Horft á heiminn
Horft á heiminn
Evrópa vöruð við þjóðernisátökum
„Fólk getur hæglega breyst í vélmenni sem hata og drepa,“ aðvarar José-María Mendiluce, sérlegur fulltrúi flóttamannafulltrúa Sameinuðu þjóðanna. Mendiluce, sem hafði umsjón með flóttamannahjálp Sameinuðu þjóðanna í fyrrverandi Júgóslavíu í 19 mánuði, sagði að það væru „stórhættuleg mistök“ að líta á íbúa Balkanskaga sem „verulega ólíka öðrum Evrópubúum,“ og hann benti á að svipuð þjóðernisátök gætu hæglega brotist út í öðrum Evrópuríkjum. „Það þarf ekki annað en efnahagskreppu og fáeina tortryggna stjórnmálamenn sem skella skuldinni á innflytjendur eða fátæklinga eða fólk sem er á einhvern hátt frábrugðið öðrum,“ sagði hann. Samkvæmt frétt í The New York Times gat Mendiluce þess hve leiðtogar ættu auðvelt með að vekja upp hatur „með því að breiða út lygar í fjölmiðlum og æsa til illinda,“ og hann fullyrti að þeir sem undirrituðu friðarsamninga hafi ekki breytt hátterni sínu heldur haldið áfram að „hata og drepa.“
‚Alvarlegt heilbrigðisvandamál árið 2000‘
Franskir embættismenn á sviði heilbrigðismála spá því að „langvinn lifrarbólga af óþekktum uppruna verði orðin alvarlegt heilbrigðisvandamál í Frakklandi árið 2000.“ Úrdráttur úr læknaskýrslu, sem birtist í Parísarblaðinu Le Monde, sagði að aðaleinkenni vandamálsins væru tvö: hinn „veigamikli þáttur blóðgjafa í útbreiðslu veirunnar“ og hinn „sérstaklega herskái vöxtur [veirunnar] í sinni langvinnu mynd.“ Talið er að á bilinu 500.000 til 2.000.000 manna í Frakklandi séu nú smitaðir af veirunni og að 62 af hundraði þeirra muni líklega fá langvinna lifrarbólgu og eigi á hættu skorpulifur eða krabbamein innan 10 til 30 ára. Læknar segja að enda þótt flestir, sem eru sýktir af lifrarbólgu af óþekktum uppruna, séu einkennalausir séu horfurnar hjá þeim jafnslæmar.
Stattu beinn
Ef þú ert hokinn líður bakið fyrir. Samkvæmt frétt í dagblaðinu International Herald Tribune veldur röng líkamsstaða 15 sinnum meiri þrýstingi á neðri hluta baksins en réttstaða. Ef þú hokrar verður öndunin einnig grynnri sem þýðir minna súrefni til að næra líkamann. Það getur smám saman dregið úr þér mátt og afleiðingarnar verða verkir og sársauki, sérstaklega í hálsi og baki. Það getur líka látið þig líta út fyrir að vera eldri, feitari og með minna sjálfsöryggi en standir þú beinn. Í fréttinni segir að rétt líkamsstaða sé þannig að eyrnasneplar, axlir, miðjar mjaðmir, hnéskeljar og ökklabein eigi að mynda lóðrétta línu. Ekki er þó átt við stífa hermannastöðu með hnén þétt saman og höfuð og herðar keyrð aftur. Það reynir of mikið á hrygginn. Sérfræðingar segja að röng líkamsstaða sé venjulega slæmur ávani sem hægt sé að lagfæra.
Tré eða plast
Ætla mætti að það sé hreinlegra að brytja hrátt kjöt og alifuglakjöt á skurðbretti úr plasti en tré. Nýleg rannsókn sýndi hið gagnstæða. Samkvæmt Berkeley Wellness Letter menguðu tveir örverufræðingar við Wisconsinháskóla í Bandaríkjunum skurðbretti, bæði úr tré og plasti, viljandi með bakteríum sem valda matareitrun, svo sem salmónellu. Svo furðulegt sem það er þrifust bakteríurnar á plastbrettunum en drápust aftur á móti eða urðu skaðlausar á trébrettunum — í sumum tilfellum innan aðeins þriggja mínútna. Þegar brettin voru menguð og geymd næturlangt voru trébrettin orðin bakteríulaus að morgni en það úði og grúði af bakteríum á plastbrettunum. Að þessu leyti reyndist gamalt tré áhrifaríkara en nýtt. Það reyndist líka erfiðara en búist var við að hreinsa plastið, sérstaklega ef yfirborðið var rispað. Áháð því hvernig skurðbretti er notað er þýðingarmikið að þvo það upp úr heitu vatni og sápu eftir að hafa skorið á því hrátt kjöt.
Vottum Jehóva veitt lagaleg viðurkenning í Mexíkó
Þann 7. maí síðastliðinn hlutu vottar Jehóva lagalega viðurkenningu sem trúfélag í Mexíkó. Aðstoðarinnanríkisráðherra afhenti þeim skjal, sem tryggir slíka viðurkenningu, þann 31. maí. Þar með var enn eitt skref stigið í átt til trúfrelsis í Mexíkó. Það var 1. apríl 1989 sem vottar Jehóva höfðu í fyrsta sinn frelsi til að bera fram bænir á safnaðarsamkomum sínum og nota Biblíuna
í þjónustu sinni hús úr húsi. Yfir 370.000 vottar eru í Mexíkó. Mexíkóstjórn breytti lögum sínum í hittifyrra og hóf að veita trúarlegum samtökum í landinu lagalega viðurkenningu.Rykmaurar
„Enginn veit með vissu hvernig þeir komast þangað, en rykmaura er að finna á næstum því hverju heimili,“ segir tímaritið Science News. Þessir hryggleysingjar, sem eru ósýnilegir mannsauganu, nærast á húðflögum sem falla stöðugt af mannfólkinu. Þessi kvikindi er að finna í rúmfötum, gólfteppum og bólstruðum húsgögnum. Hve mörg eru þau? Rannsóknarmenn, vopnaðir ryksugu og smásjá, rannsökuðu rykið á tveimur heimilum. Sófi á öðru þeirra gaf af sér 7454 maura í grammi af ryki og þar að auki 2361 maur á hvert rykgramm í teppinu undir sófanum.
Mannréttindi merkingarlaus
Mannréttindadeild Sameinuðu þjóðanna í Genf í Sviss áætlar að „helmingur mannkyns sé fórnarlamb alvarlegra mannréttindabrota,“ segir þýska dagblaðið Süddeutsche Zeitung. Þessi brot eru allt frá pyndingum, nauðgunum og aftökum til þrælkunar, hungurs og misnotkunar á börnum. Mannréttindadeildin áætlar að á bilinu 150 til 200 milljónum barna sé þröngvað í þrælkunarvinnu í yfir 50 löndum. Þar að auki eru milljónir manna fórnarlömb kynþáttafordóma og fjandskapar gegn útlendingum. „Í umhverfi fátæktar og skorts eru mannréttindi merkingarlaus,“ sagði Ibrahime Fall, yfirmaður deildarinnar. „Við höfum að vísu sent mann til tunglsins, en heimurinn sem við búum í er enn erfiður, hættulegur og oft á tíðum banvænn.“
Holur eru smitandi
„Tannskemmdir eru smitandi,“ segir í frétt frá Agence France-Presse fréttaþjónustunni um rannsókn sem svissneskur tannlæknaskóli og Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin stóðu fyrir. Rannsóknin leiddi í ljós að Streptococcus mutans, gerill sem veldur tannskemmdum, berst oft milli munna fjölskyldumeðlima, svo sem þegar foreldrar nota sömu skeið og barn þeirra eða prófa pela ungbarns áður en því er gefið. Áhættan vex í hlutfalli við gerlafjölda í munnvatni einstaklingsins. Gerillinn breytir sykri í sýru sem ræðst á tennurnar, og virðist dafna sérstaklega vel í munni barna á aldrinum eins til fjögurra ára — þegar tennur þeirra eru sérlega viðkvæmar fyrir skemmdum.
Verra en svartidauði
„Á fjórtándu öld varð svartidauði um það bil 25 milljónum manna, eða fjórða hverjum manni, að bana í Evrópu“ að sögn tímaritsins American Health. „Nýjar upplýsingar benda til þess að haldi menn áfram að reykja með uppteknum hætti muni sígarettan drepa 10 sinnum fleiri: að minnsta kosti 250 milljónir manna, eða fimmta hvern núlifandi mann í iðnþróuðu ríkjunum.“ Niðurstöðurnar, sem eru byggðar á mjög umfangsmikilli rannsókn með yfir einni milljón þátttakenda, sýndu að reykingar eru jafnvel enn banvænni en áður var haldið. „Við héldum að um það bil fjórði hver reykingarmaður dæi af völdum ávanans,“ sagði Richard Peto, prófessor við Oxfordháskóla. „En nú vitum við að í það minnsta þriðjungur — og trúlega talsvert fleiri — allra reykingarmanna mun deyja af völdum reykinga. Þær hafa mun meiri áhrif en nokkuð annað á dánartíðni þjóðar.“ Af hinum 250 milljónum, sem áætlað er að deyi, mun yfir helmingur vera fólk á aldursbilinu 35 til 69 ára sem hefur stytt líf sitt að meðaltali um 23 ár með því að reykja.
Barnamorðingjar
Afríska dagblaðið Lesotho Today skýrði frá því að þrír sjúkdómar valdi nálægt tveimur þriðju af 13 milljónum dauðsfalla meðal barna í þróunarlöndunum ár hvert. Þessir sjúkdómar eru lungnabólga, niðurgangur og mislingar. Greinin bætir því við að hægt væri að meðhöndla eða koma í veg fyrir slíka sjúkdóma með aðferðum sem eru aðgengilegar og á viðráðanlegu verði. Til dæmis leggur lungnabólga, stærsti barnamorðinginn, að velli 3,5 milljónir barna á ári hverju. Í flestum tilfellum er hún af völdum bakteríu og er hægt að hafa hemil á henni með fimm daga fúkalyfjameðferð sem kostar innan við 20 krónur. Niðurgangur tekur þrjár milljónir ungra mannslífa á ári. Hægt væri að koma í veg fyrir um helming þessara dauðsfalla ef foreldrar gæfu börnunum sykrað saltvatn sem kostar lítið. Mislingar valda dauða 800.000 barna á ári. Fréttagreinin bendir á að hægt sé að koma í veg fyrir það með bólusetningu. Mislingabóluefnið kostar ríflega 30 krónur á barn.