Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Horft á heiminn

Horft á heiminn

Horft á heiminn

Dýralíf Indlands í hættu

Embættismenn við Umhverfisráðuneyti Indlands voru allir tilbúnir á síðasta ári til að auglýsa hvað þeir hefðu afrekað til bjargar indverska tígrisdýrinu þegar þeir uppgötvuðu hið gagnstæða: Tígrisdýrið er að deyja út. Frá 1988 hafa veiðiþjófar drepið 1500 af af hinum 4500 villtu tígrisdýrum í landinu. Nálega allir hlutar tígursins — skinnið, beinin, blóðið og jafnvel kynfærin — eru seld með miklum hagnaði á svörtum markaði. Ólögleg verslun stofnar líka mörgum öðrum dýrategundum Indlands í útrýmingarhættu. Tvöfalt fleiri nashyrningar eru drepnir vegna hornanna en áður. Karlfílar eru aftur drepnir í stórum stíl vegna skögultannanna. Allar tegundir hlébarða eru drepnir vegna skinnsins, moskushirtir eru strádrepnir vegna ilmpokanna á kviði þeirra, og kragabjörninn er veiddur vegna gallblöðrunnar. Auk þess eru snákar og eðlur drepnar vegna skinnsins og mangar (mongúsar) vegna hársins sem er stinnt og notað í bursta. Önnur dýr, svo sem fagurbaka (skjaldbaka) og fálki, eru flutt úr landi og seld á ólöglegum gæludýramarkaði. Veiðiþjófarnir eru vel vopnaðir þannig að skógarverðir óttast um líf sitt.

Blóðgjafahneyksli

Í Þýskalandi, sem notar meiri blóðafurðir miðað við íbúa en nokkurt annað land, hefur komið upp alvarlegt hneykslismál sem hefur „kallað gagnrýni yfir eina af áreiðanlegustu greinum læknavísindanna,“ að sögn dagblaðsins Süddeutsche Zeitung. Hneykslið tengist blóðvinnslufyrirtæki sem hefur um árabil selt feikilegt magn illa skimaðra blóðafurða til spítala. Þúsundir sjúklinga, sem notuðu þessar afurðir á sjúkrahúsum, hafa þar með átt á hættu að smitast af HIV-veirunni. Heilbrigðisráðherra sambandslýðveldisins, Horst Seehofer, hefur tilkynnt að „hver sá sem vill ganga úr skugga um að hann hafi ekki fengið HIV með smituðu blóði eða blóðvökvaafurðum við skurðaðgerð“ ætti að gangast undir mælingu. Dagblaðið Die Zeit skýrir frá því að „71 af hundraði landsmanna óttist nú alnæmissmit samfara blóðgjöf.“

Sveppir í útrýmingarhættu

„Af um það bil 4400 aldinsveppategundum í Þýskalandi er þriðjung að finna á lista yfir tegundir í útrýmingarhættu,“ að sögn dagblaðsins Frankfurter Allgemeine Zeitung. Vísindamenn vara meira að segja við því að það sé ekki aðeins hætta á að aldinsveppir heldur einnig margar aðrar sveppategundir í Evrópu deyi út. Hvers vegna? Svo virðist sem mengun og ofnýting gangi nærri sveppunum. Aðrar lífverur, svo sem eik, fura og margar bjöllutegundir, eiga líf sitt undir sveppum. Ef sveppir hverfa í stórum stíl hefur það vistfræðilegt stórslys í för með sér.

Er þetta réttlæti?

„Michael Charles Hayes skaut fjórar manneskjur í Norður-Karólínu í æðiskasti — og núna kvarta fjölskyldur fórnarlambanna yfir því að hann hafi það betra en nokkru sinni fyrr á kostnað skattgreiðenda,“ að því er segir í fréttaskeyti frá Associated Press. Hayes var dæmdur geðveikur og settur á geðveikrahæli. Þar með öðlaðist hann rétt til örorkubóta og fær 536 dollara (um 38.000 ÍSK) á mánuði. Það hefur gert honum kleift að kaupa sér vélhjól, mikið af fötum og fullt herbergi af dýrum hljóm- og myndbandstækjum, því að honum er hvort eð er séð fyrir fríu fæði og húsnæði sem hugmyndin var að örorkubæturnar ættu að kosta. Stjórnin úthlutar geðsjúkum afbrotamönnum 48 milljónum dollara (um 3,4 milljörðum ÍSK) á ári. Vincent Rabil, saksóknari, kallar þetta „undarlega réttvísi“ og bætir við: „Skattgreiðendur eru að borga morðingjanum. Það er ekki mikil skynsemi í því.“

Hvers vegna fíkniávani?

„Margir halda að lyfjafræði nútímans eigi litla pillu sem getur leyst hvaða vandamál sem er. Ef maður getur ekki sofið tekur hann litla pillu. Ef hann vill auka afköstin í vinnunni tekur hann aðra,“ segir lögreglustjóri São Paulo, Alberto Corazza í brasilíska tímaritinu Veja. „Það er rökrétt að slíkir menningarhættir hafi áhrif á unglinga.“ Hann bætir við: „Áttatíu prósent fíkniefnaneytenda eiga við alvarleg fjölskylduvandamál að stríða. Þeir koma frá mjög þvingandi eða mjög undanlátssömu heimili eða heimili án föður.“ En hvernig geta foreldrar verndað unglinga fyrir fíkniefnum? Corazza segir: „Það kann að hljóma rómantískt en á friðsælu heimili, þar sem börnin eru elskuð og tjáskipti eru góð, er varla nokkurt rúm fyrir fíkniefni.“

Þunglyndi vaxandi

„Tólf, óháðar kannanir, þar sem talað var við alls 43.000 manns í níu löndum, hafa staðfest fyrri niðurstöður bandarískra rannsókna þess efnis að tíðni alvarlegs þunglyndis hafi aukist jafnt og þétt í stórum hluta heims á 20. öldinni,“ að sögn The Harvard Mental Health Letter. Eftir að hafa flokkað þátttakendur „í hópa eftir fæðingaráratug, frá því fyrir 1905 og fram yfir 1955,“ sýndu nánast allar kannanir að „alvarlegt þunglyndi einhvern tíma á ævinni varð æ algengara eftir því sem fólk fæddist síðar á öldinni.“ Flestar kannanir sýndu einnig að djúpt þunglyndi hefur auk­ist jafnt og þétt eftir því sem liðið hefur á öldina.

Nútímaþrælkun

Enda þótt mannréttindayfirlýsingin kveði á um að „engum skuli haldið í þrælkun eða ánauð“ líða hundruð milljóna manna eigi að síður sem þrælar. Tímaritið UN Chronicle bendir á að reyndar sæti enn fleiri meðferð, sem líkja má við þrælkun, nú á dögum en voru í þrælkun á 16. til 18. öld þegar „þrælaverslun stóð sem hæst.“ Ein uggvænleg hlið þrælkunarinnar nú á tímum er sú að mörg fórnarlambanna eru börn. Sjö til tíu ára börn strita 12 til 14 tíma á dag í verksmiðjum. Önnur þræla sem húsþjónar, vændiskonur eða hermenn. „Börn eru mjög eftirsótt vinnuafl,“ að sögn Mannréttindastofnunar Sameinuðu þjóðanna, „vegna þess að það er ódýrt“ og vegna þess að börn „þora ekki að kvarta.“ Sameinuðu þjóðirnar benda á að þrælkun sé óhugnanlegur „nútímaveruleiki.“

Fríeyjan

„Alþjóðabankinn og Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hafa beðið stjórnvöld á Srí Lanka að fækka frídögum sem nú eru 174 af þeim 365 dögum sem eru í árinu, og er hugsanlega heimsmet,“ segir tímaritið The Economist. „Hvernig geta orðið framfarir hjá þjóð sem er í fríi næstum hálft árið?“ Hinn mikli frídagafjöldi á Srí Lanka endurspeglar þá trúarbragða- og kynþáttablöndu sem þar er. Auk 5 veraldlegra frídaga eru 20 trúarlegir frídagar hjá búddhatrúarmönnum, hindúum, múslímum og kristnum mönnum. Opinberir embættismenn fá 45 daga frí á ári — og mörg einkafyrirtæki gefa starfsmönnum jafnlangt frí. Þrátt fyrir það er vöxtur í efnahagslífi Srí Lanka. „Akuryrkja er undirstaða efnahagslífsins og er háð monsúntímunum tveim sem ganga yfir eyna á ræktunartímabilunum,“ segir The Economist. „Monsúnrigningarnar fara ekki í frí.“

Enn einn falsaður steingervingur

Fluga í köggli af rafi eða steingerðri trjákvoðu hefur lengi verið í hávegum höfð meðal vísindamanna sem fullkomlega varðveitt, 38 milljóna ára gamalt sýnishorn. Tímaritið New Scientist skýrði frá því fyrir nokkru að komið hafi í ljós að þetta mikils metna sýnishorn sé í reynd „glæpur á vettvangi skordýrafræðinnar á borð við Piltdown-gabbið.“ Svo er að sjá sem einhver svikahrappur hafi fyrir að minnsta kosti 140 árum hreinlega skorið í sundur rafklump, gert holu í annan helminginn og komið flugu af tegundinni Fannia scalaris fyrir þar. Þessi „steingervingur“ var seldur Náttúrusögusafni Englands árið 1922 og hefur síðan verið rannsóknarefni vísindamanna í fremstu röð, og ekki þarf að fara lengra aftur í tímann en til ársins 1992 til að sjá á hann minnst í bók um steingervinga.

„Sjónvarpsgræðgi“

Samkvæmt niðurstöðum nýlegrar könnunar fjölgar þeim Ítölum sem eru haldnir „sjónvarpsgræðgi,“ óhóflegri löngun í meira og meira sjónvarpsefni. Á einni viku, sem tekin var til athugunar, horfðu 82 prósent Ítala á sjónvarpið „og þeir sem gerðu það sátu við skjáinn að meðaltali tæpar fimm klukkustundir“ á dag að sögn blaðsins La Repubblica. Meðal fjögurra til sjö ára barna jókst sjónvarpsáhorf um 15 af hundraði milli ára. En „þyngst leggst sjónvarpsgræðgin á táninga og þá sem halda ekki áfram skólagöngu eftir grunnskóla.“ Horfir fólk meira á sjónvarp vegna batnandi sjónvarpsefnis? Francesco Siliato, forstöðumaður stofnunar sem vann úr könnuninni, fullyrti: „Tölurnar virðast ekki hafa minnstu tengsl við gæði sjónvarpsefnis.“

Feðrauppeldi

Japanska Menntamálaráðuneytið hefur ráðist í það að mennta japanska feður, en þeir verja að meðaltali aðeins 36 mínútum á dag með börnum sínum. Ráðuneytið stendur fyrir „námskeiðum í ‚heimilismenntun‘ með það að markmiði að fá feður til að hjálpa meira til á heimilinu og verja meiri tíma með börnum sínum,“ að sögn Mainichi Daily News. Námskeiðið er fimm kennslustundir, ein og hálf til tvær klukkustundir hver, og verður haldið á eða í grennd við vinnustaði á þægilegum tímum til að auðvelda feðrum að sækja það. Það er kaldhæðnislegt að meðal þeirra fyrstu, sem sitja námskeiðið, eru feður sem vinna hjá Menntamálaráðuneytinu en það hefur orð á sér fyrir að krefjast mikillar yfirvinnu af starfsmönnum sínum.