Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Hvað er kynþáttur?

Hvað er kynþáttur?

Hvað er kynþáttur?

KYNÞÁTTUR! Við hvað tengir þú þetta orð? Sumir tengja það misrétti og kúgun. Fyrir aðrar merkir það hatur, óeirðir og jafnvel morð.

Kynþáttahatur hefur leitt af sér ósegjanlegar þjáningar og eyðileggingu — frá kynþáttaóeirðum í Bandaríkjunum til kynþáttaaðskilnaðar í Suður-Afríku, frá stríðum milli þjóðabrota í Austur-Evrópu til átaka á stöðum eins og Srí Lanka og Pakistan.

En hvers vegna er þetta þannig? Hvers vegna koma kynþáttamálin slíku róti á hugi manna jafnvel í löndum þar sem fólk virðist vera umburðarlynt gagnvart næstum öllu öðru? Hvað gerir kynþáttamálin að kveikju svona mikils uppnáms og óréttlætis? Já, hreint út sagt, hvers vegna getur fólk af mismunandi kynþáttum ekki komið sér saman?

Til þess að svara þessu þurfum við að vita meira en hvað kynþáttur er og í hverju mismunur kynþáttanna felst. Við þurfum einnig að skilja þátt mannkynssögunnar í núverandi sambandi kynþáttanna. Fyrst skulum við þó líta á það sem vísindin hafa að segja um málið.

Erfitt að flokka menn

Fólk, sem býr í mismunandi heimshlutum, hefur mismunandi útlitseinkenni, svo sem hörundslit, andlitsfall, hárgerð og svo framvegis. Slíkur líkamlegur munur greinir einn kynþátt frá öðrum.

Þegar almennt er talað um hvíta menn og svarta er litið á hörundslitinn. En menn tala líka um Suður-Ameríkumenn, Asíumenn, Skandínava, Gyðinga og Rússa. Síðarnefnda flokkunin vísar meira til landfræðilegs, þjóðernislegs eða menningarlegs mismunar en líkamlegra einkenna. Í hugum flestra er það því ekki aðeins líkamlegt útlit sem ákveður kynþáttinn heldur einnig siðvenjur, tungumál, menning, trúarbrögð og þjóðerni.

Það er athyglisvert að sumir sem skrifa um þetta mál eru hikandi við að nota orðið „kynþáttur“ yfirleitt. Þeir setja það innan gæsalappa í hvert sinn. Aðrir forðast orðið algerlega og nota í staðinn hugtök eins og „þjóðarbrot,“ „hópar,“ „íbúar“ og „afbrigði.“ Hvers vegna? Vegna þess að orðið „kynþáttur“ („rasi“), í almennri merkingu þess, hefur það marga undirtóna og gefur svo margt í skyn að notkun þess, án viðhlítandi skýringar, veldur oft ruglingi.

Líffræðingar og mannfræðingar skilgreina kynþátt oft einfaldlega sem „undirflokk tegundar sem erfir líkamleg einkenni er aðgreina hann frá öðrum hópum tegundarinnar.“ Spurningin er samt sem áður hvaða einkenni megi nota til að lýsa mismunandi flokkum innan þeirrar tegundar sem maðurinn er?

Þættir eins og hörundslitur, hárlitur og -gerð, lögun augna og nefs, heilastærð og blóðflokkur hafa verið notaðir til að flokka hin ýmsu afbrigði mannsins en enginn þeirra hefur reynst algerlega fullnægjandi. Ástæðan er sú að það finnst enginn náttúrlegur hópur manna þar sem allir eru eins að þessu leyti.

Athugum hörundslitinn. Flestir halda að auðvelt sé að skipta mannkyninu í fimm kynþætti eftir hörundslit: hvíta, svarta, brúna, gula og rauða. Menn sjá hvíta kynstofninn almennt fyrir sér sem ljósan á hörund, ljóshærðan og bláeygðan. Í raunveruleikanum er þó að finna mikla fjölbreytni í háralit, augnalit og hörundslit meðal meðlima hins svokallaða hvíta kynstofns. Í bókinni The Human Species er sagt: „Í Evrópu er ekki aðeins nú á tímum enginn íbúahópur þar sem flestir eru sömu gerðar; slíkir hópar hafa aldrei verið til.“

Það er vissulega erfitt að skipta mannkyninu niður í flokka, eins og bókin The Kinds of Mankind tekur fram: „Allt sem virðist hægt að segja er þetta: Þó að menn líti ekki allir eins út og þó að við sjáum greinilega margvíslegan mismun á fólki eru vísindamenn enn ekki sammála um hversu marga flokka mannkynið skiptist í. Þeir hafa jafnvel ekki ákveðið út frá hverju við getum gengið við flokkun fólks í einn kynþátt eða annan. Sumum þeirra er skapi næst að gefast einfaldlega upp og segja að verkefnið sé of erfitt — á því sé engin lausn!“

Þetta sýnist kannski allt svolítið ruglingslegt. Vísindamenn virðist eiga í litlum vanda með að skipa dýrum og jurtum niður í flokka, tegundir og undirtegundir. Hvers vegna eiga þeir þá í slíkum erfiðleikum með að skipta mannkyninu niður í kynþætti?

„Hættulegasta goðsögn mannsins“

Að sögn mannfræðingsins Ashley Montagu álíta margir að „tengsl séu á milli líkamlegra og andlegra eiginleika, að samfara líkamlegum mismun sé frekar áberandi munur á andlegum hæfileikum, og að sá munur sé mælanlegur með greindarprófum og menningarafrekum þessara mannfélaga.“

Þannig trúa margir að vissir kynþættir standi öðrum framar vitsmunalega af því að líkamlegt útlit kynþáttanna er mismunandi. Montagu kallar síkan hugsanagang hins vegar ‚hættulegustu goðsögn mannsins.‘ Aðrir sérfræðingar eru honum sammála.

Morton Klass og Hal Hellman útskýra í bókinni The Kinds of Mankind: „Einstaklingar eru ólíkir; í öllum mannfélögum má finna snillinga og fávita. En eftir allar rannsóknirnar hafa ábyrgir vísindamenn ekki komið auga á sönnunargögn sem þeir geta fallist á að sýni erfðafræðilegan mun á greind og hæfni mannfélaga.“

Hvers vegna halda þó svo margir áfram að trúa því að yfirborðskenndur ytri munur þýði að grundvallarmunur sé á kynþáttunum? Hvernig urðu kynþáttamálin að slíku hitamáli? Við munum taka það til athugunar í næstu grein.