Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Er Jehóva stríðsguð?

Er Jehóva stríðsguð?

Sjónarmið Biblíunnar

Er Jehóva stríðsguð?

SUMIR lesendur Biblíunnar hafa lengi ásakað Jehóva um að vera stríðsguð, meira að segja býsna blóðþyrstur. Til dæmis fullyrðir George A. Dorsey í bók sinni, The Story of Civilization — Man’s Own Show, að Guð Biblíunnar, Jehóva, sé „Guð ræningja, kvalara, hermanna, hersigra og allra villmannlegra fýsna.“ Biblíugagnrýnandinn Roland H. Bainton segir hvassyrtur: „Stríð eru mannúðlegri þegar Guð kemur þar hvergi nærri.“

Er Jehóva í alvöru stríðsguð? Hefur hann virkilega ánægju af því að brytja niður saklaust fólk eins og sumir halda fram?

Dómar fortíðar

Víst segir Biblían hreinskilnislega frá dómum sem Jehóva Guð felldi forðum daga og voru mönnum í óhag. Hins vegar voru dómarnir alltaf felldir yfir óguðlegum mönnum. Til dæmis var það ekki fyrr en jörðin „fylltist glæpaverkum“ á dögum Nóa að Jehóva sagði: „Ég læt vatnsflóð koma yfir jörðina til að tortíma öllu holdi undir himninum, sem lífsandi er í.“ (1. Mósebók 6:11, 17) Um annan dóm er það að segja að það var einungis vegna þess að borgirnar Sódóma og Gómorra höfðu ‚drýgt saurlifnað og stundað óleyfilegar lystisemdir‘ að Guð lét ‚rigna brennisteini og eldi.‘ — Júdasarbréfið 1:7; 1. Mósebók 19:24.

Naut Guð þess að eyða öllu holdi á dögum Nóa? Hafði hann eitthvert djöfullegt yndi af því að tortíma íbúum Sódómu og Gómorru? Til að svara því skulum við skoða undanfara flóðsins á dögum Nóa. Eftir að Guð hafði sagst mundu afmá hið illa mannkyn af jörðinni til að hreinsa hana af ofbeldi segir Biblían: „[Jehóva] . . . sárnaði . . . í hjarta sínu.“ Já, það hryggði Guð að „allar hugrenningar hjarta [mannsins] voru ekki annað en illska alla daga.“ Þess vegna, til að bjarga eins mörgum og frekast væri unnt frá hinu komandi flóði, sendi Guð Nóa, „prédikara réttlætisins,“ til að vara heiminn við og smíða örk til björgunar. — 1. Mósebók 6:5-18; 2. Pétursbréf 2:5.

Á líkan hátt sagði Guð áður en hann sendi engla til að eyða Sódómu og Gómorru: „Ég ætla því að stíga niður þangað til þess að sjá, hvort þeir hafa fullkomlega aðhafst það, sem hrópað er um . . . ég [vil] vita það.“ (1. Mósebók 18:20-32) Jehóva fullvissaði Abraham (en Lot bróðursonur hans bjó í Sódómu) um að borgunum yrði þyrmt ef hann fyndi þar aðeins tíu réttláta menn. Ætli Guð, sem hefur yndi af blóðsúthellingum, sé svona umhyggjusamur og miskunnsamur? Ætli við getum ekki þvert á móti sagt að miskunn sé eitt af aðalpersónueinkennum Jehóva? (2. Mósebók 34:6) Sjálfur segir hann: „Ég [hef] ekki þóknun á dauða hins óguðlega, heldur að hinn óguðlegi hverfi frá breytni sinni og haldi lífi.“ — Esekíel 33:11.

Óhagstæðan dóm frá Guði hefur alltaf mátt rekja til þess að óguðlegir menn hafa þverneitað að hætta rangri breytni, ekki þess að Jehóva hafi ánægju af að drepa fólk. En þér kann að vera spurn hvort Jehóva hafi ekki einmitt hvatt Ísraelsmenn til að fara í stríð gegn Kanverjum og útrýma þeim.

Stríð Guðs nauðsynleg friðarins vegna

Sagan dregur upp hraklega mynd af lífi Kanverja — þeir voru hrikalega óguðlegir. Spíritismi, barnafórnir, kvalafýsn, ofbeldi og afbrigðileg kynlífsdýrkun í ýmsum myndum var viðtekin venja. Jehóva er réttvís Guð og krefst óskiptrar hollustu og hann gat því ekki leyft að þetta viðurstyggilega hátterni raskaði friði og öryggi saklausra manna, einkanlega Ísraelsmanna. (5. Mósebók 5:9) Ímyndaðu þér til dæmis að bæjarfélagið, sem þú býrð í, hefði enga heiðvirða lögreglu til að sjá um að landslögum væri framfylgt. Ætli það myndi ekki leiða til stjórnleysis og ofbeldis af verstu tegund? Jehóva var að sama skapi tilneyddur að grípa til aðgerða gegn Kanverjum vegna lauslætis og taumleysis þeirra og hættunnar sem sannri tilbeiðslu stafaði af þeim. Þess vegna lýsti hann yfir: „Landið saurgaðist, og fyrir því vitjaði ég misgjörðar þess á því.“ — 3. Mósebók 18:25.

Réttvísi Guðs var fullnægt þegar aftökusveitir hans — ísraelskur her — útrýmdu Kanverjum. Sú staðreynd að Guð skyldi nota menn til að fullnægja þessum dómi, en ekki eld eða flóð, dró ekkert úr vægi dómsins. Þegar ísraelski herinn barðist gegn sjö þjóðum Kanaanlands var honum því fyrirskipað: „Þú [skalt] enga mannssál láta lífi halda.“ — 5. Mósebók 20:16.

En Guð ber virðingu fyrir lífinu og lagði ekki blessun sína yfir það að menn væru drepnir án greinarmunar. Til dæmis sýndi hann miskunn þegar íbúar einnar kanverskrar borgar, Gíbeon, báðust vægðar. (Jósúabók 9:3-27) Hefði blóðþyrstur stríðsguð gert það? Nei, en Guð, sem ann friði og réttlæti, hefði gert það. — Sálmur 33:5; 37:28.

Staðlar Guðs stuðla að friði

Aftur og aftur tengir Biblían blessun Guðs friði. Það kemur til af því að Jehóva ann friði, ekki stríði. (4. Mósebók 6:24-26; Sálmur 29:11; 147:12-14) Þar af leiðandi sagði Guð Davíð konungi sem vildi reisa honum musteri til tilbeiðslu: „Þú skalt eigi reisa musteri nafni mínu, því að miklu blóði hefir þú hellt til jarðar fyrir augliti mínu.“ — 1. Kroníkubók 22:8; Postulasagan 13:22.

Meðan hinn meiri Davíð, Jesús Kristur, var á jörðinni talaði hann um þann tíma þegar ást Guðs á réttlætinu myndi koma honum til að umbera ekki lengur þá illsku sem við sjáum núna. (Matteus 24:3, 36-39) Guð mun bráðlega fullnægja dómi til að losa jörðina við eigingjarna og óguðlega menn, eins og hann gerði í flóðinu á dögum Nóa og í eyðingu Sódómu og Gómorru, og þar með ryðja brautina friðsælu ástandi undir stjórn ríkis hans á himnum. — Sálmur 37:10, 11, 29; Daníel 2:44.

Ljóst er að Jehóva er ekki blóðþyrstur stríðsguð. Á hinn bóginn veigrar hann sér ekki við að fullnægja refsingu þegar hennar er þörf. Góðvild Guðs útheimtir að hann láti til sín taka í þágu þeirra sem elska hann, með því að eyða hinu illa heimskerfi sem þjakar þá. Þegar hann gerir það mun sannur friður blómgast um alla jörðina og hinir hógværu sem einn maður tilbiðja Jehóva, „Guð friðarins.“ — Filippíbréfið 4:9.

[Mynd/Rétthafi á blaðsíðu 18]

Davíð og Golíat/The Doré Bible Illustrations/Dover Publications, Inc.