Hvað er orðið um siðferði?
Hvað er orðið um siðferði?
OPINBERIR embættismenn. Frambjóðendur. Trúarleiðtogar. Við væntum þess að hegðun slíkra manna sé til fyrirmyndar. Á síðustu árum hafa menn úr þeirra röðum hins vegar leikið aðalhlutverk í alvarlegum hneykslismálum. Misferli þeirra hefur spannað allan spillingartónstigann — allt frá hórdómi og blygðunarlausri lygi upp í fjárglæfra og fjárdrátt.
Bókin The Death of Ethics in America segir í harmatón: „Meðan þjóðin hefur verið upptekin af banvænum sjúkdómi . . . eyðni, virðist annars konar eyðni [heiðarleikaeyðni] hafa breiðst út eins og farsótt. Hins vegar hefur ekki verið lögð jafnrík áhersla á að finna lækningu á honum.“ Tímaritið Time fullyrðir að Bandaríkin „velti sér í spillingarfeni.“
Spillingarfenið er varla einskorðað við Bandaríkin. Á síðari tímum hafa hneykslismál, þar sem frammámenn hafa komið við sögu, sett svip sinn á Grikkland, Frakkland, Indland, Indónesíu, Ísrael, Japan, Kína og Þýskaland. Og það ætti ekki að koma neinum á óvart að siðferðilega rangt framferði forystumanna þjóðfélagsins sé einfaldlega spegilmynd þjóðfélagsins almennt. Forsætisráðherra Taílands líkti spillingunni þar í landi við „krabbamein.“ Hann bætti við að allt þjóðfélagið þjáðist af meini sem ætti sér rætur í græðgi og brengluðu gildismati þjóðfélagsins.
Fólk spyr eðlilega: ‚Hvað býr að baki þessu hrakandi siðferði um heim allan? Og það sem þýðingarmeira er, hvert stefnir þetta allt saman?‘
Þegar ‚þjófnaður er ekki þjófnaður‘
Í Columbus í Ohio í Bandaríkjunum hrökk upp afturhurð brynvarins flutningabíls og tveir peningapokar duttu út. Talið er að tvær milljónir dollara hafi dreifst fyrir vindinum um þjóðveginn þar sem ökumenn hentust í tugatali út úr bílum sínum til að troða vasa og veski full af seðlum. Sumir ökumenn kölluðu aðra á vettvang gegnum farstöðvar til að taka þátt í hnuplinu.
Sárbeiðni yfirvalda og 10 prósent fundarlaun fyrir hverja þá peninga, sem menn kæmu með, skiluðu nánast engum árangri. Flestir kusu að fylgja reglunni um að „sá eigi fund sem finnur.“ Ekki tókst að endurheimta nema lítið brot af peningunum. Maður einn réttlætti jafnvel þjófnaðinn með því að peningarnir væru „gjöf frá Guði.“ Atvik sem þetta eru þó ekki einangrað fyrirbæri. Vegfarendur sýndu sams konar ágirnd þegar peningar féllu úr brynvörðum bílum í San Francisco í Kaliforníu og í Tórontó í Kanada.
Það er vissulega uggvekjandi að fólk, sem er að jafnaði heiðarlegt og ráðvant, skuli ekki víla fyrir sér að stela ef svo ber undir. Að minnsta kosti gefur það til kynna hve brenglað siðferðismat almennings er orðið. Thomas Pogge, aðstoðarprófessor í heimspeki við Columbia University í New York, heldur því fram að enda þótt flestir telji það siðlaust að stela frá einstaklingi finnist þeim það einhvern veginn miklu síður ámælisvert að stela frá stofnun.
Stefnuleysi í kynferðismálum
Brenglað viðhorf til siðferðis sýnir sig einnig í kynferðismálum. Nýleg könnun leiddi í ljós að fólk er furðulega umburðarlynt við frambjóðendur sem fremja hjúskaparbrot. Höfundur dagblaðsgreinar slær því fram að slíkir kjósendur hiki kannski við að fordæma hjúskaparbrot af því að ‚þeir séu svo uppteknir af því að reyna það sjálfir.‘
Nýlegar rannsóknir sýna raunar að 31 af hundraði allra giftra einstaklinga í Bandaríkjunum hafa átt eða eiga í ástarsambandi utan hjónabands. Meirihluti Bandaríkjamanna, eða 62 af hundraði, „álíta ekkert siðferðilega rangt“ við það. Viðhorf til kynlífs fyrir hjónaband eru álíka frjálslynd. Könnun gerð árið 1969 sýndi að 68 af hundraði bandarísks almennings var þá mótfallinn kynlífi fyrir hjónaband. Núna eru aðeins 36 af hundraði mótfallnir því. Á sjöunda áratugnum var um helmingur kvenna, sem kannanir náðu til, hreinar meyjar á brúðkaupsdegi sínum. Núna er talan komin niður í aðeins 20 af hundraði.
Í könnun á trúarlífi Íslendinga, sem gerð var árin 1986 og 1987 á vegum Guðfræðistofnunar Háskóla Íslands, kom í ljós að 52 af hundraði töldu að kynmök fyrir hjónaband væru hverjum og einum í sjálfsvald sett sem hefði aldur til, og yfir 37 af hundraði töldu þau í lagi ef viðkomandi aðilar bæru einlægar tilfinningar hvor til annars og væru í eða stefndu að varanlegu sambandi. Aðeins tæplega 2 af hundraði sögðu að kynmök fyrir hjónaband ættu aldrei að koma fyrir og ekki að líðast.
Í sömu könnun var spurt um afstöðu til framhjáhalds. Tæplega 29 af hundraði töldu slíkt hverjum og einum í sjálfsvald sett, væri í lagi ef viðkomandi aðilar væru óhamingjusamir í hjónabandi sínu eða í lagi þegar viðkomandi aðilar bæru einlægar tilfinningar hvor til annars. Tæplega 57 af hundraði tölu framhjáhald aldrei eiga að koma fyrir og ekki að líðast. — Trúarlíf Íslendinga.
Hvað um siðferði í viðskiptum?
Hrakandi siðferðis gætir einnig í atvinnu- og viðskiptalífinu. Umfang skattsvika og svartrar atvinnustarfsemi er nokkur vísbending um siðferði manna á þeim vettvangi. Í viðtali við skattrannsóknastjóra í Morgunblaðinu þann 18. september 1993 kom fram að menn myndi jafnvel „hálfgerð fyrirtæki í kringum þessa starfsemi. Við erum nú að rannsaka aðila sem hafa allt að 6-10 manns í vinnu við starfsemi sem er svört á öllum stigum og vinnulaun sem þessi fyrirtæki greiða eru eðlilega ekki gefin upp til skatts.“ Í forystugrein blaðsins sama dag sagði að ‚áætlað tekjutap hins opinbera vegna skattsvika nemi nokkurn veginn sömu upphæð og áætlaður halli á rekstri ríkissjóðs á þessu ári [1993].‘ Í niðurstöðum nefndar, sem fjármálaráðherra skipaði til að rannsaka umfang skattsvika á Íslandi, sagði: „Svo virðist sem stærri hluti þjóðarinnar taki nú þátt í skattsvikum en fyrir sjö árum.“
Í von um að snúa slíkri óheillaþróun við bjóða sumir háskólar upp á námskeið í siðfræði. En margir eru efins um að slík viðleitni skili árangri. „Ég kem hreinlega ekki auga á hvernig námskeið í siðfræði getur komið að gagni,“ sagði frammámaður í kanadísku viðskiptalífi. „Nemendur með heilbrigð siðferðisgildi læra fátt nýtt og þeir nemendur, sem eru ekki ráðvandir fyrir, nota kannski það innsæi, sem þeir öðlast, til að leita annarra leiða til að fást við þau siðlausu verk sem þeir ætla sér að vinna hvort eð er.“
Mörg fyrirtæki hafa á sama hátt sett sér opinberar siðareglur. Sérfræðingar halda hins vegar fram að slíkar siðareglur séu ekkert annað en sýndarmennska og sjaldan gefinn mikill gaumur — nema í kjölfar skaðlegs hneykslismáls. Það er kaldhæðnislegt að nýleg könnun leiddi í ljós að fyrirtæki með
skriflegar siðareglur voru oftar ákærð fyrir siðferðilega rangt framferði en hin sem ekki höfðu!Já, siðferði er greinilega á undanhaldi á öllum vígstöðvum og enginn virðist vita hvert það stefnir. Framkvæmdastjóri fyrirtækis segir: „Þau kennileiti, sem sögðu okkur hvað væri rétt og rangt, eru horfin. Þau hafa verið eyðilögð smám saman.“ Hvers vegna hafa slík siðferðileg kennileiti horfið? Hvað er komið í staðinn? Leitað verður svara við því í næstu greinum.