Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Þegar nýi heimurinn gengur í garð

Þegar nýi heimurinn gengur í garð

Þegar nýi heimurinn gengur í garð

NÝR heimur Guðs gengur í garð þegar núverandi heimur líður undir lok. En þér kann að vera spurn hvort við getum í alvöru trúað að þessi heimur eigi eftir að líða undir lok. Höfum við til dæmis nokkurt fordæmi fyrir því að fyrri tíðar heimur hafi endað?

Já, við höfum óyggjandi sannanir fyrir því að heimur hafi liðið undir lok endur fyrir löngu. „Vatnsflóðið [gekk] yfir þann heim, sem þá var [á dögum Nóa], svo að hann fórst,“ segir Biblían. Guð „þyrmdi [ekki] hinum forna heimi, en varðveitti Nóa, prédikara réttlætisins, við áttunda mann, er hann lét vatnsflóð koma yfir heim hinna óguðlegu.“ — 2. Pétursbréf 2:5; 3:6.

Taktu eftir að það var ‚heimur hinna óguðlegu‘ eða óguðlegt heimskerfi sem leið undir lok. Það var ekki reikistjarnan jörð, stjörnum prýddur himingeimurinn eða mannkynið sem fórst. Þegar þeim sem lifðu flóðið af tók að fjölga varð til annar heimur (hinn núverandi). Hvað verður um hann?

Eftir að hafa sagt að heimurinn á dögum Nóa hafi farist heldur Biblían áfram: „Þeir himnar, sem nú eru ásamt jörðinni, geymast eldinum fyrir hið sama orð.“ (2. Pétursbréf 3:7) Eldur táknar eyðingu fyrir heiminn. Svo sannarlega „fyrirferst“ núverandi heimur. (1. Jóhannesarbréf 2:17) En hvenær?

Postula Jesú langaði til að vita það þannig að þeir spurðu: „Seg þú oss, hvenær verður þetta? Og hvert mun tákn komu þinnar og endaloka veraldar?“ (Matteus 24:3) Í svari sínu tiltók Jesús tákn þannig að fólk gæti, á uppfyllingartíma þess, vitað að einn heimur væri í þann mund að líða undir lok og nýr heimur að koma í staðinn. Hvert var þetta tákn?

Táknið

Táknið er margþætt, já, margir atburðir voru sagðir fyrir. Til að táknið uppfylltist yrðu þeir allir að eiga sér stað á eftirtektarverðan hátt á takmörkuðu tímabili eða innan einnar kynslóðar. (Matteus 24:34) Hvaða atburðir eru þetta?

Jesús nefndi meðal annars þessa: „Þjóð mun rísa gegn þjóð og ríki gegn ríki, þá verða landskjálftar miklir og drepsóttir og hungur.“ „Þá munu menn framselja yður til pyndinga og taka af lífi, og allar þjóðir munu hata yður vegna nafns míns. . . . Og vegna þess að lögleysi magnast, mun kærleikur flestra kólna.“ — Lúkas 21:10, 11; Matteus 24:7-9, 12.

Páll postuli nefndi önnur skilyrði sem myndu einkenna ‚síðustu daga‘ þessa heims. Hann skrifaði: „Á síðustu dögum munu koma örðugar tíðir. Mennirnir verða sérgóðir, fégjarnir, . . . foreldrum óhlýðnir, vanþakklátir, vanheilagir, kærleikslausir, . . . framhleypnir, ofmetnaðarfullir, elskandi munaðarlífið meira en Guð. Þeir hafa á sér yfirskin guðhræðslunnar, en afneita krafti hennar.“ — 2. Tímóteusarbréf 3:1-5.

Þú hlýtur að hafa séð eða heyrt um allt þetta — alþjóðleg átök sem skyggja á fyrri tíma styrjaldir, mikla jarðskjálfta, útbreiddar drepsóttir og matvælaskort, hatur og ofsóknir á hendur fylgjendum Krists, aukið lögleysi og hættutíma sem eru miklum mun verri en verið hafa nokkurn tíma fyrr í sögunni. Auk þessa segir Biblían að Guð muni „eyða þeim, sem jörðina eyða.“ (Opinberunarbókin 11:18) Og menn eru að eyða jörðina á þessari stundu!

Í nóvember 1992 mátti lesa fyrirsagnir svo sem þessar í dagblöðum: „Vísindamenn í fremstu röð vara við eyðingu jarðar.“ Dr. Henry Kendall, Nóbelsverðlaunahafi og forseti Samtaka áhyggjufullra vísindamanna, segir: „Þessi viðvörun er ekki ýkjukennd og hún er ekki hræðsluáróður.“ Grein í dagblaði sagði: „Listinn yfir þá 1575 vísindamenn, sem undirrituðu viðvörunina, lítur út eins og ‚Hver er maðurinn?‘ innan alþjóðasamfélags vísindamanna.“ Það má ekki láta viðvörun þeirra um algera eyðileggingu jarðar sem vind um eyrun þjóta!

Enginn vafi leikur á því að allir þættir táknsins eru að uppfyllast, þeirra á meðal aðalspádómur Jesú: „Þetta fagnaðarerindi um ríkið verður prédikað um alla heimsbyggðina öllum þjóðum til vitnisburðar. Og þá mun endirinn koma,“ já, endir þessa heims. (Matteus 24:14) Hann kemur, sagði Jesús, þegar fagnaðarerindið um Guðsríki hefur verið prédikað um heim allan. Og vottar Jehóva inna nú af hendi þessa prédikun í þeim mæli sem spáð var.

Það sem þú þarft að gera

Öll rök hníga þannig að því að nýr heimur Guðs sé mjög nærri. En ef þú ætlar að lifa af endalok þessa heims og inn í nýja heiminn þarftu að gera eitthvað. Eftir að Biblían segir að ‚heimurinn fyrirfarist‘ sýnir hún hvers krafist er af þér: „Sá, sem gjörir Guðs vilja, varir að eilífu.“ — 1. Jóhannesarbréf 2:17.

Þú þarft því að læra vilja Guðs og gera hann. Vottar Jehóva eru meira en fúsir til að hjálpa þér til þess. Þá getur þú lifað af endi þessa heims og notið að eilífu blessunar hins nýja heims Guðs.

[Mynd/Rétthafi á blaðsíðu 10]

Ljósmynd: NASA

[Mynd á blaðsíðu 10]

Miklir erfiðleikatímar ganga yfir heiminn rétt áður en nýi heimurinn gengur í garð.