„Gæðatíma“ útbýtt í smáum skömmtum
„Gæðatíma“ útbýtt í smáum skömmtum
FÁIR foreldrar nota nægan tíma með börnum sínum nú á dögum. Margir eru einstæðir og berjast í bökkum við að sjá einir fyrir sér og börnum sínum. Og vegna versnandi efnahagsástands komast sífellt fleiri hjón að raun um að þau verði bæði að vinna úti til að komast af. Það kemur því ekki á óvart að hugmyndin um gæðatíma skuli hafa náð vinsældum.
Gæðatími er yfirleitt hugsaður þannig að tekinn sé ákveðinn tími til að vera með barni, oft með eitthvað sérstakt í huga — svo sem útivistarferð sem gæti til dæmis verið heimsókn í dýragarð. Ljóst er að hugmyndin hefur sitthvað til síns ágætis. Börn þarfnast allrar þeirrar sérstöku athygli sem þau geta fengið. En hin almenna hugmynd um gæðatíma hefur sína galla sem sérfræðingar í uppeldismálum eru sífellt að átta sig betur á.
Ljóst er að margir uppteknir foreldrar, sem leggja kapp á að komast áfram í stöðu eða starfi, hafa tileinkað sér þá villandi hugmynd að það sé hægt að fullnægja öllum þörfum barnanna fyrir athygli foreldra sinna með því að nota fyrirfram ákveðinn, skipulagðan tíma með þeim. Þannig hefur New Yorkblaðið Daily News eftir dr. Lee Salk, prófessor við læknadeild Cornellháskóla í Bandaríkjunum: „Hugmyndin um gæðatíma er hreint bull.“ Hann skýrir mál sitt nánar: „Hugtakið er tilkomið vegna sektarkenndar foreldra. Fólk er farið að leyfa sér að eyða minni tíma með börnum sínum.“
En bæta ekki gæði tímans, þegar barnið nýtur óskiptrar athygli foreldra sinna, upp skortinn á honum? Nei, og ástæðan er einföld — áhrifamesta kennslan er fólgin í fordæmi foreldranna. Skuggahlið þessara alkunnu sanninda birtist með fremur óhugnanlegum hætti í niðurstöðum nýlegrar rannsóknar sem náði til miðborgarunglinga. Þeir sem áttu ættingja í fangelsi á uppvaxtarárunum voru helmingi líklegri en aðrir til að lenda sjálfir í fangelsi. Eins voru þeir sem ólust upp undir umsjón fíkniefnaneytenda eða ofdrykkjumanna tvöfalt líklegri til að taka sjálfir upp þetta skaðlega hátterni.
Gott fordæmi foreldra getur verið jafnáhrifamikið. Vandinn er sá að það tekur tíma að setja gott fordæmi, langan tíma, ekki bara gæðatíma í snyrtilegum smápökkum. Eins og New Yorkblaðið Daily News orðar það: „Gallinn við hugmyndina um gæðatíma er sá að mikilvægustu augnablikin í samskiptum foreldra og barns — þær samræður og ákvarðanir sem veita því öryggiskennd, verðmætamat og sjálfsvirðingu — gera ekki boð á undan sér.“ Enginn getur skipulagt slík augnablik eftir stundaskrá. Foreldri ætlar sér kannski 15 mínútna gæðatíma með barni en hver veit hvort foreldrið og barnið ná að vera á sömu bylgjulengd á meðan sú stund varir? Og hvernig getur barnið lært af fordæmi ef þetta eru einu mínútur dagsins sem það er með foreldri sínu?
Hvað er hægt að gera úr því að foreldrar hafa svona lítinn tíma aflögu? Við því er ekkert einfalt svar. Ekkert getur breytt þeim veruleika að þessi heimur hefur gert barnauppeldi afar erfitt. Sumir foreldrar geta kannski lagt minni áherslu á vinnuna. Höfundur nýlega útkominnar bókar um umönnun barna hvetur foreldra reyndar eindregið til þess — að vera heima með börnum sínum. En margir foreldrar eiga ekki um neitt slíkt að velja. Og jafnvel þeir sem hafa sveigjanlegan vinnutíma eða eru ekki í launaðri vinnu eiga samt erfitt með að eyða nægum tíma með börnunum sínum.
Sumir sérfræðingar hvetja foreldra til að íhuga vinnuna sem þeir þurfa að inna af hendi heima fyrir, svo sem hreingerningar, matargerð, viðhald, þvotta og innkaup, til að skoða hvort þeir geti unnið einhver þessara starfa með börnum sínum. Að vinna saman jafnvel að
hversdagslegustu verkum, eða bara að slaka á sameiginlega, getur gefið foreldrum þann tíma sem þarf til að halda samskiptaleiðunum opnum og setja jákvætt fordæmi. Kristnir foreldrar hafa önnur verk að vinna sem þeir vilja að börnin taki þátt í með þeim. Kristnar samkomur, boðunarstarfið, biblíunám fjölskyldunnar, félagsskapur við trúbræður — allt gefur þetta foreldrum verðmætan tíma til að vera með börnum sínum.Athyglisvert er að lögmál Ísraelsmanna kom fram með sömu hugmynd fyrir hér um bil 3000 árum. Í 5. Mósebók 6:6, 7 lesum við: „Þessi orð, sem ég legg fyrir þig í dag, skulu vera þér hugföst. Þú skalt brýna þau fyrir börnum þínum og tala um þau, þegar þú ert heima og þegar þú ert á ferðalagi, þegar þú leggst til hvíldar og þegar þú fer á fætur.“ Það er ekki víst að lífið hafi verið auðveldara til forna en nú. Hugsaðu þér hve tímafrekt það hefur verið bara að framfleyta fjölskyldunni — hve mikinn tíma það tók föðurinn að sjá fjölskyldu sinni farborða eða hve mikið erfiði fór í störf svo sem matargerð eða þvott! En foreldrar, sem elskuðu Jehóva, gerðu eins margt og þeir gátu með börnin sér við hlið og fundu margar stundir yfir daginn til að innprenta börnunum lög Guðs í hjarta sér.
Kristnir nútímaforeldrar þurfa að gera það líka. Þegar um er að ræða að verja tíma með börnum sínum verða þeir að sporna gegn því að gera bara það sem virðist auðveldast. Gamla máltækið: ‚Það er ekki magnið sem skiptir máli heldur gæðin,‘ á ekki við um barnauppeldi. Á mótunarskeiði barnanna þurfa þau ekki aðeins skammtaðan tíma þegar þeim er sýnd athygli heldur líka tíma til að vera bara með foreldrum sínum.
[Mynd á blaðsíðu 15]
Fjölskyldan er önnum kafin á heimilinu og börnin hjálpa til.
[Mynd á blaðsíðu 15]
Saman í þjónustunni við Jehóva.