Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Kristur er nærverandi!

Kristur er nærverandi!

Sjónarmið Biblíunnar

Kristur er nærverandi!

„MANDELA kemur! Mandela kemur!“ sungu börnin í Soweto í Suður-Afríku. Mikil eftirvænting lá í loftinu þegar Nelson Mandela var sleppt úr fangelsi þann 11. febrúar 1990 og menn sáu fyrir sér að nú væru breytingatímar að renna upp í Suður-Afríku. Í mörg ár áður en honum var sleppt úr fangelsi fannst þó fyrir áhrifum hans. Meðan hann var enn í fangelsi hafði hann háð virka og „linnulausa baráttu fyrir afnámi aðskilnaðarstefnunnar.“ Eins og alþjóðlegt fréttatímarit sagði hafði 27 ára fangavist ekki „dregið úr áhrifum hans — né harðfylgi.“ Lausn hans úr fangelsi lýsir vel muninum á komu og nærveru.

Á líkan hátt gera biblíuritarar fyrstu aldar greinarmun á komu og nærveru Jesú Krists í tengslum við valdatöku hans sem konungur. Nærvera Krists Jesú sem konungur átti að finnast og vera auðsæ um langt árabil áður en hann ‚kæmi á skýjum himins með mætti og mikilli dýrð.‘ (Matteus 24:30) Ósýnileg nærvera (á grísku parósía) Krists átti að vera undanfari komu (á grísku erkhomai) hans til að fullnægja dómi yfir uppreisnargjarnri og illri kynslóð.

Parósía — hvað merkir hún

Gríska orðið parósía merkir bókstaflega „það að vera við hliðina á“ og „varð opinbert hugtak um heimsókn háttsettra persóna, einkum konunga og keisara er þeir heimsóttu hérað.“ Theological Dictionary of the New Testament segir: „[Parósía] merkir einkum virka nærveru.“ Og um nærveru Krists Jesú segir bókin The Parousia: „Ritningin talar hvergi um ‚aðra parósíu.‘ Hvert svo sem eðli hennar átti að vera var hún einstæður viðburður, hafði aldrei átt sér stað áður og myndi aldrei eiga sér stað framar. Þessi nærvera átti að vera meiri og öðruvísi en hann hafði áður birst mönnum.“

Um spádómsorð Jesú, er hann svaraði spurningu postulanna á Olíufjallinu, segir prófessor A. T. Robertson í Word Pictures in the New Testament að Jesús hafi „einnig notað eyðingu musterisins og Jerúsalem, sem átti sér stað innan þeirrar kynslóðar árið 70, sem tákn síðari komu sinnar og heimsendis . . . eða endaloka aldanna.“ Hvaða spurningar voru þetta og hvernig svaraði Jesús þeim?

Táknið um nærveru Krists

Samkvæmt frásögunni í Matteusi 24:3 spurðu postularnir: „Seg þú oss, hvenær verður þetta? Og hvert mun tákn komu þinnar og endaloka veraldar?“ Í svari sínu gaf Jesús lærisveinunum tákn er vera myndi sýnileg sönnun um ósýnilega nærveru hans sem konungur Guðsríkis. Táknið í heild fól í sér fordæmislausar styrjaldir, útbreiddan matvælaskort, jarðskjálfta sem yllu mikilli eyðileggingu, drepsóttir og aukna glæpi og ótta. Nærvera Krists yrði tími ólgu og áhyggna um heim allan. Mannlegar stjórnir og leiðtogar heimsins yrðu ófærir um að halda kerfi, sem væri á fallanda fæti, þokkalega gangandi. — Matteus 24:7, 12; Lúkas 21:11.

Prófessor í stjórnmálafræðum, John Meisel, staðfestir að spádómsorð Jesú hafi ræst og segir: „Meiriháttar tímabili sögunnar er að ljúka og nýtt að taka við, en við skiljum innviði þess ekki nema að litlu leyti.“ Eftir að hafa minnst á fall kommúnismans, þrot sósíalismans og galla kapítalismans heldur prófessor Meisel áfram: „Margar af ógöngum mannanna eru félagsvísindunum ofviða og þarf að leysa með öðrum hætti.“ Og hvað merkir það? „Hugmyndafræðilegar undirstöður heimsins eins og hann er núna eru að bresta og það þarf að koma með nýjar í staðinn.“

Virk nærvera Krists

Þrátt fyrir að engin lausn sé á erfiðleikunum í heimi sem er á fallanda fæti hófst nærvera Jesú sem konungs fyrir liðlega 75 árum og hefur látið finna ótvírætt og á jákvæðan hátt fyrir sér. a Þrátt fyrir eyðilegginu tveggja heimsstyrjalda hefur hinn krýndi konungur, Kristur Jesús, tekið virkan þátt í að mynda nýja þjóð manna — manna „af alls kyns fólki og kynkvíslum og lýðum og tungum“ sem bera nafn Jehóva. Virk nærvera Krists hefur verið drifkraftur prédikunar og kennslu um heim allan sem hefur snortið hjörtu milljóna réttsinnaðra einstaklinga. Þeir hafa fundið hjá sér hvöt til að taka afstöðu með ríki Jehóva í höndum Krists Jesú. — Opinberunarbókin 7:9, 10.

Þegar við blasir að dag frá degi aukast sannanirnar um að hið margþætta tákn um nærveru Krists sé að uppfyllast, er vökulum kristnum mönnum ljóst að við stöndum við endalok meiriháttar tímabils í mannkynssögunni. Núna er rétti tíminn til að gefa hinum krýnda konungi, Kristi Jesú, „enn betur gaum.“ (Hebreabréfið 2:1) Hann hvetur okkur: „Vakið því allar stundir og biðjið, svo að þér megið umflýja allt þetta, sem koma á, og standast frammi fyrir Mannssyninum.“ — Lúkas 21:36.

[Neðanmáls]

a Jesús Kristur tók að ríkja sem konungur árið 1914. Ítarlegri umfjöllun um þetta efni er að finna í 16. til 18. kafla bókarinnar Þú getur lifað að eilífu í paradís á jörð, gefin út árið 1984 af Watchtower Bible and Tract Society of New York, Inc.