Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Hverjir ánetjast og hvers vegna?

Hverjir ánetjast og hvers vegna?

Hverjir ánetjast og hvers vegna?

ÞÚ ERT að aka bílnum þínum eftir þjóðveginum þegar þú heyrir undarlegt skrölt í vélinni. Hvað gerirðu? Kíkirðu undir húddið til að athuga hvað sé að eða hækkarðu bara í útvarpinu til að drekkja hávaðanum?

Svarið er næsta augljóst. Þó er fólk, sem er haldið einhverjum fíkniávana, alltaf að velja röngu aðferðina — ekki í sambandi við bílana sína heldur líf sitt. Með fíkn sinni, í efni, svo sem fíkniefni, áfengi eða jafnvel mat, reyna margir að drekkja persónulegum vandamálum sínum í stað þess að takast á við þau.

Hvernig er hægt að segja til um það hvort maður er ánetjaður einhverju? Læknir lýsir því þannig: „Almennt má segja að notkun vímugjafa eða eitthvert viðfangsefni sé fíkn ef það veldur vandamálum í lífi manns en maður heldur því samt áfram.“

Ef svo er leynist oft miklu alvarlegra vandamál undir húddinu, ef svo má að orði komast, sem þarf að athuga áður en hægt er að breyta ávanahegðuninni.

Fíkniefni og áfengi

Hvað er það sem kemur fólki til að stíga fyrstu skrefin út í fíkniefnaneyslu og áfengisfíkn? Hópþrýstingur og forvitni vegur oft nokkuð þungt, einkum hjá unglingum. Margir ánetjast beinlínis vegna þess að þeir eru í vondum félagsskap þeirra sem misnota áfengi og neyta fíkniefna. (1. Korintubréf 15:33) Það skýrir kannski hvers vegna 41 af hundraði nemenda, sem er á síðasta ári í almennum framhaldsskólum í Bandaríkjunum, fer á fyllirí hálfsmánaðarlega, samkvæmt könnun sem gerð var.

En það er munur á misnotkun og fíkniávana. Margir misnota efni án þess að ánetjast þeim. a Þeir geta hætt misnotkuninni og eru ekki haldnir neinni áráttu að byrja á henni aftur. Fíklar komast hins vegar að raun um að þeir geta ekki hætt. Auk þess hverfur hver sú sælukennd, sem þeir fundu til áður, í skuggann af angistarkennd. Bókin Addictions segir: „Hið dæmigerða ferli fíkilsins er það að á einhverju stigi fær hann andstyggð á sjálfum sér og það vald, sem fíkniávaninn hefur náð yfir honum, veldur honum ægilegri kvöl.“

Margir, sem eru háðir áfengi eða fíkniefnum, nota þau sem undankomuleið þegar kreppir að þeim tilfinningalega. Slíkar kreppur eru einum of algengar nú á tímum. Og það ætti í rauninni ekki að koma okkur á óvart vegna þess að Biblían kallar þessa síðustu daga „örðugar tíðir.“ Biblían sagði fyrir að menn yrðu „fégjarnir,“ „hrokafullir,“ „vanheilagir,“ „grimmir,“ „sviksamir“ og „ofmetnaðarfullir.“ (2. Tímóteusarbréf 3:1-4) Það umhverfi, sem þessi einkenni hafa skapað, er frjó jörð fyrir alls kyns fíkn.

Hjá Susan stafaði tilfinningakreppan af illri meðferð sem hún hafði sætt áður fyrr. Hún hallaði sér því að kókaíni. „Það gaf mér þá fölsku tilfinningu að ég réði við hlutina og hefði sjálfsvirðingu,“ segir hún. „Mér fannst ég hafa kraft sem ég fann ekki fyrir dags daglega.“

Í rannsókn á unglingspiltum, sem voru fíklar, kom í ljós að yfir þriðjungi hafði verið misþyrmt líkamlega. Í annarri rannsókn, sem náði til 178 fullvaxta, drykkjusjúkra kvenna, kom í ljós að 88 af hundraði hafði sætt mjög illri meðferð á einn eða annan hátt. Biblían segir í Prédikaranum 7:7: „Kúgun gjörir vitran mann að heimskingja.“ Sá sem þjáist tilfinningalega vegna einhverrar skelfilegrar lífsreynslu leitar kannski undankomu síðar með hjálp fíkniefna eða áfengis, þótt óskynsamlegt sé.

En menn geta verið fíknir í fleira en fíkniefni og áfengi.

Sjúklegar matarvenjur

Sjúklegar matarvenjur (sem sumir sérfræðingar kalla fíkn) eru stundum notaðar til að beina athyglinni frá óþægilegum tilfinningum. Sumir nota til dæmis offitu sem blóraböggul þegar þeir verða fyrir persónulegum vonbrigðum. „Stundum held ég að ég haldi mér feitri vegna þess að það er hægt að kenna því um allt sem aflaga fer lífi mínu,“ segir Jennie. „Þannig get ég alltaf skellt skuldinni á offituna ef einhverjum geðjast ekki að mér.“

Matur gefur sumum ranglega þá tilfinningu að þeir hafi stjórn á hlutunum. b Matur er kannski eini vettvangurinn í lífinu þar sem einstaklingnum finnst hann hafa nokkurt vald. Margir, sem hafa sjúklegar matarvenjur, halda að þeir séu einhvern veginn gallaðir. Þeir leggja sig fram við að bæla niður löngun líkamans í mat til að byggja upp sjálfsvirðingu. Kona sagði: „Maður gerir líkama sinn að ríki sínu þar sem maður er harðstjórinn, einræðisherrann sem ræður öllu.“

Það sem vitnað er í hér á undan er hvergi nærri fullnaðarskýring á fíkniefna-, áfengis- og matarfíkn. Fjölmörg atriði geta haft þar áhrif. Sumir sérfræðingar gefa jafnvel í skyn að erfðatengsl geti gert suma hneigðari til fíkniávana en aðra. „Það sem við sjáum er samspil persónuleika, umhverfis, líffræði og félagslegrar viðurkenningar,“ segir Jack Henningfield við Fíkniefnastofnunina í Bandaríkjunum. „Við viljum ekki láta blekkjast með því að horfa bara á einn þátt.“

Hvað sem því líður er enginn fíkill líkamlega eða tilfinninglega glataður — hver sem orsök fíknarinnar er. Hann getur fengið hjálp.

[Neðanmáls]

a Misnotkun áfengis og annarra vímugjafa — hvort sem hún leiðir til fíkniávana eða ekki — er að sjálfsögðu saurgandi og kristnir menn verða að forðast hana.

b Nánari upplýsingar um sjúklegar matarvenjur er að finna í Vaknið! (á erlendum málum) þann 22. desember 1990 og 22. febrúar 1992.

[Rammi á blaðsíðu 5]

Fíkniávani er heimsplága

◼ Könnun í Mexíkó leiddi í ljós að 1 af hverjum 8 á aldursbilinu 14 til 65 ára er drykkjusjúklingur.

◼ Félagsráðgjafinn Sarita Broden skýrir frá því að sjúklegar matarvenjur hafi færst mjög í vöxt í Japan. Hún segir: „Frá 1940 til 1965 færðust sjúklegar matarvenjur jafnt og þétt í aukana með tilsvarandi fjölgun bæði legusjúklinga og göngudeildarsjúklinga frá 1965 til 1981. Frá 1981 hefur lystarstol og lotugræðgi hins vegar aukist gífurlega.“

◼ Heróínneytendum virðist fjölga ört í Kína. Dr. Li Jianhua, sem vinnur við Fíkniefnarannsóknamiðstöðina í Kunming, segir: „Heróín hefur borist frá landamærahéruðunum til innhéraðanna, frá sveitunum til borganna og til yngra og yngra fólks.“

◼ Í Zürich í Sviss var gerð tilraun með opinn fíkniefnamarkað sem endaði með ósköpum. „Við héldum að okkur tækist að flæma fíkniefnasalana burt en það mistókst,“ segir dr. Albert Weittstein, og bætti mæðulega við að þeir hefðu einungis dregið fíkniefnasala og neytendur langt að.