Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Frumbyggjar Ástralíu — Einstakur þjóðflokkur

Frumbyggjar Ástralíu — Einstakur þjóðflokkur

Frumbyggjar Ástralíu — Einstakur þjóðflokkur

Eftir fréttaritara Vaknið! í Ástralíu

ÁSTRALÍA er er sérstætt land með sínum glæsilegu pokadýrum, kengúrunni og pokabirninum sem er svo heimavanur hátt uppi í krónum tröllatrjánna. En frumbyggjar Ástralíu eru þó enn sérstæðari en landið.

Áætlað er að frumbyggjarnir hafi verið um 300.000 talsins þegar fyrstu, evrópsku landnemarnir komu til Ástralíu undir lok 18. aldar. Tvö hundruð árum síðar, árið 1991, sýnir manntal að frumbyggjarnir eru innan við 230.000 af samanlagðri íbúatölu Ástralíu sem er tæplega 17 milljónir.

Hverjir eru þessir upphaflegu íbúar Ástralíu? Hvaðan komu þeir? Hvað er sérstætt við þá? Og hvaða framtíðarvon hafa margir þeirra núna?

Líf frumbyggjanna til forna

Flestir mannfræðingar eru sammála um að frumbyggjar Ástralíu séu upphaflega komnir frá Asíu. Sennilega ferðuðust þeir síðasta spölinn frá Suðaustur-Asíu á flekum eða bátum og tóku land á norðurströnd Ástralíu. „Þeir voru ekki algerir hirðingjar,“ segir Malcolm D. Prentis í bók sinni A Study in Black and White, „heldur hálf-hirðingjar; það er að segja þeir slógu upp búðum um stundar sakir á ýmsum búðastöðum innan síns afmarkaða búsvæðis.“

Frumbyggjarnir voru einstakir náttúruverndarmenn sem önnuðust umhverfi sitt vel. Frumbyggi útskýrir: „Við ræktuðum landið okkar en við gerðum það ólíkt hvíta manninum. Við gerðum okkur far um að lifa með landinu; hann virtist lifa á landinu. Mér var kennt að vernda og varðveita, aldrei að eyðileggja.“

Prentis tekur undir það: „Velferð gróðurríkisins og dýraríkisins og frumbyggjahópsins var samtvinnuð: velgengni eins var velgengni annars. Þetta var skynsamlegt: góður vöxtur og viðgangur kengúranna þýddi auðveldari fæðuöflun handa frumbyggjunum en það var ekki gott til langs tíma litið fyrir frumbyggjana ef of margar kengúrur voru drepnar.“

Frumbyggjarnir höfðu líka afburðahæfileika á öðrum sviðum. Málvísindamaðurinn R. M. W. Dixon segir bók sinni The Languages of Australia: „Ef litið er á þjóðfélagsgerðina virðast Evrópubúar hins vegar hafa verið frumstæðir í samanburði við frumbyggja Ástralíu; allir áströlsku ættflokkarnir höfðu margbrotin og skýrt mótuð skyldleikakerfi með nákvæmum reglum um hver gæti gifst hverjum og með skilgreiningum um hlutverk fyrir hvers kyns tilefni.“

Tónlist og veiðar

Frumbyggjarnir eiga sér hljóðfæri sem ekki þekkist annars staðar og er kallað didgerídú. Orðið merkir bókstaflega „drunupípa“ og lýsir vel hljóðinu sem það myndar. Didgerídú er ekki notað til að leika laglínu heldur eins konar bassa og hljóðfall á hátíðasamkomum og við næturdans sem kallast korróborí. Með hljóðfærinu er leikinn eins konar bassaundirleikur fyrir söngvara með skelliprik.

Didgerídú er gert úr vandlega völdum, holum trjágreinum. Vinsælasta lengdin er frá einum upp í einn og hálfan metra en sum hljóðfæri eru allt að 4,5 metra löng. Annar endi hjóðfærisins hvílir oftast á jörðinni og hljóðfæraleikarinn situr og blæs gegnum hinn endann sem hann heldur upp að munni sér með báðum höndum.

Hljóðfærið á að gefa stöðugan, djúpan hljóm þannig að hljóðfæraleikarinn þarf að blása látlaust í munnstykkið og draga samtímis ferskt loft inn um nasirnar án þess að hljóðið rofni nokkurn tíma. Hann þarf að beita svipaðri tækni og túbuleikari. Meðal blásturshljóðfæraleikara er þetta kallað hringöndun og er ekki auðveld list að ná tökum á.

Frumbyggjarnir notuðu líka annað verkfæri, sem er sérstætt fyrir þá, sem veiðivopn — bjúgverpil eða búmerang. Það þróaðist sem veiði- og stríðsvopn meðal frumbyggjanna. Í augum margra ferðamanna nú á tímum er það líka orðið annað, velþekkt tákn Ástralíu. Þekktustu gerðir bjúgverpilsins eru bjúglaga kastvopn sem svífur aftur til notandans ef hann kastar því rétt. En það eru líka til aðrar gerðir sem koma ekki svífandi til baka. Réttara heiti á þeim er kælí eða drápsstafir.

List frumbyggja

Í öndverðu átti siðmenning áströlsku frumbyggjanna sér ekkert ritmál. Kevin Gilbert, sem ljóðskáld og listamaður af hópi frumbyggja, útskýrir: ‚Listin var áhrifaríkasta tjáskiptaleið frumbyggjanna og sú sem menn skildu víðast.‘ Hann segir: „List er áhrifameira og þýðingarmeira tjáskiptaform en hið ritaða orð.“

Þess vegna varð sjónlist og leiklist samofin lífsháttum frumbyggjanna. Það merkti að list þeirra þjónaði tvíþættum tilgangi: Hún var þeim leið til að undirstrika munnlega tjáningu og einnig minnishjálp til að rifja upp sögur ættbálksins og trúarhefðir.

Með því að frumbyggjar höfðu hvorki aðgang að striga, pappír né því um líku máluðu þeir á kletta, hellaveggi og trjábörk. Litir jarðarinnar skera sig úr í öllum verkum þeirra. Þeir notuðu ríkjandi liti á þeim svæðum þar sem málverkin urðu til. Litirnir voru gerðir úr jarðefnum

Óvenjulegasta einkenni listar þeirra er sennilega það að nálega öll málverk þeirra eru gerð úr punktum og strikum. Jafnvel bakgrunnurinn, sem getur í fyrstu virst vera einn samfelldur litur, reynist við nánari skoðun vera flókið mynstur mislitra punkta.

Ritið Marketing Aboriginal Art in the 1990s segir að á níunda áratugnum hafi „frumbyggjalist . . . tekið stórt stökk frá ‚þjóðlegri list‘ til ‚viðskiptalegrar fagurlistar.‘“ Aðrir tala um vaxandi eftirspurn eftir þessum punktamyndum og fagna auknum vinsældum þeirra.

Tungumál frumbyggja

Hvítir Ástralir gera sér yfirleitt rangar hugmyndir um tungumál frumbyggjanna. Sumir halda til dæmis að frumbyggjarnir hafi aðeins talað eitt tungumál og að það hafi verið frumstætt, aðeins fáeinar stunur og rýt. En ekkert er fjær sannleikanum!

Sannleikurinn er sá að menn áætla að tungumál frumbyggjanna hafi verið 200 til 250. Yfir helmingur þeirra er hins vegar dáinn út. Núna eru aðeins um 50 slík tungumál sem hópar 100 eða fleiri frumbyggja tala. Og þau frumbyggjatungumál, sem 500 eða fleiri tala, eru innan við 20 núna.

En í stað þess að vera frumstæð eru talmál frumbyggjanna málfræðilega háþróuð. Í bók sinni, The Languages of Australia, segir prófessor Dixon: „Ekkert þeirra 5000 tungumála eða þar um bil, sem töluð eru í heiminum, er hægt að kalla ‚frumstætt.‘ Öll þekkt tungumál eru flókin að uppbyggingu, þannig að það þarf nokkur hundruð blaðsíður til að lýsa málfræði þeirra í aðalatriðum; í öllum tungumálum eru notaðar þúsundir orða í daglegu tali.“

Barry J. Blake tók í svipaðan streng er hann fjallaði um tungumál frumbyggjanna. „Þau eru háþróuð tjáskiptatæki, hvert um sig jafn-fullnægjandi til að lýsa reynsluheimi frumbyggja og enska eða franska til að lýsa reynsluheimi Evrópumanna.“ Blaðamaðurinn Galarrwuy Yunupingu, sem er Ástralíufrumbyggi, styður þessa niðurstöðu: „Afar fáir hvítir menn hafa nokkurn tíma reynt að læra tungu okkar, og enska er ónothæf til að lýsa sambandi okkar við land forfeðranna.“

Á 19. öld voru hlutar Biblíunnar þýddir á tvö frumbyggjamál. Lúkasarguðspjall var þýtt á awabakal-mál og hlutar 1. Mósebókar, 2. Mósebókar og Matteusarguðspjalls þýddir á narrinyeri-mál. Athyglisvert er að í þessum þýðingum var nafn hins alvalda Guðs stafað „Yehóa“ og „Jehovah“ með þeim tilbrigðum eftir setningafræði málsins krafðist.

Núna er mikil áhersla lögð á að endurverkja mál frumbyggjanna og vekja aðra Ástrali til vitundar um gildi, auðgi og fegurð þessara mála. Það er mörgum því fagnaðarefni að sá ráðherra Ástralíu, sem fer með málefni frumbyggjanna, skuli hafa heimilað gerð orðabóka yfir 40 frumbyggjamál. Þeirra á meðal eru mál sem eru töluð núna en einnig mörg mál sem eru ekki lengur í notkun en hægt er að rannsaka í skjalasöfnum og frá öðrum sögulegum heimildum.

Viðbrögð við stórkostlegri von

Þegar hvítir menn komu til Ástralíu undir lok 18. aldar þurrkuðu þeir innfædda næstum út. Nú eru hins vegar nokkrar sveitaborgir þar sem meirihluti íbúa er frumbyggjar og enn eru nokkrar byggðir þar sem frumbyggjar einir búa, einkanlega á mjög afskekktum svæðum. Lífið er heldur dapurlegt hjá mörgum þessara frumbyggja. „Við tilheyrum ekki lengur fortíðinni,“ skrifaði frumbyggi, „en höfum heldur ekki fundið okkur viðunandi stað í nútíðinni.“ Síðan bætti hann við: „En framtíðin býður mörgum okkar upp á von.“

Ástæðan fyrir því er sú að margir hinna upprunalegu íbúa Ástralíu njóta þess nú að lesa í Biblíunni — kannski á sínu eigin máli — að bráðlega verði hinir illu ekki til framar og að jörðin verði aftur fengin þeim mönnum í hendur sem annast hana vel. (Sálmur 37:9-11, 29-34; Orðskviðirnir 2:21, 22) Ríki Guðs mun koma því til leiðar. Þetta ríki, sem Jesús Kristur kenndi okkur að biðja um, er raunveruleg, himnesk stjórn. (Matteus 6:9, 10) Margir frumbyggjar, bæði karlar og konur, eru nú önnum kafnir að segja öðrum frá þeim stórkostlegu blessunum sem Guðsríki á eftir að veita mannkyninu. — Opinberunarbókin 21:3, 4.

Frumbyggi sagði um marga samlanda sína: „Þeir skilja að sameiginlegt sjónarmið hvítra manna, frumbyggja og flestra annarra jarðarbúa er rangt. Það er það sjónarmið að Ástralía tilheyri frumbyggjunum vegna þess að þeir fundu hana fyrst, eða að hún tilheyri hvítum mönnum vegna þess að þeir lögðu hana undir sig. Hvorugt sjónarmiðið er rétt. Hún tilheyrir Jehóva Guði vegna þess að hann skapaði hana.“ — Opinberunarbókin 4:11.

Skapari okkar, Jehóva Guð, á svo sannarlega Ástralíu og afganginn af jörðinni. Og bænin, sem Jesús kenndi, á eftir að uppfyllast þannig að ríki Guðs komi og allri jörðinni verði breytt í paradís byggðri mönnum af öllum kynþáttum og þjóðernum sem elska og þjóna hinum sanna Guði.

[Myndir á blaðsíðu 17]

Didgerídú er hljóðfæri sem finnst aðeins meðal frumbyggja Ástralíu.

[Myndir á blaðsíðu 17]

Frumbyggjalist til sýnis.

[Rétthafi]

Með leyfi Upplýsingaþjónustu Ástralíu erlendis

[Mynd á blaðsíðu 18]

Margir frumbyggjar segja nú öðrum frá fagnaðarerindinu um ríki Guðs.