Að hjálpa alnæmissjúklingum
Að hjálpa alnæmissjúklingum
„PRESTUR kemur að luktum dyrum vegna alnæmissmits.“ Þannig hljóðaði fyrirsögn í dagblaðinu The New York Times. Blaðið sagði sögu baptistaprests en konan hans og tvö börn smituðust af alnæmi vegna blóðgjafar sem hún fékk árið 1982 (börnin smituðust meðan hún gekk með þau). Síðar var hann og fjölskylda hans lött til að sækja ýmsar baptistakirkjur vegna sjúkdómsins. Vonsvikinn gafst hann upp á að reyna og hætti prestsstörfum.
Vonbrigði þessa manns með það hvernig kirkjan hans brást honum vekur ýmsar spurningar: Lætur Guð sér annt um sjúka, þeirra á meðal alnæmissjúklinga? Hvernig er hægt að hjálpa þeim? Hvaða varúðarráðstafanir þarf að gera þegar alnæmissjúklingum er veitt kristileg hughreysting?
Kærleikur Guðs til þjáðra
Biblían sýnir að alvaldur Guð finnur mjög til með þjáðum. Þegar Jesús var á jörðinni sýndi hann sjúkum líka innilega meðaumkun. Og Guð gaf honum mátt til að lækna fólk af öllum sjúkdómum sínum eins og Biblían greinir frá: „Menn komu til hans hópum saman og höfðu með sér halta menn og blinda, fatlaða, mállausa og marga aðra og lögðu þá fyrir fætur hans, og hann læknaði þá.“ — Matteus 15:30.
Guð hefur að sjálfsögðu ekki gefið nokkrum manni á jörðinni mátt til að lækna fólk með kraftaverkum eins og Jesús gerði. En spádómar Biblíunnar sýna að bráðlega, í nýjum heimi Guðs, mun „enginn borgarbúi . . . segja: ‚Ég er sjúkur.‘“ (Jesaja 33:24) Biblían lofar: „[Guð] mun þerra hvert tár af augum þeirra. Og dauðinn mun ekki framar til vera, hvorki harmur né vein né kvöl er framar til. Hið fyrra er farið.“ (Opinberunarbókin 21:4) Í sínum mikla kærleika til manna hefur Guð séð fyrir varanlegri lækningu allra sjúkdóma, líka alnæmis.
Sálmur 22:25 segir um Guð: „Hann hefir eigi fyrirlitið né virt að vettugi neyð hins hrjáða og eigi hulið auglit sitt fyrir honum, heldur heyrt, er hann hrópaði til hans.“ Kærleikur Guðs stendur öllum til boða sem ákalla hann í einlægni um hjálp.
Hverjir smitast af alnæmi?
Alnæmi er aðallega bundið vissum lífsstíl. Margt smitað fólk tekur undir með Sálmi 107:17 þegar það lítur um öxl: „Heimskingjar, er vegna sinnar syndsamlegu breytni og vegna misgjörða sinna voru þjáðir.“
Þegar einhver snýr baki við siðferðisreglum Biblíunnar og stundar kynlíf utan ráðstöfunar Guðs, hjónabandsins, er hættan að smitast eða smita aðra mjög svo raunveruleg. Og þegar sprautunálar ganga milli fíkniefnaneytenda geta þeir smitast af alnæmi eða smitað aðra. Margir hafa auk þess fengið alnæmi með blóði frá sýktum blóðgjöfum.
En það er sorglegt að gríðarlegur fjöldi saklauss fólks hefur smitast af alnæmi á
ýmsa aðra vegu. Til dæmis hafa margir trygglyndir einstaklingar smitast af alnæmi við kynmök við smitaðan maka sinn, án þess að hafa nokkuð til þess unnið. Sums staðar í heiminum fæðist óhugnanlega hátt hlutfall barna með alnæmissmit frá smituðum mæðrum sínum. Alnæmissmituð ungbörn eru einhver sorglegustu fórnarlömbin. Heilbrigðisstarfsmenn og fleiri hafa auk þess fengið sjúkdóminn með því að komast í snertingu við smitað blóð sökum óhappa.En hvernig svo sem fólk smitast af alnæmi kemur það skýrt fram í Biblíunni að Guð ber ekki ábyrgð á útbreiðslu þessa banvæna sjúkdóms. Enda þótt langflestir alnæmissmitaðra hafi kallað smitið yfir sig sjálfir og smitað aðra með hegðun sem gengur í berhögg við siðferðisreglur Biblíunnar, eru hlutföllin að breytast þannig að saklausum fórnarlömbum, svo sem ungbörnum og trúum mökum, fjölgar.
Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin segir að á heimsvísu sé orðið ámóta algengt að konur smitist af alnæmi og karlar, og að árið 2000 verði konur í meirihluta þeirra sem smitast. Heilbrigðisstarfsmenn í Afríku segja að 80 af hundraði smittilfella þar „eigi sér stað við kynmök milli karla og kvenna, og nálega öll hin tilfellin séu smit frá móður til barns á meðgöngutíma eða við fæðingu.“
Enda þótt Guð sé andvígur sérhverju broti á lögum hans, þar á meðal brotum sem leiða til slíkra þjáninga, er hann fljótur til að rétta öllum sem þjást miskunnarhönd sína. Jafnvel þeir sem hafa fengið alnæmissmit vegna rangra verka geta notið góðs af miskunn Guðs með því að iðrast og hætta að gera það sem illt er. — Jesaja 1:18; 1. Korintubréf 6:9-11.
Það sem menn vita núna
Alnæmi er vandamál um heim allan. Enda þótt vísindamenn fullvissi fólk um að „alnæmisveiran berist ekki auðveldlega frá manni til manns“ er það lítil hughreysting fyrir þær milljónir manna sem eru smitaðar nú þegar og þær óteljandi milljónir sem eiga eftir að smitast á komandi árum. Staðreyndirnar sýna að alnæmi er að breiðast út um jörðina.
Bandarískt rit lýsti hinum almennu smitleiðum í hnotskurn er það sagði: „Alnmæmi smitast svo til eingöngu við kynmök eða snertingu við smitað blóð.“ Skýrsla segir um niðurstöður flestra rannsóknarmanna: „Til að smitun eigi sér stað þar líkamsvökvi (næstum alltaf blóð eða sæði) að berast frá smituðum einstaklingi inn í líkama ósmitaðs einstaklings.“
En orðin „svo til eingöngu“ og „næstum alltaf“ gefa til kynna það geti verið undantekningar. Enda þótt læknar og vísindamenn þekki flestar smitleiðir alnæmis kunna smitleiðirnar að vera óþekktar í fáeinum tilvikum. Þess vegna er enn ástæða til varkárni.
Hvernig bregst þú við?
Nú þegar eru um 12 til 14 milljónir manna í heiminum smitaðar af alnæmi. Og því er spáð að margar milljónir til viðbótar eigi eftir að smitast fram að aldamótum. Þú hefur því líklega eða átt eftir að umgangast einhverja sem ganga með þennan sjúkdóm. Í dæmigerðri stórborg eru líkur á að maður hafi einhverja umgengni við HIV-smitaða einstaklinga á vinnustöðum, í veitingahúsum, leikhúsum, íþróttaleikvöngum, strætisvögnum, neðanjarðarlestum, flugvélum og járnbrautarlestum eða á öðrum opinberum vettvangi.
Kristnir menn gætu því í vaxandi mæli átt eftir að hitta HIV-smitaða einstaklinga og alnæmissjúklinga sem vilja nema Biblíuna, sækja kristnar samkomur og taka framförum til að vígja sig Guði. Hvernig ættu þeir að bregðast við þörfum þessar fórnarlamba alnæmis? Þarf að gera einhverjar skynsamlegar varúðarráðstafanir í þágu sjúklingsins og safnaðarmanna?
Sem stendur eru menn almennt sammála um að alnæmi smitist ekki við dagleg samskipti. Það virðist því ekki ástæða til að vera óhóflega smeykur við að umgangast alnæmissmitaða. Og þar eð ónæmiskerfi alnæmissjúklinga er stórlega veiklað ættum við að gæta þess að þeir fái ekki algengar veirusýkingar frá okkur. Þeim getur stafað veruleg hætta af slíkum algengum sýkingum.
Þar eð alnæmi er banvænn sjúkdómur er þó skynsamlegt að viðhafa nokkrar eðlilegar varúðarráðstafanir þegar við bjóðum HIV-smitaðan einstakling eða alnæmissjúkling velkominn í félagsskap okkar eða kristna söfnuðinn. Það á ekki að tilkynna neitt opinberlega í söfnuðinum en það gæti verið gott að skýra öldungunum frá stöðunni þannig að þeir séu undir það búnir að svara vingjarnlega og á viðeigandi hátt þeim sem kynnu að spyrja þá um málið.
Þar eða veiran getur borist með blóði smitaðs manns kann að vera skynsamlegt fyrir söfnuðinn að fylgja nokkrum almennum hreinlætisreglum við ræstingu snyrtiherbergja, einkum ef einhverjum hefur blætt. Þar eð ríkissalurinn er opinber bygging gæti verið skynsamlegt að hafa kassa af gúmmí- eða vinýlhönskum með öðrum hreinlætisvörum til að nota ef veita þarf aðhlynningu og þrífa eftir slys eða óhöpp. Yfirleitt er mælt með að notaður sé óþynntur bleikiklór til að hreinsa upp blóðbletti.
Í öllum samskiptum sínum við aðra, þeirra á meðal alnæmissjúklinga, er kristnum mönnum fyrirskipað að fylgja fordæmi Jesú. Umhyggja hans fyrir þjáðum, sem voru eigi að síður einlægir í löngun sinni að þóknast Guði, er eftirbreytniverð fyrir okkur. (Samanber Matteus 9:35-38; Markús 1:40, 41.) En úr því að alnæmi er ólæknandi er viðeigandi að kristinn maður geri skynsamlegar varúðarráðstafanir um leið og hann veitir slnæmissmituðum skilningsríka hjálp. — Orðskviðirnir 14:15.
Fórnarlömb alnæmis geta líka gert sitt
Skynsamur maður, sem er smitaður af HIV eða með alnæmi, gerir sér ljóst að aðrir hræðast þennan sjúkdóm. Þess vegna væri rétt af honum að virða tilfinningar annarra með því að eiga ekki frumkvæðið að því að sýna væntumþykju með faðmlögum eða kossum. Jafnvel þótt lítill eða enginn möguleiki sé á að smitun geti átt sér stað þannig sýnir fórnarlambið virðingu fyrir tilfinningum annarra með því að hafa slíkt taumhald á sér sem leiðir síðan af sér sams konar tillitssemi af hálfu annarra. a
HIV-smitaðir og alnæmissjúklingar ættu að gera sér ljóst að margir óttast hið óþekkta og ekki móðgast ef þeim er ekki boðið þegar í stað í heimsóknir eða ef þeim virðast foreldrar ekki leyfa börnum sínum að vera í náinni snertingu við þá. Og ef eitt bóknám safnaðarins er haldið í ríkissal votta Jehóva kann að vera skynsamlegt af hinum alnæmissmitaða að sækja þá samkomu í stað þess að fara á einkaheimili, nema hann hafi rætt það fyrirfram við húsráðandann.
Alnæmissmitaðir einstaklingar ættu einnig að sýna varúð ef þeir hósta slími og vita að þeir eru með berkla. Þeir ættu að fylgja þeim reglum sem heilbrigðisyfirvöld setja um sóttkvíun.
Saklaus einstaklingur gæti einnig smitast með því að giftast einhverjum sem gengur með HIV-veiruna án þess að vita af því. Það er sérstaklega ástæða til að sýna varúð ef annar aðilinn eða báðir voru fjöllyndir eða sprautuðu sig með fíkniefnum áður en þeir öðluðust nákvæma þekkingu á orði Guðs. Þar eð sífellt fleiri eru einkennalausir þótt þeir séu HIV-smitaðir væri ekki óviðeigandi að einstaklingur eða umhyggjusamir foreldrar fari fram á að fyrirhugaður maki gangist undir mótefnamælingu fyrir trúlofun eða hjónaband. Þar eð sjúkdómurinn er lífshættulegur ætti hugsanlegur maki ekki að móðgast ef farið er fram á slíkt.
Ef mótefnamælingin reynist jákvæð væri óviðeigandi af hinum smitaða að þrýsta á fyrirhugaðan maka sinn að halda tilhugalífi eða trúlofun áfram, ef sá hinn sami vill slíta sambandinu núna. Og það væri skynsamlegt af hverjum þeim sem áður var í áhættuhópi sökum lífernis síns, svo sem lauslætis eða fíkniefnaneyslu með sprautum, að fara sjálfur í mótefnamælingu áður en hann stofnar til kynna við einhvern með hjónaband í huga. Þannig mætti forðast sárindi.
Sem kristnir menn viljum við vera umhyggjusamir og ekki sniðganga alnæmissmitaða, en við gerum okkur líka ljóst að tilfinningar manna í þessu viðkvæma máli geta verið misjafnar. (Galatabréfið 6:5) Menn vita ekki allt um sjúkdóm eins og alnæmi og margir geta þar af leiðandi verið hikandi að takast á við þau mál sem tengjast honum. Það bæri vott um jafnvægi að halda áfram að bjóða fórnarlömb alnæmis velkomin inn í kristna söfnuðinn og sýna þeim kærleika og hlýju, en samtímis gera viðeigandi varúðarráðstafanir til að vernda okkur og fjölskyldur okkar fyrir sjúkdóminum.
[Neðanmáls]
a Hvað ætti HIV-smitaður einstaklingur að gera þegar hann vill verða vottur Jehóva og láta skírast? Sökum virðingar fyrir tilfinningum annarra gæti verið skynsamlegt af honum að óska eftir einkaskírn, enda þótt ekkert bendi til að alnæmi hafi smitast í sundlaugum. Enda þótt margir kristnir menn á fyrstu öld hafi skírst að viðstöddu fjölmenni létu aðrir skírast að fáum viðstöddum vegna breytilegra aðstæðna. (Postulasagan 2:38-41; 8:34-38; 9:17, 18) Annar möguleiki væri að hinn smitaði skírðist síðastur.
[Rammi á blaðsíðu 27]
Ég fann til með henni
Ég var úti í boðunarstarfinu og tók tali unga konu, um tvítuga. Augun, sem voru stór og brún, voru dapurleg. Ég reyndi að hefja samræður við hana um ríki Guðs og bauð henni eitt af smáritunum sem ég hélt á. Án þess að hika valdi hún Hughreysting fyrir niðurdregna. Hún horfði á smáritið og síðan á mig og sagði hljómlausri röddu: „Systir mín var að deyja úr alnæmi.“ Áður en mér tókst að ljúka við að votta henni samúð mína hélt hún áfram: „Ég er líka að deyja úr alnæmi og ég á tvö ung börn.“
Ég fann til með henni og ég las fyrir hana úr Biblíunni um þá framtíð sem Guð hefur heitið mannkyninu. „Af hverju ætti Guð að sinna mér núna úr því að ég hef aldrei sinnt honum?“ spurði hún snögglega. Ég sagði henni að nám í Biblíunni myndi sýna henni að Guð tekur opnum hverjum þeim sem iðrast í einlægni og treystir á hann og lausnarfórn sonar hans. „Ég veit hvaðan þú ert,“ sagði hún þá. „Þú ert frá ríkissalnum hérna í götunni — en væri manneskja eins og ég velkomin í ríkissalinn ykkar?“ Ég fullvissaði hana um það.
Þegar hún hélt sína leið, með bókina Biblían — orð Guðs eða manna? og smáritið í hendinni, hugsaði ég með mér: ‚Ég vona bara að hún fái þá hughreystingu sem Guð einn getur gefið.‘