Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Langar þig að skemmta vinum þínum?

Langar þig að skemmta vinum þínum?

Langar þig að skemmta vinum þínum?

ÞAÐ VAR snemma kvölds í samkvæmi. Allir viðstaddir voru að skemmta sér þegar tilkynnt var að tveir ungir menn ætluðu að koma fram með skemmtiatriði sem fælist í tónlist og stuttum skemmtiþætti.

Þessir tveir höfðu oft komið fram við góðar undirtektir og bjuggust því við hrifningu áheyrenda. En þeim til vonbrigða voru viðbrögðin við leik þeirra vandræðaleg augnatillit, þögn og loks dræmt klapp. Skemmtiatriðið mistókst! Hvað fór úrskeiðis?

Ef þú hefur hæfileika á einhverju sviði og langar til að leyfa vinum þínum að njóta hans með þér, hikarðu þá af ótta við að verða fyrir sams konar reynslu? Hver er galdurinn við að skemmta fólki? Ef til vill hefur þú sjálfur aldrei hugsað þér að koma fram en beðið aðra um að gera það í boðum heima hjá þér. Ef svo er, hvernig getur þú þá fullvissað þig um að gestirnir muni hafa gaman af því?

Eftirfarandi tillögur miðast við tónlistarskemmtun í heimahúsum. Flest grundvallaratriðin gilda samt sem áður um aðrar tegundir skemmtunar, svo sem grínþætti, skuggamyndasýningar, að segja sögur og starfsfrásögur.

Að skapa rétt andrúmsloft

Segjum sem svo að þú sért að undirbúa samkvæmi og ætlir að bjóða upp á tónlistaratriði. Þú (eða þeir sem flytja atriðið) þarft ekki að ráða yfir heilmikilli tækni í tónlistarflutningi til að geta skemmt. Reyndar eru sumir hæfileikaríkir tónlistarmenn lélegir skemmtikraftar. Til að skemmta fólki þurfa menn nefnilega að kunna að láta fólk skemmta sér. Það hefst á því að skapa umhverfi sem stuðlar að ánægju. Hve mörgum gestum munt þú til dæmis bjóða?

Líklega tekst þér betur til með lítinn hóp en stóran. Lítill hópur gefur hverjum fyrir sig tækifæri til að tala og njóta félagsskapar hinna. Einnig skaltu, til að skapa ánægjulegt andrúmsloft, hugsa um að hafa hressingu á boðstólum, annaðhvort máltíð eða bara nasl. Ef þú ætlar aðeins að hafa nasl skaltu láta gestina vita af því svo þeir búist ekki við meiru er þeir koma.

Það er mikilvægt að bera skyn á hvenær skuli koma fram með tónlistaratriðið. Margir skemmta sér ágætlega af sjálfsdáðum og sökkva sér niður í að borða og tala saman með lítilli eða engri handleiðslu. Ef raunin er sú með þína gesti skaltu gefa þeim tíma áður en þú dembir undirbúinni dagskrá á þá. Ungu mönnunum tveim, sem minnst var á í upphafi, láðist að gera það. Hefðu þeir beðið þar til áhuginn fyrir öðrum viðfangsefnum tók að dvína hefðu áheyrendur þeirra sennilega verið móttækilegri.

Ætlir þú að láta gestina syngja með gæti verið gott að þjappa þeim saman og láta þá standa eða sitja í hring á gólfinu. Menn syngja best þegar hugarástand og aðstæður eru réttar. Að skapa rétt andrúmsloft getur átt drjúgan þátt í að tryggja að gestirnir njóti skemmtunarinnar. Það kemur þeim líka í slíkt hugarástand að þeir séu sem móttækilegastir fyrir tónlistarflutningi þínum.

Stundin til að leika fyrir gestina er runnin upp. Hvernig getur þú skemmt þeim með góðum árangri?

Að fanga huga áheyrendanna

Flestum finnst gaman að góðum tónleikum eða sýningu. Til dæmis seldust 8.142.000 miðar á Broadwaysýningar á aðeins einu ári, fyrir 253,4 milljónir bandaríkjadala! En sé það tómstundagaman hjá þér að skemmta og þú færð ekkert kaup fyrir það, þarftu að halda áhuganum vakandi hjá áheyrendum sem sóttust ekki endilega eftir skemmtuninni. Hvernig ferðu að því? Láttu fara saman nægilega hæfileika og það að vera á sömu bylgjulengd og áheyrendur þínir. Hér koma nokkrar tillögur:

Notaðu efni sem þú hefur góð tök á. Gítarkennarinn Frederick Noad varar við: „Það er nauðsynlegt að muna verkið svo vel að þú gætir næstum leikið það á meðan þú hugsar um eitthvað annað.“ Því er skynsamlegt að geyma nýlærð verk til seinni tíma. Noad segir: „Það er miklu betra að spila einfalt verk vel en að klúðra tilkomumiklu verki.“

Láttu áheyrendurna vera með. Tónlistarmaður nokkur, með áralanga reynslu sem atvinnumaður, leggur áherslu á mikilvægi þess að áheyrendurnir taki þátt í skemmtuninni og segist útbýta textablöðum til áheyrenda sinna og bjóða þeim að syngja með. Að gera áheyrendurna að þátttakendum getur hjálpað þér að láta ekki áhuga þeirra og stuðning detta niður.

Hafðu það fjölbreytt. Það er algeng tilhneiging manna að leika allt milt og varfærnislega. Frederick Noad leggur þó til: „Reyndu alltaf að skapa fjölbreytileika milli styrkleika og mildi í hverju verki; það er til dæmis mjög oft áhrifaríkt, þegar kafli er endurtekinn, að leika hann fyrst af krafti en í seinna skiptið mildilega, þannig að það hljómi næstum eins og bergmál. . . . Helmingur ánægjunnar af því að leika felst í þess konar blæbrigðum sem breyta dauðum nótum í lifandi tónlist.“

Njóttu þess sjálfur. Gestirnir slaka ekki á ef þú ert stífur, taugaóstyrkur eða feiminn; né mun þeim skemmt ef þú hermir vísvitandi eftir einhverjum vel þekktum skemmtikrafti. Það er erfitt að slaka á meðan allir mæna á þig, en þú verður að læra að slaka á, vera þú sjálfur, vera ákafur og njóta þess sem þú ert að gera. Aðeins þá slaka áheyrendur þínir á og njóta skemmtunarinnar.

Hafðu það stutt! Alvöru skemmtikraftur syngur einu lagi of lítið, ekki einu of mikið. Fólk getur orðið eirðarlaust eftir að hafa hlustað í 20 til 30 mínútur á óformlegan flutning tónlistar í heimahúsi. Leyfðu gestunum að taka aftur til við að gera eitthvað af sjálfsdáðum þegar atriði þínu er lokið. Skemmtiatriðið er á enda en þeir eiga ánægjulegar minningar um það vegna þess að þú hættir meðan þá langaði enn að heyra meira.

Tekist á við taugaspennu

Jafnvel atvinnuskemmtikraftar þurfa að berjast við sviðsótta. Samt sem áður læra þeir að stjórna honum og líta að minnsta kosti út fyrir að vera rólegir. Hvernig getur þú gert slíkt hið sama?

Fyrst og fremst með því að undirbúa þig! Dale Carnegie, sem lagði mat á þúsundir ræðna á ári hverju, fullyrti: „Aðeins undirbúinn ræðumaður verðskuldar að vera sjálfsöruggur.“ Hið sama á vissulega við um skemmtikrafta. Æfing, svo og upphitun fyrir sýningu, getur gert gæfumuninn. Láttu efnið eiga hug þinn allan meðan á flutningnum stendur. Hugsaðu um og hafðu tilfinningu fyrir öllu sem þú leikur. Frank Battisti, við New England Conservatory of Music, mælir með eftirfarandi: „Það sem maður þarf fyrst og fremst að gera er að einbeita sér að því sem maður er að gera og hafa ekki áhyggjur af því hvað öðrum finnst um það. Ef þú nærð að einbeita þér þannig, geturðu ekki orðið svo taugaóstyrkur.“

Ef þér verða á mistök skaltu ekki vekja athygli áheyrenda þinna á þeim með því að láta þau fara í skapið á þér. Ef til vill tóku fáir eftir mistökunum og hinum er sjálfsagt sama. Þessir fáu munu bíða eftir merki frá þér — ef þú heldur áfram að leika eins og ekkert hafi í skorist, munu þeir líka láta eins og ekkert sé.

Hæfileikar sem heiðra skaparann

Vertu ekki of fljótur að neita, ef til vill vegna vanmáttarkenndar, ef vinir þínir biðja þig af og til um að leika fyrir sig. Hefðu þeir ekki heldur valið hljóðritaða tónlist ef þeir vildu fullkomleika? Kona, sem er þekkt meðal vina sinna fyrir ánægjuleg smáboð, sagði: „Það er frábært þegar gestur manns er tónvís og kemur jafnvel undirbúinn til að skemmta og leyfir öllum að vera með í flutningnum!“

Já, margir kunna að meta þá sérstöku eftirvæntingu og ánægju sem fylgir skemmtunum í heimahúsum. Mundu líka að vinir þínir kunna að vera að sækjast eftir heilbrigðri skemmtun, sem er æ erfiðara að finna í skemmtanaiðnaðinum. Ef þér er gefinn hæfileiki til að skemmta öðrum, megirðu þá nota hann til heiðurs okkar mikla skapara, því að frá honum er „sérhver góð gjöf og sérhver fullkomin gáfa“ komin. — Jakobsbréfið 1:17.

[Rammi á blaðsíðu 24]

Aðrar ábendingar

VERTU FJÖLHÆFUR. Ef þú getur leikið mismunandi tegundir tónlistar, jafnvel bara nokkur verk í hverjum flokki, ertu í þeirri aðstöðu að geta orðið við óskum áheyrendanna.

Raðaðu efninu þannig niður að það sé hrífandi. Venjulega er áhrifamest að byrja og enda á verkum sem eru stutt og menn þekkja. Lengri og meira krefjandi verk, ef einhver slík eru leikin, er best að hafa í miðri dagskránni.

Hafðu samband við áheyrendur þína. Þótt áheyrendum geti fundist það óþægilegt ef þú starir á þá, er þér sannarlega óhætt að horfa á þá og tala við þá á milli atriða.

Haltu flutningnum gangandi. Kynningarorð við og við geta hjálpað öllum (þeirra á meðal sjálfum þér) að slaka á, en samt ætti ekki að ofgera þeim. Forðastu einnig löng hlé með því að vera sífellt að stilla hljóðfærið. Stöðugar tafir fara líklega meira í taugarnar á áheyrendum en eilítið falskir tónar.