Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Getur tónlist verið skaðleg?

Getur tónlist verið skaðleg?

Getur tónlist verið skaðleg?

HUGSAÐU þér að vinnufélagi bjóði þér heim til sín í mat. Þú þiggur boðið. Þegar líður á kvöldið uppgötvar þú ýmislegt hneykslanlegt í fari gestgjafa þíns. Hann er haldinn kvalalosta, sýnir sjálfsmorðstilhneigingar, er orðljótur og fæst við satansdýrkun. Myndi þig langa til að eyða öðru kvöldi í félagsskap hans? Auðvitað ekki.

Og hvað nú ef þessi kunningi tæki rangsnúnar hugmyndir sínar og viðhorf þetta kvöld upp á segulband og gæfi þér? Myndir þú hleypa þeim að þér með því að spila það aftur og aftur? Tæplega.

Raunin er hins vegar sú að milljónir manna nú á tímum hleypa slíku að sér með því að hlusta á skaðlega tónlist. Afleiðingin er sú að margir tileinka sér þann hugsunarhátt og hegðun sem hún hvetur til.

Hvaða tónlist erum við að tala um? Finna má spillandi áhrif í nálega öllum tegundum tónlistar. Hvort heldur menn kjósa sígilda tónlist, djass eða einhverja aðra tegund tónlistar er nauðsynlegt að vera varkár og vandfýsinn.

Óheilnæmustu viðfangsefnin koma þó hvað skýrast fram í ákveðnum tegundum tónlistar. Þar er því sérstök ástæða til að vera á varðbergi. Tímaritið U.S.News & World Report lýsir meginstefi þungarokks þannig að það sé „níhilismi meðal unglinga kryddaður stórum skömmtum af ofbeldiskenndu kynlífi og einstaka sjálfsmorðshugleiðingum.“ a Dr. David Elkind talar um að sumar rokkhljómsveitir séu „svo grófar í máli og hegðun að þær komi óorði á rokktónlistina í heild sinni.“ Sums staðar í heiminum er jafnvel settur merkimiði á plötuumbúðir sem varar er við grófu innihaldi.

Eru þetta aðeins óþarflega harkaleg viðbrögð fólks við tónlist sem það kann ekki að meta, eða er raunveruleg ástæða til að gera sér áhyggjur? Við skulum líta nánar á suma af þeirri rokktónlist sem er núna farin að ná til stórs hluta almennings á hljómplötum, tónlistarmyndböndum í sjónvarpi og tónleikum. Skoðum hvaða áhrif hún hefur á fólk. Síðan skalt þú dæma sjálfur um það hvort þetta afþreyingarefni sé skaðlaus skemmtun eða eitur fyrir hugann. Er þetta tónlist sem þú eða fjölskylda þín ætti að hlusta á eða jafnvel verða fyrir áhrifum af?

[Neðanmáls]

a Níhilismi merkir, samkvæmt Ensk-íslenskri orðabók Arnar og Örlygs „a. róttæk efasemdastefna. b. alger afneitun á öllu hefðbundnu gildismati, trú, lögum, stjórnarfari o.s.frv.“