Vesturlanda ásamt markaðshagkerfi sínu breytir líka tilveru manna og hefur áhrif á framtíðina. Við skulum skoða nokkur þessara atriða.

Hvernig afbrot hafa breytt lífi okkar

Hvernig er byggðarlagið sem þú býrð í? Er þér óhætt að vera einn úti á gangi að næturlagi? Fyrir aðeins 30 eða 40 árum gátu margir skilið híbýli sín eftir ólæst er þeir fóru að heiman. En tímarnir eru breyttir. Núna eru sumir með tvo eða þrjá lása á útidyrunum og rimla fyrir gluggum.

Fólk er hrætt við að fara út í bestu fötunum sínum og ganga með skartgripi á götum úti. Í sumum borgum heims hafa menn verið drepnir fyrir leðurjakka eða minkafeld. Sumir hafa lent mitt á milli óaldarflokka í skotbardaga. Saklausir vegfarendur, þeirra á meðal mörg börn, eru særðir eða drepnir nánast daglega. Víða er ekki óhætt að skilja bifreið eftir úti á götu nema hún sé með flóknum útbúnaði í því skyni að fæla frá þjófa. Fólk hefur breyst í hinu spillta andrúmslofti heimsins. Heiðarleiki og ráðvendni eru nánast gleymdar dyggðir. Traustið er horfið.

Glæpir og ofbeldi eru í algleymingi um allan heim. Eftirfarandi blaðafyrirsagnir bera vitni um það: „Allt er til í Moskvu — lögregla í eltingaleik við ræningja, skipulögð glæpastarfsemi, vændi og fíkniefni,“ „Nýir tímar í Kóreu, glæpir fylgja í kjölfarið,“ „Glæpir á götum hluti daglegs lífs í Prag,“ „Japanir ráðast gegn skipulagðri glæpastarfsemi og glæpamennirnir berja frá sér,“ „Í greipum kolkrabbans — helsti baráttumaður Ítala gegn mafíunni drepinn í sprengjutilræði.“ Glæpir eru alls staðar.

Glæpirnir eru líka ofbeldisfyllri en áður var. Lífið er lítils metið. Sameinuðu þjóðirnar hafa opinberlega viðurkennt fátækrahverfi í útjaðri Rio de Janeiro í Brasilíu sem „mesta ofbeldisbæli í heimi. Yfir 2500 manns eru myrtir þar á hverju ári.“ (World Press Review) Fíkniefnabarónarnir í Kólombíu senda út unga sicarios eða leigumorðingja á vélhjólum til að gera upp reikninga við keppinauta og skuldunauta með sinni sérstöku útgáfu af skyndilegri dauðarefsingu. Og vei þeim manni sem verður vitni að afbroti — í Kólombíu eða annars staðar. Hann gæti orðið næsta fórnarlamb.

Önnur stór breyting er að afbrotamenn bera í vaxandi mæli sjálfvirk drápstól, og æ fleiri almennir borgarar grípa til þess ráðs að bera skammbyssur sér til varnar. Þessi aukni vopnaburður hefur óhjákvæmilega í för með sér að sífellt fleiri verða fyrir skoti, stundum lífshættulegu, hvort heldur er af slysni eða ásetningi. Núna er almennt viðurkennt að hver sá sem ber skotvopn eða á þau á heimili sínu getur orðið morðingi.

Afbrot og fíkniefni

Hver gat ímyndað sér fyrir 50 árum að fíkniefni ættu eftir að verða vandamál á heimsmælikvarða? Núna eru þau ein aðalorsök afbrota og ofbeldis. Í bókinni Terrorism, Drugs and Crime in Europe after 1992 (Hryðjuverk, fíkniefni og glæpir í Evrópu eftir 1992) sér Richard Clutterbuck fyrir sér að „aukin fíkniefnaverslun geti með tíð og tíma orðið einhver mesta ógnun við siðmenninguna. . . . Ágóðinn gefur ekki aðeins fíkniefnabarónunum gífurleg völd á vettvangi efnahagsmála og stjórnmála [Kólombía er skýrt dæmi um það], heldur fjármagnar einnig óhugnanlega stóran hluta afbrota um heim allan.“ Hann segir einnig: „Sala kókaíns frá kókaökrunum í Kólombíu til fíkniefnaneytendanna í Evrópu og Bandaríkjunum er einn öflugasti hvati hryðjuverka og ofbeldisglæpa í heiminum.“

Hin rísandi afbrotaalda og yfirfull fangelsi bera því vitni að milljónir manna hneigjast til glæpa og hafa lítinn áhuga á að breyta sér. Allt of margir hafa séð að glæpir borga sig. Af því leiðir að heimurinn hefur breyst — til hins verra. Hann er orðinn hættulegri en áður var.

Alnæmi — hvati breytinga?

Það sem í fyrstu virtist aðallega vera sjúkdómur kynvillinga er nú orðið að plágu sem leggst á fólk allra kynþátta og lífshátta. Alnæmi takmarkast ekki lengur við ákveðna hópa. Í sumum Afríkulöndum heggur sjúkdómurinn stór skörð í raðir gagnkynhneigðra. Það hefur haft í för með sér að lauslæti í kynferðismálum er ekki lengur í tísku meðal sumra, ekki af siðferðisástæðum heldur af ótta við sýkingu. „Hættulaust kynlíf“ er slagorð nútímans og mælt er með smokkum sem helsta varnartæki. Síst af öllu aðhyllast menn skírlífi sem vörn. En hver verða áhrif alnæmis á mannkynið í náinni framtíð?

Tímaritið Time sagði fyrir nokkru: „Árið 2000 gæti alnæmi verið orðið mesta farsótt aldarinnar, verri en spánska veikin árið 1918. Hún kostaði 20 milljónir manna lífið eða 1% jarðarbúa — yfir tvöfalt fleiri en tala fallinna hermanna í fyrri heimsstyrjöldinni.“ Sérfræðingur segir að „þessi farsótt [alnæmi] sé söguleg í sniðum.“

Enda þótt ausið hafi verið gríðarlegum fjárhæðum í alnæmisrannsóknir er engin lausn í sjónmáli. Fyrir nokkru komu 11.000 vísindamenn og aðrir sérfræðingar saman í Amsterdam í Hollandi til ráðstefnu um alnæmi, í því skyni að ræða vandann. „Menn voru daprir í bragði sem endurspeglaði vonbrigði, misheppnan og vaxandi harmleik síðastliðins áratugar. . . . Óvíst er að mannkynið sé nokkru nær því að sigrast á alnæmi nú en þegar baráttan hófst. Ekkert bóluefni er til, engin lækning, ekki einu sinni óumdeilanlega áhrifarík meðferð.“ (Time) Horfurnar eru ekki bjartar fyrir þá sem eru HIV-jákvæðir núna og líklegt er að veikist af alnæmi. Á þessum vettvangi hefur breytingin einnig verið til hins verra.

Breytingar í heimsstjórnmálum

Hið breytta andrúmsloft á vettvangi stjórnmálanna síðastliðin fjögur ár hefur komið mörgum leiðtogum í opna skjöldu og sennilega engum meir en leiðtogum Bandaríkjanna. Skyndilega eiga þau engan verðugan keppinaut á vettvangi stjórnmálanna. Þeim hefur verið líkt við kappsfullt, ósigrandi körfuknattleikslið sem uppgötvar skyndilega að enginn vill keppa við það lengur. Í grein í tímaritinu Foreign Policy árið 1990 dregur ritstjórinn, Charles William Maynes, þessar ógöngur þannig saman: „Utanríkisstefna Bandaríkjanna hefur ekki lengur það hlutverk að forða landinu frá stórhörmungum styrjaldar heldur að tryggja hinn óvænta frið sem brotist hefur út milli Bandaríkjanna og Sovétríkjanna [fyrrverandi].“

Útbreiðsla þekkingar á framleiðslu kjarnavopna er ný ógnun jafnhliða því að stríð háð með venjulegum vopnum halda áfram af fullum krafti — vopnasölum heimsins til mikillar ánægju. Samtímis og heimurinn hrópar á frið eru margir stjórnmálaleiðtogar að efla heri sína og vopnabúnað. Og Sameinuðu þjóðirnar, sem eru nánast gjaldþrota, hafa nóg að gera við að líma plástra á hin ólæknandi sár heimsins.

Bölvun þjóðernishyggjunnar breytist ekki

Þegar stjórnkerfi kommúnismans byrjaði að liðast í sundur tók George Bush, þáverandi Bandaríkjaforseti, að hampa hugtakinu „ný heimsskipan.“ En eins og margir stjórnmálaleiðtogar hafa uppgötvað er eitt að finna upp slagorð en annað að láta þau verða að veruleika. Í bók sinni, After the Fall — The Pursuit of Democracy in Central Europe (Leitin að lýðræði í Mið-Evrópu — eftir fall múrsins), segir Jeffrey Goldfarb: „Hin takmarkalausa von um ‚nýja heimsskipan‘ vék fljótt er það rann upp fyrir mönnum að elstu vandamál veraldar eru enn óleyst, og stundum svo um munar. Frelsisvíman . . . hefur oft horfið í skugga örvæntingar vegna pólitískrar spennu, þjóðernisátaka, bókstafstrúar og efnahagshruns.“ Borgarastyrjöldin í fyrrum Júgóslavíu er glöggt dæmi um þá sundrung sem stjórnmál, trúmál og þjóðernishyggja geta haft í för með sér.

Goldfarb heldur áfram: „Útlendingahatur og öryggisleysi er orðið hversdagslegur veruleiki í Mið-Evrópu. Lýðræði hefur ekki sjálfkrafa í för með sér framfarir á sviði efnahagsmála, stjórnmála og menningar, og markaðskerfi gefur ekki bara fyrirheit um auðlegð heldur skapar líka botnlaus vandamál fyrir þá sem kunna ekki á það.“

En það er ljóst að útlendingahatur og efnahagslegt öryggisleysi eru ekki bara vandamál Mið-Evrópu og lýðvelda fyrrum Sovétríkjanna heldur alls heimsins. Mannkynið geldur fyrir með þjáningum og dauða. Og lítil von er um að þessi rótgrónu viðhorf, sem eru kveikja haturs og ofbeldis, breytist í allra nánustu framtíð. Hvers vegna? Vegna þess að menntunin sem flestir fá — hvort heldur frá foreldrum eða þjóðernissinnuðu skólakerfi — innrætir mönnum hatur, umburðarleysi og hugmyndir um yfirburði byggða á þjóðerni, ætt, uppruna eða tungumáli.

Þjóðernishyggjan er ein hinna óbreytanlegu staðreynda sem heldur áfram að ala á hatri og blóðsúthellingum. Tímaritið Asiaweek sagði: „Ef stoltið yfir því að vera Serbi þýðir að maður hatar Króata, ef frelsi handa Armenum þýðir hefnd á hendur Tyrkjum, ef sjálfstæði handa Súlúmönnum hefur í för með sér kúgun fyrir Xhósamenn og lýðræði handa Rúmenum þýðir að Ungverjar séu gerðir landrækir, þá hefur þjóðernishyggjan sýnt sína ljótustu ásýnd.“

Við erum minnt á það sem Albert Einstein sagði einu sinni: „Þjóðernishyggjan er barnasjúkdómur. Hún er mislingar mannkynsins.“ Nálega allir fá sjúkdóminn einhvern tíma á ævinni og menn halda áfram að smitast af honum. Árið 1946 skrifaði breski sagnfræðingurinn Arnold Toynbee: „Ættjarðarást . . . hefur að mestu leyti komið í stað kristninnar sem trúarbrögð Vesturlanda.“

Er einhver von um að hátterni manna breytist við núverandi aðstæður? Sumir segja að breyting geti aðeins orðið með róttækri breytingu á menntun manna. Hagfræðingurinn John K. Galbraith segir: „Framfarir eru háðar fólki. Þess vegna . . . getur engin framför orðið nema fólk taki framförum, og framför er óhjákvæmileg þegar fólk fær frelsi og menntun. . . . Fyrst þarf að sigrast á ólæsi.“ Hvaða von er um að fræðslukerfi heimsins eigi eftir að kenna kærleika og umburðarlyndi í stað haturs og tortryggni? Hvenær mun rótgróinn fjandskapur milli ættflokka og þjóðabrota víkja fyrir trausti og skilningi, og hvenær eigum við öll eftir að viðurkenna að við mennirnir tilheyrum sömu fjölskyldunni?

Ljóst er að jákvæðrar breytingar er þörf. Sandra Postel segir í State of the World 1992 (Ástand heimsins 1992): „Það sem eftir lifir þessa áratugar verða að eiga sér stað enn djúptækari og umfangsmeiri breytingar ef við eigum að hafa raunhæfa von um betri heim.“ Og hvert stefnum við? Richard Clutterbuck segir: „Heimurinn heldur samt áfram að vera óstöðugur og hættulegur. Þjóðernishyggja og trúarhiti mun halda áfram að vera til. . . . Tíundi áratugurinn gæti orðið hættulegasti áratugur aldarinnar eða áratugur mestu framfara aldarinnar.“ — Terrorism, Drugs and Crime in Europe After 1992.

Breytingar á umhverfi okkar

Á allra síðustu áratugum hefur mannkynið vaknað til vitundar um að athafnir mannanna hafa hættuleg áhrif á umhverfið. Með gríðarlegri eyðingu skóga hafa óteljandi tegundir dýra og jurta dáið út. Og þar eð skógarnir eru hluti af lungum jarðar skerðir eyðing þeirra getu jarðar til að breyta koldíoxíði í lífsnauðsynlegt súrefni. Af öðrum áhrifum má nefna jarðvegseyðingu sem hefur í för með sér að eyðimerkurnar stækka.

Sumir hafa varað við hættunni sem við stöndum frammi fyrir. Einn þeirra er núverandi varaforseti Bandaríkjanna, Al Gore. Í bók sinni, Earth in the Balance — Ecology and the Human Spirit (Jörðin í hættu — vistfræði og mannsandinn), segir hann: „Ef eyðing skóga heldur áfram með sama hraða og nú verða nálega allir regnskógar hitabeltisins horfnir einhvern tíma á næstu öld. Ef við leyfum þessari eyðingu að eiga sér stað mun heimurinn glata mesta genasjóði jarðar. Hugsanlegt er að með honum glatist möguleikar okkar á að lækna marga þá sjúkdóma sem hrjá okkur. Hundruð mikilvægra lyfja, sem nú eru í notkun, eru unnin úr jurtum og dýrum hitabeltisskóganna.“

Gore álítur að áhrif mannsins á umhverfið ógni tilveru hans mjög. Hann segir: „Eftir því sem við þrengjum okkur út í fleiri afkima umhverfisins verður æ ljósara hve brotgjörn siðmenning okkar er. . . . Á einum mannsaldri er hætta á að við breytum semsetningu andrúmslofts jarðar meir en nokkurt eldgos á sögulegum tíma og áhrifanna getur gætt svo öldum skiptir.“

Að sögn Gore og fleiri er ekki bara andrúmsloftið í hættu heldur líka hinn lífsnauðsynlegi vatnsforði, einkum í þróunarlöndunum „þar sem áhrif vatnsmengunar finnast best og með átakanlegustum hætti í hárri dánartíðni af völdum kóleru, taugaveiki, blóðkreppusóttar og niðurgangs.“ Síðan getur Gore þess að „yfir 1,7 milljarðar manna búa ekki við nægilegt, hreint drykkjarvatn. Yfir 3 milljarðar manna hafa ekki viðunandi hreinlætisaðstöðu [salerni og frárennsli] og eiga þar með á hættu að menga drykkjarvatn sitt. Á Indlandi hleypa til dæmis 114 borgir óhreinsuðu skolpi beint út í Ganges.“ Og fljótið er lífæð milljóna manna!

Gautam S. Kaji, varaforseti Alþjóðabankans, varaði áheyrendur sína í Bangkok við því að „vatnsforði Austur-Asíu gæti orðið helsta átakamál næstu aldar. . . . Enda þótt alkunna sé hve jákvæð áhrif heilnæmt drykkjarvatn hefur á heilbrigði og framleiðni standa ríkisstjórnir Austur-Asíu frammi fyrir því að opinberar vatnsveitur skila ekki drykkjarhæfu vatni . . . Þetta er hinn gleymdi þáttur skynsamlegrar uppbyggingar og framfara með tilliti til umhverfismála.“ Um allan heim er einn af undirstöðuþáttum lífsins — hreint neysluvatn — vanræktur og honum sóað.

Allt eru þetta þættir í breytingunum í heiminum, heimi sem er að breytast í hættulega forarþró á mörgum sviðum, heimi sem ógnar framtíðartilveru mannkyns. Stóra spurningin er hvort stjórnvöld og stórfyrirtæki hafi vilja og áhuga á að gera það sem gera þarf til að koma í veg fyrir stórfellda eyðingu auðlinda jarðar.

Eru trúarbrögðin að breyta heiminum?

Það er á vettvangi trúmálanna sem við sjáum kannski einhver alvarlegustu mistök mannkynsins. Ef tréð er dæmt eftir ávexti sínum verða trúarbrögðin að svara fyrir þann ávöxt sem birtist í hatri, umburðarleysi og styrjöldum innan sinna eigin vébanda. Hjá flestum virðist líkt komið fyrir trúnni og fegurðinni — hún er aðeins á yfirborðinu. Trúin er ytri hjúpur sem er fljótur að láta undan þrýstingi kynþáttastefnu, þjóðernishyggju og fjárhagslegs öryggisleysis.

Úr því að ein aðalkenning kristninnar er: ‚Elskaðu náunga þinn og elskaðu óvin þinn,‘ er eðlilegt að spyrja hvað hafi komið fyrir rómversk-kaþólska og grísk-kaþólska þar sem áður hét Júgóslavía. Ætli prestarnir þar veiti mönnum syndaaflausn fyrir öll manndrápin og hatrið? Hefur aldalöng fræðsla í „kristinni“ kenningu ekki skapað annað en hatur og morð á Norður-Írlandi? Og hvað um þau trúarbrögð sem ekki teljast kristin? Hefur ávöxtur þeirra verið eitthvað betri? Getur hindúatrú, síkhatrú, búddhatrú, íslam og sjintótrú bent á friðsælan ávöxt gagnkvæms umburðarlyndis?

Í stað þess að hafa jákvæð áhrif og siðbæta mannkynið hafa trúarbrögðin stundað ofstæki sitt með því að blása í glæður taumlausrar ættjarðarástar og blessa herina í tveim heimsstyrjöldum og fjölmörgum öðrum átökum. Þau hafa ekki verið afl jákvæðra breytinga.

Hvers má þá vænta af trúarbrögðunum í nánustu framtíð? Hvað megum við vænta að framtíðin beri í skauti sér fyrir núverandi heimskerfi — hvaða breytingar eiga eftir að verða? Þriðja greinin í þessari greinaröð fjallar um þessar spurningar frá sérstæðu sjónarhorni.

[Mynd á blaðsíðu 7]

Aukning ofbeldisglæpa er eitt merki breytinganna.

[Myndir á blaðsíðu 8]

Þjóðernishyggja og trúarhatur heldur áfram að valda miklum blóðsúthellingum.

[Rétthafar]

Jana Schneider/Sipa

Malcom Linton/Sipa

[Myndir á blaðsíðu 9]

Umhverfiseyðing af mannavöldum ógnar viðkvæmu jafnvægi lífhvolfsins.

[Rétthafar]

Laif/Sipa

Sipa

[Myndir á blaðsíðu 10]

Sendiherra páfa, Basallo di Torregrossa, heilsar Hitler árið 1933. Trúarbrögðin hafa oft í sögu mannkyns blandast stjórnmálum og þjóðernishyggju.

[Rétthafar]

Bundesarchiv Koblenz