Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Eigum við að láta bólusetja okkur?

Eigum við að láta bólusetja okkur?

Eigum við að láta bólusetja okkur?

„ÞAÐ er kominn tími til að bólusetja barnið,“ segir læknirinn. Orðin hljóma kannski ógnvænlega í eyrum lítils barns en foreldrarnir brosa yfirleitt hughreystandi og kinka kolli.

Upp á síðkastið hafa hins vegar átt sér stað nokkrar umræður um hinar venjubundnu bólusetningar barna og fullorðinna. Hvaða bólusetningar eru í raun nauðsynlegar? Hvað um aukaverkanir? Er blóð á einhvern hátt tengt framleiðslu bóluefna?

Eðlilegt er að umhyggjusamir kristnir menn hugleiði þessar spurningar. Svörin geta haft bein áhrif á heilsu og framtíð barna þinna og sjálfs þín.

Forsaga

Á sjötta áratugnum kom á markað áhrifaríkt bóluefni sem batt að heita má enda á ótta manna við mænusótt í flestum löndum heims. Árið 1980 var því lýst yfir að búið væri með bólusetningarherferð að útrýma bólusóttarplágunni um heim allan. Það virtist staðfesta máltækið: „Betra er að byrgja brunninn áður en barnið er dottið ofan í.“

Markvissar ónæmisaðgerðir hafa almennt séð reynst árangursríkar til að halda mörgum sjúkdómum í skefjum — stífkrampa, mænusótt, barnaveiki og kíghósta svo fáeinir séu nefndir. Enn fremur hefur það sýnt sig að þegar slakað hefur verið á við ónæmisaðgerðir einhverra orsaka vegna, hafa sjúkdómarnir komið upp aftur. Það gerðist í einu landi í sambandi við kíghósta.

Hvað gera bólusetningar? Í meginatriðum geta þær á tvo vegu styrkt varnir líkamans gegn sjúkdómsvöldum sem geta verið meðal annars gerlar og veirur. Það má gera með svokallaðri virkri eða hvetjandi ónæmisaðgerð. Þá inniheldur bóluefnið veiklaða eða dauða sýkla (eða eiturefni þeirra) sem hefur verið breytt þannig að þeir eru hættulausir líkamanum. Varnarbúnaður líkamans byrjar þá að mynda sameindir sem kallast mótefni er geta barist gegn hinum raunverulega sýkli, ef hann skyldi koma á vettvang. Bóluefnið getur þannig innihaldið annaðhvort eiturefni sýkilsins, sem búið er að svipta eiturvirkni (kallað afeitur), eða lifandi, veiklaða sýkla eða dauða.

Eins og þú getur ímyndað þér mynda þessar sprautur ekki tafarlaust ónæmi. Það tekur líkamann nokkurn tíma að mynda mótefni sem vernda hann. Allar barnasprauturnar eru hvetjandi ónæmisaðgerð af þessu tagi og eru almennt kallaðar bólusetningar. Með einni undantekningu (sem fjallað er um síðar) er ekki notað blóð á neinu framleiðslustigi þeirra.

Hin aðferðin er kölluð óvirk eða skýlandi ónæmisaðgerð. Henni er yfirleitt aðeins beitt á fólk sem hefur fengið alvarlegan smitsjúkdóm, svo sem hundaæði. Í því tilviki er enginn tími fyrir líkamann til að byggja upp sitt eigið ónæmi. Þá er hægt að gefa sprautu með tilbúnum mótefnum einhvers annars til að berjast gegn sýklunum sem einstaklingurinn á í höggi við. Mótefni, sem unnin eru úr blóði ónæmra manna eða dýra, eru ýmist kölluð gammaglóbúlín, ónæmisglóbúlín, móteitur eða bara mótefni. Þessum aðfengnu ónæmisefnum er ætlað að veita líkamanum tafarlausa en aðeins tímabundna hjálp til að ráða niðurlögum innrásarsýkils. Líkaminn lítur á mótefnin, sem hann hefur fengið að láni, sem framandi prótín og losar sig fljótlega við þau.

Ætti ég að láta bólusetja barnið mitt?

Þótt menn hafi þessa vitneskju að bakhjarli spyrja margir eigi að síður: ‚Gegn hverju ætti að bólusetja barnið mitt?‘ Í flestum heimshlutum, þar sem auðvelt er að koma bólusetningum við, hafa reglubundnar bólusetningar valdið því að stórlega hefur dregið úr tíðni þeirra barnasjúkdóma sem bólusett er gegn.

Um nokkurra ára skeið hafa heilbrigðisyfirvöld um heim allan mælt með að bólusett sé reglulega gegn barnaveiki, kíghósta og stífkrampa. Yfirleitt er bólusett gegn þessu þrennu saman — kallað DPT — og síðan gefnar þrjár örvunarsprautur með að minnsta kosti tveggja mánaða millibili. Önnur ónæmingarsprauta — MMR — veitir vernd gegn mislingum, hettusótt og rauðum hundum og er gefin börnum eftir eins árs aldur. Víða eru einnig gefnir fjórir skammtar af inntökulyfi gegn mænusótt (OPV) eftir svipuðu kerfi og DPT. a

Víða um lönd er skylt að láta börn gangast undir þessar bólusetningar, þótt örvunarsprauturnar geti verið mismargar. Á síðustu árum hefur sums staðar verið mælt með örvunarbólusetningum gegn mislingum þar sem mislingafaraldrar hafa brotist út. Hægt er að ráðfæra sig við lækni eða heilsugæslustöð um það.

Auk þessa er til bóluefni gegn lungnabólgu (Pneumovax). Það virðist veita börnum og fullorðnum, sem hættir af einhverjum orsökum til að fá vissar tegundir lungnabólgu, ævilangt ónæmi.

Annað bóluefni fyrir börn er kallað Hib-bóluefni. Það er gefið sem vörn gegn algengum sýkingum í börnum af völdum flensublóðfíkils (Haemophilus influenza). Þessi sýkill veldur nokkrum sjúkdómum í börnum og er sérstaklega vert að nefna alvarlega tegund heilahimnubólgu (mengisbólgu). Notkun þessa bóluefnis virðist vera tiltölulega áhættulítil og er í vaxandi mæli mælt með að það sé gefið sem hluti af bólusetningum barna.

Nefna má að enn er engin reglubundin bólusetning gegn hlaupabólu, og bólusetning gegn bólusótt er ekki lengur fáanleg því að, eins og nefnt var fyrr, hefur þessum lífshættulega sjúkdómi verið útrýmt með bólusetningarherferð um heim allan.

Hvað um aukaverkanir?

Hvað um aukaverkanir af völdum bólusetninga? Aukaverkanir flestra bólusetninga eru, að frátöldum skyndilegum gráti barnsins þegar það er sprautað, litlar og skammlífar — í mesta lagi hiti í einn sólarhring eða þar um bil. Eigi að síður hafa margir foreldrar áhyggjur af áhættunni samfara bólusetningunum. Í könnun meðal foreldra á áhyggjum þeirra af heilsu barna sinna kom í ljós að 57 af hundraði foreldranna óttuðust aukaverkanir af bólusetningunum.

Upp á síðkastið hefur mikið verið rætt um einn efnisþátt DPT-bóluefnisins, það er að segja þann sem veitir ónæmi gegn kíghósta. Svo árangursríkt hefur þetta bóluefni reynst að mjög hefur dregið úr þessum sjúkdómi sem menn óttuðust áður — úr 200.000 tilfellum á ári í einu landi áður en farið var að nota bóluefnið, í 2000 á ári eftir víðtæka notkun þess. Engu að síður hafa komið fram alvarlegar aukaverkanir — krampaköst og jafnvel heilaskemmdir — með um það bil 1 af hverjum 100.000 skömmtum sem eru gefnir.

Enda þótt þessar aukaverkanir séu afar sjaldgæfar valda þær nokkrum áhyggjum hjá mörgum foreldrum sem gera sér ljóst að þeir eiga um lítið annað að velja en að leyfa að börn þeirra fái þessar sprautur, ef þess er krafist til að barnið fái að ganga í skóla. Kíghósti er að vísu sjaldgæfur sjúkdómur en hann getur valdið miklu tjóni þegar faraldur brýst út og sérfræðingar telja því að á heildina litið sé „bóluefnið miklu hættuminna en sjúkdómurinn.“ Þessir sérfræðingar ráðleggja að bólusetningin fari fram nema „fyrri skammtur hafi valdið rykkjakrampa, heilabólgu, staðbundnum taugasjúkdómseinkennum eða yfirliði. Eins ættu ungbörn sem eru ‚óhóflega syfjuð, gráta mikið (stöðugt í 3 stundir eða lengur) eða fá yfir 40,5° stiga hita‘ ekki að fá fleiri skammta af bóluefninu.“ b

Víða um lönd er besta lausnin sú að nota bóluefni sem er ekki gert úr frumum, eins og það sem nú er notað í Japan og miklar vonir eru bundnar við. Þetta nýja og að því er virðist öruggara bóluefni er nú að verða fáanlegt í öðrum löndum einnig.

Aðrar bólusetningar barna hafa aftur og aftur reynst bæði áhrifaríkar og tiltölulega hættulitlar.

Hvað um bólusetningar fullorðinna?

Eftir að fullorðinsaldri er náð þarf aðeins að hugsa um fáeinar, hvetjandi bólusetningar. Ef allt væri eins og best yrði á kosið ættu allir fullorðnir að vera ónæmir fyrir mislingum, hettusótt og rauðum hundum, annaðhvort af því að þeir hafa fengið þessa sjúkdóma eða verið bólusettir sem börn. Ef vafi leikur á slíku ónæmi gæti læknir mælt með MMR-sprautu.

Talið er skynsamlegt að fá sprautu gegn stífkrampa á tíu ára fresti. Aldraðir og þeir sem eru með langvinna sjúkdóma vilja ef til vill ráðfæra sig við lækni um árlega bólusetningu gegn inflúensu. Þeir sem ferðast til vissra heimshluta ættu að íhuga bólusetningu gegn sjúkdómum svo sem gulusótt, kóleru, miltisbrandi, taugaveiki eða svartadauða ef slíkir sjúkdómar eru landlægir þar sem þeir hyggjast fara.

Rétt er að nefna enn eitt hvetjandi bóluefni af því að það er hið eina sem er framleitt úr blóði. Þetta er bóluefni gegn sermigulu (lifrarbólgu-B) sem nefnist Heptavax-B. Þetta bóluefni er ætlað ákveðnum hópum, svo sem heilbrigðisstarfsmönnum sem gætu vegna óhapps komist í snertingu við blóð eða blóðafurðir úr sjúklingum með sermigulu. Þótt bóluefnið sé talið mikið framfaraskref eru ekki allir sáttir við það vegna þess hvernig það er framleitt.

Í meginatriðum er safnað saman blóði valinna sermigulubera, það er meðhöndlað til að drepa allar veirur og síðan er unninn úr því ákveðinn mótefnisvaki gegn sermigulu. Þessi hreinsaði, sljóvgaði mótefnisvaki er notaður sem bóluefni. Margir neita hins vegar að þiggja bóluefnið af ótta við að taka við blóðafurð úr sýktu fólki, svo sem fólki sem hefur verið fjöllynt í ástamálum. Enn fremur eru sumir kristnir menn samvisku sinnar vegna mótfallnir bóluefninu af því að það er unnið úr blóði annarra. c

Þeir sem hafa andúð á þessu bóluefni gegn sermigulu geta andað léttara því að komið er á markað ólíkt en jafnöflugt bóluefni gegn sermigulu. Þetta bóluefni er framleitt með erfðatækni í gersveppum og mannablóð kemur hvergi nærri. Ef þú ert heilbrigðisstarfsmaður eða telur þig af einhverjum öðrum orsökum þurfa að fá bólusetningu gegn sermigulu getur þú rætt það við lækninn þinn.

Blóð við framleiðslu bóluefna

Hér komum við að mikilvægu máli í augum kristinna manna sem taka bann Biblíunnar gegn misnotkun blóðs alvarlega. (Postulasagan 15:28, 29) Eru einhver önnur bóluefni framleidd úr blóði?

Almenna reglan er sú, ef Heptavax-B er undanskilið, að hvetjandi bóluefni eru ekki framleidd úr blóði. Það á til dæmis við um öll bóluefnin sem börnum eru gefin.

Þegar um skýlandi ónæmisaðgerð er að ræða er annað uppi á teningnum. Gera má ráð fyrir því, þegar manni er ráðlagt að fá sprautu eftir að hafa stigið á ryðgaðan nagla eða verið bitinn af hundi, að um sé að ræða mótefni unnin úr blóði (nema einungis sé um að ræða reglubundnar örvunarsprautur). Hið sama gildir um Rh-ónæmisglóbúlín (Gamulin) sem er oft mælt með að Rh-neikvæðar mæður fái ef þær einhverra orsaka vegna komast í snertingu við Rh-jákvætt blóð, svo sem við það að ala Rh-jákvætt barn.

Hvaða afstöðu á samviskusamur kristinn maður að taka gagnvart slíkum skýlandi ónæmisaðgerðum, þar eð þær tengjast spurningunni um blóðið? Fyrri greinar í þessu tímariti og förunaut þess, Varðturninum, hafa verið samhljóða í eftirfarandi afstöðu: Það er komið undir samvisku hvers og eins, sem hefur verið þjálfuð með hjálp Biblíunnar, að ákveða hvort hann þiggur slíka meðferð handa sér og fjölskyldu sinni. d

Eigum við að láta bólusetja?

Kristnir menn bera djúpa virðingu fyrir lífinu og þrá í einlægni að gera það sem er best fyrir heilsu fjölskyldunnar. Þú verður að gera það upp við samvisku þína hvort þú lætur bólusetja börnin þín eða ekki. — Galatabréfið 6:5.

Einn sérfræðingur dregur stöðuna þannig saman: „Það ætti að upplýsa foreldra um sérhverja, fyrirhugaða læknisfræðilega íhlutun handa barni þeirra. Þeir eru ekki aðeins lagalegir forráðamenn barna sinna. Þeir bera ábyrgð á velferð og vernd þeirra á því æviskeiði sem þau þarfnast umsjónar.“ Vottar Jehóva taka þessa ábyrgð mjög alvarlega í sambandi við bólusetningar sem og á öðrum sviðum. — Greinarhöfundur er læknir.

[Neðanmáls]

a Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin mælir nú með reglulegum bólusetningum gegn sermigulu (lifrarbólgu-B) handa ungbörnum víða um heim.

b Ekki virðist samband milli aukaverkana og þess að krampaköst séu algeng í fjölskyldunni, og þótt öndunarfærasýkingar virðist ekki gera barn næmara fyrir aukaverkunum má telja skynsamlegt að bíða með að sprauta barnið jafnvel ef það er aðeins lítillega lasið.

c Sjá „Spurningar fá lesendum“ í Varðturninum 1. febrúar 1994.

d Sjá Varðturninn (enska útgáfu), 15. júní 1978, bls. 30-1.

[Rammi á blaðsíðu 27]

Ónæmisefni sem eru ekki unnin úr blóði

Barnasprautur (DPT, OPV, MMR)

Hib-bóluefni

Pneumovax

Afeitur

Bóluefni gegn inflúensu

Recombivax-HB

Ónæmisefni unnin úr blóði

Heptavax-B

Gamulin

Móteitur

Mótefni (gegn kóngulóa- og slöngueitri)

Ónæmisglóbúlín (gegn ýmsum sjúkdómum)

Gammaglóbúlín

Ónæmissermi (til dæmis gegn hundaæði)