Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Er ofbeldi í teiknimyndum skaðlegt?

Er ofbeldi í teiknimyndum skaðlegt?

Er ofbeldi í teiknimyndum skaðlegt?

Eftir fréttaritara Vaknið! á Bretlandi

„KALLA kanínu kennt um slagsmál í skólanum,“ sagði Lundúnablaðið The Times í fyrirsögn. Blaðið greindi frá áliti kennara á hegðun skólabarna sem sögð eru líkja eftir ofbeldisatriðum úr teiknimyndum sjónvarps.

„Flestar teiknimyndir sýna ofbeldi,“ fullyrti aðstoðarskólastjóri barnaskóla, „og jafnvel þótt góði kallinn sigri að lokum beitir hann miður æskilegum aðferðum til þess.“ Ert þú sama sinnis varðandi þróunina í teiknimyndum?

Margir foreldrar eru uggandi vegna vaxandi vinsælda teiknimynda sem eru nú auðfengnar á myndböndum. Sumir eru angistarfullir út af „teiknimyndahugarfari“ barnanna sinna og kenna jafnvel teiknimyndum um að hvetja til ofbeldis, blekkinga og óhlýðni.

En getur það virkilega verið skaðlegt að horfa á teiknimyndir, jafnvel þótt þær innihaldi einhver ofbeldisatriði?

Skaðlaus skemmtun?

Samkvæmt viðmiðunarreglum breska útvarps- og sjónvarpsfélagsins BBC verða framleiðendur sjónvarpsefnis að íhuga vandlega hvaða áhrif hvert það ofbeldi, sem sýnt er í sjónvarpi og þá einnig í teiknimyndum, hefur. Hin opinbera afstaða er sú að „tilfinningasvörun við ofbeldi aukist því meir sem áhorfandinn er fær um að lifa sig inn í aðstæðurnar.“

Það er í eðli teiknimynda að fjalla um óraunverulegar aðstæður. Er hættan af þeim þá ekki lítil? Flestir krakkar, sem horfa með ákefð á teiknimyndir sjónvarpsins, gera það sér til skemmtunar. Teiknimyndir eru skemmtilegar, en geta þær gert meira en að skemmta? Já, svo sannarlega því að hver einasta teiknimynd getur skilið eftir sig varanleg spor. Dr. Gregory Stores við Oxfordháskóla tjáði sjónvarpsdagskrárblaðinu TV Times að „ófreskjurnar, draugarnir og villidýrin“ í martröðum barnanna séu meðal annars komnar frá teiknimyndunum sem þau horfa á.

Eins er það viðurkennt í skýrslu breskra stjórnvalda, Screen Violence and Film Censorship, að félagsskapur barnsins meðan það horfir á kvikmynd hafi áhrif á hvernig hún verki á það. Það getur því verið varhugavert að láta börn horfa eftirlitslaust á teiknimyndir.

Í þessari sömu skýrslu er því haldið fram að börn undir skólaaldri líki gjarnan eftir ofbeldisatriðum, sem þau sjá, og að eldri börn, fimm til sex ára, sýni með „nokkrum tilfinningakrafti“ þá árásarhegðun sem þau hafi lært.

Sjónvarpsmenn viðurkenna þar af leiðandi þann möguleika að fólk geti orðið „kaldlynt eða ónæmt“ af því að horfa á ofbeldisverk í sjónvarpi yfir alllangt tímabil, og að börnum á öllum aldri sé sérstaklega hætt við því. Það getur gert þau tilfinningalausari fyrir því að beita ofbeldi sjálf eða gert þau harðlynd gagnvart öðrum sem verða fyrir ofbeldi.

„Kalla kanínu“- eða „Tomma og Jenna“-fíkillinn, sem sá þessar teiknimyndapersónur kannski fyrst fyrir mörgum árum í kvikmyndahúsi, er kannski orðinn foreldri núna og þarf ekki annað en að ýta á hnapp til að sjá í sjónvarpinu nútímaútgáfur af uppátækjum þeirra. En staðlarnir hafa breyst. Með velferð barnanna í huga ættu foreldrar að gæta þess að fylgjast með efni þeirra teiknimynda sem eru sýndar núna.

Sem dæmi má nefna bandarísku teiknimyndirnar um „Skjaldbökurnar“ („Teenage Mutant Ninja Turtles“) en þær voru álitnar of ofbeldisfullar fyrir áhorfendur í mörgum Evrópuríkjum. Þess vegna klippti BBC sum atriði úr þessari teiknimyndaröð áður en hún var sýnd í Bretlandi. Orðið „Ninja“ var jafnvel fellt niður af því að það vísar til japanskra stríðsmanna. Í staðinn var sett orðið „Hero“ (hetja).

Samt sem áður stóð sumum foreldrum ekki á sama. Móðir sagði í viðtali við dagblaðið Scotsman: „Börn eru mjög auðtrúa. Ég á fimm ára barn sem er með skjaldbökuæði. Þegar ég fer til að sækja hann í skólann eru öll börnin á leikvellinum að reyna að sparka hvert í annað.“

Áhyggjur foreldra og kennara hafa fengið óvæntan hljómgrunn meðal sumra eigenda leikfangaverslana. Bresk verslun tilkynnti að hún myndi ekki selja skjaldbökustríðsmennina af ótta við að börn „ógnuðu hvert öðru með karatespörkum og settu sig í lífshættu með því að fela sig í holræsum.“ Eru einhverjar aðrar hættur?

Duldar hættur

„Kannski einhver kaldranalegasta sölubrella á barnamarkaðinum sem sögur fara af.“ Þannig lýsti dagblað sambandinu milli teiknimyndanna um skjaldbökurnar og markaðssetningar alls konar skjaldbökuvarnings. Slíkt samhengi er auðvitað ekkert nýtt en „það sem er nýlunda með skjaldbökurnar er hin gríðarlega stærð“ markaðarins.

Í þessu tilviki eru leyfishafar æstir í að selja heilluðum krökkum að því er ætlað er 400 skjaldbökuvörur, svo sem teiknimyndablöð og skyrtuboli. Ef þessar teiknimyndir geta gert börn svona fíkin í þessar vörur, þá hljóta atriðin, sem þau sjá í þessum sömu teiknimyndum, að hafa einhver áhrif! En sumir segja kannski að þessi nýju tískufyrirbrigði séu ekki langlíf.

Jafnvel þótt slík tískufyrirbrigði endist stutt halda gamlar teiknimyndapersónur vinsældum sínum. „Skjaldbökurnar kunna að koma og fara en Tommi og Jenni eru eilífir,“ fullyrðir Lundúnablaðið The Times. Þú þarft því kannski að spyrja þig nokkurra spurninga. Geta börnin þín fengið þá hugmynd að þú leggir blessun þína yfir allar þær athafnir, sem sýndar eru, ef horft er á þessar myndir á heimili þínu? Hvað um atriði þar sem dýrum er misþyrmt? Auðvitað má vera að þú hugsir sem svo að það sé ekki hægt að leggja teiknimyndir að jöfnu við veruleikann. En veistu hvað er að gerast núna í teiknimyndaiðnaðinum?

Með tölvustýrðri rafeindatækni er hægt að gera furðusögur teiknimyndanna svo raunverulegar að áhorfendur eiga erfitt með að gera greinarmun á teiknimynd og veruleika. „Ríki hreyfimyndatækninnar er svo sannfærandi í nærmynd,“ segir The Sunday Times Magazine, „að fölsk svitahola eða gervihrukka dregur ekki til sín athygli jafnvel tortryggnustu áhorfenda sem eru vanir ótrúlegustu kvikmyndabrellum.“ Ofbeldisatriði, sem gerð eru á þennan hátt, virðast óhugnanlega raunveruleg.

Hugleiddu líka þær hegðunarreglur sem teiknimyndir nútímans bjóða næstu kynslóð upp á. Persónurnar í einni nýrri teiknimyndadellu eru „fráhrindandi fjölskylda kjaftforra letingja og ‚undirmálsmanna‘“ að sögn Lundúnablaðsins The Times. Þær höfða til fólks „að hluta til vegna þess að þær eru svo mikið upp á kant við þjóðfélagið.“

Já, foreldrar, þið hafið ærna ástæðu til að huga alvarlega að teiknimyndunum sem börnin ykkar horfa á. En hvað getið þið gert?

Bannið ‚ofbeldi til skemmtunar‘

Yfirvegið kosti og galla þess tilbúna skemmtiefnis sem er á boðstólum. Með velferð fjölskyldunnar í huga hafa sumir foreldrar ákveðið að hafa ekki sjónvarp. Aðrir hjálpa börnum sínum að vega og meta kosti og galla þess efnis sem þeim er leyft að horfa á. „Því færara sem barn (eða jafnvel fullorðinn) er um að horfa með gagnrýni og skarpskyggni á teiknimynd, auglýsingu eða fréttir,“ segir Lundúnablaðið The Independent, „þeim mun meira hefur það út úr fjölmiðlunum.“ Foreldrar eru vissulega í bestri aðstöðu til að hjálpa börnum sínum að gera það.

Nýleg rannsókn á hlutverki sjónvarps í fjölskyldulífi beindi athyglinni að tveim ólíkum kennsluaðferðum. Önnur felst í rökræðum og útskýringum samhliða því að höfða til þeirrar kenndar barnsins að það hafi afrekað eitthvað. Hin felst aðallega í refsingu og hótunum. Hvað sýndu niðurstöðurnar?

Börn, sem var hótað refsingu, sóttu í „andfélagslegt sjónvarpsefni“ en „börn mæðra, sem öguðu þau aðallega með rökræðum og útskýringum, urðu fyrir minnstum áhrifum“ af slíku efni. Umhyggjusamir foreldrar útskýra þannig fyrir börnum sínum hvers vegna það sé óviturlegt að horfa á ofbeldisfullar teiknimyndir. En munið að krakkar eru fæddir eftirhermur og það leggur þunga ábyrgð á foreldra að forðast það að horfa á ofbeldi sér til skemmtunar. Ef þið horfið á það sjá börnin ykkar ekkert rangt við að horfa á það sjálf.

‚En hvernig getum við farið að því að skemmta börnunum,‘ spyrð þú kannski. Ein tillaga: Hvers vegna ekki að skemmta sér við að horfa á raunveruleg dýr að leik? Býrð þú í grennd við dýragarð eða bóndabæ þangað sem þú getur farið með börnin? Ef ekki getur þú alltaf fundið myndband með viðeigandi dýralífsmynd til að horfa á heima.

Því miður getur ekkert okkar nú sem stendur sloppið algerlega við ofbeldið í þeim heimi sem við búum í. En hvort sem við erum ung eða gömul getum við valið viturlega, ef við viljum, og forðast að horfa á nokkuð það sem ýtir undir ofbeldi.

[Mynd á blaðsíðu 13]

Stuðla teiknimyndir að ofbeldi?