Hvert stefnir í siðferðismálum?
Hvert stefnir í siðferðismálum?
UM ALDARAÐIR var Biblían óvéfengdur siðferðisstaðall víða um lönd. Þótt ekki hafi allir lifað í samræmi við háleitar meginreglur hennar gaf hún því samfélagi, sem viðurkenndi hana, sameiginlegt, siðferðilegt tungumál, mælistiku á mannlega hegðun. En rektor jesúítaháskóla, Joseph O’Hare, sagði með eftirsjá: „Við höfum haft okkar hefðbundnu staðla sem hafa verið véfengdir og reynst ófullnægjandi eða ekki lengur í tísku. Núna virðast alls ekki vera nein siðferðileg kennileiti eftir.“
Hvað olli því að siðaboðskapur Biblíunnar féll í ónáð? Ein veigamikil ástæða var hin almenna viðurkenning sem þróunarkenningin hlaut. Bókin American Values: Opposing Viewpoints segir: „Í öllum þekktum menningarsamfélögum trúði fólk á tvo heima: annan sem hægt var að sjá og hinn sem var ósýnilegur. . . . Ósýnilegi heimurinn var undirstaða tilgangs og gildismats . . . Það var hann sem hélt þjóðfélagi þeirra saman. En um miðja síðustu öld var farið að segja fólki að það væri enginn ósýnilegur heimur til og hefði aldrei verið.“ Einkanlega frá þeim tíma sætti Biblían og siðaboðskapur hennar árásum sem áttu sér ekkert fordæmi. Hin svokallaða æðri biblíugagnrýni og útkoma bókar Darwins um Uppruna tegundanna voru árásarvopn í þessum heimspekilegu átökum. a
Þróunarkenningin dró þannig úr myndugleik Biblíunnar í hugum margra. Eins og grein í Harvard Magazine orðaði það var Biblían nú ekki álitin annað en „falleg líkingasaga.“ Þetta hafði stórskaðleg áhrif á siðferði. Þróunarkenningin gaf mönnum „opið leyfi til hvers kyns tækifærismennsku“ eins og hinn kunni vísindamaður Fred Hoyle komst að orði.
Þróunarkenningin er auðvitað aðeins hluti af heildarmyndinni. Tvær heimsstyrjaldir kyntu enn frekar undir almenn vonbrigði með trúarbrögðin. Iðnbyltingin olli miklum þjóðfélagsbreytingum — og siðferðisbreytingum. Auk þess hefur skjótur uppgangur öflugra
fjölmiðla gert það mögulegt að ausa siðspillingu yfir fólk í stórum stíl.Allt er afstætt?
Það er því engin furða að margir skuli hafa litla eða enga fasta viðmiðun í siðferðismálum. Þá rekur stefnulaust eins og skip án stýris. Margir láta til dæmis berast fyrir þeim vinsæla straumi að siðferði sé afstætt, því sjónarmiði að „siðfræðisannindi séu háð þeim einstaklingum og hópum sem aðhyllast þau.“ Samkvæmt þessari heimspeki er ekkert algilt í siðferðismálum — allt er afstætt. ‚Það sem er rangt fyrir þig getur verið rétt fyrir einhvern annan,‘ fullyrða afstæðissinnar. Siðferðisáttaviti þeirra getur bent nánast í hvaða átt sem verkast vill þannig að þeir eru skjótir til að viðurkenna nálega hvaðeina sem boðlega hegðun.
Þannig er athöfn, sem áður hefði verið kölluð „syndsamleg“ eða „röng,“ einfaldlega „heimskuleg“ núna. Atferli kann að vera afsakað sem „sjúklegt“ en ekki fordæmt sem „siðlaust.“ Þetta minnir óneitanlega á daga spámannsins Jesaja til forna þegar menn ‚kölluðu hið illa gott og hið góða illt og gerðu myrkur að ljósi og ljós að myrkri.‘ — Jesaja 5:20.
Skuldinni skellt á aðra
Annar straumur í siðferðismálum er sá að skella skuldinni á aðra. Adam kenndi Evu um og Eva höggorminum. Misgerðamenn okkar tíma leika sér líka að því að skjóta sér undan ábyrgð, og fá oft hjálp lögfræðinga og sálfræðinga til þess. Grein í U.S.News & World Report átaldi sálfræðingastéttina fyrir að „finna upp nýja sjúkdóma sem setja afbrotamenn í hlutverk hjálparvana fórnarlamba.“ Til dæmis er sagt að Sálfræðingafélag Bandaríkjanna hafi íhugað alvarlega að kalla nauðgara fórnarlömb sjúkdóms sem var gefið hið frumlega nafn „paraphilic rapism“ eða „afbrigðileg nauðgunarárátta.“ Sumir töldu að þetta hefði jafngilt því að löghelga refsilausar nauðganir. „Konur mótmæltu svo harkalega að menn komust fljótt að þeirri niðurstöðu að nauðgunarárátta væri sko enginn sjúkdómur.“
Þar með er ekki verið að afneita þeirri augljósu staðreynd að sálræn áföll í bernsku geta haft skaðleg áhrif á fullorðinsárum. Hins vegar er rangt að halda því fram að fortíðin afsaki siðleysi eða ofbeldishegðun á fullorðinsárum.
Unglingar án siðferðisáttavita
Siðferðisringulreið heimsins hefur haft sín áhrif, einkum á hrifgjarna unglinga. Rannsóknarmaðurinn Robert Coles við Harvardháskóla komst að þeirri niðurstöðu að það séu engar einar, ákveðnar grundvallarhugmyndir sem stjórni siðferðislífi bandarískra barna. Þau hafa til leiðsagnar margs konar siðferðisáttavita og siðferðisgildi. Næstum 60 af hundraði ungmenna á skólaaldri, sem tóku þátt í könnun, sögðu að þau létu stjórnast af því sem kæmi þeim áfram í lífinu eða léti þeim líða vel.
Stundum stuðla skólarnir að slíkri siðferðisringulreið. Nefnum sem dæmi námsgrein er tekin var upp í bandarískum skólum fyrir fáeinum árum og fjallaði um gildismat. Hverjar voru aðalkenningarnar? Að börn ættu að vera frjáls til að setja sér sín eigin siðferðisgildi.
Siðferðilegt innihaldsleysi slíkrar afstöðu er ljóst af reynslu skólastúlku í New Yorkborg sem ákvað að skila buddu með jafnvirði 70.000 króna í reiðufé sem hún fann. Hver
voru viðbrögð bekkjarsystkina hennar í siðferðisfræðslunni? Hún var höfð að háði og spotti! Og það sem verra var, ekki einn einasti kennari eða fulltrúi skólans hrósaði henni fyrir heiðarleika sinn. Einn kennari afsakaði þessa ærandi þögn þannig: „Ef ég tjái mig um það hvað sé rétt og rangt er ég ekki ráðgjafi þeirra.“Geta kirkjufélögin stöðvað siðferðishnignunina?
Það kemur ekki á óvart að hið grátlega siðferðisástand heimsins skuli hafa gefið bakslag. Margir krefjast nú með háreysti að snúið sé aftur til hefðbundins gildismats sem merkir í hugum sumra afturhvarf til trúarinnar. En kirkjufélögin hafa ekki getið sér góðan orðstír sem forystuafl í siðferðismálum. Allsherjarþing öldungakirkjunnar í Bandaríkjunum viðurkenndi: „Við stöndum frammi fyrir kreppu sem er ógnvænleg bæði að umfangi og eðli.“ Og hvert er eðli þessarar kreppu? „Milli 10 og 23 af hundraði presta um land allt hafa staðið í kynferðissambandi við sóknarbörn, skjólstæðinga, starfsmenn o.s.frv.“
Almennra vonbrigða gætir því með trúarbrögðin. Forseti bandaríska Viðskipta- og iðnráðsins lýsti ástandinu í hnotskurn er hann sagði: „Trúarstofnunum hefur mistekist að koma arfteknu gildismati sínu á framfæri, og í mörgum tilfellum eru þær orðnar hluti af vandamálinu [hinu siðferðilega] með því að ýta undir frelsunarguðfræði og aðhyllast það sjónarmið að ekki megi dæma hegðun manna.“
Ljóst er því að óuppfrædd samviska dugir ekki til að leiðbeina mannkyninu. Siðferði nútímans stefnir í algert hrun og ekkert annað. Okkur vantar leiðarvísi frá einhverjum okkur æðri. — Samanber Orðskviðina 14:12; Jeremía 10:23.
Slíkur leiðarvísir er til. Hann er aðgengilegur öllum sem vilja.
[Neðanmáls]
a Sannfærandi rök til stuðnings sköpun er að finna í bókinni Lífið — varð það til við þróun eða sköpun?, gefin út af Watchtower Bible and Tract Society of New York, Inc.
[Innskot á blaðsíðu 14]
Trú á þróunarkenninguna var ein ástæða þess að siðaboðskapur Biblíunnar féll í ónáð.
[Innskot á blaðsíðu 15]
‚Milli 10 og 23 af hundraði presta hafa staðið í kynferðissambandi við sóknarbörn, skjólstæðinga, starfsmenn o.s.frv.‘
[Mynd á blaðsíðu 16]
Klerkastéttin hefur stuðlað að siðareglum sem eru byggðar á mannlegri visku en ekki Biblíunni.