Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Nýr heimur — kemur hann nokkurn tíma?

Nýr heimur — kemur hann nokkurn tíma?

Nýr heimur — kemur hann nokkurn tíma?

ÞANN 13. apríl 1991 flutti George Bush, þáverandi forseti Bandaríkjanna, ræðu í Montgomery í Alabama. Ræðan hét: „Möguleikinn á nýrri heimsskipan.“ Í niðurlagsorðunum sagði hann: „Nýi heimurinn sem blasir við okkur . . . er stórkostlegur heimur uppgötvana.“

Tveim mánuðum síðar sagði The Bulletin of the Atomic Scientists að með falli kommúnismans í Austur-Evrópu „virtist nýr heimur byggður á friði, réttvísi og lýðræði vera í nánd.“

Slíkar umræður um nýjan heim hafa haldið áfram. The New York Times greindi í janúar 1993 frá sáttmála þar sem heitið var að fækka kjarnavopnum. Dagblaðið sagði: „Með samningnum standa Bandaríkin og Rússland ‚á þröskuldi nýs vonarheims‘ eins og Bush forseti komst svo vel að orði.“

Tveim vikum síðar boðaði nýr forseti Bandaríkjanna, Bill Clinton, þetta í innsetningarræðu sinni: „Núna, þegar gömul heimsskipan er að líða undir lok, blasir við nýr heimur sem er frjálsari en óstöðugari.“ Hann fullyrti jafnvel: „Þessi nýi heimur hefur þegar auðgað líf milljóna Bandaríkjamanna.“

Það hefur því mikið verið talað um nýjan heim — ólíkan og betri þeim sem nú er. Samkvæmt einni talningu talaði George Bush 42 sinnum opinberlega um „nýja heimsskipan“ á tiltölulega stuttu tímabili.

En er slík umræða einstök í sögunni? Hefur hún heyrst áður?

Ekkert nýtt

Í maí árið 1919, rétt eftir lok fyrri heimsstyrjaldarinnar, hélt Alríkisráð kirkna Krists í Ameríku fund í Cleveland í Ohio þar sem boðaður var ‚möguleiki á nýjum og betri heimi.‘ Einn ræðumaður staðhæfði: „Það verður nýr heimur þar sem samkeppnisandi víkur fyrir bræðralagi og sameiningu. Það verður nýr heimur þar sem eining hefur rutt sundrungu úr vegi . . . Það verður nýr heimur þar sem vinátta og bróðurþel hefur leyst af hólmi allan fjandskap nema stríðið gegn hinu illa.“

Hvernig álitu kirkjurnar að þessi nýi heimur kæmi? Fyrir atbeina Guðsríkis sem heitið er í Biblíunni? Nei. Þær ætluðu pólitískum samtökum að koma á slíkum nýjum heimi. „Það sem við köllum núna Þjóðabandalagið,“ sagði einn kirkjuleiðtogi, „er ómissandi og óumflýjanleg afleiðing allrar okkar kristnu trúar og viðleitni í heiminum.“ Kirkjuleiðtogar þess tíma hömpuðu jafnvel Þjóðabandalaginu sem „pólitískri ímynd Guðsríkis á jörð.“

Voldugur leiðtogi í Þýskalandi, Adolf Hitler, var á hinn bóginn andvígur Þjóðabandalaginu og setti Þriðja ríkið á stofn á fjórða áratugnum. Hann hélt því fram að Þriðja ríkið myndi standa í þúsund ár og áorka því sem Biblían segir að einungis Guðsríki geti. „Ég byrja með unga fólkið,“ sagði Hitler. „Með því get ég skapað nýjan heim.“

Hitler lét byggja gríðarstóran leikvang í Nürnberg til að geta sýnt þar mátt nasista. Á nærri 300 metra löngum palli voru reistar 144 risastórar súlur. Hvers vegna 144 súlur? Biblían talar um að 144.000 eigi að ríkja með ‚lambinu,‘ Jesú Kristi, og að stjórn þeirra muni standa í þúsund ár. (Opinberunarbókin 14:1; 20:4, 6) Augljóslega var það engin töluleg tilviljun að súlurnar á leikvanginum í Nürnberg skyldu vera 144, því að það er vel skjalfest að yfirmenn nasista notuðu málfar og táknmyndir Biblíunnar.

Hvaða afleiðingar hafði viðleitni manna til að uppfylla það sem Biblían segir einungis Guðsríki geta áorkað?

Viðleitni manna bregst

Sagan ber rækilega vitni um að Þjóðabandalaginu mistókst að koma á nýjum, friðsælum heimi. Samtökin lögðu upp laupana þegar þjóðirnar helltu sér út í síðari heimsstyrjöldina. Og Þriðja ríkið lá í rústum eftir aðeins 12 ár. Það brást hrapallega og var mikil hneisa fyrir mannkynið.

Út í gegnum mannkynssöguna hafa tilraunir manna til að skapa friðsælan, nýjan heim undantekningarlaust mistekist. „Sérhver siðmenning, sem til hefur verið, hefur með tímanum liðið undir lok,“ sagði Henry Kissinger, fyrrverandi utanríkisráðherra Bandaríkjanna. „Mannkynssagan er saga tilrauna sem mistókust, vona sem brugðust.“

Hvað þá um nýju heimsskipanina sem veraldarleiðtogar hafa verið að hrósa í hástert upp á síðkastið? Þjóðernisátök, sem hafa blossað upp, gera hugmyndina um slíkan nýjan heim fáránlega. Til dæmis sagði dálkahöfundurinn William Pfaff háðslega þann 6. mars á síðasta ári: „Nýja heimsskipanin er gengin í garð. Hún virkar ágætlega og er splunkuný því hún blessar innrásir, árásir og þjóðernishreinsanir sem boðlegt hátterni á alþjóðavettvangi.“

Eftir fall kommúnismans hafa brotist út hræðileg átök og skelfileg ódæðisverk verið framin. Jafnvel George Bush viðurkenndi skömmu áður en hann lét af embætti í janúar á síðasta ári: „Nýi heimurinn gæti með tímanum orðið jafnógnvekjandi og sá gamli.“

Ástæða til vonar?

Merkir þetta að staðan sé vonlaus? Er nýr heimur aðeins óskadraumur? Ljóst er að menn hafa ekki reynst þess megnugir að skapa nýjan heim. En hvað um loforð skaparans um að gera það? „Eftir fyrirheiti [Guðs] væntum vér nýs himins og nýrrar jarðar, þar sem réttlæti býr,“ segir Biblían. — 2. Pétursbréf 3:13.

Nýi himinninn, sem Guð lofar, er ný stjórn yfir jörðinni. Þessi nýja stjórn er ríki Guðs, himnesk stjórn hans sem Jesús kenndi mönnum að biðja um. (Matteus 6:9, 10) Þessi himneska stjórn er mynduð af Jesú Kristi og 144.000 meðstjórnendum hans, og nýja jörðin verður nýtt þjóðfélag manna. Já, þeir munu lifa í dýrlegum, nýjum heimi og styðja stjórn Guðs dyggilega.

Ríkisstjórn Guðs mun ráða yfir hinum fyrirheitna, nýja heimi. Þessi nýi heimur verður þar af leiðandi ekki verk manna. „Ríki Guðs þýðir aldrei verknað manna né neitt það sem þeir hafa komið á fót,“ segir biblíuhandbók. „Ríkið er verknaður Guðs, ekki afrek manna, ekki einu sinni afrek vígðra, kristinna manna.“ — The Zondervan Pictorial Encyclopedia of the Bible.

Nýi heimurinn undir stjórn Guðsríkis kemur áreiðanlega. Þú getur reitt þig á loforðið um að hann komi vegna þess að það er loforð Guðs sem „ekki lýgur.“ (Títusarbréfið 1:2) Veltu fyrir þér hvernig hinn nýi heimur Guðs verður.

[Mynd/Rétthafi á blaðsíðu 3]

Ljósmynd: NASA