Votlendissvæði heims — Vistfræðilegur fjársjóður í hættu
Votlendissvæði heims — Vistfræðilegur fjársjóður í hættu
INDÍÁNAR kölluðu fljótið Föður vatnanna. Landfræðingar kalla það Mississippi. Hvað sem þú kallar það hefndi það sín á þeim sem höfðu þröngvað því í lífstykki flóð- og stíflugarða og rænt það votlendi sínu. Eftir margra vikna stórrigningar var fljótið svo vatnsmikið að það braust gegnum á að giska 75 milljónir sandpoka sem hafði verið hlaðið upp til varnar gegn því, og rauf skörð í 800 af þeim 1400 hundruð flóðgörðum sem reyndu árangurslaust að halda því í skefjum. Flóðið hreif með sér hús og brýr, skolaði burt vegum og járnbrautartein um og flæddi yfir fjölda borga og bæja. „Sennilega mestu flóð sem orðið hafa í Bandaríkjunum,“ sagði The New York Times þann 10. ágúst 1993.
Dagblaðið tók tjónið að hluta til saman: „Flóðin miklu í miðvesturríkjunum ollu ógurlegri eyðileggingu þá tvo mánuði ársins 1993 sem þau stóðu. Þau kostuðu 50 manns lífið, næstum 70.000 misstu heimili sín, færðu svæði á stærð við tvöfalt New Jersey [svarar til næstum hálfs Íslands] í kaf, ollu á að giska 12 milljarða dollara tjóni á eignum og uppskeru og hleyptu nýju lífi í deiluna um flóðavarnarkerfi þjóðarinnar og stjórnarstefnu hennar.“
Hefðu hinar náttúrlegu flóðavarnir votlendissvæðanna við bakka Mississippifljótsins verið látnar í friði hefði mátt bjarga 50 mannslífum og spara 12 milljarða dollara. Hvenær ætlar fólk að láta sér lærast að það sé betra að vinna með náttúrunni en reyna að brjóta hana undir sig? Votlendissvæði meðfram ám eru flæðilönd sem taka til sín og geyma umframvatn frá ám sem flæða yfir bakka sína vegna langvarandi stórrigninga.
En náttúrleg flóðavörn er aðeins eitt gagn af mörgum sem hin 8.500.000 ferkílómetra votlendissvæði heims gera. Og það er gengið mjög hart að þessum votlendissvæðum um heim allan núna.
Uppeldisstöðvar jurta og dýra
Hvort sem litið er á hinar víðáttumiklu saltmýrar úti við sjóinn eða hinar smærri ferskvatnsmýrar, fen, flæðilönd og flóa inni í landi, eða þá jarðföllin á gresjum Bandaríkjanna og Kanada, er vatnið aðalarkitekt votlendissvæðanna. Votlendi er land sem liggur undir vatni árið um kring eða aðeins hluta úr ári vegna flóða. Önnur gerð votlendis er við sjávarströndina og myndast af sjávarföllunum. Þar eð flest votlendissvæði einkennast af gróskumiklum gróðri — grösum, störum, skúfgrösum, trjám og runnum — halda þau uppi fjölbreyttu jurta-, fiska-, fugla- og dýralífi um heim allan.
Fjöldi strandfugla og vatnafugla eiga sér heimkynni á votlendissvæðunum. Yfir hundrað tegundir eru háðar þessum grunnu vinjum á farflugi sínu vor hvert. Mörg votlendissvæði eru uppeldisstöðvar gríðarlegs fjölda gæsa og anda, til dæmis grágæsar, skúfandar, duggandar, stokkandar og ýmissa annarra smávaxinna anda. Sums staðar í heiminum eru þessi svæði einnig heimkynni dýra svo sem krókódíls, bjórs, bísamrottu, minks og elgs. Önnur dýr, svo sem birnir, hjartardýr og þvottabirnir, nota votlendissvæðin. Þau eru got- og eldissvæði
flestra fisktegunda sem eru undirstaða fiskveiða margra þjóða. Talið er að 200 fisktegundir og mikið af skeldýrum séu háð votlendissvæðunum allan lífsferil sinn eða hluta hans.Auk þess að vera einstakar uppeldisstöðvar alls konar lífvera gegna votlendissvæðin mikilvægu hlutverki í vistkerfinu á ýmsa aðra vegu. Þau eru náttúrlegar síur sem hreinsa úrgangs- og mengunarefni úr ám og fljótum og hreinsa grunnvatn. Þau geyma vatn á regn- og flóðatímum og sleppa því smám saman út í fljót, ár og jarðlög. Votlendi við sjóinn vernda strendur fyrir landrofi af völdum sjávar.
Hið sérstaka og oft auðuga gróðurfar votlendisins veldur því að það gegnir merkilegu og ómissandi hlutverki. Allar grænar jurtir taka til dæmis til sín koldíoxíð úr loftinu við ljóstillífun og skila súrefni út í andrúmsloftið. Þetta er nauðsynlegt til viðhalds lífi. Votlendisgróðurinn er hins vegar einstæður að því leyti til að hann gerir þetta með sérstaklega áhrifaríkum hætti.
Mörg lönd hafa um aldaraðir viðurkennt hið ómetanlega gildi votlendis við matvælaframleiðslu. Kína og Indland eru til dæmis mestu hrísgrjónaræktarlönd í heimi og önnur lönd í Asíu fylgja fast á eftir. Hrísgrjón eru ræktuð á votlendisökrum og eru ein mikilvægasta matjurt heims. Hrísgrjón eru aðalfæða um helmings jarðarbúa. Með tíð og tíma gerðu Bandaríkjamenn og Kanadamenn sér grein fyrir þýðingu votlendis og mýrafenja til hrísgrjóna- og trönuberjaræktar.
Villtir fuglar og alls kyns dýr gæða sér einnig á þeim veislumat sem votlendissvæðin láta í té. Bæði er þar gnótt fræja og skordýra handa fuglum en einnig handa fiskum og krabbadýrum sem gjóta og vaxa upp á votlendinu. Endur, gæsir og aðrir vatnafuglar nærast síðan á þessum vatnalífverum sem þessar vinjar lífsins eru morandi í. Eins og vistkerfið er núna heldur það að nokkru leyti jafnvægi með því að fuglarnir eru fæða ferfættra rándýra sem eigra inn á votlendissvæðin í fæðuleit. Það er eitthvað handa öllum á votlendissvæðunum. Þau eru svo sannarlega uppeldisstöðvar jurta og dýra.
Eyðilegging votlendisins
Sá sem síðar varð fyrsti forseti Bandaríkjanna opnaði flóðgáttir eyðileggingarinnar árið 1763 þegar hann stofnaði félag um að ræsa fram 16.000 hektara svæði Dismal-mýrarinnar — ósnortins mýrlendis á landamærum Virginíu og Norður-Karólínu sem var athvarf fjölskrúðugs dýra- og fuglalífs. Æ síðan hafa votlendi Ameríku verið álitin til ama, þrándur í götu framfara, gróðrarstía sjúkdóma og veikinda, fjandsamlegt umhverfi sem bæri að sigra og eyðileggja hvað sem það kostaði. Bændur voru hvattir til að ræsa fram votlendi og nota sem ræktarland og fengu greitt fyrir. Þjóðvegir voru lagðir þar sem áður var votlendi iðandi af heillandi og óvenjulegu lífi. Mörg votlendissvæði voru notuð undir byggð og verslanamiðstöðvar eða sem þægilegir sorphaugar.
Á nokkrum síðustu áratugum þessarar aldar hafa Bandaríkjamenn eytt sem svarar 200.000 hekturum votlendis á ári. Núna eru aðeins eftir um 40.000.000 hektara. Lítum til dæmis á jarðfallsmýrarnar í Norður-Ameríku. Á 800.000 ferkílómetra, bogadregnu svæði, sem teygir sig frá Alberta í Kanada til Iowa í Bandaríkjunum, voru þúsundir votlendissvæða á gresjunum varpstöðvar fyrir endur í milljónatali. Sagt var að þær væru eins og þykkt ský á himni er þær tóku flugið. Nú hefur þeim fækkað óhugnanlega.
Til langs tíma litið er vandamálið hins vegar þetta: Um leið og votlendið er eyðilagt hverfur fæðuöflunarsvæði fuglanna. Þegar dregur úr æti verpa endur færri eggjum og færri ungar komast á legg úr þeim eggjum sem verpt er. Eftir því sem búsvæði andanna er eyðilagt flokkast fleiri og fleiri til þeirra fáu votlendissvæða sem eftir eru og verða þar með auðveld bráð refa, sléttuúlfa, skunka, þvottabjarna og annarra dýra sem leggjast á þær.
Í Bandaríkjunum er um helmingur votlendis á jarðfallssvæðinu horfið. Kanada fylgir fast
á eftir og munar þar innan við 10 af hundraði, en þar færist eyðingin í aukana. Sums staðar í Norður-Dakóta í Bandaríkjunum er búið að þurrka upp 90 af hundraði þeirra, að sögn tímaritsins Sports Illustrated. Margir bændur líta á votlendissvæðin sem óarðbær og finnst þau þvælast fyrir landbúnaðartækjum sínum. Oft þekkja þeir lítið sem ekkert til vistfræðilegs gildis þeirra.En nú eru uppi háværar kröfur áhugamanna og umhverfisverndarsamtaka um að bjarga votlendissvæðunum og dýralífi þeirra. „Jarðföllin eru geysiþýðingarmikil,“ sagði áhyggjufullur embættismaður. „Til að endurnar geti átt sér nokkra von til langs tíma litið verðum við að varðveita votlendissvæðin.“ „Vatnafuglar eru mælikvarði á vistfræðilegt ástand meginlandsins,“ segir talsmaður fuglaverndunarsamtakanna Ducks Unlimited. Tímaritið U.S.News & World Report leggur einnig orð í belg: „Fækkun anda endurspeglar þær árásir sem umhverfið sætir úr ýmsum áttum: Sýruregn, skordýraeitur og síðast en ekki síst eyðileggingu milljóna hektara ómetanlegs votlendis.“
„Níutíu af hundraði saltmýranna við strendur Kaliforníu hafa verið eyðilagðar,“ að sögn tímaritsins California, „og árlega hverfa 7000 hektarar í viðbót. Sefhjörturinn fyrirfinnst aðeins hér og þar. Með hverju ári koma færri endur og gæsir til síminnkandi vetrardvalarsvæða sinna. Margar votlendistegundir eru við það að deyja út.“ Þessar lífverur, sem eiga líf sitt undir votlendissvæðum heimsins, hrópa þögular á hjálp.
Vatnskreppan
Annað háalvarlegt vandamál hefur komið í ljós samhliða eyðingu votlendissvæðanna. Maðurinn hefur haft skaðleg áhrif á verðmætustu og þýðingarmestu auðlind sína — vatnið. Vatn er nauðsynlegt öllum lífverum. Margir af vísindamönnum heims hafa spáð því að hreint vatn verði með tímanum fágætasta auðlind jarðar. „Annaðhvort tekst okkur að takmarka vatnssóunina eða við verðum að deyja úr þorsta árið 2000,“ sagði í yfirlýsingu heimsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna um vatn árið 1977.
Í ljósi þessara ógnvænlegu viðvarana um hugsanlegan skort á þessari verðmætu auðlind ætti heilbrigð skynsemi að segja okkur að fara vel með vatnsforða jarðar og nýta hann skynsamlega. En í kapphlaupinu um að eyða votlendissvæðin hefur maðurinn hins vegar stofnað þessari lífsnauðsynlegu auðlind í alvarlega hættu. Votlendissvæðin stuðla að hreinsun yfirborðsvatns — áa og fljóta. Sums staðar eru jarðvatnsbirgðir ekki endurnýjaðar með hreinu vatni heldur mengaðar úrgangi og mengunarefnum, mönnum til tjóns. Votlendissvæði, sem áður geymdu ókjör af vatni, hafa verið ræst fram og það eykur á skortinn.
Eiga ábyrgir menn eftir að heyra neyðaróp þeirra lífvera sem eiga tilveru sína undir votlendinu? Verður gripið í taumana til að bjarga slíku lífi áður en það er um seinan? Eða ætla menn að daufheyrast við slíkum
neyðarópum og hlusta aðeins á kvein hinna ágjörnu?Eyðingin á sér stað um heim allan
Við upphaf heimsherferðar til bjargar votlendissvæðunum, sem stofnað var til að undirlagi Sameinuðu þjóðanna, var nefnt að vistkerfi Pantanal-svæðisins í Brasilíu væri í hættu. Það er eitt af stærstu votlendissvæðum heims. Tímaritið BioScience sagði: „Pantanal-svæðið, með undraverðri fjölbreytni sinni og miklu fugla- og dýralífi, er í hættu. Skógareyðing, vaxandi akuryrkja, ólöglegar dýra- og fiskveiðar og mengun vatns með skordýraeitri, illgresiseyði og úrgangsefnum frá vínandaframleiðslu til eldsneytis, hafa valdið því að hinu náttúrlega umhverfi hnignar jafnt og þétt og stofnað einu þýðingarmesta vistkerfi Brasilíu í hættu.“
Dagblaðið The New York Times benti á að votlendissvæði meðfram strönd Miðjarðarhafs væru í hættu. „Síðastliðna þrjá áratugi hefur votlendi verið eytt sífellt hraðar samhliða því að strendur Miðjarðarhafs hafa orðið æ eftirsóttari og langar strandlengjur hafa verið þaktar steinsteypu í nafni sóldýrkunar, þæginda og hagnaðar. Í rannsóknaskýrslum Sameinuðu þjóðanna er minnst á verulega eyðingu [votlendis] á Ítalíu, í Egyptalandi, Tyrklandi og Grikklandi.“
Að vori breytast votlendi hins stórkostlega, 50.000 hektara Doñana-þjóðgarðs á Spáni í flugvöll handa hundruðum þúsunda fugla á leið frá Afríku til Evrópu sem koma við þar til að tímgast og næra sig í mýrum og skógum. En hinn mikli fjöldi hótela, golfvalla og mikið ræktarland umhverfis þjóðgarðinn soga til sín svo mikið vatn að hann er í hættu. Síðastliðin 15 ár hefur verið dælt upp svo miklu vatni til slíkra nota að vatnsborðið hefur lækkað um 2-9 metra og allmörg vötn hafa þornað upp. „Verði meiri vöxtur hér er það dauðadómur yfir Doñana,“ segir forstöðumaður rannsóknadeildar þjóðgarðsins.
Ritið State of the World 1992 segir: „Fenjaviðarsvæðin, einhver verðmætustu votlendissvæðin og þau sem eru í mestri hættu, hafa orðið illa úti í Asíu, Rómönsku Ameríku og Vestur-Afríku. Nálega helmingur þessara verndandi fenjaskóga í Ekvador hefur til dæmis verið ruddur, aðallega til að rýma fyrir rækjueldi, og áform eru uppi um að ryðja álíka stórt hlutfall þeirra sem eftir eru. Indland, Pakistan og Taíland hafa öll misst að minnsta kosti þrjá fjórðu hluta fenjaviðarsvæða sinna. Indónesíumenn virðast staðráðnir í að feta í fótspor þeirra: í Kalimantan, stærsta héraðinu, á að ryðja 95 af hundraði allra fenjaviðarsvæða til að rýma fyrir trjárækt til pappírsgerðar.“
Gildi fenjaviðarsvæðanna er dregið fram í taílenska dagblaðinu Bangkok Post þann 25. ágúst 1992: „Fenjaviðarskógar eru samsettir úr fjölbreyttum trjátegundum sem þrífast við efri sjávarfallamörk meðfram flötu, skjólgóðu strandlendi í hitabeltinu. Trén þrífast við óblíð skilyrði í saltvatni og sjávarföllum. Hinar sérlega aðlöguðu loftrætur þeirra og aðalrætur, sem sía út salt, hafa skapað auðug og flókin vistkerfi. Auk þess að vernda víðáttumikil strandsvæði fyrir rofi af völdum sjávar eru þau afarmikilvæg fyrir fiskveiðar við strendur, trjávöruiðnað og fugla- og dýralíf.
Fjölskrúðugt skógarlíf þrífst í fenjaviðarskógunum. Þar er hægt að finna strandfugla, apa sem lifa á kröbbum, fiskiketti og eðjustökkul (fisk) sem þeytist yfir mýrarleðjuna til að komast frá einum polli til annars þegar fjarar.“
Hvernig endar þetta?
Um allan heim kreppir að. Tímaritið International Wildlife segir: „Mýrarnar, fenin, fenjavíkurnar, fenjaskógarnir, saltmýrarnar, jarðföllin á gresjunum og lónin, sem áður þöktu yfir 6 prósent af landflæmi jarðar, eru í alvarlegri hættu. Svo mikið hefur verið ræst fram til ræktunar, eyðilagt vegna mengunar eða fyllt upp til byggingar að um helmingur votlendissvæða jarðar er horfinn.“
Eiga menn eftir að semja frið við jörðina? Fátt bendir til þess enn sem komið er. Sumir berjast þó djarflega fyrir umhverfisvernd og fullyrða að þeir muni ná árangri. Jehóva, skapari jarðar, segir að þeim eigi eftir að mistakast. Hann lofar því að skerast í leikinn og stöðva eyðileggingu hins stórkostlega sköpunarverks síns. Hann mun „eyða þeim, sem jörðina eyða“ en láta þá sem ‚gæta hennar‘ vera eftir. Hann gefur þeim sem kunna að meta jörðina hana sem gjöf: „Þér eruð blessaðir af [Jehóva], skapara himins og jarðar. Himinninn er himinn [Jehóva], en jörðina hefir hann gefið mannanna börnum.“ — Opinberunarbókin 11:18; 1. Mósebók 2:15; Sálmur 115:15, 16.
[Mynd á blaðsíðu 15]
Votlendissvæði í Sviss.
[Myndir á blaðsíðu 16, 17]
Lengst til vinstri og fyrir ofan: Votlendi í Bandaríkjunum.
[Rétthafi]
H. Armstrong Roberts
Til vinstri: Fenjaviðarskógur á Taílandi.
[Rétthafi]
Birt með leyfi Rannsóknaráðs Taílands.
Íbúar votlendisins: krókódíll, baulfroskur, drekafluga og Karólínu-skjaldbaka að grafa holu til að verpa í.