Hvernig get ég hætt að drekka?
Ungt fólk spyr . . .
Hvernig get ég hætt að drekka?
„Mér leið alltaf hræðilega daginn eftir, bæði tilfinningalega og andlega!“ — Bob.
„Ég átti í sífelldum útistöðum heima, í skólanum, við vini og lögregluna.“ — Jerome.
BOB og Jerome þurftu báðir að gjalda þess að drekka of mikið og of oft. Báðir urðu háðir áfengi. Bob tókst að lokum að hætta drykkju alveg en Jerome er enn að reyna að sigrast á ofdrykkju eða alkóhólisma.
Alkóhólismi er vaxandi vandamál meðal ungs fólks víða um heim. Sumir telja að um fimm milljónir unglinga í Bandaríkjunum eigi við alvarlegt áfengisvandamál að stríða. Ef þú ert kristinn unglingur hefur þú þó vafalaust látið vera að fikta með áfengi, einkum þar sem áfengisneysla unglinga brýtur í bága við lög. Engu að síður geta eftirfarandi upplýsingar styrkt þann ásetning þinn að byrja alls ekki að drekka — að minnsta kosti ekki fyrr en þú ert orðinn eldri og færari um að þola og fara rétt með áfengi. Ef þú ert hins vegar orðinn háður áfengi vonum við að þetta efni hjálpi þér í baráttunni við það vandamál. Með því að leggja þig fram af fullri alvöru og þiggja hjálp Jehóva Guðs getur þú náð þér upp úr ofdrykkju.
Sigrast á neituninni
Fyrsta og erfiðasta skrefið, sem þú þarft að stíga, er að sigrast á neituninni. Alkóhólistar neita yfirleitt að trúa að þeir eigi við nokkurt áfengisvandamál að stríða. ‚Ég ræð við þetta,‘ segir alkóhólistinn með áhersluþunga. Tökum sem dæmi 15 ára unglinginn sem sagði: „Ég á ekki við neitt áfengisvandamál að stríða. Ég drekk bara eina bjórkippu á kvöldi.“ Þetta minnir okkur á lýsingu Biblíunnar á manninum sem „smjaðrar fyrir sjálfum sér í sinni eigin augsýn, svo hann finni ekki sinn misgjörníng, er hann ætti að hata.“ — Sálmur 36:3, Bi. 1859.
Já, neitun er lífshættuleg. Ef þú átt við áfengisvandamál að stríða skaltu þess vegna viðurkenna þennan sársaukafulla sannleika fyrir sjálfum þér. a Láttu ekki eins og þú heyrir ekki í vinum þínum, systkinum eða foreldrum sem segja þér að þú drekkir of mikið. Þau eru ekki óvinir þínir af því að þau segja þér sannleikann. (Samanber Galatabréfið 4:16.) Bob (sem nefndur var í upphafi greinarinnar) var vanur að drekka ótæpilega um hverja helgi. Þegar vinur ræddi við hann um það harðneitaði Bob að hann ætti við áfengisvandamál að stríða og sleit samtalinu. En hvaða áhrif hafði áfengið á líf Bobs? „Ég var ein taugahrúga ef ég drakk ekki og hafði enga stjórn á mér þegar ég gerði það,“ viðurkennir hann. „Fjölskyldulíf mitt var í rúst — og einnig samband mitt við Guð.“
Við annað tækifæri hætti Bob að spyrna við fótum og viðurkenndi fyrir vini sínum að hann væri í raun sólginn í áfengi. Eftir að Bob hafði brotið skarð í neitunarmúrinn gat hann snúið sér að því að komast aftur á réttan kjöl.
Byggðu upp þann ásetning að hætta
Prófessor George Vaillant segir að það sé „auðvelt að meðhöndla alkóhólisma en . . . það krefjist mikillar ábyrgðarkenndar hjá sjúklingnum.“ Það felur meðal annars í sér að vera staðráðinn í að hætta áfengisneyslu. Ef slíkan ásetning vantar getur það þýtt að lifa — og deyja — sem alkóhólisti. Hvað getur hjálpað? Ef þú einbeitir þér að skaðsemi ofdrykkjunnar getur það hjálpað þér að „hata hið illa“ og styrkt þann ásetning þinn að hætta drykkju í eitt skipti fyrir öll. — Sálmur 97:10.
Þú gætir til dæmis hugsað rækilega um það mikla tjón sem hlýst af ofdrykkju, líkamlega, tilfinningalega og siðferðilega. Eitt glas getur að vísu virst lina hinn innri sársauka eða eyða vanmáttarkenndinni um stund. Til langs tíma litið skapar það hins vegar bara fleiri vandamál að reiða sig á áfengið; vináttubönd bresta og spenna myndast í fjölskyldulífinu. Auk þess getur áfengi ‚tekið vitið (eða góða áhugahvöt) burt‘ af því að það dregur úr hömlun tilfinninga og hneigða, og þar með getur það leitt þig út í alvarlega ranga breytni. — Hósea 4:11.
Hugleiddu líka hvað stórir skammtar áfengis geta gert líkama þínum og hvernig þeir geta smám saman eitrað hin innri líffæri. Biblían segir að ofdrykkja veiti fólki lítið annað en ‚eymd, eftirsjá, deilur, áhyggjur og skrámur.‘ (Orðskviðirnir 23:29, 30, New English Bible) Er nokkur stundleg vellíðan þess virði að kalla slíkt yfir sig?
Það getur einnig verið gott að minna sjálfan sig á að maður þurfi ekki áfengi til að vera hamingjusamur. Maður þarf ekki heldur að neyta vímuefna til að hafa sjálfsvirðingu, vera heilbrigður, eiga trygga vini og ástríka fjölskyldu. Velgengni á þessum sviðum lífsins fæst með því að fara eftir orði Guðs. (Sálmur 1:1-3) Orð Guðs gefur líka von um bjartari framtíð — eilíft líf án tilfinningalegs eða líkamlegs sársauka! (Opinberunarbókin 21:3, 4) Ef þú hefur slíka von hefur þú enn eina ástæðu til að halda þér frá áfengi. — Samanber 1. Korintubréf 6:9, 10.
Leitaðu hjálpar
Yfirleitt nægir löngunin til að ná sér upp úr drykkju ekki ein sér. Þú þarft líka Prédikarinn 4:9, 10) Það er ekki auðvelt að treysta að einhver annar hjálpi þér að yfirstíga vandamál þitt, en Katy, sem er alkóhólisti á batavegi, ráðleggur: „Lærðu að treysta fólki, einkum fjölskyldu þinni.“ Já, í flestum tilvikum er fjölskylda þín í bestu aðstöðunni til að veita þér þá ást og þann stuðning sem þú þarfnast.
á stuðningi og hjálp annarra að halda. „Betri eru tveir en einn,“ sagði Salómon konungur, „því að falli annar þeirra, þá getur hinn reist félaga sinn á fætur.“ (Að vísu má vera að fjölskylduaðstæður þínar hafi stuðlað að drykkjunni hjá þér í upphafi, en ef foreldrar þínir fengju að vita hvernig komið er fyrir þér, heldurðu þá ekki að þeir gætu áttað sig á að þeir þurfi að bæta ástandið á heimilinu? Reyndu því að tala við foreldra þína og segja þeim að þú eigir við alvarlegt vandamál að stríða. Í stað þess að skella allri skuldinni á þá skaltu biðja þá um hjálp og stuðning. Ef þú ert opinn og heiðarlegur við foreldra þína stuðlar það að því að fjölskyldan verði ‚samantengd‘ alveg eins og fjölskylda Guðs. (Efesusbréfið 4:16) Þannig getið þið öll byrjað að vinna saman að því að þú yfirstígir vandamálið.
Ef stuðningi fjölskyldunnar er ekki til að dreifa geta aðrir hjálpað. b (Orðskviðirnir 17:17) Kristinn öldungur vingaðist við Bob og hitti hann vikulega um nokkurra mánaða skeið til að fylgjast með framförum hans. Bob segir: „Áhugi hans og umhyggja veitti mér þá sjálfsvirðingu sem mig vantaði til að hætta skaðlegum ávana mínum.“ — Jakobsbréfið 5:13, 14.
Öðru fremur skaltu gera þér ljóst að þú þarfnast hjálpar Jehóva Guðs. Reiddu þig á hann og leitaðu styrks hjá honum. Já, með Guðs hjálp geta þeir sem hafa „sundurkramið hjarta“ fundið Jehóva ‚binda um benjar sínar.‘ — Sálmur 147:3; sjá einnig Sálm 145:14.
Eignastu nýja vini
Í könnun sem gerð var á Nýja-Sjálandi kom í ljós að ungir ofdrykkjumenn verða fyrir miklum áhrifum af vinum sínum. Þess vegna er erfitt að hætta drykkju án þess að hætta félagsskap við drykkjumenn. Af þeim sökum hvetur Biblían: „Ver þú ekki með drykkjurútum.“ (Orðskviðirnir 23:20) Byggðu í staðinn upp ný, heilnæm vináttubönd. Á sama hátt og „vondur félagsskapur spillir góðum siðum“ hefur góður félagsskapur jákvæð áhrif. — 1. Korintubréf 15:33.
Kim komst að raun um það. „Það var óþægilegt,“ viðurkennir hún, „en ég varð að skipta um vinahóp . . . Mig langaði ekki til að vera í návígi við áfengi eða fíkniefni.“ Það skal viðurkennt að það getur virst erfitt að finna vini sem ekki drekka, en þú munt þó finna ungt fólk meðal votta Jehóva sem er til fyrirmyndar og drekkur ekki. Það þarf ekki heldur áfengi til að skemmta sér eða flýja veruleikann. Það getur þess vegna hjálpað þér — ekki hindrað — í þeirri viðleitni þinni að ‚afklæðast hinum gamla manni með gjörðum hans.‘ — Kólossubréfið 3:9.
Þú getur hætt drykkjuskap!
Það verður stöðug barátta fyrir þig að lifa án áfengis og stundum getur bindindi verið mjög erfitt. „Ég hef enn mjög sterka löngun [til að drekka],“ viðurkennir Ana, „sérstaklega þegar ég er í uppnámi, vonsvikin, niðurdregin eða særð.“ Það er því ekki óalgengt að alkóhólisti á batavegi falli og verði síðan yfirbugaður af sektarkennd. Ef það gerist skaltu muna að „allir hrösum vér margvíslega.“ (Jakobsbréfið 3:2) Mundu líka að Jehóva er miskunnsamur Guð sem skilur veikleika þína. — Sálmur 103:14.
Engu að síður skaltu gæta þess að misnota þér ekki góðvild Guðs. Lærðu af mistökum þínum og vertu staðráðnari en nokkru sinni fyrr að falla ekki aftur. Slík einbeitni hjálpaði Bob að hætta drykkjuskap. Síðan þá hefur hann átt friðsamlegt samband við fjölskyldu sína og við Guð. Núna þjónar hann sem boðberi trúarinnar í fullu starfi. Þú getur líka hlotið hamingju og hugarfrið ef þú sigrar í baráttunni við áfengið.
[Neðanmáls]
a Greinin „Ungt fólk spyr . . . Get ég í alvöru ánetjast áfengi?“ (Vaknið! apríl-júní 1993) getur hjálpað þér að ganga úr skugga um hvort þú eigir við áfengisvandamál að stríða.
b Margir hafa notið góðs af hjálp lækna og ráðgjafa sem eru sérmenntaðir í meðferð alkóhólista. Sumir sérfræðingar álíta að stöðva verði ánauðarhegðunina áður en meðferð geti skilað árangri á öðrum sviðum. Af þeirri ástæðu og fleirum mæla sumir með að alkóhólistar fari í afeitrunarmeðferð á spítala eða meðferðarstofnun.
[Mynd á blaðsíðu 16]
Ungir alkóhólistar hafa tilhneigingu til að neita því að þeir eigi við vandamál að stríða.