Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Hvernig er sá heimur sem þú óskar þér?

Hvernig er sá heimur sem þú óskar þér?

Hvernig er sá heimur sem þú óskar þér?

MYNDIR þú skapa nýjan heim, lausan við öll þau vandamál sem hrjá mannkynið nú á tímum, ef þú gætir? Ef þú myndir gera það, er þá ekki rökrétt að búast við að kærleiksríkur skapari okkar, Jehóva Guð, sem getur gert það, muni skapa nýjan, réttlátan heim?

Biblían segir: „[Jehóva] er öllum góður, og miskunn hans er yfir öllu, sem hann skapar. Þú lýkur upp hendi þinni og seður allt sem lifir með blessun.“ (Sálmur 145:9, 16) Hverjar eru óskir þínar? Hvers konar heim þráir þú?

Í bók sinni, A Sane and Happy Life: A Family Guide, segja Abraham og Rose Franzblau: „Ef við gerðum skoðanakönnun meðal allra jarðarbúa og spyrðum mannkynið hvernig heimi við vildum öll búa í, þá er afar sennilegt að við gætum öll orðið sammála um vissar lágmarkskröfur.“

Við skulum athuga kröfurnar, sem þessir bókarhöfundar telja upp, til að sjá hvort þær samræmast ekki óskum þínum. Um leið skulum við athuga hvort kærleiksríkur skapari okkar hefur lofað að uppfylla þær.

Fyrsta krafan

Það fyrsta, sem bókarhöfundar nefna, er „heimur án styrjalda.“ Eftir að hafa þurft að þola fjölda hræðilegra styrjalda þrá margir heim þar sem menn munu aldrei framar berjast og drepa hver annan. Vonum þeirra er vel lýst í áletrun á vegg við aðalstöðvar Sameinuðu þjóðanna í New York. Þar stendur: ÞÆR MUNU SMÍÐA PLÓGJÁRN ÚR SVERÐUM SÍNUM OG SNIÐLA ÚR SPJÓTUM SÍNUM. ENGIN ÞJÓÐ SKAL SVERÐ REIÐA AÐ ANNARRI ÞJÓÐ, OG EKKI SKULU ÞÆR TEMJA SÉR HERNAÐ FRAMAR.

Vissir þú að þessi orð eru hluti af fyrirheiti frá Jehóva Guði? Orðin standa í heilagri Biblíu í Jesaja 2. kafla versi 4. Með því að lesa einnig Sálm 46:9, 10 sérðu að það er tilgangur Guðs að eyða öllum vopnum og ‚stöðva styrjaldir til endimarka jarðar.‘ Í hinum friðsama heimi án styrjalda, sem Guð skapar, uppfyllist þessi fagri spádómur Biblíunnar: „Hver mun búa undir sínu víntré og undir sínu fíkjutré og enginn hræða þá.“ — Míka 4:4.

Er ekki „heimur án styrjalda“ ein grundvallarkrafa sem þú vildir sjá uppfyllta? Og hugsaðu þér, okkar stórkostlegi skapari hefur lofað því að uppfylla hana!

Heimur nægta

Hver yrði önnur krafan sem þú gerðir? Yrði hún sú sama og er nefnd næst í bókinni, það er að segja „heimur án hungurs þar sem hungursneyð og skorti yrði útrýmt að eilífu.“ Væri það ekki dásamlegt ef ekkert barn þyrfti að svelta framar? Þú vildir áreiðanlega búa í heimi þar sem nóg væri til af öllu. En hver getur tryggt slíkt?

Hugleiddu það sem Guð lofar: „Jörðin hefir gefið ávöxt sinn.“ „Gnóttir korns munu vera í landinu.“ (Sálmur 67:7; 72:16) Já, í nýjum heimi Guðs verður gnægð góðrar fæðu. Biblían fullvissar okkur um að Jehóva muni „búa öllum þjóðum veislu með krásum, veislu með dreggjavíni, mergjuðum krásum.“ — Jesaja 25:6.

Enda þótt það sé mönnum ofviða að útrýma hungrinu í heiminum er það ekki Guði ofviða. Sonur hans, Jesús Kristur, sýndi fram á að það yrði ekkert vandamál fyrir stjórn Guðsríkis að sjá öllum fyrir fæðu. Þegar hann var á jörðinni mettaði hann þúsundir manna með því að vinna það kraftaverk að margfalda fáeina brauðhleifa og nokkra fiska. — Matteus 14:14-21; 15:32-38.

Heimur án sjúkdóma

Í þeim heimi, sem við öll óskum okkur, vildum við ekki nokkurs staðar finna sjúkt fólk. Þriðja krafan kemur því ekki á óvart. „Það yrði heimur án sjúkdóma,“ segja bókarhöfundar, „heimur þar sem allir hefðu tækifæri til að vaxa heilbrigðir úr grasi og lifa til æviloka lausir við sjúkdóma sem hægt er að lækna eða fyrirbyggja.“

Hugsaðu þér hvílíkur léttir það yrði ef enginn fengi nokkurn tíma kvef eða annan kvilla! Menn eru ekki færir um að ráða niðurlögum allra sjúkdóma en Jehóva Guð er það. Og hann lofar að í nýjum heimi hans muni „enginn borgarbúi . . . segja: ‚Ég er sjúkur.‘“ Þess í stað „munu augu hinna blindu upp lúkast og opnast eyru hinna daufu. Þá mun hinn halti létta sér sem hjörtur og tunga hins mállausa fagna lofsyngjandi.“ (Jesaja 33:24; 35:5, 6) Já, Guð mun „þerra hvert tár af augum þeirra. Og dauðinn mun ekki framar til vera, hvorki harmur né vein né kvöl er framar til.“ — Opinberunarbókin 21:4.

Þegar Jesús Kristur var á jörðinni sýndi hann fram á hvers við megum vænta í stórkostlegum mæli í nýjum heimi Guðs. Hann gaf blindum sýn, opnaði eyru heyrnleysingja, leysti tungu mállausra, gerði höltum kleift að ganga og vakti jafnvel dána til lífs á ný. — Matteus 15:30, 31; Lúkas 7:21, 22.

Réttlæti og ánægjuleg störf handa öllum

Vafalaust yrði réttlæti og ánægjuleg störf handa öllum í þeim heimi sem þú og nálega allir aðrir þrá. Bókarhöfundar segja því: „Í fjórða lagi yrði það heimur þar sem væri næg vinna handa þeim sem vildu vinna til að sjá sér og fjölskyldum sínum farborða.“ Og þeir bæta við: „Í fimmta lagi yrði það heimur þar sem hver maður nyti frelsis samkvæmt lögum og allir nytu réttlætis.“

Stjórn manna hefur aldrei getað uppfyllt þessar kröfur hamingjuríkrar tilveru. En nýr heimur Guðs mun gera það. Biblían lofar um hin gagnlegu störf sem menn munu vinna á þeim tíma: „Þeir munu reisa hús og búa í þeim, og þeir munu planta víngarða og eta ávöxtu þeirra. . . . Mínir útvöldu skulu sjálfir njóta handaverka sinna. Eigi munu þeir erfiða til ónýtis.“ — Jesaja 65:21-23.

Hvað um frelsi og réttlæti handa öllum? Óháð því hve mjög mennskir valdhafar hafa reynt hefur þeim ekki tekist að tryggja öllum réttlæti. Óréttlæti og kúgun drottna um heim allan. Menn geta því aldrei fullnægt þessari þörf. En alvaldur Guð getur það. Skipaður stjórnandi hans er hinn upprisni Jesús Kristur og um hann segir Jehóva: „Sjá . . . minn útvalda, sem ég hefi þóknun á. . . . Hann mun boða þjóðunum rétt.“ — Jesaja 42:1; Matteus 12:18.

Já, Biblían lofar því að undir stjórn Guðsríkis verði „jafnvel sjálf sköpunin . . . leyst úr ánauð forgengileikans til dýrðarfrelsis Guðs barna.“ (Rómverjabréfið 8:21) Það verður stórkostlegur, nýr heimur þegar allir njóta frelsis og réttlætis!

Tækifæri og tómstundir

Í þeim heimi, sem þú óskar þér, hljóta allir borgarar að njóta jafnra tækifæra óháð kynþætti eða þjóðerni. Það kemur því ekki á óvart að sjötta lágmarkskrafan, sem bókarhöfundar nefna, skuli vera þessi: „Það yrði heimur þar sem sérhver maður hefði tækifæri til að þroska hæfileika sína og gáfur til fulls og njóta umbunar viðleitni sinnar fordómalaust.“

Mönnum hefur aldrei tekist að skapa heim þar sem allir fá sanngjarna meðferð. Fordómar og jafnvel ofsóknir á hendur óvinsælum minnihlutahópum halda áfram af fullum krafti. Konungur nýja heimsins, Jesús Kristur, líkir hins vegar eftir fordæmi Jehóva, föður síns, „sem eigi gjörir sér mannamun og þiggur eigi mútur.“ (5. Mósebók 10:17; Rómverjabréfið 2:11) Það sem gerir hinn komandi, nýja heim undursamlegan er að öllum mönnum verður bæði kennt að líkja eftir óhlutdrægni Jehóva Guðs og munu stunda hana. — Jesaja 54:13.

Líf manna hefur oft verið endalaust strit og lítill eða enginn léttir frá því. Þú ert því áreiðanlega sammála næstu lágmarkskröfu, það er að segja: „Í sjöunda lagi yrði það heimur þar sem allir menn hefðu ríflegar frístundir til að njóta þess sem þeir telja gæði lífsins.“

Jehóva Guð þekkir þörf mannsins fyrir hvíld og afslöppun og þess vegna sá hann fyrir vikulegum hvíldardegi undir lögmáli sínu til forna. (2. Mósebók 20:8-11) Þess vegna megum við vera viss um að Guð sjái til þess að í nýjum heimi hans verði þörf okkar fyrir hvíld og heilnæma afþreyingu fullnægt.

Íbúarnir

Síðasta atriðið, sem bókarhöfundar segja vera nauðsynlegt, lýsir eiginleikum þeirra manna sem byggja þann ‚heim sem við vildum öll búa í.‘ Íhugaðu hvort þú telur ekki mikilvæga þá eiginleika sem þeir telja upp. „Í áttunda lagi yrði það heimur þar sem mest yrði lagt upp úr þeim eiginleikum sem aðgreina manninn frá hinum óæðri dýrum, svo sem greind og sköpunargáfu, drengskap og ráðvendni, kærleika og hollustu, sjálfsvirðingu og óeigingirni og umhyggju fyrir náunganum.“

Myndirðu ekki njóta þess að búa í heimi þar sem allir sýndu siðferðiseiginleika svo sem ráðvendni, kærleika, hollustu, óeigingirni og umhyggju fyrir náunganum? Það hlýtur að vera þannig heimur sem þú óskar þér! Enginn mennskur valdhafi getur nokkurn tíma komið slíku til leiðar. Það getur enginn nema Jehóva Guð. Og hann mun gera það vegna þess að nýr heimur hans er ekki óraunsæ, innantóm draumsýn. — Sálmur 85:11, 12.

Hvenær kemur hann?

Eins og fram kom í greininni á undan skrifaði náinn félagi Jesú Krists: „Eftir fyrirheiti [Guðs] væntum vér nýs himins og nýrrar jarðar, þar sem réttlæti býr.“ (2. Pétursbréf 3:13) Tíminn til að uppfylla þetta fyrirheit verður, eins og Jesús nefndi, í endursköpuninni „þegar allt er orðið endurfætt og Mannssonurinn situr í dýrðarhásæti sínu.“ — Matteus 19:28.

Í upphafi gaf Guð Adam og Evu, fyrstu mannhjónunum, þau fyrirmæli að stækka paradísargarðinn sem hann setti þau í. Hann vildi að þau eignuðust börn og að ásamt þeim skyldu þau gera alla jörðina að fögrum Edengarði. (1. Mósebók 1:26-28; 2:7-9, 15) Enda þótt Adam og Evu mistækist að lifa í samræmi við þennan tilgang verður jarðnesk paradís endurreist í endursköpuninni þegar Kristur stjórnar ríki sínu. Að lokum verður allur hnötturinn einn samfelldur Edengarður. Þannig mun kærleiksríkur skapari okkar láta rætast þann upphaflega tilgang sinn að skapa friðsælan heim þar sem réttlæti ríkir. En hvenær kemur hann?

Hugsaðu ekki eins og margir sem segja: ‚Hann kemur sjálfsagt einhvern tíma, en ekki á meðan ég lifi.‘ En hvernig veistu það? Er hugsanlegt að hinir fordæmislausu erfiðleikar, sem hrjá heiminn, séu tákn þess að nýr heimur Guðs sé í nánd? Hvernig getum við vitað það?

[Mynd á blaðsíðu 7]

Í nýja heiminum verður friður, fullkomið heilbrigði og velmegun.

[Rétthafi]

Hvolpar: Með leyfi Hartebeespoortdam Snake and Animal Park.

[Mynd á blaðsíðu 8]

Í nýja heiminum njóta menn ánægjulegra starfa sem hafa tilgang.

[Mynd á blaðsíðu 9]

Í nýja heiminum verður tími fyrir tómstundagaman.