Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Smáar og knáar ráðskonur

Smáar og knáar ráðskonur

Smáar og knáar ráðskonur

Eftir fréttaritara Vaknið! í Suður-Afríku

Í RJÓÐRUM í regnskógum Afríku vex oft tré með holum greinum (Barteria fistulosa eða nigritiana). Til að ná fullri hæð þarf tréð að keppa við öll hin sem keppast um að vaxa nógu hátt til ná upp laufþak skógarins. Til að standa sig í þessari keppni þarf tréð hjálp við að halda sér lausu við skriðjurtir, sem ella myndu kæfa það, og mosa sem myndu koma í veg fyrir að ljós félli á laufið. Þar gegna svartir stungumaurar (Pachysima aethiops) mikilvægu hlutverki sem ráðskonur. Samband mauranna og trésins var kvikmyndað í Korup, regnskógi í Kamerún, sem hluti heimildarkvikmyndar Phils Aglands og Michaels Rosenbergs, African Rainforest: Korup.

Heimildarmyndin sýnir nýja mauradrottningu leita uppi tré. Af eðlishvöt veit hún að holar greinar þess eru kjörinn staður til að hefja nýtt sambú. Eftir að hafa borað sig inn í grein verpir hún eggjum sínum þar. Holar greinarnar eru líka heimili agnarsmárra skjaldlúsa sem nærast á trjásafanum. Maurarnir annast þessi skordýr eins og búpening og mjólka þau til að fá nærandi drykk.

Jafnskjótt og sambúið er orðið nógu stórt byrja maurarnir að bera aðra íbúa trésins út og hreinsa það. Það er hrífandi að horfa á þessar snjöllu en smáu ráðskonur! Sumir maurarnir fara niður undir jörð og ráðast á skriðplöntur sem ógna trénu. Þeir naga stofnana í sundur og drepa þannig skriðjurtirnar. Aðrir maurar sjást hreinsa rusl, mosa og skófir af laufinu. Jafnvel fiðrildislirfu, sem finnst falin undir laufblaði, er úthýst.

„Maurarnir fjarlægja vandvirknislega hverja einustu ruslögn,“ segir í heimildarmyndinni. „Um leið og tréð er laust við öll skaðleg skordýr og skriðjurtir getur það keppt af krafti við hin trén undir vernd mauranna. Í staðinn geta maurarnir notað holar greinar trésins og annast skjaldlýsnar í því — einasta fæðugjafa sinn — og komið ungviði sínu á legg.“

Maurarnir eru sannarlega iðjusamir verkamenn! Gamall orðskviður segir: „Far þú til maursins, letingi! skoða háttu hans og verð hygginn.“ — Orðskviðirnir 6:6.