Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Hvað á ég að gera ef ég fell fyrir vantrúuðum?

Hvað á ég að gera ef ég fell fyrir vantrúuðum?

Ungt fólk spyr . . .

Hvað á ég að gera ef ég fell fyrir vantrúuðum?

„Ég er í vanda stödd,“ viðurkenndi kristin stúlka. „Ég er skotin í nágranna mínum. Hann er vingjarnlegur, kurteis og tillitssamur, en það er eitt sem hann vantar — kærleikur til Jehóva. Ég veit að það er rangt af mér að vera hrifin af honum en ég veit ekki almennilega hvernig ég á að takast á við tilfinningar mínar til hans.“

Magnús var 14 ára þegar hann lenti í svipaðri aðstöðu. a Hann varð hrifinn af stúlku sem hafði ekki sama trúarskilning og hann. „Ég lét mig oft dreyma dagdrauma um hvernig það væri að vera saman, gift,“ segir hann. „En ég vissi að það var rangt.“

ÞAÐ er algengt að verða skotinn í einhverjum á unglingsárunum þegar draumórakenndar tilfinningar eru sterkar. (Samanber 1. Korintubréf 7:36.) Unglingum hættir til að verða hrifnir af uppáhaldskennurum sínum, skemmtikröftum og fleiri slíkum. Þar sem unglingarnir hafa yfirleitt engin tök á að eiga persónulegt samband við þessa einstaklinga eru slík ástarskot venjulega skammlíf og tiltölulega skaðlaus. b En hvað þá ef þú hefur fengið sterkar tilfinningar til jafnaldra — einhvers sem er fús til og fær um að endurgjalda þær — en hann aðhyllist einfaldlega ekki sömu trú og þú?

Sumir sjá þetta kannski ekki sem neitt vandamál, meðal annars vegna þess að margir unglingar hafa lítinn áhuga á trúmálum. Og jafnvel meðal þeirra sem hafa það er ekki alltaf litið á það með vanþóknun að slá sér upp með einhverjum sem aðhyllist aðra trú. Frjálslynt fólk er því kannski jafnvel meðmælt. En margir fullorðnir sjá þó ýmis vandkvæði á slíku sambandi, einkum af því að þau leiða oft til hjónabands. Rithöfundurinn Andrea Eagan ráðlagði þannig unglingum: „Sams konar trúaruppeldi skiptir ekki máli ef hvorugt ykkar er trúhneigt. En ef trúarathafnir skipta annaðhvort ykkar eða bæði máli verður að gefa gaum að ólíkum trúarskoðunum. . . . Þið þurfið ekki að vera sömu trúar . . . en þið þurfið að eiga saman.“

Slík ráð kunna að hljóma skynsamlega en í rauninni enduróma þau „speki þessa heims.“ (1. Korintubréf 3:19) Biblían sýnir að í ástarsambandi trúaðra og þeirra sem eru ekki í trúnni þarf að huga að langtum þýðingarmeiri atriðum en því hvort fólk eigi saman. Unglingar meðal votta Jehóva vita að hér er um að ræða hlýðni við orð Guðs sem hvetur kristna menn til að giftast „aðeins . . . í Drottni.“ (1. Korintubréf 7:39) Þar eða samdráttur kynjanna á ekki aðeins að vera skemmtun heldur undanfari hjónabands væri það vanþóknanlegt Guði að einn af þjónum hans dragi sig eftir einhverjum sem hefur ekki vígt Jehóva líf sitt.

Þrátt fyrir það hafa sumir ungir vottar Jehóva laðast að einhverjum sem ekki voru í trúnni. Hvernig gerist það? Hvað ættir þú að gera ef þú kemst í þá aðstöðu?

Þannig gerist það

Fyrst skaltu gera þér ljóst að öllum mönnum er villugjarnt. „En hver verður var við yfirsjónirnar?“ spurði sálmaritarinn. (Sálmur 19:13) Unglingum er sérstaklega villugjarnt á sviði ástamála. Af hverju? Af þeirri einföldu ástæðu að þá skortir góða dómgreind sem kemur með aldri og reynslu. (Orðskviðirnir 1:4) Unglingar hafa litla reynslu af samskiptum við hitt kynið og kunna kannski hreinlega ekki að takast á við aðdráttarafl — eða athygli frá hinu kyninu.

Þannig var það hjá Sigrúnu þegar hún gerði sér ljóst að skólafélagi hennar var hrifinn af henni. „Ég sá að hann var hrifinn af mér,“ segir Sigrún. „Hann kom til mín og borðaði mér mér í matartímum. Hann leitaði mig uppi í lestrartímum í bókasafninu.“ Sigrúnu fór að finnast vænt um piltinn. Magnús, sem áður er minnst á, segir eitthvað svipað: „Ég sá þessa stelpu alltaf í leikfimitímum. Hún tók á sig krók til að koma til mín og tala við mig. Við urðum fljótt vinir.“ Hjá Perlu, sem var 14 ára, gerðist það að drengur úr nágrenninu gekk svo langt að gefa henni hring til að tjá henni ást sína.

Vissulega hefur staðan ekki alltaf verið sú að vottur væri saklaust fórnarlamb annarra sem sýndu þeim athygli. Ein stúlka var einungis að endurgjalda augljósan áhuga sem kristinn piltur, Jón, sýndi henni. En hann komst aldeilis í klípu einn daginn þegar hún birtist í ríkissalnum til að leita að honum!

Hverjar svo sem aðstæðurnar voru vissir þú sennilega að það væri rangt af þér að leyfa tilfinningum til hins aðilans að vaxa með þér. En stundum er erfitt að standast athygli frá hinu kyninu. Tökum Andrés sem dæmi. Fyrsta árið hans í framhaldsskóla skildu foreldrar hans. „Mig vantaði einhvern til að tala við,“ segir hann. Stúlka í skólanum virtist alltaf hafa uppörvandi orð á takteinum handa honum. Innan skamms urðu þau hrifin hvort af öðru.

Hætturnar

Ef ekkert er að gert geta slíkar tilfinningar komið þér í alvarlegt klandur. Orðskviðirnir 6:27 segja: „Getur nokkur borið svo eld í barmi sínum, að föt hans sviðni ekki?“ Tökum sem dæmi stúlku sem heitir Kristín. Þótt hún væri alin upp sem kristin stúlka leyfði hún sér að verða hrifin af pilti í skólanum. „Hann var vinsælasti og mest spennandi strákurinn í skólanum,“ segir Kristín. Ekki leið á löngu áður en hún var farin að sækja partí með leynd þar sem fíkniefna var neytt fyrir opnum tjöldum. „Ég var dauðhrædd en ég var ástfangin af honum. Svo varð ég ófrísk.“ Kristín giftist vini sínum en hann var síðar handtekinn fyrir vopnað rán. Enn sem fyrr reyndist viðvörun Biblíunnar óskeikul: „Vondur félagsskapur spillir góðum siðum.“ — 1. Korintubréf 15:33.

Með þessu er ekki verið að segja að allir unglingar, sem eru ekki vottar Jehóva, séu siðlausir og neyti fíkniefna. En að minnsta kosti sumir slíkir unglingar hafa ekki sömu lífsgildi, sjónarmið eð markmið og vottaunglingar. Fyrra Korintubréf 2:14 útskýrir að sá sem er ekki í trúnni einfaldlega ‚veiti ekki viðtöku því, sem Guðs anda er, því að honum er það heimska og hann getur ekki skilið það, af því að það dæmist andlega.‘ Hugleiddu í hvaða mæli trúargildi þín hafa mótað tilfinningar þínar — gleðina sem þú hefur af kristnum samkomum, spenninginn af því að segja jákvæðum manni frá sannleikanum, ánægjuna af því að nema Biblíuna sjálfa. Getur sá sem ekki er í trúnni skilið slíkar tilfinninga — að ekki sé nú talað um að deila með þér? Varla.

Páll hvetur því kristna menn: „Gangið ekki undir ósamkynja ok með vantrúuðum. Hvað er sameiginlegt með réttlæti og ranglæti? Hvaða samfélag hefur ljós við myrkur? Hver er samhljóðan Krists við Belíar? Hver hlutdeild er trúuðum með vantrúuðum?“ (2. Korintubréf 6:14, 15) Sonja lærði þessa lexíu þegar hún varð hrifin af pilti sem var ekki í trúnni. Hún viðurkennir: „Að eiga sér félaga sem deilir ekki með manni brennandi áhuga manns og kærleika til Jehóva er versti einmanaleiki sem hægt er að ímynda sér. Það er tilfinningalega niðurdrepandi. Þegar sannleikurinn er aflvakinn í lífi manns verður maður að deila honum með öðrum — maður verður að gera það! Það er svo skelfilegur tómleiki sem fylgir því að geta ekki deilt honum með maka sínum af því að hann er ekki í trúnni.“

Í slík sambandi er því líklegt að trúin verði deiluefni en ekki sameiginlegur grundvöllur. Maður getur hæglega fundið sig tilneyddan að setja andleg áhugamál til hliðar til að halda friðinn. En með því að gera það vinna sjálfum sér andlegt tjón. Ung kona segir: „Ég átti mjög náið vináttusamband við strák sem var ekki vottur. En þegar vináttan varð nánari rann upp fyrir mér að ég var orðin ástfangin af honum. Samband mitt við Jehóva skipti smám saman minna máli fyrir mig; samband mitt við þennan strák varð aðalatriðið í lífi mínu. Mig langaði ekki lengur á samkomur, að vera með kristnum bræðrum mínum eða fara út í prédikunarstarfið. Mig langaði ekki til neins nema vera með honum. Ég varð óvirk sem vottur næstu tvö árin. Og gegnum allt þetta endurgalt ‚vinur‘ minn aldrei ást mína á sér. Ég ímyndaði mér alltaf að hann myndi gera það einn góðan veðurdag en það gerðist aldrei.“

Já, það hefur áreiðanlega sorg og óhamingju í för með sér fyrir þig að bindast einhverjum, sem hefur ekki sömu trúar- og siðferðisgildi og þú, tilfinningaböndum. Hið viturlega er að forðast slíkt ójafnt ok. En hvernig geturðu gert það ef þú ert hrifinn af einhverjum? Um það verður fjallað í næsta tölublaði.

[Neðanmáls]

a Nöfnum hefur verið breytt.

b Sjá 20. kafla bókarinnar Spurningar unga fólksins — svör sem duga (ekki til á íslensku), gefin út af Watchtower Bible and Tract Society of New York, Inc.

[Mynd á blaðsíðu 21]

Á sá sem ekki er í trúnni eftir að hafa sama áhuga á andlegum málum og þú?