Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Fuglasöngur — aðeins til að gleðja eyrun?

Fuglasöngur — aðeins til að gleðja eyrun?

Fuglasöngur — aðeins til að gleðja eyrun?

FJARLÆGT sviðsljósið tekur að beinast að meðlimum kórsins um leið og þeir koma sér fyrir, snyrtilega klæddir fyrir hljómleikana. Hver einasti söngvari er þjálfaður frá æsku í sönghefð fjölskyldunnar og syngur leikandi létt. Fáeinir í hópnum virðast jafnvel leiknir í því að semja lögin um leið og þeir flytja þau og eru þannig sífellt að skapa ný og ólík tónverk.

Hvar fara þessir hljómleikar fram? Þeir eru ekki haldnir í neinum heimsfrægum hljómleikasal heldur kemur í ljós fjölskrúðug fylking smávaxinna fiðraðra söngvara um leið og morgunskíman dregur upp tjald náttmyrkursins. Alls konar söngfuglar sitja í trjám, á girðingum og símalínum og syngja saman einhvern fegursta kórsöng í heimi. Kvakandi, skríkjandi og með skrautnótum syngja þeir dillandi og heilsa nýjum degi með gleðibrag.

En söngfuglarnir syngja ekki bara til að gleðja eyrun. Miklu meira býr að baki en ætla mætti í fyrstu. Hvers vegna syngja fuglar? Hefur söngurinn einhverja merkingu? Hvernig læra fuglarnir að syngja? Læra þeir einhvern tíma ný lög?

Hinn huldi boðskapur

Líflegustu serenöðurnar eru fluttar kvölds og morgna. Oftast eru það líklega karlaraddirnar sem þú heyrir í kórnum. Boðskapur þeirra er tvíþættur. Hann er ströng viðvörun til annarra karlfugla um að fara ekki inn á yfirráðasvæði annarra. Í eyrum kvenfuglanna er hann tilboð frá karlfuglum sem eru á lausu. Söngfuglar þróa svæðisbundinn blæ í söng sínum, ekki ósvipaðan mismunandi staðbundnum framburði eða mállýskum manna. Hin sérstaka mállýska laðar einungis að kvenfugla frá svæði viðkomandi söngvara. Söngurinn er kraftmestur og fjölbreyttastur á fengitímanum — eins konar leiksýning til að ganga í augun á „dömunum.“

Með söng sínum lætur söngvarinn jafnt vini sem óvini vita hvar hann sé. Þess vegna eru litríkir fuglar og þeir sem kjósa opin svæði nógu vitrir til að forðast háværan söng sem kynni að vekja óæskilega athygli. Á hinn bóginn geta fuglar, sem eru í góðum felulitum og þeir sem búa í þéttu skóglendi, sungið hátt af hjartans lyst án þess að veruleg hætta sé á að þeir sjáist.

Stundum er það sem þú heyrir ekki eiginlegur söngur okkar vængjuðu vina heldur einfaldlega stutt kall til að koma á sambandi milli hjóna eða halda fuglahjörð saman. Það gæti verið viðvörunarkall um aðsteðjandi hættu eða herkvaðning til fjöldaárásar á kött eða annan óboðinn gest. Með rödd sinni gefa fuglarnir til kynna hvers konar skapi þeir séu í — reiðir, hræddir eða æstir — og eins hver „hjúskaparstétt“ þeirra sé.

Færir og fjölhæfir tónlistarflytjendur

Raddfærni söngfuglanna er einstök. Sumir geta sungið þrjár eða fjórar nótur í einu. Aðrir geta sungið allt að 80 nótur á sekúndu. Mannseyrað skynjar þessi hljóð sem samfelld en fuglar hafa svo næma heyrn að þeir geta greint milli þeirra.

Vísindamenn hafa velt fyrir sér hvort fuglar hafi næmt eyra fyrir tónlist. Geta fuglar greint milli orgelverks eftir Bach og „Vorblóts“ Stravinskys? Rannsóknarmenn þjálfuðu fjórar dúfur í að gogga í aðra af tveim skífum til að benda á rétta tónskáldið og verðlaunuðu þær með fóðri. Áður en langt um leið þekktu dúfurnar Bach ef leikinn var einhver bútur úr 20 mínútna löngu verkinu eftir hann, og völdu réttu skífuna. Með minni háttar undantekningum gátu þær valið rétt jafnvel þegar leikin var tónlist í svipuðum stíl eftir önnur tónskáld.

Sumir fuglar í hitabeltinu geta samið og sungið tvísöng. Að því er virðist heldur par, sem búið er að maka sig, æfingar og prófar sig áfram uns það hefur búið til frumsamið tónverk með hendingum sem það skiptist á um að syngja þannig að fuglarnir tveir syngjast á. Þeir syngja með slíkri nákvæmni að óæfðu eyra finnst vera um samfelldan söng úr nefi eins fugls að ræða. Hvor fugl um sig getur sungið hvorn hluta hendinganna, sem verkast vill, eða allan sönginn einn saman í fjarveru maka síns. Þessi einstaki hæfileiki hjálpar sýnilega fuglum, sem lifa í þéttum regnskógum, að finna maka sinn og þekkja hann frá öðrum.

Tónsmiðir og eftirhermur

Það hvernig fuglar læra og semja lögin sín er enn þá á rannsóknarstigi, en eitt er víst: Þeir læra með mörgum og mismunandi hætti. Hér koma dæmi um hinar fjölbreyttu aðferðir sem notaðar eru í tónlistarheimi fuglanna.

Að minnsta kosti hluti þess lags, sem bókfinkukarlinn syngur, virðist greyptur í heila hans strax í eggi. Jafnvel þótt hann alist upp algerlega einangraður frá öðrum fuglum hefur lagið hans, þótt það hljómi óeðlilega, sama nótnafjölda og er um það bil jafnlangt og venjulegur bókfinkusöngur. En til að ná fullum tökum á söngnum verður hann að heyra söng annarra bókfinkukarla áður en hann hefur aldur til að syngja, og hann verður að heyra í þeim aftur næsta vor. Síðan verður þessi fiðraði tónsnillingur að fullkomna sönginn sinn líkt og mennskur atvinnusöngvari, með því að æfa, æfa og æfa — og reyna aftur og aftur að láta unga rödd sína hljóma eins og lagið sem hann er með í höfðinu.

Oregontittlingurinn semur sinn eigin söng ef hann heyrir ekki hinn venjulega söng sinnar ættar. En jafnskjótt og hann heyrir hinn látlausa og einfalda söng Oregontittlingsins hættir hann tónsmíðum og tekur að syngja eins og allir hinir. Hjá Arizonatittlingnum kviknar hins vegar sköpunargleði við það að heyra í fullvöxnum tittlingi. Hann hermir ekki eftir því sem hann heyrir heldur örvar það hann til að semja sitt eigið lag.

Svonefndar „hreiðursníkjur“ eru sterkasta sönnunin fyrir því að söngur sumra fugla sé ákveðinn með erfðum. Gaukurinn verpir til dæmis eggjum sínum í hreiður annarra fuglategunda sem verða þá fósturforeldrar ungans. Hvernig veit gauksunginn, þegar hann kemur úr egginu, að hann er ekki sömu ættar og fósturfaðir hans og ætti ekki að syngja eins og hann? Gaukssöngurinn hlýtur að vera fastgreyptur í heila hans þegar hann kemur úr egginu.

Í mörgum tilvikum virðast því erfðir ráða söng fuglanna. Jafnvel þótt fugl hafi aldrei lært söng sinnar eigin tegundar hermir hann ekki einfaldlega eftir og tekur upp söng annarrar tegundar. Sumir rannsóknarmenn telja að óskýrt mynstur af tegundarsöngnum sé geymt í heilanum og að fuglinn geti gaumgæft það sem hann heyrir og hermt eftir þeim hljóðum sem eru líkust mynstrinu.

Og heilinn í þeim er hreint ótrúlegur! Vísindamaðurinn Fernando Nottebohm gerði þá óvæntu uppgötvun að heili söngfugla er hliðskiptur, það er að segja að hann skiptist í hægri og vinstri helminga og að hvor helmingur hefur sitt ákveðna hlutverk. Honum tókst einnig að staðsetja það svæði heilans þar sem sönglærdómur á sér stað. Í vaxandi kanaríkarlfugli hreinlega stækkar þetta svæði eða skreppur saman eftir því hvort fuglinn þarf að læra ný lög fyrir fengitímann eða ekki. Kanarífuglar reyna að syngja snemma á ævinni, en jafnvel þessir söngmeistarar ná ekki færni atvinnusönvara fyrr en þeir eru orðnir átta eða níu mánaða.

Sumir söngfuglar sérhæfa sig í að semja tilbrigði um stef, taka að láni stef sem fyrir eru og semja við þau eða breyta nótnaröðinni eða hljóðfallinu. Slíkir hermifuglar hafa lengi vakið hrifningu okkar, einkum þeir fuglar sem nota hæfni sína til að „tala“ eða líkja eftir mannsröddum. Eftirhermurnar í heimi fuglanna eru meðal annars lýrufuglinn í Ástralíu, seljusöngvarinn og starinn í Evrópu og runnaskríkjan og hermikrákan í Norður-Ameríku. Sá síðastnefndi getur haft tugi laga á söngskrá sinni og jafnvel líkt eftir froski eða krybbu. Það er sannarlega hrífandi að hlusta á hermikráku flytja glaðlega syrpu velþekktra, sígildra tónverka úr heimi fuglanna.

Þegar þessar vængjuðu sköpunarverur syngja sín fallegu ljóð geta menn ekki bara heyrt heldur líka hlustað með þakklæti. Hljómleikar morgundagsins hefjast í bítið í fyrramálið. Ætlar þú að njóta þeirra?

[Rammi á blaðsíðu 17]

Kunnuglegur hljómur

Vísindamaður á Bretlandi taldi sig heyra kunnuglegan hljóm í söng nokkurra söngþrasta. Hann hljóðritaði sönginn og braut hann til mergjar með rafeindatækni. Honum til undrunar reyndist hann mjög líkur rafeindapípi símtækis sem breska símafélagið Telecom dreifir. Svo virðist sem söngfuglarnir hafi lært það og bætt við söngskrá sína. Skyldu þrestirnir með söng sínum hafa sent suma grunlausa Breta á harðahlaupum í símann?

[Rétthafi myndar á blaðsíðu 16]

Camerique/H. Armstrong Roberts

T. Ulrich/H. Armstrong Roberts