Hið fjölhæfa lyktarskyn
Hið fjölhæfa lyktarskyn
VEKUR MINNINGAR OG BÆTIR BRAGÐ
HVER er uppáhaldsilmurinn þinn? Þegar nokkrir einstaklingar voru spurðir þessarar spurningar fengust athyglisverð svör. Ilmurinn af steiktu beikoni, heyi, heitum kryddjurtum. Saltur sjávarilmur. Útilykt af þvotti. Hvolpalykt. Aðspurðir hvers vegna þetta væri uppáhaldsilmurinn þeirra sögðu allir að ákveðnar minningar stæðu þeim ljóslifandi fyrir hugskotssjónum um leið og þeir fyndu þennan ilm. Mjög oft voru það bernskuminningar.
Ung kona minnist þess hvernig hún lá í rúminu á morgnana og fann lokkandi ilminn af steiktu beikoni læðast inn í herbergið og kalla hana fram til að borða morgunverð með fjölskyldunni.
Louise, 58 ára, sagði að ferskur sjávarilmur minni hana á bernskuárin er hún dvaldi sumarlangt á strönd Maine í Bandaríkjunum. „Við vorum svo frjáls,“ segir hún, „hlupum og lékum okkur í sandinum, grófum upp skelfisk og steiktum hann yfir opnum eldi!“
Michele, 72 ára, minnist þess þegar hún sem barn hjálpaði móður sinni að taka þvottinn af snúrunni, gróf andlitið í þvottinum þegar hún bar hann inn í húsið og dró djúpt að sér andann til að finna ferskan og hreinan ilminn.
Heyilmur sendir Jeremy, 55 ára, aftur í tímann til bernskuáranna á bóndabæ í Iowa í Bandaríkjunum þar sem hann lá á vagni fullum af fersku heyi sem verið var að forða í hlöðu undan regninu sem þeir feðgarnir fundu á lyktinni að var í aðsigi.
„Ilmurinn af heitum kryddjurtum,“ svaraði Jessie, 76 ára, og lygndi aftur augunum þegar hún sagði frá því hvernig fjölskyldan sauð eplasmjör (sterkkryddað eplamauk gert í Bandaríkjunum) í járnpotti undir berum himni. Það var fyrir 70 árum en minningin var enn þá ljóslifandi.
Carol man eftir litlum og sætum hvolpi sem hún hélt á í kjöltu sér fimm ára gömul og hún minnist þess hvernig andardráttur hans ilmaði. Þessi ilmur kallar fram hjá henni þá tilfinningu að hún sé í bómullarkjól í hlýju sólskini á verönd framan við gamalt hús.
En hvað um þig? Hefur þú fundið fyrir því, eins og aðrir, hvernig ilmur getur vakið upp ánægjulegar minningar og tilfinningar? Hefur þér nokkurn tíma fundist ferskt fjallaloft örvandi eða saltur sjávarilmur hressandi? Eða hefurðu fengið vatn í munninn við það að finna ilminn frá bakaríi bera fyrir vit þér? Taugasérfræðingurinn Gordon Shepherd sagði í tímaritinu National Geographic: „Við höldum að lífi okkar sé stjórnað af sjónskynjuninni, en því meir sem matartíminn nálgast, þeim mun ljósara verður manni hve raunveruleg lífsnautn manns er háð lyktarskyninu.“
Lyktarskynið hefur ótrúleg áhrif á bragðskynjunina. Bragðlaukarnir greina milli þess sem er salt, sætt, beiskt og súrt en lyktarskynið nemur önnur og fínni blæbrigði. Epli og laukur gætu bragðast nánast eins ef þau ilmuðu ekki. Eða prófaðu til gamans hve súkkulaði missir mikið af bragði sínu ef þú heldur fyrir nefið meðan þú borðar það.
Sjáðu fyrir þér ljúffengan ábætisrétt — til dæmis nýbakaða köku. Þessi lokkandi ilmur, sem hún sendir frá sér, stafar af því að hún sleppir frá sér sameindum sem berast með loftinu. Þú rekur nefið í gættina og þefar með ákefð. Þessar sameindir sogast inn með loftinu og setja af stað hið undraverða gangverk lyktarskynsins.
Lyktarskyninu er nánar lýst í rammanum á bls. 24 og 25. Þetta skynfæri er mjög flókið og margbrotið að gerð og vekur vissulega lotningu okkar.
Lykt og áhrif hennar á þig
Ilmvatnsframleiðendur, matreiðslumeistarar og vínsalar hafa um aldaraðir vitað um mátt ilmsins til að hrífa hugann og gleðja skilningarvitin. Núna eru ilmsálfræðingar og lífefnafræðingar að reyna að nota sér mátt lyktarskynsins á nýja vegu. Ilmfræðingar hafa gert tilraunir með það að blása ýmsum ilmefnum, allt frá dalaliljuilmi til epla- og kryddjurtailms, inn í skóla, skrifstofubyggingar, hjúkrunarheimili og jafnvel neðanjarðarlest, í þeim tilgangi að rannsaka áhrif þeirra á hugi manna og hegðun. Þeir segja að vissar ilmtegundir geti haft á hrif á hugarástand og gert fólk vingjarnlegra, bætt afköst á vinnustað og jafnvel aukið árvekni.
Að sögn tímaritsins The Futurist stendur fólk í biðröð fyrir framan nýtískulega heilsuræktarstöð í Tókíó í Japan til að fá hálfrar klukkustundar „ilmkokkteil“ sem sagður er draga úr streitu borgarlífsins. Japanskir vísindamenn hafa einnig rannsakað áhrif skógarlofts á menn og mælt með gönguferðum um skóglendi til að draga úr taugaspennu. Það hefur sýnt sig að terpenin (furuilmurinn), sem trén gefa frá sér, hafa ekki aðeins slakandi áhrif á líkamann heldur sérstaklega á hugann.
En því fer fjarri að öll lykt sé heilsusamleg. Það sem gleður einn getur hæglega valdið öðrum vanlíðan. Lengi hefur verið vitað að sterkur ilmur, jafnvel af ilmvötnum, getur aukið á asma og valdið ofnæmisviðbrögðum hjá sumu fólki. Og þá er líka til alls konar lykt sem öllum þykir vond — eitraður reykur frá verksmiðjum og vélknúnum ökutækjum, óþefur frá sorphaugum og skolpþróm og gufur rokgjarnra efna sem oft eru notuð í iðnaði.
Hættuleg efni eru auðvitað líka til af náttúrunnar hendi í umhverfi okkar, en yfirleitt eru þau svo útþynnt að þau eru hættulaus. En þegar slík efni safnast fyrir í miklu magni geta jafnvel hinar þrautseigu lyktartaugar hrörnað ef þær eru ekki varðar. Til dæmis hafa sérfræðingar flokkað leysiefni, svo sem í málningu, og mörg önnur iðnaðarefni, sem hættuleg lyktarskynfærunum. Vissir sjúkdómar geta einnig spillt eða eyðilagt lyktarskynið.
Metur þú þessa gjöf?
Lyktarskynið er svo sannarlega þess virði að það sé verndað fyrir slíkum hættum eins og frekast er unnt. Kynntu þér því hvort einhver þau efni, sem þú þarft að vinna með, séu hættuleg og gerðu allar skynsamlegar og nauðsynlegar varúðarráðstafanir til að vernda hin viðkvæmu lyktarskynfæri þín. (Samanber 2. Korintubréf 7:1.) Á hinn bóginn er gott að láta sér jafnannt um lyktarskyn annarra. Það er hægt að gera með því að vera hreinlátur, meðal annars með því að halda heimili sínu og líkama hreinum. Sumir hafa líka ákveðið að fara sérstaklega varlega með ilmvötn — einkum þegar þeir ætla að vera í fjölmenni um tíma, svo sem í leikhúsi eða mótssal. — Samanber Matteus 7:12.
Almennt séð kostar lyktarskynið þó ekki mikið viðhald. Það er okkur til yndisauka dag hvern en við þurfum lítið að gera til að vernda það og viðhalda því. Langar þig ekki til að þakka þeim sem gefur þér ánægjulega gjöf? Milljónir manna þakka skaparanum einlæglega fyrir það hve undursamlega mannslíkaminn er úr garði gerður. (Samanber Sálm 139:14.) Vonandi eiga enn fleiri þakkir og enn meira lof eftir að stíga upp til hans og vera, eins og fórnir Ísraelsmanna til forna, ‚þægilegur ilmur‘ handa kærleiksríkum, örlátum skapara okkar. — 4. Mósebók 15:3; Hebreabréfið 13:15.
[Rammi/Skyringamynd á blaðsíðu 24, 25]
Þannig virkar lyktarskynið
1. Lyktin numin
LYKT berst inn um nefgöngin þegar þú andar að þér. Þegar þú kyngir mat þrýstast sameindir einnig úr munnholinu upp í nefholið. En fyrst þarf lyktin að komast fram hjá „vörðunum.“ Meðfram nefgöngunum liggja þrenndartaugarnar (1) sem koma af stað hnerra þegar þær skynja stingandi eða ertandi efni. Þessar taugar gleðja okkur einnig með því að bregðast við ýmsum sterkum ilmi.
Iðustraumar, sem myndast þegar loftið streymir fram hjá neföðunum, þrem beinum sem skaga út í nefgöngin (2), þeyta ilmsameindum upp nefgöngin. Loftstraumurinn, sem hitnar og tekur í sig raka á leiðinni, ber sameindirnar að ilmþekjunni (3) sem er aðalmóttökusvæðið. Þetta er vefjarsvæði á stærð við þumalfingursnögl sem liggur í þröngum gangi langt uppi í nefinu. Það er þéttsetið um tíu milljónum skyntaugunga (4) og á enda hverrar þeirra eru allmargar, hárlaga totur, ilmhár, í þunnu slímbaði. Svo næm er ilmþekjan að hún getur numið 0,00002 millígrömm af vissum lyktarefnum í einni loftgusu.
En nákvæmlega hvernig lykt er numin er enn hulin ráðgáta. Þegar allt kemur til alls geta menn greint milli allt að 10.000 lyktartegunda. Og í umhverfi okkar eru yfir 400.000 lyktarefni og efnafræðingar eru stöðugt að búa til ný. Hvernig skynjar nefið einhverja ákveðna lykt mitt í öllum þessum glundroða? Yfir 20 mismunandi kenningar hafa verið settar fram til að reyna að ljúka upp leyndardómnum.
Nú nýverið hefur vísindamönnum orðið nokkuð ágengt í þá átt að leysa hluta þessarar ráðgátu. Árið 1991 fundust nokkrar vísbendingar um að agnarsmá prótín, kölluð lyktnemar, séu samofin frumuhimnum ilmháranna. Slíkir nemar virðast bindast ólíkum ilmsameindum með ólíkum hætti og gefa þannig hverri lykt sitt einkennandi „fingrafar.“
2. Lyktarboð send
Þessar upplýsingar eru sendar sem rafefnaboð eftir sérstöku merkjakerfi til heilans með lyktartaugungunum (4). Dr. Lewis Thomas, sem skrifar um vísindi, kallar þessa taugunga ‚hið fimmta undur nútímaveraldar.‘ Þeir eru einu aðaltaugafrumurnar sem endurnýjast á nokkurra vikna fresti. Þessar taugafrumur hafa ekki heldur varnarvegg milli sín og umhverfisáreitisins eins og skyntaugafrumurnar sem liggja verndaðar inni í auganu og eyranu. Lyktartaugarnar liggja út frá sjálfum heilanum og eru í beinni snertingu við umheiminn. Nefið er því sá staður þar sem heilinn og umheimurinn mætast.
Þessir taugungar liggja allir til sama staðar: Lyktarklumbnanna tveggja (5) neðan á heilanum. Þessar lyktarklumbur eru aðalskiptistöðin sem sendir boð til annarra hluta heilans. En fyrst vinsa þær úr upplýsingaflóðinu sem til þeirra berst. Einungis því nauðsynlega er haldið eftir og sent áfram.
3. Lyktin skynjuð
Lyktarklumburnar eru á flókinn hátt tengdar randkerfi heilans (6), fallega bogalaga starfsheild sem gegnir stóru hlutverki í minnisfestingu og geðhrifum. Það er þar sem „hinn kaldi heimur veruleikans umbreytist í bullandi suðuketil mannlegra tilfinninga,“ að sögn bókarinnar The Human Body. Randkerfið er svo nátengt lyktarskyninu að það var lengi vel kallað þefstöð (rhinencephalon sem merkir „nefheili“). Þetta nána samband nefs og randkerfis kann að skýra hvers vegna lykt getur kallað fram svo sterkar tilfinningar og minningar um fortíðina. Aha! Steikta beikonið! Hreini þvotturinn! Heyið! Hvolpurinn!
Það er háð því hvaða lykt er skynjuð hvort randkerfið örvar undirstúkuna (7) sem getur síðan skipað yfirkirtli heilans, heiladinglinum, (8) að framleiða ýmis hormón — til dæmis þau sem stýra matarlyst eða kynhvötinni. Það er því ekkert undarlegt að matarilmur geti skyndilega komið okkur til að finna til svengdar eða að líta megi á ilmvatn sem þýðingarmikinn þátt í kynferðislegu aðdráttarafli.
Randkerfið teygir sig líka inn í nýhjarnann (9), heilasvæði sem er tengt gáfum og rökgreiningu. Það er kannski þar sem fréttirnar frá nefinu eru
bornar saman við upplýsingar frá öðrum skilningarvitum. Á augabragði gætir þú tengt upplýsingar svo sem sviðalykt, snark og daufa reykjarslæðu í loftinu og dregið ályktun — eldur!Heilastúkan (10) gegnir líka sínu hlutverki, kannski sem tengiliður milli þessara mjög svo ólíku hluta heilans, hins „tilfinningalega“ randkerfis og hins „gáfaða“ nýhjarna. Þefsvæði heilabarkarins (11) á þátt í að greina á milli áþekkra lykta. Mismunandi hlutar heilans geta einnig sent boð aftur til skiptistöðvarinnar, lyktarklumbnanna. Til hvers? Til að lyktarklumburnar geti temprað lyktarskynjunina og í reynd skrúfað niður í eða jafnvel slökkt á henni.
Þú hefur kannski veitt því eftirtekt að matarlimur er ekki jafnlokkandi þegar þú ert saddur eins og þegar þú ert svangur. Eða hefur þú nokkurn tíma þurft að þola áleitna, óumflýjanlega lykt sem virtist réna með tímanum? Það eru lyktarklumburnar sem valda breytingunni eftir að hafa fengið boð um það frá heilanum. Hugsanlega njóta þær aðstoðar lyktnemanna í ilmhárunum sem eru sagðir fljótþreyttir. Þetta er mjög heppilegt, einkum þegar þú lendir í sterkum óþef.
Þetta er stórmerkilegt kerfi! Og þó höfum við aðeins stiklað á stóru! Heilu bækurnar hafa verið skrifaðar um þetta flókna og margbrotna skynfæri.
[Skyringamynd]
(Sjá uppsettan texta í ritinu)
[Rammi á blaðsíðu 26]
Þegar lyktarskynið bregst
Milljónir manna hafa skert lyktarskyn. Angan vorsins eða bragðmikill matur hefur lítil sem engin áhrif á þá. Kona, sem missti lyktarskynið skyndilega, lýsti því þannig: „Við þekkjum öll blindu og heyrnarleysi og ég vildi svo sannarlega ekki skipta á því og bæklun minni. En við tökum unaðslegan kaffiilm og sætleika appelsínunnar sem svo sjálfsagðan hlut að þegar við missum þessa skynjun er það næstum eins og við kunnum ekki lengur að anda.“ — Tímaritið Newsweek.
Skert lyktarskyn getur jafnvel verið lífshættulegt. Eva segir: „Ég verð að vera mjög gætin þar eð ég finn ekki lykt. Mér hrýs hugur við vetrinum vegna þess að þá þarf ég að loka öllum gluggum og dyrum að íbúðinni minni. Án ferska loftsins gæti ég hæglega dáið úr gaseitrun ef síloginn á gaseldavélinni slokknaði.“
Hvað veldur því að lyktarskynið bilar? Orsakirnar geta skipt tugum en þrjár eru þó algengastar: höfuðáverki, veirusýking í nefslímhimnu og afholusjúkdómar. Ef taugabrautirnar rofna, ef ilmþekjan verður ónæm eða ef loftið kemst ekki að henni vegna stíflu eða bólgu hverfur lyktarskynið. Mönnum er ljóst að slíkir kvillar eru alvarlegt vandamál og hafa því sett á fót rannsóknamiðstöðvar til að rannsaka bragð- og lyktarskyn.
Dr. Maxwell Mozell við State University of New York Health and Science Center í Syracuse sagði í viðtali: „Við höfum haft sjúklinga hérna sem [finna óþef sem enginn annar finnur]. Þeir finna hræðilegan ódaun. Kona fann stöðuga fisklykt. Hugsaðu þér ef þú fyndir lykt af fiski eða brennandi gúmmíi hverja einustu mínútu alla daga.“ Kona, sem hafði þjáðst vegna ólyktar í 11 ár og orðið þunglynd af þeim sökum, fékk strax bót eftir að önnur lyktarklumban var fjarlægð með skurðaðgerð.
[Myndir á blaðsíðu 23]
Hvolpalykt
[Myndir á blaðsíðu 23]
Steikt beikon
[Myndir á blaðsíðu 23]
Ilmandi hey