Íkveikja á tilbeiðslustað
Íkveikja á tilbeiðslustað
SÍÐDEGIS sunnudaginn 4. október 1992 ruddist óður maður inn í lítinn ríkissal á annarri hæð í húsi í Wŏnju í Kóreska lýðveldinu. Yfir 90 guðsdýrkendur voru í salnum sem var troðfullur. Maðurinn hrópaði nokkrum sinnum: „Farið út með konuna mína!“ Þegar konan heyrði í honum yfirgaf hún salinn í skyndi um neyðarútgang aftanvert í salnum.
Maðurinn hellti úr bensínbrúsa á gólfteppið fyrir framan aðalútganginn. Síðan kveikti hann í teppinu þrátt fyrir að viðstaddir sárbændu hann um að gera það ekki. Bensínið hreinlega sprakk og þeytti logum og svörtum reyk upp í loftið, í átt að ræðupallinum og aftur eftir öllum salnum. Á nokkrum sekúndum varð salurinn alelda og eldhafið umlukti stóran hluta viðstaddra. Eldtungur og reyk lagði út um alla glugga.
Margir sluppu út um neyðarútganginn aftanvert í salnum eða út um glugga út á mjóa syllu. Þaðan komust þeir út á þak áfastrar byggingar og síðan niður á götu. Aðrir hreinlega stukku út af annarri hæð. Brennuvargurinn forðaði sér og sparkaði fullur fyrirlitningar í slasaða sem höfðu stokkið niður.
Farandumsjónarmaðurinn, sem var að flytja opinbera sérræðu, hrópaði: „Flýtið ykkur, bjargið börnunum.“ Þeir sem komust lífs af telja að hann og konan hans hefðu getað bjargast ef þau hefðu ekki reynt að hjálpa öðrum. Þau voru meðal þeirra 15 sem dóu. Að auki slösuðust 26. Annar maður, sem lést síðar á spítala, hætti lífi sínu við að hjálpa öldruðum að forða sér.
Þeir sem létust voru fremst í salnum. Farandumsjónarmaðurinn og konan hans köfnuðu í þykkum reyknum. Hinir látnu voru úr níu fjölskyldum, þar af þrjú börn, þriggja, fjögurra og fjórtán ára. Það þykir ganga kraftaverki næst að ekki skyldu fleiri látast eða slasast í ljósi þess að salurinn var troðfullur og eldurinn útilokaði að komast mætti út um aðaldyrnar.
Sjö slökkvibílar og 30 slökkviliðsmenn komu á vettvang eftir skamma stund en eldurinn hafði blossað svo skyndilega upp að hann var þegar búinn að valda manntjóni. Slökkvistarfið tók innan við klukkustund. Eldurinn hafði hins vegar verið svo magnaður að erfitt reyndist að bera kennsl á hina látnu og tók það yfir tvær klukkustundir.
Lögreglan í Wŏnju handtók síðar manninn sem kveikti eldinn og ákærði hann fyrir morð og íkveikju. Meðan hann var í haldi lögreglunnar gerði hann misheppnaða tilraun til að svipta sig lífi.
Þoldi hrottalega meðferð
Þegar eiginkona brennuvargsins fékk áhuga á kenningum Biblíunnar gerði hann sér að venju að ógna henni. Um miðjan september, um hálfum mánuði áður en farandumsjónarmaðurinn heimsótti söfnuð votta Jehóva í Wŏnju, barði brennuvargurinn eiginkonu sína uns hún missti meðvitund. Síðan, eftir að hún fékk aftur meðvitund, hellti hann lakkþynni yfir hana og kveikti í. En jafnskjótt og eldurinn kviknaði gerði hann sér ljóst hvað hann hefði gert og slökkti eldinn í flýti.
Þennan örlagaríka sunnudag hafði maðurinn heimtað að konan hans færi ekki í ríkissalinn. Hún neitaði að láta að vilja hans þótt hann reiddist heiftarlega. Í Postulasagan 5:29; Hebreabréfið 10:24, 25) Hún sótti því samkomuna.
þessu máli sem varðaði tilbeiðslu hennar fannst henni hún verða að hlýða Guði framar nokkrum manni, einnig eiginmanni sínum. (Eftir íkveikjuna reyndi lögfræðingur eiginmannsins að þvinga konuna til að skrifa undir yfirlýsingu þess efnis að maðurinn hefði fundið sig knúinn til að vinna þetta ódæðisverk af því að hún hafi ekki viljað segja skilið við ofstækisfulla trú sína og vegna þess að hún hefði verið honum slæm eiginkona. Hún neitaði að skrifa undir. Hún neitaði að hvika frá sannleikanum með því að gefa í skyn að þessi harmleikur stafaði á einhvern hátt af því að hún væri að nema Biblíuna.
Á móti votta Jehóva helgina eftir harmleikinn gerði konan alvöru úr ákvörðun sinni um að láta skírast til tákns um vígslu sína við Jehóva Guð, drottinvald alheimsins. — Sálmur 83:19.
Hjálp berst víða að
Jafnskjótt og fréttir bárust af harmleiknum til deildarskrifstofu votta Jehóva í Ansung, um 100 kílómetrum frá Wŏnju, voru hinum slösuðu og fjölskyldum þeirra, svo og þeim sem misst höfðu ástvini, send hjálpargögn. Bæði voru sendir peningar og eins voru kristnir öldungar sendir frá deildarskrifstofunni til að kanna hvaða hjálpar kynni að vera þörf.
Söfnuðurinn var látinn flytjast í annan ríkissal í Wŏnju og aðrar ráðstafanir gerðar til aðstoðar þeim sem voru hjálparþurfi. Hjálp tók fljótlega að berast frá trúbræðrum alls staðar í Kóreska lýðveldinu. Margir komu frá öðrum borgum og buðu fram hjálp sína skömmu eftir harmleikinn. Framlag að jafnvirði um 75.000 króna frá 75 manna söfnuði var dæmigert fyrir hjálpina sem barst, og annar söfnuður, 87 manna, sendi jafnvirði 140.000 króna.
Kristnu öldungarnir í söfnuðinum, þar sem harmleikurinn átti sér stað, gerðu allt sem þeir gátu til að hjálpa öðrum, en þeir voru í hópi þeirra sem urðu fyrir mestu tjóni. Tvö börn umsjónarmannsins í forsæti voru meðal látinna. Annar kristinn öldungur missti son sinn og þriðji öldungurinn brenndist mjög illa í andliti. Þrátt fyrir missi þessara kristnu manna héldu þeir og söfnuðurinn í heild ró sinni og staðfestu í trúnni.
Fáeinum dögum eftir harmleikinn sá fulltrúi deildarskrifstofunnar um fjöldaútför. Margir vottar af öllu landinu voru viðstaddir og sýndu þar með kærleika sinn og umhyggju fyrir vinum sínum. Samúðarkveðjur bárust meira að segja frá mörgum deildarskrifstofum votta Jehóva víða um heim.
Yfirmaður rannsóknardeildar lögreglunnar á staðnum var viðstaddur útförina og var snortinn af framferði vottanna. Hann minntist á hve hljóðir og rólegir þeir væru og hve vingjarnlega þeir kæmu fram við þá sem urðu fyrir missi í eldinum. Forstöðumaður Félags- og iðnmálastofnunarinnar var einnig viðstaddur útförina. Síðar, þegar honum var sagt frá þeim kærleiksríku framlögum sem borist hefðu alls staðar að af landinu, sagði hann að þetta hefði ekki verið hægt án trúar. Aðstoðarborgarstjóri Wŏnju sýndi einnig ósvikinn áhuga. Hann sagðist persónulega vera snortinn af stillingu, gagnkvæmum kærleika og góðri skipulagshæfni vottanna.
Þessi harmleikur er einfaldlega enn eitt merki þess að við lifum á ‚síðustu dögum með sínum örðugu tíðum.‘ (2. Tímóteusarbréf 3:1) Það er við því að búast að hörmulegir atburðir eins og þessi eigi sér stað. En vottar Jehóva í Wŏnju hafa ekki misst kjarkinn. Þeir eru staðráðnir í að halda áfram að tilbiðja hinn eina sanna Guð, Jehóva, og gera vilja hans. — Frá fréttaritara Vaknið! í Kóreska lýðveldinu.
[Myndir á blaðsíðu 26]
Til hægri: Ríkissalurinn og (fyrir neðan) brunninn ræðupallurinn þar sem margir dóu.
Neðst: Suh, Sun-ok, sem missti tvö börn í eldinum, fær hughreystingu hjá trúbróður og Shim, Hyo-shin, kristinn öldungur sem átti tvö börn er slösuðust.