Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Hvers vegna bíðum við nýja heimsins með slíkum ákafa og eftirvæntingu?

Hvers vegna bíðum við nýja heimsins með slíkum ákafa og eftirvæntingu?

Hvers vegna bíðum við nýja heimsins með slíkum ákafa og eftirvæntingu?

Heimsendir — hve nálægur?

HVAÐ er heimsendir? Mun jörðin eyðast í eldi eins og sum trúfélög kenna? Nei, hvernig gæti það verið miðað við orðin í Sálmi 104:5: „Hún haggast eigi um aldur og ævi.“

Við fáum svar við því ef við förum margar aldir aftur í tímann til heims sem var á undan þeim sem nú er. Hann var orðinn spilltur og hafði gert uppreisn gegn Guði, þannig að „vatnsflóðið [gekk] yfir þann heim, sem þá var, svo að hann fórst.“ En þegar sá heimur, sem var bæði himinn og jörð, eyddist í flóðinu á dögum Nóa leið hvorki hinn bókstaflegi himinn né jörð undir lok. Endir þessa heims mun ekki heldur felast í því að stjörnuhiminninn og reikistjarnan jörð brenni upp til agna. — 2. Pétursbréf 3:5, 6; 1. Mósebók 6:1-8.

Stundum notar Biblían orðin „himinn“ og „jörð“ í táknrænni merkingu. „Himnar“ geta merkt Satan, guð þessa heims; valdhafana í heiminum undir hans stjórn og illar andaverur í himingeimnum — sem allt hefur ill og spillandi áhrif á mannkynið. (2. Korintubréf 4:4; Efesusbréfið 6:12) Orðið „jörð“ er oft notað um þjóðir jarðar. (1. Mósebók 11:1; 1. Konungabók 2:1, 2; 1. Kroníkubók 16:31; Sálmur 96:1) Það er þessi táknræni himinn og jörð hins núverandi illa heims sem 2. Pétursbréf 3:7 segir eiga að farast í ‚eldi.‘ — Galatabréfið 1:4.

Pétur flytur síðan þær gleðifréttir að nýr heimur muni koma í stað hins gamla: „En eftir fyrirheiti hans væntum vér nýs himins og nýrrar jarðar, þar sem réttlæti býr.“ — 2. Pétursbréf 3:13.

Nýr heimur án tára eða dauða

Yfirlýsing Péturs um að réttlæti skuli búa í þessum nýja heimi eru gleðifréttir, en það sem Jóhannes bætir við vekur með okkur ólýsanlega hrifningu! Hann segir um þennan nýja heim í Opinberunarbókinni 21:3, 4: „Og ég heyrði raust mikla frá hásætinu, er sagði: ‚Sjá, tjaldbúð Guðs er meðal mannanna og hann mun búa hjá þeim, og þeir munu vera fólk hans og Guð sjálfur mun vera hjá þeim, Guð þeirra. Og hann mun þerra hvert tár af augum þeirra. Og dauðinn mun ekki framar til vera, hvorki harmur né vein né kvöl er framar til. Hið fyrra er farið.‘“

Í stað þess að eyða jörðinni í eldi er það ætlun Jehóva að hún verði byggð að eilífu: „Svo segir [Jehóva], sá er himininn hefir skapað — hann einn er Guð, sá er jörðina hefir myndað og hana til búið, hann, sem hefir grundvallað hana og hefir eigi skapað hana til þess, að hún væri auðn, heldur myndað hana svo, að hún væri byggileg.“ — Jesaja 45:18.

Réttlæti mun búa þar vegna þess að þar verða engir ranglátir menn: „Hinir hreinskilnu munu byggja landið, og hinir grandvöru verða eftir í því. En hinir óguðlegu munu upprættir verða úr landinu, og hinum svikulu verða útrýmt þaðan.“ — Orðskviðirnir 2:21, 22.

Undir innblæstri ber sálmaritarinn Davíð einnig vitni um þetta: „Innan stundar eru engir guðlausir til framar, þegar þú gefur gætur að stað þeirra, eru þeir horfnir. En hinir hógværu fá landið til eignar, gleðjast yfir ríkulegri gæfu.“ — Sálmur 37:10, 11.

Jesús staðfesti það líka og sagði í fjallræðu sinni: „Sælir eru hógværir, því að þeir munu jörðina erfa.“ Þessir hógværu menn munu hljóta þá blessun að fá hina réttlátu nýju himna, sem þeir hafa beðið um, fyrir stjórn: „Til komi þitt ríki, verði þinn vilji, svo á jörðu sem á himni.“ — Matteus 5:5; 6:10.

Þessi frábæri friður, sem byggjendur þessa nýja heims munu njóta, nær jafnvel til dýraríkisins: „Þá mun úlfurinn búa hjá lambinu og pardusdýrið liggja hjá kiðlingnum, kálfar, ung ljón og alifé ganga saman og smásveinn gæta þeirra. . . . Hvergi á mínu heilaga fjalli munu menn illt fremja eða skaða gjöra, því að jörðin er full af þekkingu á [Jehóva], eins og djúp sjávarins er vötnum hulið.“ — Jesaja 11:6-9.

Hve nærri?

Ef þú hallast að því að vísa öllu þessu á bug sem skýjaborgum, það sé allt of gott til að geta verið satt, þá skaltu doka aðeins við og hugleiða málið betur. Auk hins samsetta tákns um nærveru Krists Jesú inniheldur Biblían tímareikning sem benti á árið 1914 sem upphafsár nærveru hans. Vottar Jehóva vöktu athygli á því í tímaritinu Varðturninum í júlí 1879 að árið 1914 væri þýðingarmikið ár í framvindu stjórnar Jehóva yfir jörðinni. Margir sagnfræðingar og fleiri, sem fylgst hafa grannt með framvindu heimsmála, hafa bent á að árið 1914 hafi markað upphaf algerlega nýrra og breyttra tíma í sögu mannsins, eins og fram kemur í rammanum hér á opnunni.

Jesús nefndi annan atburð í Matteusi 24:21, 22: „Þá verður sú mikla þrenging, sem engin hefur þvílík verið frá upphafi heims allt til þessa og mun aldrei verða. Ef dagar þessir hefðu ekki verið styttir, kæmist enginn maður af. En vegna hinna útvöldu munu þeir dagar styttir verða.“

Jesús gaf einnig til kynna að þetta samsetta tákn myndi sýna sig í heild innan æviskeiðs þeirrar kynslóðar er sæi það byrja að koma fram árið 1914. Í Matteusi 24:32-34 sagði hann: „Nemið líkingu af fíkjutrénu. Þegar greinar þess fara að mýkjast og laufið að springa út, þá vitið þér, að sumar er í nánd. Eins skuluð þér vita, þegar þér sjáið allt þetta, að hann er í nánd, fyrir dyrum. Sannlega segi ég yður: Þessi kynslóð mun ekki líða undir lok, uns allt þetta er komið fram.“

Að sjá þennan gamla heim — með öllum sínum styrjöldum, hungri, sjúkdómum og dauða — þurrkaðan út verður mikið fagnaðarefni. Að sjá hann víkja fyrir nýjum, réttlátum heimi Jehóva — þar sem endi verður bundinn á harm, tár, sjúkdóma og dauða — verður endalaust gleði- og fagnaðarefni og Jehóva Guði, hinum mikla skapara og drottinvaldi alheimsins, til eilífs lofs.

Miðað við slíkar framtíðarhorfur er ekkert undarlegt að margir skuli bíða þess með ákafri eftirvæntingu að nýr, réttlátur heimur Jehóva komi og ryðji hinum gamla úr vegi með allri sinni sorg, glæpum, sjúkdómum og dauða! Það er engin furða að þeir skuli vera svo ákafir að þeir hafi tilhneigingu til að slá fram einhverju ártali áður en tíminn er runninn upp! En núna er ekki aðeins um að ræða einstaka þætti táknsins sem gætu freistað okkar til að koma með falskar viðvaranir. Núna getum við séð allt hið samsetta tákn í heild sem er traustur grundvöllur ákafrar eftirvæntingar okkar eftir endalokum þessa illa heims og nýs heims Jehóva sem kemur í hans stað.

[Rammi á blaðsíðu 11]

1914 — straumhvörf í mannkynssögunni

JAFNVEL eftir síðari heimsstyrjöldina líta margir á 1914 sem hin miklu straumhvörf í nútímasögu mannsins:

„Það er árið 1914 en ekki Híróshíma-harmleikurinn sem markar straumhvörf á okkar tímum.“ — René Albrecht-Carrié, The Scientific Monthly, júlí 1951.

„Alla tíð frá 1914 hafa allir, sem fylgst hafa með þróuninni í heiminum, haft þungar áhyggjur af því sem líkist einna helst örlagabundinni hergöngu í átt til sívaxandi stórhörmunga. Margt alvarlega þenkjandi fólk hefur fengið á tilfinninguna að ekkert sé hægt að gera til að afstýra því að heimurinn steypist út í tortímingu. Þeir sjá mannkynið eins og hetju í grískum harmleik sem keyrð er áfram af reiðum guðum og er ekki lengur herra örlaga sinna.“ — Bertrand Russell í The New York Times Magazine, 27. september 1953.

„Nútíminn . . . hófst árið 1914 og enginn veit hvenær eða hvernig honum mun ljúka. . . . Honum gæti lokið með gereyðingu.“ — The Seattle Times, 1. janúar 1959.

„Allur heimurinn umhverfðist í fyrri heimsstyrjöldinni og við vitum enn ekki ástæðuna. . . . Útópía var í augsýn. Það ríkti friður og velmegun. Þá sprakk allt í loft upp. Við höfum verið í dauðadái síðan.“ — Dr. Walker Percy, American Medical News, 21. nóvember 1977.

„Árið 1914 glataði heimurinn samhengi sínu og hefur aldrei tekist að ná því aftur. . . . Þetta hefur verið tími óvenjulegrar ólgu og ofbeldis, bæði innan landamæra og þvert yfir þau.“ — The Economist, Lundúnum, 4. ágúst 1979.

„Allt varð betra og betra. Þetta var sá heimur sem ég fæddist í. . . . Skyndilega, óvænt, morgun einn árið 1914 leið þetta allt undir lok.“ — Breski stjórnmálamaðurinn Harold Macmillan, The New York Times, 23. nóvember 1980.

[Mynd á blaðsíðu 10]

Allir munu búa við unaðslegan frið í þeim nýja heimi sem heitið er.