Vottar Jehóva og læknastéttin vinna saman
Vottar Jehóva og læknastéttin vinna saman
ÁRIÐ 1945 gerðu vottar Jehóva sér grein fyrir að blóðgjafir samrýmdust ekki Biblíunni. Ákvæði um blóð var að finna í Móselögunum og það var ítrekað í kristnu Grísku ritningunum. Postulasagan 15:28, 29 segir: „Það er ályktun heilags anda og vor að leggja ekki frekari byrðar á yður en þetta, sem nauðsynlegt er, að þér haldið yður frá kjöti fórnuðu skurðgoðum, blóði, kjöti af köfnuðum dýrum og saurlifnaði. Ef þér varist þetta, gjörið þér vel. Verið sælir.“ (Sjá 3. Mósebók 17:10-12.) Það að vottarnir skyldu neita að þiggja blóðgjafir olli mörgum árekstrum við ýmsa úr læknastéttinni.
Spítalasamskiptanefndir
Til að styðja vottana í þeirri afstöðu að þiggja ekki blóðgjafir, eyða misskilningi af hálfu lækna og spítala og skapa jákvæðari samstarfsanda milli heilbrigðisstofnana og sjúklinga sem eru vottar, kom hið stjórnandi ráð votta Jehóva á laggirnar spítalasamskiptanefndum. Í nefndunum eiga sæti þroskaðir vottar sem hafa fengið þjálfun í að ræða með skilningi við lækna og starfsfólk spítala, og þær hafa afstýrt árekstrum og stuðlað að betri samstarfsanda. Nefndunum hefur fjölgað úr fáeinum árið 1979 upp í liðlega 850 í 65 löndum. Þar með hafa yfir 3,5 milljónir votta Jehóva aðgang að hjálp þeirra og þjónustu.
Yfir 4500 öldungar í söfnuðum votta Jehóva hafa verið þjálfaðir í að tala við lækna til að benda þeim á allt það sem læknaritin sjálf segja að hægt sé að gera án þess að grípa til blóðgjafa. Þegar sérstök þörf krefur eru viðeigandi greinar sendar með bréfsíma beint til spítalans til að hjálpa læknum að veita vottum meðferð án blóðgjafar. Í öðrum tilvikum koma nefndirnar því í kring að læknar geti ráðfært sig við aðra samvinnuþýða lækna í þeim tilgangi að skipuleggja skurðaðgerð eða aðra læknismeðferð án blóðgjafar.
Í fjölmörgum tilfellum, þar sem blóðmissir hefur valdið alvarlegu blóðleysi og læknar hafa sagt að gefa þyrfti blóð til að hækka rauðkornahlutfallið, hafa spítalasamskiptanefndir til dæmis getað látið læknum í té greinar úr læknaritum sem sýna að rauðkornavaki (EPO) hefur sömu áhrif. Þetta er tilbúinn hormón og verkar eins og náttúrlegur rauðkornavaki sem nýrun framleiða og örvar beinmerginn til að senda ný og fersk rauðkorn út í blóðrásina.
Sumir læknar hafa álitið að rauðkornavaki verkaði ekki nógu hratt til að bæta upp rauðkornamissinn, en fjölmörg tilfelli, þar sem vottar Jehóva eiga í hlut, hafa sýnt hve skjótum árangri hann skilar. Í einu tilviki voru nýmynduð rauðkorn orðin fjórfalt fleiri en venjulegt er strax daginn eftir að rauðkornavaki var gefinn! Degi síðar var líðan sjúklingsins orðin stöðug og á fjórða degi var rauðkornatalan (fullþroskuð rauðkorn) byrjuð að hækka. Fáeinum dögum síðar var hún á hraðri uppleið. Sjúklingurinn lifði. Þannig nutu bæði læknar og sjúklingur góðs af starfi þessara spítalasamskiptanefnda.
Þegar læknar í Ástralíu sögðust ekki geta bjargað lífi votts, sem var með sjaldgæfan hitabeltissjúkdóm, án þess að gefa honum blóð, leituðu þeir til spítalasamskiptanefndarinnar
á staðnum um hverja þá hjálp sem hún gæti veitt til að leita upplýsinga um læknismeðferð án blóðgjafar. Útibú votta Jehóva í Ástralílu var látið vita sem hafði samband við Spítalaupplýsingar við aðalstöðvar votta Jehóva í Brooklyn í New York. Þar var leitað í gagnagrunni í læknisfræði. Gagnlegar greinar voru sendar með bréfsíma til Ástralíu. Aðeins 11 klukkustundum eftir að meðlimur áströlsku spítalasamskiptanefndarinnar gekk út af skrifstofu læknisins var hann kominn aftur með greinarnar sem þörf var á. Þær komu að góðu gagni og sjúklingurinn náði sér. Greinar úr læknaritum hafa verið sendar með bréfsíma frá New York allt til Nepal.Rannsóknir og aðstoð í háum gæðaflokki
Rannsóknir votta Jehóva á læknaritum eru í háum gæðaflokki og ná til þess nýjasta í læknisfræðinni. Hjúkrunarfræðingur, sem er meðstjórnandi skurðdeildar á spítala í Oregon í Bandaríkjunum, sagði í grein í læknatímariti sem er sérstaklega ætlað stjórnendum skurðstofa: „Vottar Jehóva . . . eru langt á undan okkur. Þeir vita manna mest um aðra valkosti en blóð og blóðafurðir og láta okkur oft í té lesefni áður en við fréttum einu sinni af því.“ — OR Manager, janúar 1993, bls. 12.
Sumir mjög kunnir læknar og spítalar, sem geta veitt læknismeðferð án þess að nota framandi blóð, eru fúsir til að vera til ráðuneytis um aðferðir sínar. Jákvæð viðbrögð þeirra við þessari þörf hafa átt sinn þátt í að bjarga mannslífum, eins og sjá má af velheppnaðri meðferð við hvítblæði og ýmiss konar skurðaðgerðum. Þessi ráðgjöf hefur oft farið fram símleiðis landa í milli.
Vottar Jehóva leggja sig í líma við að
hjálpa þeim sem eru hjálparþurfi þegar reynir á trú þeirra í tengslum við alvarleg veikindi. Það má sjá af þeim ráðstöfunum sem þeir gera til að fá sjúklinga flutta frá einum spítala til annars, einum landshluta til annars og jafnvel frá einu landi til annars. Nefnum nokkur dæmi: Veikur maður var fluttur flugleiðis frá Súrínam til Púertóríkó; flogið var með annan frá Samóaeyjum til Hawaii og með ungbarn fá Austurríki til Flórída í Bandaríkjunum.Samvinnuþýðum læknum fjölgar
Hagur votta Jehóva hefur einnig vænkast af þeirri ástæðu að læknum, sem eru fúsir til að vinna með þeim í þessu máli, hefur fjölgað úr um það bil 5000 fyrir fimm árum í yfir 30.000 í 65 löndum. Þessi fjöldi dugmikilla lækna hefur greitt götu annarrar, jákvæðrar þróunar — þeirrar að nú eru yfir 30 spítalar víða um lönd sem taka beinlínis að sér skurðaðgerðir og aðra læknismeðferð án blóðgjafa.
Það er því orðið afar sjaldgæft, að minnsta kosti í Norður-Ameríku, að frétta af tilraunum til að þvinga fullvaxta mann til að taka við blóðgjöf, og það stefnir í sömu átt í fjölda annarra landa. Flest vandamálin núorðið tengjast nýburum og þá sér í lagi fyrirburum. Fyrirburarnir eiga í margs konar vanda vegna vanþroskaðra líffæra sem starfa ekki eðlilega, og má þar nefna lungu og nýru. En læknar eru að finna leiðir til að meðhöndla slík tilfelli án blóðgjafa. Lungnablöðruseyti, sem er framleitt með efnasmíði, er til dæmis fáanlegt til að draga úr fyrirburaandnauð. Rauðkornavaki er smám saman að verða almennt viðurkenndur til meðferðar við blóðleysi hjá fyrirburum.
Hjálp handa læknum og heilbrigðisyfirvöldum
Til að hjálpa barnalæknum og nýburasérfræðingum að meðhöndla börn votta Jehóva án blóðgjafa hafa Spítalaupplýsingar tekið saman 55 greinar úr læknaritum sem sýna hvað hægt sé að gera án blóðgjafa til að meðhöndla alls konar kvilla í nýburum. Safnið er með þreföldum efnislykli.
Vottar Jehóva hafa útbúið 260 blaðsíðna möppu, sem er kölluð Family Care and Medical Management for Jehovah’s Witnesses, a til að koma upplýsingum um mögulega læknismeðferð án blóðgjafa til dómara, barnaverndarnefnda, barnaspítala, nýburasérfræðinga og barnalækna. Mappan er sérstaklega ætluð þessum sérfræðingum og embættismönnum og er með lausblöðum þannig að hægt sé að endurnýja efni hennar. Þar eð stundum hefur gætt misskilnings um fjölskyldulíf votta Jehóva sýnir hún læknum og embættismönnum hvernig kærleikur foreldra til barna sinna og sá lífsstíll, sem kenningar Biblíunnar leiða af sér, skapa umhyggju og jákvætt andrúmsloft.
Hvaða viðtökur hefur þetta rit fengið? Eftir að aðstoðarforstjóri barnaspítala í Pennsylvaníu í Bandaríkjunum hafði skoðað það sagðist hann vænta þess að starfslið spítalans myndi nota það og hugleiða. Hann bætti við: „Ég mun óska eftir skýringu ef það verður ekki slitið og jaskað þegar ég fæ það aftur.“ Sumir dómarar hafa nú þegar breytt dómsmeðferð sinni á þann veg að læknum sé skylt að reyna alla aðra möguleika til þrautar áður en þeir noti blóð. Börn hafa fengið læknismeðferð án blóðgjafar og farið heil heim.
Viðbrögð dómara í málum ólögráða barna í Ohio í Bandaríkjunum eru dæmigerð. Hann var svo hrifinn af möppunni að hann pantaði sjö eintök í viðbót handa starfsbræðrum sínum. Núna hefur hann breytt dómsmeðferð sinni á þann veg að tekið sé jafnt tillit til skoðana læknisins og réttinda
foreldranna. Hann nær því fram á tvo vegu. Hann tilgreinir í úrskurði sínum (1) að læknarnir verði að reyna alla aðra meðferðarmöguleika til þrautar áður en þeir noti blóð og (2) að læknarnir verði að fullvissa hann um að blóðið, sem þeir noti, hafi verið skimað og sé bæði laust við alnæmi og lifrarbólgu. Í þrem úrskurðum, sem hann felldi eftir að hann tók upp nýja starfsaðferð, fengu öll þrjú börnin árangursríka læknismeðferð án blóðgjafa.Dr. Charles H. Baron, prófessor í lögum við Boston College Law School, lagði fram greinargerð á fundi háskólamanna við Parísarháskóla árið 1992. Viðfangsefnið var „Blóð, synd og dauði: Vottar Jehóva og réttindahreyfing bandarískra sjúklinga.“ Í greinargerðinni sjálfri stóð eftirfarandi um spítalasamskiptanefndir vottanna:
„Þeim hefur jafnvel tekist að fá bandarísku læknastéttina til að endurmeta sum viðhorf sín í ljósi nýrra upplýsinga. Bandarískt þjóðfélag í heild hefur notið góðs af. Svo er starfi spítalasamskiptanefndanna að að þakka að minni líkur eru á því en áður að ekki aðeins vottar Jehóva heldur sjúklingar almennt fái óþarfar blóðgjafir. Sem þáttur í réttindahreyfingu sjúklinga hefur starf vottanna haft þau áhrif að sjúklingar almennt hafa mun meira sjálfsforræði í heilbrigðismálum en áður. Að vottarnir skuli hafa neitað afdráttarlaust að lát þvinga sig til að breyta gegn trúarsannfæringu sinni hefur verið málstað frelsis almennt til framdráttar og sér í lagi málstað trúfrelsis.“
Allt þetta starf spítalasamskiptanefndanna er kannski ekki bein prédikun fagnaðarerindisins um Guðsríki, en það er svo sannarlega svar við beinni áskorun á tilbeiðslu okkar í máli sem hið stjórnandi ráð fyrstu aldar kallaði „nauðsynlegt“ í heilagri þjónustu okkar. (Postulasagan 15:28, 29) Það er hins vegar athyglisvert að djarfmannlegt en þó virðulegt frumkvæði okkar til að stuðla að skoðanaskiptum hefur opnað sumum heilbrigðisstarfsmönnum leiðina til að bregðast jákvætt við boðskapnum um Guðsríki. Nokkrir meðlimir spítalasamskiptanefndanna hafa hafið biblíunám með læknum sem þeir hittu í starfi sínu í nefndunum og tveir slíkir læknar létu nýlega skírast.
Spítalasamskiptanefndirnar hafa því verið vottum Jehóva hjálp til að hlýða fullkomnum lögum Jehóva um það að halda sér frá blóði, að hvika ekki frá ráðvendni sinni en fá samt nauðsynlega læknishjálp. (Sálmur 19:8) Það hefur sannarlega náðst mjög góður árangur í þá átt að brúa bilið sem einu sinni var. Læknar og spítalar eru betur upplýstir nú en áður um það hvernig þeir geti veitt læknismeðferð án blóðgjafar. Sjúklingar, ættingjar þeirra, trúbræður og starfslið spítala ná þar með fram því markmiði sem allir vilja ná — að sjúklingurinn komist aftur til heilsu. — Unnið af Spítalaupplýsingum við aðalstöðvar Varðturnsfélagsins.
[Neðanmáls]
a Fæst aðeins á ensku.
[Mynd á blaðsíðu 21]
Samskiptanefnd ræðir við lækni.
[Mynd á blaðsíðu 23]
Umhyggja innan fjölskyldunnar.