Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Horft á heiminn

Horft á heiminn

Horft á heiminn

Sjónvarpslausar fjölskyldur

Kennarar í skóla, þar sem flestir nemendur eru án sjónvaps, segja að þau fáu börn, sem horfa mikið á sjónvarp, séu auðþekkt. „Ef maður sér forskólabörn leika ofurhetjur og þykjast drepa, stinga og meiða er algerlega öruggt að þau horfa á sjónvarp,“ segir sérfræðingur. The Wall Street Journal sagði frá því að þeir sem hættu að horfa á sjónvarp hafi notið góðs af. Sautján ára stúlka sagði að „áður var það þannig að við sáum pabba helst áður en hann fór í vinnuna. Þegar hann kom heim horfði hann á sjónvarpið með okkur og svo sögðum við bara: ‚Góða nótt, pabbi.‘ Núna tölum við heilmikið saman og höfum mjög gott samband.“ Hún bætti við: „Þegar ég eignast börn ætla ég ekki að hafa sjónvarp.“

Glataðir vöðvar

Megrun getur verið skaðleg — sérstaklega þegar maðurinn missir vöðvavefi þegar hann er að reyna að losa sig við fitu. Dálkahöfundurinn Wayne Westcott, sem skrifar um heilbrigðismál, útskýrir að „vöðvar séu geysimikilvægir í mörgu sem við gerum yfir daginn — við höfum ekki efni á að missa þá.“ Kyrrsetumenn eiga líka á hættu að missa vöðvavef jafnvel þótt þeir séu ekki í megrun. Talið er að dæmigerður kyrrsetumaður missi að meðaltali 2 kg af vöðvum á hverjum tíu árum en bæti við sig 7 kg af fitu. „Á baðvoginni lítur það út eins og 5 kg fituaukning (7 kg af fitu mínus 2 kf af vöðvum),“ segir dr. Wstcott. „En í rauninni er um að ræða 9 kílógramma vandamál (7 kg meiri fita að viðbættu 2 kg vöðvatapi).“ Til að halda heilsu og hreysti er eindregið mælt með bæði áreynsluleikfimi og kraftþjálfum.

Blómorka

Madagaskarbúar hafa lengi metið lækningagildi þarlendra jurta mikils. Seyði ýmissa blóma hefur verið notað til að meðhöndla „kvilla allt frá hita og exemi upp í æxli,“ að því er tímaritið Africa—Environment & Wildlife skýrir frá. Jafnvel hin fögru brönugrös koma að gagni. Ein tegund (Angraecum eburneum) er til dæmis notuð gegn veirusýkingum og til að koma í veg fyrir fósturlát. Fyrir skömmu uppgötvaðist ný uppspretta lyfja gegn hvítblæði á eynni — vorlaufið (Catharanthus roseus). En hve miklu lengur geta menn notið góðs af þessum blómum? „Við erum í kapphlaupi við tímann,“ segir mæðulega í frétt blaðsins, því að „óteljandi tegundir, sem hafa ekki fundist enn, tapast daglega vegna atvinnustarfsemi svo sem skógarhöggs, akuryrkju og námugraftar.“

Börn í stríði

Síðastliðin tíu ár hefur um ein og hálf milljón barna fallið í styrjöldum, að því er segir í skýrslu Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna, The State of the World’s Children 1994. Fjórar milljónir til viðbótar hafa verið limlestar, orðið örkumla, misst sjónina eða beðið heilaskaða. Talið er að í það minnsta fimm milljónir hafi þurft að leggja á flótta. Börn hafa verið skráð í heri. Víða um lönd hafa börn verið pynduð og neydd til að horfa á eða taka þátt í hermdarverkum. Á einu svæði var stúlkum nauðgað sem „kerfisbundinni hernaðaraðgerð.“ Skýrslan segir: „Það virðist réttmætt að álykta að siðmenningin hafi aldrei verið jafnyfirborðsleg og nú.“

Milljón prósent verðbólga

Verðbólguhraðinn í Sambandslýðveldinu Júgóslavíu komst upp í milljón prósent í desember 1993, að sögn hagstofunnar þar í landi. Framfærslukostnaðurinn var 2839 sinnum hærri en mánuðinn á undan og 6 billjón sinnum hærri en í byrjun ársins. Af því leiðir að hinn prentaði gjaldmiðill verður verðlaus innan þriggja daga frá útgáfu. Til að mæta vandanum hefur seðlabankinn skorið nokkur núll aftan af dínarnum. Á aðeins þrem mánuðum urðu 5 billjónir dínara að aðeins 5 dínörum.

Tekjur auknar með æsifengnum spám

Í ársbyrjun 1993 safnaði Félag vísindalega rannsókna á dulvísindum í Þýskalandi 70 spádómum stjörnuspámanna og mat síðan árangurinn við lok ársins. Reyndust stjörnuspámennirnir sannspárri árið 1993 en árin á undan (sjá Vaknið! júlí-september 1992 bls. 31 og október-desember 1993 bls. 30) Þeir fóru með „haugalygi,“ segir Nassauische Neue Presse „Fæstir stjörnuspámenn trúa einu sinni árlegri spá sinni,“ segir talsmaður félagsins. En stjörnuspáfræðin er umfangsmikil starfsemi í Þýskalandi og veltir 4,2 milljörðum króna (100 milljónum þýskra marka) á ári. Margir spámenn líta á æsifengnar spár sem „áhrifaríka leið til að komast í fréttirnar“ í þeim tilgangi að auka tekjurnar, að sögn blaðsins.