Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Stállunga gat ekki einu sinni komið í veg fyrir að hún prédikaði

Stállunga gat ekki einu sinni komið í veg fyrir að hún prédikaði

Stállunga gat ekki einu sinni komið í veg fyrir að hún prédikaði

Stundum þarf hugrekki bara til að halda áfram að lifa. Þetta er saga konu sem hafði slíkt hugrekki. Hún hét Laurel Nisbet.

LAUREL fæddist árið 1912 í Los Angeles. Hún óx upp sem þróttmikil ung kona er unni lífinu og fjölskyldu sinni. Hún átti eiginmann og tvö börn til að annast og fór við eðlilegar aðstæður létt með það, en árið 1948 varð ást hennar á lífinu fyrir prófraun sem er nánast ógerlegt að gera sér í hugarlund. Hún fékk hina lífshættulegu lömunarveiki eða mænusótt.

Í nokkra daga hafði Laurel einkenni sem líktust inflúensu, en svo hætti hún að geta hreyft sig. Maðurinn hennar fór með hana á spítala. Hún var ein af mörgum sem fengið höfðu mænusótt. Spítalinn var troðfullur og óttinn gagntók hana þar sem hún lá á gólfinu í ganginum og beið eftir að komast í stállunga. Hver andardráttur kostaði gríðarlega áreynslu. Það var henni mikill léttir þegar stállunga varð loks fáanlegt og henni var komið fyrir í því. Núna gat hún aftur náð andanum sem var nánast orðið henni ofraun.

Stállungað eða öndunartækið var fundið upp til að hjálpa fólki sem gat ekki andað vegna lömunar í brjóstvöðvum af völdum mænusóttar. Upphaflega var tækið hugsað sem bráðabirgðalausn uns vöðvar sjúklingsins fengju styrk á ný og hann gæti andað af sjálfsdáðum. En Laurel til undrunar og heiminum til skelfingar urðu stállungun framtíðarheimili margra fórnarlambanna. Laurel lifði í 37 ár liggjandi á bakinu í stállunga. Hún setti heimsmet með því að lifa lengst allra mænuveikisjúklinga í stállunga.

Var þetta það eina sem hún var kunn fyrir? Alls ekki. Laurel var ung kona, liðlega 35 ára, þegar hún var sett í öndunartækið. Hún átti tvö börn til að ala upp og mann til að annast. Í fyrstu fylltist hún örvæntingu, en eftir að hafa sökkt sér niður í sjálfsmeðaumkun í um það bil einn dag ákvað hún að gera sem best úr aðstæðunum. Maðurinn hennar flutti hana heim og hún byrjaði að byggja upp líf sitt á ný. Hún lærði að stjórna heimili sínu úr stállunganu.

Reyndu að sjá fyrir þér hvernig aðstaða hennar var. Einungis höfuðið stóð út úr öndunartækinu. Plastkragi og járnstöng, sem hélt kraganum þétt upp að viðbeininu, héldu öndunartækinu loftþéttu. Blástursbelgur undir sívalningnum, sem hún lá í, breytti taktfast loftþrýstingnum inni í honum. Um 15 sinnum á mínútu dró belgurinn, sem verkaði eins og dæla, loft úr sívalningnum. Við það lyftist brjóst sjúklingsins þannig að loft sogaðist inn um munn eða nef. Þegar belgurinn dróst saman og blés lofti aftur inn í sívalninginn jókst þrýstingurinn á brjóstið og sjúklingurinn andaði frá sér. Kraginn þurfti því að vera loftþéttur því það er breytilegur loftþrýstingur sem stállungað byggist á. Laurel gat hreyft höfuðið en það var allt og sumt. Hún var algerlega lömuð fyrir neðan háls. Hún fylgdist með heiminum í spegli sem festur var ofan á öndunartækið en í honum horfði hún í annan spegil á gagnstæðum vegg hinum megin í herberginu. Þannig gat hún fylgst með útidyrunum og hverjum þeim sem nálgaðist þær.

Vottar Jehóva koma til sögunnar

Dag einn kom gestur, Del Kuring, sem var vottur Jehóva. Hún gekk rakleiðis inn í stofu hjá Laurel og fór að kenna henni hin stórkostlegu sannindi Biblíunnar. Laurel bar virðingu fyrir orði Guðs og hlýddi á með opnum huga og hjarta. Biblíunám var hafið með henni sem varð til þess að hún vígði sig Guði árið 1965 sem vottur Jehóva. Núna hafði hún enn meira til að lifa fyrir. Einn góðan veðurdag myndi hún geta gengið á ný á jörðinni og notið þeirrar paradísar sem Guð ætlaði mannkyninu að búa í! Það veitti henni mikla gleði þegar Kay, dóttir hennar, tók líka við hinni nýju trú.

‚En hvað um skírn?‘ spyrð þú kannski. Laurel gat ekki látið skírast. Þar eð hún gat ekki andað fyrir eigin afli var hún ófær um að láta skírast niðurdýfingarskírn. Hún kom aldrei í ríkissal. Hún sótti aldrei mót. Hún sá dóttur sína ekki skírast. Samt áorkaði hún meiru í þjónustu sinni við Jehóva en margir kristnir menn sem eru heilir heilsu.

Laurel prédikaði nefnilega fagnaðarerindið. Þau 37 ár, sem hún lá innilokuð, tókst henni að hjálpa 17 manns að komast til nákvæmrar þekkingar á Biblíunni. Hvernig fór hún að því? Hún gat auðvitað ekki farið hús úr húsi eins og flestir vottar geta gert. Hins vegar gat hún prédikað fyrir þeim mörgu sem hjúkruðu henni. Ég var ein þeirra.

Ég var hjúkrunarnemi árið 1972 og fór þá að starfa við hjúkrun hennar. Við Laurel höfðum tíma til að spjalla saman og kynnast þegar vaktinni hjá mér var að ljúka. Dag einn sagði hún: „Mér þætti vænt um ef þú vildir lesa fyrir mig núna.“ Ég féllst á það og hún bað mig að sækja litla, bláa bók sem hét Sannleikurinn sem leiðir til eilífs lífs. Ég spurði hana hvar ég ætti að byrja lesturinn og hún svaraði ósköp einfaldlega: „Byrjaðu á fyrsta kaflanum.“ Þannig hófst biblíunám og ég varð líka vottur Jehóva.

Öndunartæki Laurel sást vel gegnum stóra útsýnisgluggann framan á húsinu hennar. Hún bjó við fjölfarna götu í La Crescenta þannig að allir sem áttu leið þar um gátu séð öndunartækið. Það vakti mikla samúð og forvitni þeirra sem fram hjá fóru og ókunnugt fólk kom oft inn til að heilsa upp á hana. Hún hafði alltaf gaman af því að hitta fólk og eignaðist marga vini með þessum hætti, og hún bar vitni fyrir þessu fólki. Djarfmannlegur vitnisburður hennar um Jehóva og framtíðarvon hennar snart fólk og bar nafni Jehóva gott vitni.

Laurel svaf mjög lítið. Það var erfitt fyrir hana að þreytast eins og við hin gerum því hún gat ekki hreyft sig. Hljóðið í blástursbelgnum og stöðug hreyfing hans hélt vöku fyrir henni. Hvað gerði hún allan þennan tíma? Hún talaði við himneskan föður sinn og opinberaði leyndustu hugsanir sínar í innilegum bænum. Ég er viss um að hún bað um styrk til að halda út, en oftar en ekki bað hún þó fyrir kristnum bræðrum sínum og systrum. Hún var mjög umhyggjusöm og þakkaði Jehóva daglega fyrir þá blessun sem hún naut.

Þegar farandumsjónarmenn votta Jehóva komu á svæðið heimsóttu þeir alltaf Laurel. Margir þeirra sögðu, eftir að hafa verið hjá henni, að það hafi verið þeir sem uppbyggðust! Þannig var hún. Hún var alltaf jákvæð og glöð í lund og notaði hvert tækifæri til að bera sannleikanum vitni.

Hún gekk gegnum alls konar erfiðleika, fleiri en frá verði greint. Einu sinni þurfti hún að gangast undir botnlangaskurð með miklum hraði og sjúkrabíllinn kom frá spítalanum til að sækja hana. Þar eð botnlanginn var sprunginn var hún flutt í flýti út í sjúkrabílinn og ekið á spítalann þar sem læknir varð að skera hana upp án þess að svæfa hana. Á sjötta áratugnum kunnu menn nefnilega ekki að svæfa sjúkling í stállunga.

Margar skurðaðgerðir án blóðgjafa

Laurel fékk krabbamein, langvinna húðsjúkdóma og þurfti að gangast undir stórar skurðaðgerðir. Það var mjög gremjulegt fyrir hana að klæja en geta ekki klórað sér sjálf og þurfa að láta hjúkrunarkonuna gera það fyrir sig. Enda þótt vöðvarnir væru lamaðir hafði hún fulla tilfinningu um allan líkamann. Það kom sér vel fyrir hana því að þannig gat hún forðast legusár. Hún lét sér mjög annt um húðina. Við þurftum að vera fjórar til að snúa henni þegar hún fékk sitt vikulega bað. Það var töluverð raun fyrir Laurel en hún þoldi hana eins og allt annað sem hún mátti ganga gegnum á ævinni.

Það var ánægjulegt og skemmtilegt að vera með Laurel, þótt verkefnið væri erfitt. Þegar við snerum kraganum um háls hennar til að hann gæti enst viku í viðbót og gerðum hann eins loftþéttan og við gátum gnísti hún tönnum og sagði: „Uppfinning djöfulsins.“ Já, Laurel vissi hverjum hún átti að kenna um þetta skelfilega ástand. Það var Satan, hann sem kom fyrstu mönnunum til að snúa baki við Jehóva og leiddi þannig synd, sjúkdóma og dauða yfir mannkynið.

Laurel var að vísu líkamlega lömuð en hún var svo sannarlega ekki andlega lömuð. Hún notaði hvert tækifæri til að segja fólki frá paradísarvon sinni. Jafnvel þegar lífi hennar var nánast lokið og bráðaskurðaðgerð stóð fyrir dyrum gat hún tekið afstöðu með réttlætinu. Það var árið 1985 og Laurel var 72 ára. Þegar kom að aðgerðinni kom læknirinn hennar til að segja henni að það væri ekki hægt að gera aðgerðina án blóðs. Kay, dóttir hennar, útskýrði þá afstöðu móður sinnar að halda sér frá blóði því að Laurel var svo veikburða að hún gat varla talað. Hún var með slöngur niður um hálsinn og gat rétt hvíslað. Allur líkaminn var eitraður af völdum þarmastíflu og hún leit út fyrir að vera næstum dáin.

Læknirinn sagði að hann yrði að heyra þessa afstöðu til blóðsins frá Laurel sjálfri. Við hvísluðum í eyra hennar: „Laurel, þú verður sjálf að segja lækninum frá blóðinu.“ Skyndilega, mér til undrunar, galopnaði hún augun og sagði lækninum hárri og skýrri röddu frá afstöðu sinni til blóðsins. Hún vitnaði í ritningarstaði og útskýrði hvers vegna vottar Jehóva álíta það synd gegn Guði að þiggja blóð í æð. Ég gleymi aldrei því sem hún sagði síðan: „Læknir, ef þú bjargar lífi mínu og ég vakna og uppgötva að þú hefur svívirt líkama minn með því að gefa mér blóð, þá mun ég óska þess að ég væri dauð og þú hefur erfiðað til ónýtis.“ Eftir það var læknirinn ekki aðeins sannfærður um afstöðu hennar heldur einnig undrandi á styrk hennar og féllst á að virða óskir hennar.

Laurel gekkst undir fjögurra klukkustunda langan uppskurð sem heppnaðist vel. Eftir aðgerðina tóku læknar hana úr stállunganu í fyrsta sinn í 37 ár og lögðu hana í sjúkrarúm. Þeir tengdu hana við nútímaöndunarvél með barkaskurði (gert er op inn í barka um húð framan á hálsi). Þetta hafði hún óttast mest. Nú gat hún ekki lengur talað þar eð nýja öndunarvélin var tengd öndunarpípu í hálsinum. Mikil skelfing greip hana þar eð henni fannst hún ekki fá nægilegt loft. Hún dó þrem dögum síðar, þann 17. ágúst 1985, af völdum kvilla sem tengdust aðgerðinni.

Ég man vel síðustu orð hennar við mig sem eru sennilega síðustu orðin sem hún sagði: „Chris, yfirgefðu mig aldrei.“ Núna bíð ég þess að þetta gamla heimskerfi líði undir lok og upprisan eigi sér stað. Mig dreymir þann dag þegar ég get faðmað vinkonu mína, Laurel Nisbet, og sagt: „Ég er hérna. Ég yfirgaf þig aldrei.“ — Frásögn Christine Tabery.