Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Hrífandi leit að nýjum lyfjum

Hrífandi leit að nýjum lyfjum

Hrífandi leit að nýjum lyfjum

Eftir fréttararitara Vaknið! í Bretlandi

Hvað er sameiginlegt með gúmmíi, kakói, bómull og verkjalyfjum? Allt er hægt að vinna úr jurtum. Auk þess að mynda sykrur og súrefni með ljóstillífun framleiða grænu jurtirnar einnig ótrúlegan fjölda annarra efna úr öðrum undirstöðueiningum. Það eru þessi efnasambönd sem gefa hverri plöntu sérkenni sín.

SVIÐINN undan brenninetlu, súrt bragð eplisins og ljúfur ilmur rósarinnar stafar allt af mismunandi blöndum efnasambanda sem jurtirnar framleiða sjálfar. Það er virðist vera eitt efni getur þannig verið afar flókin blanda.

Efnaverksmiðjur náttúrunnar

Tökum sem dæmi hinn einkennandi ilm af kakói. Vissir þú að vísindamenn hafa fram til þessa fundið 84 mismunandi rokgjörn efnasambönd sem sameiginlega mynda þennan sérstæða ilm? Efnasamsetning kakóbaunarinnar er gífurlega flókin og mikil vinna hefur verið lögð í það á síðustu árum að efnagreina hana. Og hér erum við aðeins að tala um eitt náttúrlegt efni.

Kólesteról er fitukennt efni, kannski best þekkt fyrir hugsanleg tengsl sín við hjartasjúkdóma í mönnum. En hjá sumum jurtum er það hráefni til framleiðslu mikilvægs efnahóps sem kallast sterar. Í sterafjölskyldunni eru meðal annars D-vítamín, hormón (svo sem kortisón) og lyf svo sem bógueyðandi betameþasón. Díosgenín, steri sem notaður er við framleiðslu getnaðarvarnartaflna, er myndað í vissum tegundum villtra jamjurta. Kortísón er á hinn bóginn framleitt úr hekógeníni, náttúrlegum stera sem unninn er úr sísalliljulaufi eftir að búið er að vinna hamp úr því. Mörg af hinum nýju lyfjum nútímans voru fyrst einangruð í jurtavefjum.

Jurtir og menn

Lyf framleidd með efnasmíði eru tiltöluleg nýtilkomin í læknisfræðinni en aftur á móti hafa jurtaseyði verið notuð sem lyf við algengum sjúkdómum um þúsundir ára. Forn-assýrskar heimildir lýsa notkun maríusóleyjar til að stilla verki. Og egypskt papýrusrit um lækningar fá tímum faraóanna sýnir að lækningajurtir voru mikið notaðar.

Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin hefur skráð um 20.000 lækningajurtir um heim allan. Áætlað er að notuð séu um 6000 til 7000 tonn af jurtum á ári á Bretlandseyjum í um það bil 5500 mismunandi jurtalyf, og talið er að í Bandaríkjunum vísi yfir helmingur allra lyfseðla á lyf sem eru unnin úr jurtum.

Leitin að nýjum lyfjum

Þekktar eru allt að 250.000 jurtategundir í heiminum og hver þeirra getur haft sína sérstæðu efnasamsetningu. Vísindamenn eru því sífellt að leita vísbendinga um gagnleg lyf sem vinna má úr þeim. Einhver augljósasta leiðin er sú að rannsaka hvernig fólk á ýmsum stöðum í heiminum notar jurtir frá heimaslóðum sínum til lækninga.

Kókaín uppgötvaðist þegar menn veittu því athygli að hægt var að deyfa hungurverki og draga úr þreytu með því að tyggja kókalauf. Með því að einangra og breyta uppbyggingu kókaínsameindarinnar tókst efnafræðingum að framleiða afleiðu er nota mátti sem staðdeyfilyf. Ef tannlæknirinn þinn hefur gefið þér sprautu til að deyfa hluta af kjálkanum og hlífa þér við sársauka samfara tannviðgerð, þá er vel líklegt að þú hafir notið góðs af þessum rannsóknum.

Mikið af verðmætum upplýsingum um notkun jurta liggja enn óskoðaðar í grasafræðisöfnum heims. Vísindamenn, sem eyddu yfir fjórum árum í að rannsaka 2,5 milljónir sýnishorna í Gray-grasasafninu og Arnold-grasafræðigarðinum við Harvard-háskólann, gátu bent á yfir 5000 jurtir er mönnum hafði áður yfirsést sem möguleg hráefni til lyfjagerðar.

Önnur rannsóknaraðferð felst í því að bera saman efnainnihald jurta. Ef ein tegund inniheldur nothæf efni má vera að skyldar tegundir séu einnig verðmætar. Þegar norður-ástralskt tré, Moreton Bay-kastaníutréð, var rannsakað tókst að einangra efni sem nefnist kastanóspermín, eitrað efni sem virðist vinna gegn veirum. Við leit að skyldum trjám datt grasafræðingum í hug að rannsaka suður-amerískt tré sem nefnist Alexa.

Krabbameinsrannsóknir

Stundum geta vísbendingar verið villandi en síðan skilað óvæntum árangri. Það var til dæmis fullyrt að hægt væri að nota efni unnið úr Catharanthus roseus, sem vex á Madagaskar, við meðferð á sykursýki. Kanadískir vísindamenn hófu prófanir á efninu en uppgötvuðu sér til undrunar að það bældi starfsemi ónæmiskerfisins með því að draga úr framleiðslu hvítra blóðkorna. Það gaf læknum þá hugmynd að prófa efnið gegn hvítblæði sem er krabbamein í hvítu blóðkornunum.

Loks tókst að einangra um 90 efnasambönd og þar af reyndust tvö, kölluð vinkristín og vinblastín, læknisfræðilega gagnleg. Þau er að finna í jurtinni í svo litlu magni að það þarf um eitt tonn af jurtinni til að framleiða 2 grömm af vinkristíni. Núna eru þessi efni og afleiður þeirra notuð um heim allan við lyfjameðferð gegn hvítblæði í börnum.

Síðla á sjötta áratugnum hóf Bandaríska krabbameinsstofnunin 25 ára rannsóknaráætlun þar sem prófuð voru 114.000 efni unnin úr 40.000 jurtategundum gegn æxlismyndun í krabbameinsvefjum í ætivökva. Um 4500 þeirra höfðu merkjanleg áhrif og voru talin verðskulda frekari rannsóknir. En lyfjafræðingurinn og ráðgjafinn dr. W. C. Evans bendir á: „Það er afar ósennilegt að breiðvirk krabbameinslyf eigi eftir að finnast“ við slíkar rannsóknir þótt þær séu vissulega þýðingarmiklar. Krabbamein eru gríðarlega margbreytileg og aðeins fáeinar tegundir hraðvaxta krabbameinsfrumna voru notaðar við þessar rannsóknir.

Ný lyf úr gömlum jurtum

Velþekktar jurtir hafa gefið rannsóknarmönnum ýmislegt um að hugsa. Engifer er til dæmis notað núna sem uppsölustillandi lyf, sérstaklega áhrifaríkt við iðakvilla (sjóveiki, bílveiki og flugveiki). a Það er þó þýðingarmeira að engifer gæti reynst verðmætt við meðferð blóðögðusóttar sem er landlægur sníklasjúkdómur í hitabeltinu. Töflur með engiferdufti hafa verið prófaðar á sýktum skólabörnum í Nígeríu með þeim árangri að blóð hætti að sjást í þvagi og blóðögðueggjum fækkaði.

Vísindamenn eru varla nema rétt byrjaðir að rannsaka jurtaríkið í leit að nýjum lyfjum. Jafnvel jurtir, sem eru tiltölulega velþekktar, kunna enn að geyma mörg leyndarmál. Lakkrísjurtin er mjög eftirsótt núna vegna þess að fundist hafa efni í henni sem eru bólgueyðandi og afleiður þess geta hjálpað sumum sem þjást af liðagikt. Vísindamenn eru einnig að rannsaka venjulegar garðertur vegna sveppaeyðandi og örverueyðandi áhrifa.

Gegndarlaus eyðing jurtategunda á vissum svæðum heims, áður en þessar jurtir hafa verið skráðar, hefur í för með sér að leitin að nýjum lyfjum þarf að ganga hratt fyrir sig. Nákvæm efnagreining jurta og erfðafræðileg varðveisla þeirra er afaráríðandi, jafnvel þegar um er að ræða velþekktar jurtir. En ein gáta er enn óleyst: Hvaða not hefur jurtin sjálf af þessum óvenjulegu efnum? Af hverju framleiðir fingrablaðkan til dæmis svona mikið noradrenalín, hormón sem er manninum nauðsynlegt?

Í rauninni er þekking okkar á hinu flókna jurtaríki afskaplega takmörkuð enn þá. En það sem við vitum bendir til að þær séu í heild sinni hannaðar af miklu hyggjuviti sem hlýtur að vera frá mikilfenglegum skapara komið.

[Neðanmáls]

a Sjá Vaknið! þann 22. júlí 1982 (enska útgáfu), bls. 31.

[Mynd á blaðsíðu 24]

Engifer er notað sem mótefni gegn iðakvilla.