Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Er alltaf rangt að reiðast?

Er alltaf rangt að reiðast?

Sjónarmið Biblíunnar

Er alltaf rangt að reiðast?

„REIÐI er skammvinn brjálsemi.“ Þannig lýsti fornrómverska ljóðskáldið Hóras algengri skoðun á einni sterkustu tilfinningu manna. Þótt ekki séu allir því sammála að reiði sé eins konar tímabundin vitfirring líta margir svo á að hún sé í eðli sínu af hinu illa. Þegar á sjöttu öld tóku kaþólskir munkar saman hina frægu skrá um „dauðasyndirnar sjö.“ Það kemur ekki á óvart að reiði skyldi komast inn á listann.

Það er ekki vandséð hvers vegna þeir voru þessarar skoðunar. Biblían segir vissulega: „Lát af reiði og slepp heiftinni.“ (Sálmur 37:8) Og Páll postuli hvatti söfnuðinn í Efesus: „Látið hvers konar beiskju, ofsa, reiði, hávaða og lastmæli vera fjarlægt yður og alla mannvonsku yfirleitt.“ — Efesusbréfið 4:31.

Þér kann hins vegar að vera spurn hvort þetta sé allt og sumt sem Biblían segir um reiði. Spáði ekki Páll líka að þessir ‚síðustu dagar,‘ sem við lifum, yrðu „örðugar tíðir“? (2. Tímóteusarbréf 3:1-5) Ætlast Guð virkilega til þess að við lifum þessa tíma þegar fólk er ‚grimmt, kærleikslaust og elskar ekki það sem gott er‘ — án þess að reiðast nokkurn tíma smávegis?

Öfgalaust sjónarmið

Biblían er ekki svona einfeldnisleg í umfjöllun sinni um þetta efni. Taktu til dæmis eftir orðum Páls í Efesusbréfinu 4:26: „Ef þér reiðist, þá syndgið ekki.“ Þetta vers yrði talsverð ráðgáta ef reiði væri sjálfkrafa „dauðasynd“ sem kallaði á eilífa refsingu.

Páll var að vitna í Sálm 4:5 þar sem stendur: „Skelfist og syndgið ekki.“ Að sögn Vine’s Expository Dictionary of Biblical Words merkir hebreska orðið raghasʹ, sem hér er þýtt „skelfist,“ að „skjálfa af sterkri tilfinningu.“ En hvaða sterkri tilfinningu? Var það reiði? Í Sjötíumannaþýðingunni á Sálmi 4:5 var raghasʹ þýtt á grísku sem „láttu reiðast“ og það er greinilega það sem Páll hafði í huga hér.

Hvers vegna skyldi Biblían gera ráð fyrir reiði? Vegna þess að ekki er öll reiði af hinu illa. Það sjónarmið að „reiði mannsins sé í sjálfri sér aldrei réttlát og leyfileg er, eins og biblíuskýrandi orðaði það, ekki biblíulegt.“ Biblíufræðingurinn R. C. H. Lenski sagði réttilega um Efesusbréfið 4:26: „Sú siðfræði, sem bannar alla reiði og krefst yfirvegaðrar stillingar undir öllum kringumstæðum, er stóísk en ekki kristin.“ Prófessor William Barclay tók í sama streng: „Það verður að vera reiði í kristnu lífi en það verður að vera rétt tegund reiði.“ En hvað er „rétt tegund reiði“?

Réttlát reiði

Þótt reiði sé ekki einn hinna ráðandi eiginleika Jehóva er honum oft lýst þannig í Ritningunni að hann finni til reiði og láti hana í ljós. En reiði hans er af tveim ástæðum alltaf réttlát. Í fyrsta lagi reiðist hann aldrei án fulls tilefnis. Í öðru lagi lætur hann reiði sína í ljós með réttvísi og réttlæti og missir aldrei stjórn á sér. — 2. Mósebók 34:6; Sálmur 85:4.

Jehóva reiðist ranglæti sem er vísvitandi. Til dæmis sagði hann Ísraelsmönnum að ef þeir færu illa með varnarlausar konur og börn myndi hann „vissulega heyra neyðarkvein þeirra.“ Hann varaði við að ‚þá skyldi reiði hans upptendrast.‘ (2. Mósebók 22:22-24; samanber Orðskviðina 21:13.) Líkt og föður sínum þótti Jesú vænt um börn. Þegar velviljaðir fylgjendur hans reyndu einu sinni að hindra nokkur börn í að nálgast Jesú „sárnaði honum“ og hann tók börnin í faðm sér. (Markús 10:14-16) Það er eftirtektarvert að gríska orðið, sem þýtt er „sárnaði,“ var upphaflega notað um „líkamlegan sársauka eða ertingu.“ Hann hafði svo sannarlega sterkar tilfinningar!

Réttlát reiði kom líka upp í hjarta Jesú þegar hann sá að kaupmenn og víxlarar höfðu breytt húsi föður hans í „ræningjabæli.“ Hann velti um borðum þeirra og rak þá út þaðan! (Matteus 21:12, 13; Jóhannes 2:15) Þegar farísearnir og fræðimennirnir sýndu að þeir hugsuðu meira um smásmugulegar hvíldardagsreglur sínar en sjúka, sem voru hjálparþurfi, var Jesús „sárhryggur yfir harðúð hjartna þeirra“ og „leit í kring á þá með reiði.“ — Markús 3:5.

Eins fylltist hinn trúfasti Móse til forna réttlátri reiði við hina ótrúu Ísraelsmenn er hann kastaði frá sér lögmálstöflunum. (2. Mósebók 32:19) Og hinn réttláti fræðimaður Esra var svo reiður yfir óhlýðni Ísraelsmanna við lögmál Guðs um hjónaband að hann reif klæði sín og hárreytti jafnvel sjálfan sig! — Esrabók 9:3.

Allir þeir sem ‚elska hið góða‘ kappkosta að ‚hata hið illa.‘ (Amos 5:15) Þess vegna geta kristnir menn fundið réttláta reiði spretta upp í hjörtum sínum þegar þeir horfa upp á vísvitandi og iðrunarlausa grimmd, hræsni, óheiðarleika, ótryggð eða ranglæti.

Rétt farið með reiði

Það er engin tilviljun að Biblían skuli oft líkja reiði við eld. Eins og eldur hefur hún sitt hlutverk. En hún getur líka valdið gífurlegu tjóni. Ólíkt Jehóva og Jesú reiðast menn allt of oft án þess að hafa rétt tilefni eða láta reiði sína í ljós á ranglátan hátt. — Sjá 1. Mósebók 4:4-8; 49:5-7; Jónas 4:1, 4, 9.

Á hinn bóginn er það kannski ekki réttlátt heldur að bæla niður reiði sína og láta sem hún sé ekki til. Munum að Páll ráðlagði: „Sólin má ekki setjast yfir reiði yðar.“ (Efesusbréfið 4:26) Það eru ýmsar biblíulegar leiðir til að tjá reiði, svo sem að ‚hugsa sig um í hvílu sinni,‘ tala út um tilfinningar sínar við þroskaðan trúnaðarvin eða jafnvel að leggja málið stillilega fyrir þann sem gerði á hlut þinn. — Sálmur 4:5; Orðskviðirnir 15:22; Matteus 5:23, 24; Jakobsbréfið 5:14.

Þess vegna er greinilega ekki alltaf rangt að reiðast. Bæði Jehóva og Jesús hafa reiðst — og eiga eftir að reiðast aftur! (Opinberunarbókin 19:15) Ef við eigum að líkja eftir þeim geta jafnvel komið upp aðstæður þar sem það er rangt að reiðast ekki! Mestu máli skiptir að fylgja ráðleggingum Biblíunnar og fullvissa okkur um að tilfinningar okkar eigi sér gildar forsendur og að við tjáum þær réttlátlega og kristilega.

[Mynd á blaðsíðu 18]

Kain og Abel.