Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Sigrast á efnafíkn

Sigrast á efnafíkn

Sigrast á efnafíkn

AÐ losna úr fjötrum fíkniávana er eins og flytja úr húsinu sem maður ólst upp í. Jafnvel þótt húsið sé gamalt og niðurnítt er samt erfitt að yfirgefa það. Það var heimili manns.

Ef þú er fíkill hefur fíkniávaninn líklega verið tilfinningalegt heimili þitt. Það er kunnuglegt þótt eflaust hafi allt verið á tjá og tundri þar. „Það er eðlilegt fyrir mig að vera í vímu en óeðlilegt að vera algáður,“ segir Charles sem er drykkjusjúklingur á batavegi. Það er erfitt að losna við fíkniávanann en það er þess virði.

Fyrsta skrefið er bindindi á ávanaefnin. a Frestaðu því ekki eða einfaldlega lofaðu að smáminnka neysluna. Losaðu þig tafarlaust við allar birgðir og öll tæki og tól sem tengjast neyslunni. Stutt fráhvarfstímabil fylgir í kjölfarið og stundum er best að vera undir læknishendi á meðan. Þetta er upphafið að ævilöngu bindindi. En ekki halda að það sé ógerlegt. Byrjaðu á því að setja þér markmið sem er innan seilingar: bindindi í einn mánuð, eina viku eða jafnvel einn dag. Við lok hvers tímabils skaltu endurnýja ásetning þinn án þess að byrja að nota ávanaefnið aftur.

Þetta er aðeins upphafið að því að breyta ávanahegðuninni. Biblían hvetur okkur til að ‚hreinsa okkur af allri saurgun á líkama og anda.‘ (2. Korintubréf 7:1, Bi. 1912) Fíkniávani er meira en það að saurga líkamann. Andinn eða tilhneiging hugans verður líka fyrir áhrifum. Hvað getur hjálpað þér að ná þér, bæði líkamlega og andlega?

Áframhaldandi viðleitni nauðsynleg

„Fíkniávani er röskun á öllum persónuleika mannsins,“ segir dr. Robert L. DuPoint. Þess vegna þarf að taka á manninum öllum til að sigrast á fíkniávana. Það þarf gerbreytt gildismat. Slíkt tekur sinn tíma. Það er ekki hægt að stytta sér leið til bata. Sérhvert loforð um skjótan bata er aðeins undanfari skjóts falls.

Baráttan að gera rétt er stöðug. Kristni postulinn Páll skrifaði: „Ég sé annað lögmál í limum mínum, sem berst [„er í stöðugri baráttu,“ Phillips] á móti lögmáli hugar míns.“ (Rómverjabréfið 7:23) Hann skrifaði líka að kristnir menn ættu að ‚fullkomna helgun sína.‘ (2. Korintubréf 7:1) Bókin Word Pictures in the New Testament segir að orðið ‚fullkomna‘ merki hér „ekki það að ná heilagleika skyndilega og að fullu heldur stöðugt ferli.“ Það að sigrast á fíkniávana gerist því skref fyrir skref.

Orsakarinnar leitað

Hjá mörgum er fíkniávani tilraun til að grafa sársaukafulla atburði fortíðarinnar. „Lotugræðgin (sjúkleg matarvenja) beindi athygli minni frá minningunum,“ segir Janis. „Hún varð haldreipi mitt.“ Með því að horfast ekki í augu við fortíðina var Janis einfaldlega að viðhalda fíkniávana sínum. Skilningur á orsökum hegðunar sinnar var henni hjálp til að breyta ávanahegðuninni.

Sumir breyta fyrri venjum og eru vel færir um að takast á við fíkniávanann án þess að rýna í fortíðina. Aðrir komast að raun um að þær tilfinningar, sem eiga sér rætur í fyrra umhverfi þeirra, halda áfram að kynda undir ávanalönguninni. Þeim líður kannski eins og sálmaritaranum Davíð sem orti: „Prófa mig, Guð, og þekktu hjarta mitt, rannsaka mig og þekktu hugsanir mínar, og sjá þú, hvort ég geng á glötunarvegi, og leið mig hinn eilífa veg.“ — Sálmur 139:23, 24.

Tekist á við tilfinningar

Hefur þú einhvern tíma gengið úr myrkvuðu húsi út í glaðasólskin? Þú kveinkaðir þér undan birtunni sem helltist skyndilega yfir þig. Eins getur þér fundist allt tilfinningalitrófið ráðast skyndilega á þig þegar þú byrjar að takast á við fíkniávanann, og það er sársaukafullt. Ást, reiði, stolt, afbrýði, ótti, gremja og aðrar tilfinningar, sem hafa lengi verið huldar, hellast nú yfir þig af fullu afli.

Kvíði getur sagt þér að hörfa aftur í hið kunnuglega myrkur fíkniávanans. En þú þarft ekki að forða þér undan tilfinningum þínum. Þær geta verið þér gagnlegur vitneskjubrunnur. Tilfinningar eru oft bara merki þess að gefa þurfi gaum að einhverju. Ef nauðsynlegt er skaltu því hugleiða tilfinningar þínar. Hvað eru þær að segja þér? Ef boðin eru óljós eða ef tilfinningarnar virðast yfirþyrmandi skaltu trúa einhverjum þroskuðum vini fyrir þeim. (Jobsbók 7:11) Þú þarft ekki að horfast einsamall í augu við þær. — Samanber Orðskviðina 12:25.

Mundu að tilfinningar þurfa ekki að vera óvinur þinn. Jehóva Guð hefur sjálfur sterkar tilfinningar og maðurinn — skapaður í Guðs mynd — finnur fyrir því sama. (1. Mósebók 1:26; Sálmur 78:21, 40, 41; 1. Jóhannesarbréf 4:8) Líkt og hin skerandi birta sólarinnar geta tilfinningarnar verið sársaukafullar í fyrstu. Með tímanum verða þær hins vegar til leiðsagnar og hlýju eins og sólarljósið.

Vandamál leyst

Það er ógnvekjandi reynsla fyrir lofthræddan mann að ganga á línu. Lífið getur virst vera eins og skelfilegur línudans fyrir fíkilinn sem er að byrja bataferlið. Hin mikla ábyrgð, sem fylgir því að vera algáður, getur haft í för með sér sína lofthræðslu, ef svo má að orði komast. Óttinn við mistök getur komið þér til að hugsa: ‚Ég á hvort eð er eftir að falla. Hvers vegna ekki að drífa það bara af?‘

En mundu að vandamál eru ekki persónulegar árásir. Þau eru bara aðstæður sem takast þarf á við. Láttu ekki hræðslutilfinninguna heltaka þig. Takstu á við eitt vandamál í einu. Það hjálpar þér að sjá þau í réttu samhengi. — 1. Korintubréf 10:13.

Sjálfsvirðing

Marion, drykkjusjúklingur á batavegi, þurfti að takast á við minnimáttarkennd. „Undir niðri,“ segir hún, „fannst mér alltaf að fólki myndi ekki geðjast að mér ef ég sýndi sjálfa mig eins og ég er í raun og veru.“

Til að losna úr greipum fíkniávana þarftu að læra — kannski í fyrsta sinn — að virða sjálfan þig sem persónu. Það er erfitt ef fíkniánauð hefur sett líf þitt allt úr skorðum. Hvað er til ráða?

Biblían er bók sem hughreystir niðurbeygða. Hún getur hjálpað þér að byggja upp heilbrigða sjálfsvirðingu. (Sálmur 94:19) Til dæmis skrifaði sálmaritarinn Davíð að mennirnir séu krýndir „sæmd og heiðri.“ Hann sagði líka: „Ég er undursamlega skapaður.“ (Sálmur 8:6; 139:14) Þetta eru fögur orð sem lýsa heilbrigðri sjálfsvirðingu!

Mettu líkama þinn mikils, þá annast þú hann í anda ritningarstaðarins: „Enginn hefur nokkru sinni hatað eigið hold, heldur elur hann það og annast.“ (Efesusbréfið 5:29) Já, þú getur horfst í augu við þá áskorun sem það er að ná þér upp úr fíkniávana. b

En fíkniávani getur falist í fleiru. Hægt er að gefa sig að ýmsum athöfnum af sömu ástríðu og í sama tilgangi og sóst er í fíkniefni, áfengi og mat. Við fjöllum nú um sumar af þessum athöfnum.

[Neðanmáls]

a Þeir sem eru haldnir sjúklegum matarvenjum geta auðvitað ekki hætt að borða. Hins vegar geta þeir hætt að nota mat sem geðbrigðalyf. Skynsamlegt mataræði getur komið í stað ofáts, sveltis, uppkasta og hægðalyfja og þráhyggju um mat.

b Sumir hafa leitað sér endurhæfingar, bæði til að halda bindindið og stuðla að bata. Til eru bæði spítalar, meðferðarstofnanir og samtök sem bjóða upp á slíka meðferð. Vaknið! aðhyllist ekki neina sérstaka meðferð umfram aðra. Þeir sem vilja lifa í samræmi við meginreglur Biblíunnar gæta þess að sjálfsögðu vel að blanda sér ekki í neitt það sem kallar á tilslökun með þær meginreglur.

[Innskot á blaðsíðu 6]

„Bati snýst frekar um það að breyta öllu gildismati sínu.“ — Dr. Robert L. DuPont.

[Mynd á blaðsíðu 7]

Fyrsta skrefið er bindindi á ávanaefnin.

[Mynd á blaðsíðu 8]

Talaðu út um tilfinningar þínar þegar þær verða yfirþyrmandi.