Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Þegar allir kynþættir búa saman í friði

Þegar allir kynþættir búa saman í friði

Þegar allir kynþættir búa saman í friði

GUÐ „skóp og af einum allar þjóðir manna og lét þær byggja allt yfirborð jarðar.“ (Postulasagan 17:26) Svo einföld er fullyrðing Biblíunnar um uppruna mannkynsins.

Það sem hún gefur til kynna er að allt mannkynið eigi sér sameiginlegan uppruna óháð því hvar menn búa eða hvaða útlitseinkenni þeir hafa. Hún þýðir einnig að þrátt fyrir allan sýnilegan mun hafi „allar þjóðir manna“ sömu möguleika hvað viðvíkur hæfileikum og greind. Já, í augum Guðs eru menn af sérhverjum kynþætti og þjóðerni jafningjar. — Postulasagan 10:34, 35.

Ef Biblían hefur á réttu að standa er von um að eyða megi öllum fordómum og misrétti sem byggjast á mismun kynþáttanna. Ef Biblían er nákvæm varðandi uppruna mannkynsins er þar að auki rökrétt að sú sama bók geti einnig veitt okkur upplýsingar um hvernig menn geti búið saman í friði.

Hvað sýna þá staðreyndirnar? Renna vísindin stoðum undir frásögn Biblíunnar af uppruna mannsins?

Vitnisburður vísindanna

Bókin The Races of Mankind, eftir mannfræðingana R. Benedict og G. Weltfish, segir: „Saga Biblíunnar um Adam og Evu, föður og móður alls mannkynsins, sagði fyrir mörgum öldum sama sannleikann og vísindin hafa komist að nú á tímum: að allir þjóðflokkar á jörðinni eru ein fjölskylda og eiga sér sameiginlegan uppruna.“ Þessir höfundar benda líka á að „hin margbrotna uppbygging mannslíkamans . . . gæti engan veginn hafa orðið sú sama af tilviljun í öllum mönnum ef þeir ættu sér ekki sameiginlegan uppruna.“

Ritið Race and Biology, eftir L. C. Dunn, prófessor í dýrafræði við Columbia University, segir: „Allir menn tilheyra greinilega einni tegund þar sem þeir eru líkamlega eins í öllum grundvallaratriðum. Allir hópar geta gifts innbyrðis og gera það.“ Síðan heldur þetta rit áfram: „Þó er hver maður einstakur og ólíkur öllum öðrum í minni háttar atriðum. Það er að hluta til vegna ólíks umhverfis sem menn búa við og að hluta til vegna þess að þeir hafa erft mismunandi gen.“

Vitnisburður vísindanna er endanlegur. Líffræðilega séð er ekki hægt að tala um æðri eða lægri, hreina eða mengaða kynþætti. Einkenni eins og hörunds-, hár- eða augnlitur — nokkuð sem sumir kunna að álíta mikilvægt fyrir kynþáttinn — segja ekkert til um greind eða hæfileika einstaklingsins. Hann fékk þá í arf með genunum.

Munurinn á kynþáttunum er í raun hverfandi lítill eins og Hampton L. Carson skrifar í Heredity and Human Life: „Þverstæðan, sem við stöndum frammi fyrir, er sú að það virðist vera ytri munur á milli kynþáttanna en undir þessum mismun eru þeir líkir í grundvallaratriðum.“

Ef raunin er sú að allt mannkynið sé ein stór fjölskylda, hvers vegna eru þá öll þessi hræðilegu kynþáttavandamál fyrir hendi?

Rót vandans

Grundvallarástæðan fyrir kynþáttafordómunum er sú slæma byrjun sem fyrstu mannhjónin gáfu afkomendum sínum. Adam og Eva gerðu af ráðnum hug uppreisn gegn Guði og urðu þannig ófullkomin, gölluð. Afleiðingin varð sú að niðjar Adams erfðu ófullkomleika hans, þessa tilhneigingu til illrar breytni. (Rómverjabréfið 5:12) Þess vegna hneigjast allir menn allt frá fæðingu til sjálfselsku og hroka sem hefur leitt af sér kynþáttaerjur og -átök.

En það er önnur ástæða fyrir kynþáttahatrinu. Þegar Adam og Eva brutust undan yfirvaldi Guðs komust þau undir yfirráð illrar andaveru sem Biblían kallar Satan eða djöfulinn. Undir áhrifum þessarar veru, sem „afvegaleiðir alla heimsbyggðina“ hafa oft verið gerðar úthugsaðar tilraunir til að blekkja fólk varðandi kynþættina. (Opinberunarbókin 12:9; 2. Korintubréf 4:4) Þjóðhverfa — sú hugmynd að manns eigin hópur standi öðrum framar — hefur verið blásin upp og gerð að stóru báli og milljónir manna hafa viljandi eða óviljandi sogast inn í það með hörmulegum afleiðingum.

Í hreinskilni sagt hafa eigingjarnir, ófullkomnir menn undir stjórn Satans útbreitt þær fölsku kenningar um kynþættina sem hafa leitt af sér kynþáttavandamálin.

Til að mannkynið geti sameinast verða þess vegna allir að trúa því að við séum ein stór fjölskylda og að Guð hafi skapað „af einum allar þjóðir manna og [látið] þær byggja allt yfirborð jarðar.“ (Postulasagan 17:26) Til að allir kynþættir fái lifað saman í friði þarf auk þess að fjarlægja áhrif Satans á málefni manna. Mun það gerast? Er nokkur ástæða til að trúa að það muni gerast?

Kynþáttafordómum eytt

Jesús Kristur leiddi í ljós hvernig eyða mætti kynþáttafordómum þegar hann fyrirskipaði fylgjendum sínum að ‚elska hver annan‘ eins og hann hafði elskað þá. (Jóhannes 13:34, 35) Það átti ekki aðeins að elska meðlimi sérstaks kynþáttar eða kynþátta. Nei, ‚elskið allt bræðrafélagið,‘ hvatti einn af lærisveinum Jesú. — 1. Pétursbréf 2:17.

Í hverju birtist þessi kristni kærleikur? Það útskýrir Biblían þegar hún hvetur: „Verið hver yðar fyrri til að veita öðrum virðing.“ (Rómverjabréfið 12:10) Hugleiddu hvað slík þýðir. Sérhver kemur fram við aðra með reisn og virðingu, óháð kynþætti eða þjóðerni, lítur ekki niður á þá heldur ‚metur þá meira en sjálfan sig.‘ (Filippíbréfið 2:3) Þegar slíkur sannur, kristinn kærleiksandi er ríkjandi hverfa kynþáttafordómar út í veður og vind.

Þeir sem hafa verið innrættir kynþáttafordómar þurfa að vísu að leggja óvenjumikið á sig til að losa sig við slíkar hugmyndir sem innblásnar eru af Satan. En það er hægt. Á fyrstu öldinni gátu allir þeir sem komu inn í kristna söfnuðinn notið óviðjafnanlegrar einingar. Páll postuli skrifaði um það: „Hér er enginn Gyðingur né grískur, þræll né frjáls maður, karl né kona. Þér eruð allir eitt í Kristi Jesú.“ (Galatabréfið 3:28) Sannir fylgjendur Krists fengu að búa við ósvikið bræðralag.

Sumir andmæla ef til vill: ‚Slíkt gerist ekki nú á dögum.‘ En það hefur þegar gerst meðal votta Jehóva — samtaka sem í eru meira en fjórar og hálf milljón manna. Að sönnu hafa ekki allir vottar losnað algerlega við fordóma sem þeir lærðu í þessu óguðlega kerfi. Svartur vottur Jehóva í Ameríku tók með raunsæi fram um hvíta trúbræður sína: „Hjá sumum þeirra verð ég vör við leifar af kynþáttahroka og stundum hef ég séð að sumum finnst það svolítið óþægilegt að eiga náinn félagsskap við fólk af öðrum kynþætti.“

Þessi einstaklingur viðurkenndi þó: „Vottar Jehóva hafa í meira mæli en nokkurt annað fólk á jörðinni losað sig við kynþáttafordóma. Þeir leggja sig alla fram við að elska hver annan án tillits til kynþáttar . . . Stundum, þegar ég hef fengið að reyna hinn falslausa kærleika hvítra votta, hef ég orðið svo hrærð að ég hef ekki getað tára bundist.“

En breytir það í raun svo miklu þótt fáeinir — jafnvel þó að þeir skipti milljónum — búi í friði við aðra kynþætti þegar milljónir annarra láta hugmyndir Satans um að einn kynþáttur sé öðrum æðri hafa áhrif á sig? Nei, við erum líka á því að það leysi ekki kynþáttavandamálið. Menn fá ekki leyst það. Aðeins skapari okkar, Jehóva Guð, getur gert það.

Sem betur fer mun Jehóva mjög bráðlega losa jörðina við allt óréttlæti og alla þá sem fullir sjálfselsku stuðla að misrétti og hatri, hvort sem það varðar kynþætti eða eitthvað annað, og hann mun nota til þess ríki sitt í höndum sonar síns, Jesú Krists. (Daníel 2:44; Matteus 6:9, 10) Með fullkominni fræðsluáætlun undir stjórn Krists verða síðan allir kynþættir sameinaðir. Þegar sú menntun heldur áfram munu þeir læra að búa saman í algerri sátt og samlyndi án minnstu menja kynþáttamisréttis. Fyrirheit Guðs mun að lokum rætast: „Hið fyrra er farið. . . . Sjá, ég gjöri alla hluti nýja.“ — Opinberunarbókin 21:4, 5.

Þráir þú að sjá ósvikið bræðralag meðal manna þar sem allir kynþættir búa saman í friði? Ef svo er bjóðum við þér að koma í þann ríkissal sem næstur þér er þar sem vottar Jehóva koma reglulega saman til að nema Biblíuna. Sjáðu sjálfur hvort þeir sýna ekki einlægan kristinn kærleika — fólki af öllum kynþáttum.

[Mynd á blaðsíðu 10]

Bráðlega munu allir kynþættir alls staðar búa saman í friði.