Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Tónlist nútímans — að forðast hætturnar

Tónlist nútímans — að forðast hætturnar

Tónlist nútímans — að forðast hætturnar

SUMIR skeggræða um kosti og galla þess að ritskoða rokktónlist. Aðrir deila um háskaleg áhrif hennar á unglinga. En ef þú ert kristinn skipta slík atriði minna máli en aðalmálið sem er þetta: Hvernig getur tónlist haft áhrif á samband þitt við Guð?

Biblían, orð Guðs, er handbók kristins manns í lífinu. Hún inniheldur meginreglur varðandi hvaðeina í lífinu, meðal annars skemmtiefni. Leiðbeiningar Biblíunnar vernda þá sem eru hlýðnir gegn því sem er óheilnæmt og skaðlegt. Velþóknun Guðs er enn fremur komin undir hlýðni við orð hans. Þess vegna leiðbeina meginreglurnar í orði Guðs kristnum manni um val á tónlist. (Sálmur 43:3; 119:105; 2. Tímóteusarbréf 3:16, 17) Hvaða leiðbeiningar gefur Biblían þá sem geta hjálpað okkur við val á tónlist?

Nauðsyn jafnvægis

Prédikarinn 7:16 aðvarar: „Ver þú ekki of réttlátur og sýn þig ekki frábærlega vitran — hví vilt þú tortíma sjálfum þér?“ Áður en þú hafnar tónverki sem slæmu skaltu spyrja þig hvort það sé einfaldlega persónulegur smekkur þinn sem þar ræður. Mundu að lag eða tónverk er ekki sjálfkrafa slæmt þótt þér geðjist ekki að því.

Hin hliðin á málinu kemur fram í Prédikaranum 7:17, 18: „Breyttu eigi of óguðlega og ver þú eigi heimskingi — hví vilt þú deyja áður en þinn tími er kominn? Það er gott, að þú sért fastheldinn við þetta, en sleppir þó ekki hendinni af hinu, því að sá sem óttast Guð, kemst hjá því öllu.“

Hvað þá ef kristinn maður hlustar á tónlist sem hvetur til ofbeldis, kynþáttahaturs, siðleysis, satansdýrkunar og sjálfsmorðs? Efesusbréfið 5:3, 4 segir: „En frillulífi og óhreinleiki yfirleitt eða ágirnd á ekki einu sinni að nefnast á nafn meðal yðar. Svo hæfir heilögum. Ekki heldur svívirðilegt hjal eða ósæmandi spé. Þess í stað komi miklu fremur þakkargjörð.“ Já, þeir sem vilja eiga vináttu Jehóva geta ekki valið sér óheilnæmt skemmtiefni. Þeir hugsa ekki með sér að svo framarlega sem þeir vinni ekki sjálfir þessi illu verk sé allt í lagi að hafa þau sem skemmtiefni.

Það er ekki bara textinn sem gerir lag gott eða slæmt frá sjónarmiði Biblíunnar. Hvaða anda hvetur tónlistin til? Lestu Galatabréfið 5:19 til 23 í biblíunni þinni. Hvor upptalningin finnst þér lýsa betur andanum í tónlistinni sem þú hlustar á? Ef tónlistin líkist ‚holdsins verkum,‘ þá er viðhorf Jehóva til hennar nógu skýrt.

Ef kristinn maður reynir að samlaga líf sitt, sem er helgað heilagri þjónustu við Guð, spillandi afþreyingartónlist, þá kemst hann að raun um að þetta tvennt er hreinlega ósamrýmanlegt. Það er sambærilegt við að drekka blöndu af ávaxtasafa og eitri. Ávaxtasafinn kemur ekki í veg fyrir að eitrið drepi þig. Það er augljóst af orðunum í 2. Korintubréfi 6:14-17: „Gangið ekki undir ósamkynja ok með vantrúuðum. Hvað er sameiginlegt með réttlæti og ranglæti? Hvaða samfélag hefur ljós við myrkur? Hver er samhljóðan Krists við Belíar? Hver hlutdeild er trúuðum með vantrúuðum? . . . Þess vegna segir [Jehóva]: Farið burt frá þeim, og skiljið yður frá þeim. Snertið ekki neitt óhreint.“

Þetta eru því undirstöðureglur Biblíunnar sem menn verða að taka mið af ef þeir vilja eiga náið samband við Guð. Ef þú metur meginreglur Biblíunnar mikils skaltu horfa gaumgæfilega og gagnrýnið á tónlistina sem þú hlustar á. Farðu rækilega í gegnum hljómplötu- og myndbandasafnið þitt. Hentu því sem brýtur gegn meginreglum Biblíunnar. Ef þú ert í vafa skaltu henda því til öryggis. Hið sama þarft þú að gera í sambandi við tónleika og lestrarefni — tíndu burt allt sem á ekkert sameiginlegt með réttlætinu.

Tilhneigingin að koma með afsakanir

Ef þú laðast að tónlist sem er á mörkunum eða fer út fyrir þau mörk, sem Biblían mælir með, þá getur þér fundist erfitt að vera hlutlaus í mati þínu. Sumir koma með afsakanir í þeim tilgangi að verja og réttlæta það að þeir skuli láta undan. Ef þú gerir það skaltu hugsa málið. Er rökfærsla þín heilbrigð eða endurspeglar hún einfaldlega tilfinningar þínar til tónlistarinnar? Hugleiddu eftirfarandi rök sumra og taktu eftir hvernig þau reynast bara vera afsakanir þegar grannt er skoðað.

Mér er óhætt að hlusta á þessa hljómsveit af því að meðlimir hennar eru á móti fíkniefnum. En tekur hljómsveitin eins afdráttarlausa afstöðu gegn annars konar vonsku, svo sem saurlifnaði, ofbeldi og virðingarleysi fyrir yfirvöldum? „Lítið súrdeig sýrir allt deigið,“ segir Galatabréfið 5:9. — Samanber Jakobsbréfið 2:10.

Lífið í þessum heimi er svo ranglátt. Getum við nokkuð ásakað þessar hljómsveitir fyrir að lýsa reiði sinni yfir ástandinu í heiminum? Biblían hvetur til réttlátrar reiði gegn hinu illa í þessu heimskerfi en hún bendir á messíasarríkið sem lausnina. — Daníel 2:44; Matteus 6:9, 10.

Hin bjarta von kristins manns er ólík svartsýni margra tónlistarmanna er aðhyllast níhilisma sem lausnina á bágindum mannkynsins. Í rauninni er reiði heimsins eyðileggjandi og dýrsleg og endurspeglar visku þessa heimskerfis. — Rómverjabréfið 12:9; Jakobsbréfið 3:15-18.

Þetta eru færir tónlistarmenn, jafnvel menntaðir í klassískri tónlist. En færni tónlistarmannsins skiptir engu máli þegar meta skal innihald tónlistarinnar eftir meginreglum Biblíunnar. Salómon konungur var fær á mörgum sviðum, meðal annars á sviði tónlistar, en þegar hann féll frá sannri tilbeiðslu segir Biblían: „En [Jehóva] reiddist Salómon fyrir það, að hann sneri hjarta sínu frá [Jehóva].“ Nimrod var líka fær veiðimaður og byggingafrömuður, en samt hafði Guð vanþóknun á honum og félögum hans. Hvers vegna? Vegna þess að Nimrod var „voldugur veiðimaður í andstöðu við Jehóva.“ — 1. Konungabók 11:9; 1. Mósebók 10:8, 9, NW.

Sum af lögum hljómsveitarinnar eru saklaus, meðal annars ýmsar léttar ballöður hennar. Hér er sú hætta á ferðinni að saklaust lag geti komið manni til að kaupa og hlusta á heila hljómplötu sem er kannski að mestu leyti greinilega óheilnæm. Alveg eins og bolli af vatni getur ekki skolað burt moldarhaug getur eitt og eitt saklaust lag á stangli ekki breytt hljómplötu eða hljómsveit sem er á heildina litið spillandi.

Í veruleikanum tilbiðja stjörnurnar ekki Satan eða lifa siðlausu lífi. Þær eru bara að leika á sviðinu. Staðreyndin er eigi að síður sú að tónlistin, sem þær flytja til að skemmta áheyrendum sínum, ber keim af spillingu ef hún er ekki gagnsýrð henni. Kólossubréfið 3:8 leiðbeinir kristnum mönnum um að sækjast ekki eftir reiði og lastmæli sér til skemmtunar heldur að „segja skilið við allt þetta.“ Páll sagði Efesusmönnum að ‚eiga engan hlut [ásamt þeim sem hlýða ekki Guði] í verkum myrkursins, sem ekkert gott hlýst af, heldur fletta miklu fremur ofan af þeim.‘ Er sá sem hefur skemmtun af verkum myrkursins í nokkurri aðstöðu til að fletta ofan af þeim? — Efesusbréfið 5:6, 11.

Ég hlusta ekki á textana. Ég heyri bara lagið. En textinn getur fest sig í undirmeðvitundinni og valdið vandamálum síðar. Þótt við höldum að upplýsingar séu horfnar úr huga okkar má vera að þær séu alls ekki gleymdar. Það er því hættulegt að opna sig fúslega fyrir boðskap sem er í beinni andstöðu við heilræðin í Filippíbréfinu 4:8 þar sem okkur er sagt að einbeita okkur að því sem er hreint, elskuvert og lofsvert.

Mundu líka að „hver sem því vill vera vinur heimsins, hann gjörir sig að óvini Guðs.“ Það kemur til af því að mannheimurinn, sem er fjarlægur Guði, og andi heimsins er runninn undan rótum erkióvinar Jehóva, Satans djöfulsins. Hugsaðu málið. Myndi manni geðjast að því ef konan hans hefði mynd af fyrrum ástmanni sínum uppi á vegg, þótt hún fullyrti að hún bæri engar sérstakar tilfinningar til hans og að myndin væri bara til skrauts? Nei, hann myndi vilja myndina burt úr húsinu og huga hennar. Hvað nú ef við tökum inn á heimili okkar og í hjörtu okkar tónlist sem þjónar tilgangi óvinar Jehóva? Skiptir það í rauninni einhverju máli fyrir Jehóva þótt við segjum: „Ég hef bara áhuga á laginu; ég hlusta ekki á textann“? — Jakobsbréfið 4:4; 1. Korintubréf 10:21, 22.

Vertu einbeittur

Ef þú hefur verið að hlusta á tónlist sem hvetur til rangrar breytni, hver er þá ástæðan í raun og veru? Þú ert kannski ekki sammála hinum röngu hugmyndum en þú ert ef til vill svo sólginn í tónlistina — finnst takturinn svo grípandi — að hún er einfaldlega ómótstæðileg og þú vilt ekki gefa hana upp á bátinn.

En það er ekki alltaf auðvelt að gera það sem er rétt. Það reynir sérstaklega á okkur þegar staðlar Guðs leiðbeina okkur um að sleppa einhverju sem við berum tilfinningar til. Ætlum við að reyna að réttlæta okkur með því að okkar aðstæður séu óvenjulegar og halda áfram að „haltra til beggja hliða“ eða ætlum við að vera einbeitt gegn því sem Jehóva hatar? — 1. Konungabók 18:21.

Óháð þeim persónulegu fórnum, sem við þurfum að færa, verðum við hamingjusömust ef við ákveðum að gera það sem Jehóva þóknast. Það þýðir að við verðum að hætta að snerta það sem er óhreint. Ef við gerum það lofar Jehóva að taka okkur að sér. Já, hann mun flokka okkur með þeim sem njóta hylli hans. — 2. Korintubréf 6:17.

Jehóva ber hag okkar fyrir brjósti. Fyrirmæli hans voru til þess gerð að bæta lífsgæði okkar. Bregstu jákvætt við einlægu kalli hans í Jesaja 48:17, 18: „Ég, [Jehóva] Guð þinn, er sá sem kenni þér að gjöra það sem þér er gagnlegt, sem vísa þér þann veg, er þú skalt ganga. Æ, að þú vildir gefa gaum að boðorðum mínum, þá mundi heill þín verða sem fljót og réttlæti þitt sem bylgjur sjávarins.“

[Rammi á blaðsíðu 10]

Ábyrgð foreldra

Ef þú ert foreldri leggur Biblían þér þá ábyrgð á herðar að kenna börnum þínum að gera greinarmun á góðri og slæmri tónlist. Það þýðir að þú þarft að kynna þér hvað þau hlusta á. Það þýðir að þú verður að vera ákveðinn í því hvaða tónlist þú leyfir og leyfir ekki á heimilinu.

Rökræddu við börnin þín. Forðastu röksemdir sem draga úr trúverðugleika þínum. Yfirlýsingar eins og: „Ég skil ekki hvers vegna þú hlustar á þennan ófögnuð,“ eru líklegar til að fá krakkana til að halda enn fastar í þá tónlist sem þeir hafa valið sér. Það að benda á spillt líferni tónlistarmanns getur líka verið ósannfærandi, einkum ef það endurómar ekki í tónlistinni. Ungur maður sagði: „Ef einhver segir að öll rapptónlist sé slæm finnst mér hann bara ekkert vita hvað hann er að tala um!“

Fræddu því sjálfan þig. Kynntu þér hvert er sjónarmið Guðs í þessum málum. Vottar Jehóva aðstoða þig fúslega með því að láta þér í té biblíurit sem fara nánar ofan í saumana á málunum. Þekktu staðreyndirnar. Láttu koma greinilega fram að það séu meginreglur Biblíunnar sem skipta máli en ekki það að þröngva persónulegum smekk þínum upp á börnin. — Efesusbréfið 6:4.

[Mynd á blaðsíðu 9]

Ef kristinn maður hlustar á spillandi tónlist, getur hann þá með góðri samvisku ráðlagt öðrum að forðast hana?

[Mynd á blaðsíðu 11]

Þú verður hamingjusamastur ef þú losar þig við það sem Jehóva hatar.