Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Unglingar sem hafa „ofurmagn kraftarins“

Unglingar sem hafa „ofurmagn kraftarins“

Unglingar sem hafa „ofurmagn kraftarins“

ÞÚ ERT ungur. Bara 12 ára. Þú átt foreldra sem þú elskar og skólafélaga sem þér finnst skemmtilegt að vera með. Þú ferð í fjöru- og fjallaferðir. Þú finnur til lotningar þegar þú mænir á stjörnum þaktan næturhimininn. Þú átt lífið fyrir þér.

En þá færðu að vita að þú sért með krabbamein. Slíkar fréttir eru áfall fyrir sextugan mann. Fyrir tólf ára barn eru þær eins og heimsendir.

Lenae Martinez

Þannig var það hjá Lenae Martinez sem var 12 ára. Hún vonaðist til að lifa að eilífu í paradís á jörð. Þessi von átti sér stuðning í því biblíuuppeldi sem hún hafði fengið hjá foreldrum sínum sem voru vottar Jehóva. Hafði hún ekki sjálf lesið í Biblíunni að jörðin myndi standa að eilífu, að hún væri sköpuð til að vera byggð að eilífu og að hinir hógværu skyldu erfa hana að eilífu? — Prédikarinn 1:4; Jesaja 45:18; Matteus 5:5.

Núna lá hún á Valley barnaspítalanum í Fresno í Kaliforníu í Bandaríkjunum. Hún hafði verið lögð þar inn vegna veikinda sem virtust stafa af sýkingu í nýrum. Rannsóknir leiddu hins vegar í ljós að hún var með hvítblæði. Læknarnir, sem höfðu Lenae til meðferðar, komust að þeirri niðurstöðu að hún þyrfti að fá rauðkornaþykkni og blóðflögur og lyfjameðferð þegar í stað.

Lenae sagðist ekki vilja blóð eða blóðafurðir, að sér hefði verið kennt að Guð bannaði það eins og fram komi í 3. Mósebók og Postulasögunni. „Það er ályktun heilags anda og vor að leggja ekki frekari byrðar á yður en þetta, sem nauðsynlegt er, að þér haldið yður frá kjöti fórnuðu skurðgoðum, blóði, kjöti af köfnuðum dýrum og saurlifnaði.“ (Postulasagan 15:28, 29) Foreldrar Lenae studdu hana í þessari afstöðu en hún lagði áherslu á þetta væri hennar eigin ákvörðun og að það væri mjög mikilvægt fyrir hana að hún væri virt.

Læknarnir töluðu nokkrum sinnum við Lenae og foreldra hennar. Og þeir komu aftur síðdegis einn daginn. Lenae sagði um þessa heimsókn: „Ég var mjög máttlítil út af öllum sársaukanum og kastað upp miklu blóði. Þeir spurðu mig sömu spurninganna en á annan hátt. Ég sagði þeim aftur: ‚Ég vil ekki fá neitt blóð eða blóðafurðir. Ég vil frekar deyja, ef það er nauðsynlegt, heldur en að brjóta loforð mitt við Jehóva Guð um að gera vilja hans.‘“

Lenae hélt áfram: „Þeir komu aftur næsta morgun. Blóðflögurnar voru á niðurleið og ég var enn með háan hita. Ég sá að læknirinn hlustaði betur á mig í þetta skipti. Jafnvel þótt þeir væru ekki ánægðir með afstöðu mína sögðu þeir að ég væri mjög þroskuð af 12 ára stúlku að vera. Seinna kom barnalæknirinn minn inn á stofuna og sagði mér að sér fyndist leitt að segja það en það gæti ekkert hjálpað mér nema lyfjameðferð og blóðgjafir. Síðan fór hann og sagðist myndu koma aftur síðar.

Ég fór að gráta hástöfum þegar hann fór vegna þess að hann hafði annast mig alla mína ævi og nú fannst mér hann vera að bregðast mér. Þegar hann kom síðar sagði ég honum hvernig mér hefði liðið — að mér hefði fundist að hann léti sér ekki annt um mig lengur. Það kom honum á óvart og hann baðst afsökunar. Hann sagðist ekki hafa ætlað að særa mig. Hann horfði á mig og sagði: ‚Lenea, ef svo verður að vera, þá hittumst við á himnum.‘ Hann tók af sér gleraugun og sagði með tárin í augunum að honum fyndist vænt um mig og faðmaði mig að sér. Ég þakkaði honum fyrir og sagði: ‚Þakka þér fyrir. Mér finnst líka vænt um þig, Gillespie, en ég vonast til að lifa á jörð sem verður paradís eftir upprisuna.‘“

Síðan komu tveir læknar og lögfræðingur, sögðu foreldrum Lenae að þeir vildu tala við hana eina og báðu foreldrana að yfirgefa stofuna á meðan sem þau og gerðu. Gegnum allt þetta samtal höfðu læknarnir verið afar tillitssamir og vingjarnlegir og snortnir af sjúpri sannfæringu Lenae og því hve vel hún var máli farin.

Þegar þeir voru orðnir einir með henni sögðu þeir henni að hún væri að deyja úr hvítblæði og sögðu: „En blóðgjafir munu lengja líf þitt. Ef þú hafnar blóði deyrðu á fáeinum dögum.“

„En ef ég þigg blóð,“ spurði Lenae, „hve mikið lengir það þá líf mitt?“

„Um þrjá til sex mánuði,“ svöruðu þeir.

„Hvað get ég gert á sex mánuðum?“ spurði hún.

„Þú hressist. Þú getur gert heilmargt. Þú getur farið í Disney World og heimsótt ýmsa fleiri staði.“

Lenae hugsaði sig um stundarkorn og svaraði síðan: „Ég hef þjónað Jehóva alla ævi, í 12 ár. Hann hefur lofað mér eilífu lífi í paradís ef ég hlýði honum. Ég ætla ekki að snúa baki við honum núna til að lengja líf mitt um sex mánuði. Ég vil vera trúföst þangað til ég dey. Þá veit ég að hann reisir mig upp frá dauðum og gefur mér eilíft líf þegar þar að kemur. Þá hef ég nógan tíma til að gera allt sem mig langar til.“

Læknarnir og lögfræðingarnir voru greinilega snortnir. Þeir hrósuðu henni, yfirgáfu stofuna og sögðu foreldrum hennar að hún hugsaði og talaði eins og fullorðin manneskja og væri fær um að taka sínar eigin ákvarðanir. Þeir lögðu til við siðanefnd spítalans að litið yrði á Lenae sem þroskað ungmenni. Þessi nefnd, sem læknar og aðrir heilbrigðisstarfsmenn eiga sæti í ásamt prófessor í siðfræði frá Fresno State háskólanum, ákvað að leyfa Lenae að taka sínar eigin ákvarðanir um læknismeðferð sína. Nefndin leit á Lenae sem þroskað ungmenni. Ekki var farið fram á dómsúrskurð.

Eftir langa og erfiða nótt sofnaði Lenae dauðasvefni í örmum móður sinnar klukkan hálfsjö að morgni 22. september 1993. Reisn og ró þessarar nætur er sem greypt í hugi þeirra sem voru þar viðstaddir. Alls voru 482 viðstaddir útförina, þeirra á meðal læknar, hjúkrunarkonur og kennarar sem voru snortnir af trú og ráðvendni Lenae.

Foreldrar og vinir Lenae voru innilega þakklátir læknum, hjúkrunarfræðingum og stjórnendum Valley barnaspítalans sem báru svo vel skyn á þroska þessarar ungu stúlku og fóru ekki fram á að dómstóll tæki afstöðu í málinu.

Crystal Moore

Crystal Moore, sem var 17 ára, var ekki sýnd slík tillitssemi þegar hún var lögð inn á Columbia Presbyterian Medical Center í New Yorkborg. Hún var með sáraristilsbólgu. Við komuna á spítalann lögðu Crystal og foreldrar hennar ítrekað áherslu á að hún þægi ekki blóð. Hún vildi ekki deyja heldur vildi hún fá læknismeðferð í samræmi við fyrirmæli Biblíunnar um að halda sér frá blóði. — Postulasagan 15:28, 29.

Læknahópurinn, sem hafði Crystal til meðferðar, var sannfærður um að hún þarfnaðist blóðgjafar. Einn læknir sagði umbúðalaust: „Ef Crystal verður ekki búin að fá blóðgjöf í síðasta lagi fimmtudaginn 15. júní verður hún dáin föstudaginn 16. júní!“ Crystal var ekki dáin þann 16. júní og spítalinn fór fram á úrskurð Hæstaréttar New Yorkríkis um heimild til að gefa henni blóð gegn vilja hennar.

Rétturinn kom í skyndingu saman á spítalanum þennan morgun og einn læknanna bar þar vitni um að Crystal þyrfti að fá tvær einingar af blóði þegar í stað og gæti þurft að minnsta kosti 10 einingar til viðbótar. Hann sagði enn fremur að ef Crystal reyndi að berjast gegn blóðgjöfinni myndi hann binda hana niður í rúmið á höndum og fótum til að gefa henni blóð. Crystal sagði læknunum að hún myndi „öskra og æpa“ ef þeir reyndu að gefa henni blóð, og að sem votti Jehóva fyndist henni blóðgjöf með valdi vera jafnógeðfelld og nauðgun.

Þrátt fyrir ítekaða beiðni lögmanns hennar við réttarhöldin var Crystal neitað um tækifæri til að tala sjálf fyrir réttinum til að sýna fram á að hún væri fær um að taka eigin ákvarðanir. Enda þótt Crystal hefði skömmu áður fengið verðlaun fyrir frábæran námsárangur og forystuhæfileika í skóla neitaði dómarinn að leyfa henni að tjá sig opinberlega fyrir réttinum um þá afstöðu sína að vilja ekki blóð. Þar með var í reynd verið að meina Crystal að neyta réttar síns til að fá eðlilega málsmeðferð, neita henni um að beita sjálfsákvörðunarrétti sínum, rétti sínum til friðhelgi einkalífs og trúfrelsi.

Enda þótt rétturinn leyfði Crystal ekki að bera opinberlega vitni fékk hún dómstólinn þó til að eyða 20 mínútum með sér einni inni á stofu. Eftir það sagði dómarinn að Crystal var „augljóslega mjög vel greind“ og „mjög vel máli farin“ og útskýrði að hún væri „vissulega heil á geðsmunum“ og „fær um að tjá sig fullkomlega.“ Þrátt fyrir þessar athugasemdir neitaði rétturinn afdráttarlaust að gefa Crystal tækifæri til að ákveða sjálf hvaða læknismeðferð hún fengi.

Sunnudagsmorguninn 18. júní þurfti Crystal að gangast undir bráðaaðgerð sem hún féllst á þótt hún neitaði enn það mætti gefa henni blóð. Hún missti aðeins 50 til 100 millilítra af blóði við aðgerðina. Engu að síður fullyrtu læknarnir að hún gæti þurft að fá blóð eftir aðgerðina. Annar læknir lýsti yfir að engrar blóðgjafar væri þörf. Hann hefði síðastliðin 13 ár meðhöndlað fjölmörg sams konar tilfelli án blóðgjafa og að engar blóðgjafir hefði nokkurn tíma þurft eftir á.

Þann 22. júní 1989 dæmdi dómstóllin spítalanum forræði Crystal um stundar sakar í þeim tilgangi að gefa mætti henni blóð aðeins ef það væri „nauðsynlegt til að vernda og bjarga lífi hennar.“ Þessi forræðisúrskurður féll úr gildi um leið og Crystal útskrifaðist af spítalanum. Crystal þurfti aldrei á blóðgjöf að halda og fékk aldrei, en framkoma réttarins við hana var hneykslanleg.

Eftir að Crystal útskrifaðist af spítalanum lauk hún skóla með ágætiseinkunum. Skömmu síðar gerðist hún prédikari hjá vottum Jehóva í fullu starfi. Hún varð leiðsögumaður við mótshöll votta Jehóva í Jersey City og bauð sig fram til sjálfboðastarfa í hópi sem byggir og gerir upp ríkissali.

Samt sögðu læknar við Columbia Presbyterian Medical Center að hún yrði dáin þann 16. júní ef henni yrði ekki gefið blóð í síðasta lagi 15. júní, og að hún yrði bundin niður á höndum og fótum ef hún spornaði gegn blóðgjöfinni. Þegar læknar, sem vilja fá dómsúrskurð um að þeir megi gefa blóð, lýsa óskammfeilnir yfir því að sjúklingurinn deyi ef dómarinn fallist ekki á kröfu þeirra þegar í stað, ættu þeir að muna eftir Crystal Moore.

Lisa Kosack

Fyrsta nóttin sem Lisa lá á barnaspítalanum í Tórontó var verri en martröð. Hún var lögð inn klukkan fjögur síðdegis og var þegar í stað látin gangast undir nokkrar rannsóknir. Hún var ekki komin á stofuna sína fyrr en klukkan var korter gengin í tólf um kvöldið. Um miðnætti — já, látum Lisu sjálfa segja frá því sem gerðist. „Um miðnætti kom hjúkrunarkona inn og sagði: ‚Ég þarf að gefa þér blóð.‘ Ég hrópaði: ‚Ég get ekki þegið blóð af því að ég er vottur Jehóva! Ég vona að þú vitir það! Ég vona að þú vitir það!‘ ‚Já, ég veit það reyndar,‘ svaraði hún og flýtti sér að tengja blóðpoka við innrennslisnálina sem ég var með. Ég grét og missti alveg stjórn á mér.“

Þetta var grimmdarleg og harkaleg meðferð á sjúkri og skelfdri 12 ára stúlku um miðja nótt í framandi umhverfi! Foreldrar Lisu höfðu farið með hana á barnaspítalann í von um að finna vinsamlega og samvinnuþýða lækna. Í staðinn þurfti dóttir þeirra að þola harkalega blóðgjöf um miðja nótt, þátt fyrir það að bæði Lisa og foreldrar hennar hefðu þá afstöðu að notkun blóðs og blóðafurða væri brot á lögum Guðs og óheimil. — Postulasagan 15:28, 29.

Næsta morgun fór spítalinn fram á dómsúrskurð til að gefa blóð. Réttarhöldin stóðu í fimm daga undir forsæti Davids R. Mains dómara. Réttarhöldin fóru fram í stofu á spítalanum og Lisa var viðstödd alla fimm dagana. Lisa var með brátt kyrningahvítblæði sem er yfirleitt banvænt þótt læknarnir héldu því fram að batalíkurnar væru 30 af hundraði. Þeir lögðu til kröftuga lyfjameðferð samfara blóðgjöfum — meðferð sem er afar sársaukafull og hefur erfiðar aukaverkanir.

Á fjórða degi réttarhaldanna bar Lisa vitni. Ein af spurningunum, sem var lögð fyrir hana, var sú hvernig henni hefði liðið þegar blóðgjöfinni var þvingað upp á hana um miðja nótt. Hún útskýrði að henni hefði liðið eins og hundi sem væri notaður sem tilraunadýr og henni hefði fundist að það væri verið að nauðga sér, og að það að hún væri barn fengi suma til að hugsa sem svo að þeir gætu gert hvað sem væri við hana. Henni fyndist mjög ógeðfellt að sjá blóð úr einhverjum öðrum renna inn í líkama sinn og að hún velti fyrir sér hvort hún fengi alnæmi eða lifrarbólgu eða einhvern annan smitsjúkdóm af því. Og fyrst og fremst hefði hún áhyggjur af því hvað Jehóva myndi hugsa um hana þegar hún bryti lög hans gegn því að taka blóð úr einhverjum öðrum inn í líkama sinn. Hún sagði að ef það gerðist nokkurn tíma aftur myndi hún „berjast um á hæl og hnakka og sparka stönginni með blóðpokanum um koll og slíta innrennslisnálina úr handleggnum á sér hversu sárt sem það væri og stinga göt á blóðpokann.“

Lögmaður Lisu spurði hana: „Hvað finnst þér þá um það að barnaverndarfélagið skuli fara fram á að forræðið yfir þér verði tekið af foreldrum þínum og gefið þeim?“

„Ég er öskureið yfir því; mér finnst það vera grimmt af þeim vegna þess að foreldrar mínir hafa aldrei lamið mig, þeir hafa elskað mig og ég elska þá, og þegar ég hef fengið hálsbólgu eða kvef eða eitthvað annað hafa þeir alltaf hugsað um mig. Líf þeirra hefur snúist um mig, og ef einhver á núna að koma og taka mig frá þeim, bara af því að hann er þeim ósammála, finnst mér það mjög, mjög grimmt og ég er mjög reið yfir því.“

„Langar þig til að deyja?“

„Nei, ég held að engan langi til að deyja, en ef ég dey er ég ekkert hrædd við það því að ég veit að ég hef von um eilíft líf í paradís á jörð.“

Það voru fáir þurreygðir þegar Lisa ræddi hugrökk í bragði um yfirvofandi dauða sinn, trú sína á Jehóva og þann ásetning sinn að vera hlýðin lögum hans um heilagleika blóðsins.

„Lisa,“ hélt lögmaðurinn áfram, „myndi það breyta einhverju fyrir þig að vita að dómstóllinn skipaði þér að þiggja blóðgjöf?“

„Nei, vegna þess að ég ætla samt að vera Guði mínum trúföst og hlýða á boðorð hans, vegna þess að Guð er miklu æðri en nokkur dómstóll eða nokkur maður.“

„Lisa, hvernig viltu að dómarinn dæmi í þessu máli?“

„Ég vil að dómarinn ákveði að ég fái að fara heim til foreldra minna og þau hafi forræði mitt aftur þannig að ég geti verið glöð, farið heim og verið þar sem mér líður vel.“

Og það var það sem Main dómari ákvað. Hér fara á eftir glefsur úr úrskurði hans.

„L. hefur sagt þessum rétti skýrt og blátt áfram að ef reynt verði að gefa henni blóð muni hún berjast af öllum kröftum gegn blóðgjöfinni. Hún hefur sagt, og ég trúi henni, að hún muni slíta innrennslistækið úr handleggnum á sér og reyna að eyðileggja blóðið í pokanum yfir rúminu hennar. Ég neita að fella nokkurn þann úrskurð sem myndi verða þess valdandi að þetta barn þyrfti að ganga í gegnum slíka raun.“

Um blóðgjöfina sem var þvinguð upp á hana um miðja nótt sagði hann:

„Með vísan til 15. greinar (1) er það niðurstaða mín að henni hafi verið mismunað vegna trúar sinnar og aldurs. Með því að gefa henni blóð við þessar aðstæður var brotið gegn rétti hennar til að njóta persónulegs öryggis með vísan til 7. greinar.

„Lisa er myndarleg, mjög greind, vel máli farin, háttprúð og næm, og umfram allt er hún hugrökk. Hún býr yfir visku og þroska talsvert umfram aldur og ég held að mér sé óhætt að segja að hún sé gædd öllum þeim jákvæðu eiginleikum sem nokkurt foreldri gæti óskað sér af barni sínu. Hún hefur vel úthugsaða, ákveðna og skýra trú. Ég álít að engin ráðgjöf, hvaðan sem hún kæmi, eða þrýstingur frá foreldrum hennar eða nokkrum öðrum, og er þessi dómstóll þá meðtalinn, gæti raskað eða breytt trú henanr. Ég álít að L.K. eigi að fá tækifæri til að berjast gegn þessum sjúkdómi með reisn og hugarró.“

„Kröfunni er vísað frá.“

Lisa og foreldrar hennar yfirgáfu spítalann samdægurs. Lisa barðist svo sannarlega við sjúkdóm sinn með reisn og hugarró. Hún dó á heimili sínu í ástríkum örmum móður sinnar og föður. Þar með varð hún einn af mörgum öðrum ungum vottum Jehóva sem lét Guð sitja í fyrirrúmi. Þar af leiðandi mun hún, ásamt þeim, sjá fyrirheit Jesú rætast: „Sá sem týnir lífi sínu mín vegna, finnur það.“ — Matteus 10:39.

Ernestine Gregory

Þegar Ernestine var 17 ára greindist hún með hvítblæði. Er hún lagðist inn á spítala neitaði hún að samþykkja notkun blóðafurða til stuðnings lyfjameðferðinni sem læknarnir vildu beita. Neitun Ernestine og stuðningur móður hennar við þá ákvörðun hennar að vilja meðferð án blóðgjafa varð til þess að spítalinn hafði samband við félagsmálafulltrúa í Chicago í Illinois í Bandaríkjunum sem fóru fram á dómsúrskurð um blóðgjöf. Réttarhöld voru hafin þar sem Ernestine, læknir, sálfræðingur og lögfræðingur, auk fleiri sem hlut áttu að máli, greindu frá afstöðu sinni.

Ernestine sagði lækninum sínum að hún vildi ekki fá blóð. Að það væri persónuleg ákvörðun hennar sjálfrar byggð á eigin biblíulestri. Að blóðgjöf gegn vilja hennar samkvæmt dómsúrskurði væri eftir sem áður brot á lögum Guðs og röng í hennar augum, óháð valdi réttarins. Að hún væri ekki mótfallin læknismeðferð og vildi ekki deyja. Að ákvörðun hennar væri ekki byggð á ósk um að fá að deyja en að hún óttaðist hins vegar ekki dauðann.

Stanley Yachnin læknir sagði fyrir réttinum að hann „dáðist að þroska Ernestine, sjálfsvitund hennar“ og einlægum trúarskoðunum. Hann sagði líka að Ernestine skildi eðli og afleiðingar sjúkdóms síns. Þar af leiðandi sá Yachnin læknir enga þörf á að kalla til sálfræðing eða geðlækni.

Engu að síður var geðlæknir, Ner Littner, kallaður til sem lýsti þeirri skoðun sinni, eftir að hafa talað við Ernestine, að hún hefði þroska á við 18 til 21 árs. Hann sagði að Ernestine skildi hvaða afleiðingar það hefði að þiggja eða hafna blóðgjöfum. Hann sagði að hún hefði þessa afstöðu, ekki af því að hún væri undir áhrifum annarra heldur af því að hún tryði þessu sjálf. Littner áleit að það bæri að leyfa Ernestine að taka sínar eigin ákvarðanir í þessu máli.

Jane McAtee, lögmaður spítalans, bar fyrir réttinum að eftir að hún hefði talað við Ernestine áliti hún að Ernestine skildi eðli sjúkdóms síns og að hún „virtist fullfær um að skilja ákvörðun sína og taka afleiðingum hennar.“

Rétturinn var líka mjög snortinn af vitnisburði Ernestine. Rétturinn komst að þeirri niðurstöðu að Ernestine væri þroskað, 17 ára ungmenni og væri fær um að taka ákvarðanir um læknismeðferð byggðar á vitneskju, en eigi að síður úrskurðaði rétturinn að það væri heimilt að gefa henni blóð, svo furðulegt sem það var. Á spítalanum biðu tveir læknar átekta með blóðgjafarverkfærin og Ernestine var gefið blóð með valdi þrátt fyrir kröftug mótmæli hennar. Úrskurði réttarins var áfrýjað þegar í stað en ekki þó í tæka tíð til að koma í veg fyrir skyndilega blóðgjöf spítalans.

Til að koma í veg fyrir frekari blóðgjafir var úrskurði undirréttar fyrst áfrýjað til áfjýjunardómstóls Illinoisríkis. Með tveim atkvæðum á móti einu komst áfrýjunarrétturinn að þeirri niðurstöðu að ekki væri hægt að þvinga Ernestine til að þiggja blóðgjöf gegn vilja sínum. Rétturinn hélt því fram að fyrsta breytingarákvæði bandarísku stjórnarskrárinnar um rétt til trúfrelsis, ásamt stjórnarskrárbundnum rétti til friðhelgi einkalífsins tryggði réttindi hennar sem þroskaðs ungmennis til að neita blóðgjöfum af trúarlegum ástæðum.

Barnaverndarfulltrúarnir áfrýjuðu þá úrskurði áfrýjunarréttar til hæstaréttar Illinoisríkis. Hæstiréttur Illinoisríkis staðfesti úrskurð áfrýjunarréttar að jafnvel þótt Ernestine væri undir lögræðisaldri hefði hún rétt til að hafna læknismeðferð sem væri henni ógeðfelld. Rétturinn byggði úrskurð sinn á fordæmisrétti um sjálfsákvörðunarrétt einstaklingsins yfir líkama sínum og reglunni um þroskuð ungmenni. Hæstiréttur Illinoisríkis dró saman í eftirfarandi málsgrein þær starfsreglur sem fylgja bæri í málum þroskaðra ungmenna í Illinoisríki:

„Ef skýr og sannfærandi rök liggja fyrir því að einstaklingur undir lögaldri sé nógu þroskaður til að skilja afleiðingar gerða sinna og nógu þroskaður til að beita dómgreind fullorðinna, þá veitir ákvæðið um þroskað ungmenni hlutaðeigandi þau réttindi fordæmisréttar að samþykkja eða hafna læknismeðferð.“

Ernestine fékk ekki fleiri blóðgjafir en dó samt ekki af hvítblæðinu. Ernestine var staðföst og lét Guð sitja í fyrirrúmi líkt og hitt unga fólkið sem minnst hefur verið á. Eitt og sérhvert þeirra fékk „ofurmagn kraftarins.“ — 2. Korintubréf 4:7.

[Rammi á blaðsíðu 13]

Hættur af blóðgjöfum

The New England Journal of Medicine greindi frá því þann 14. desember 1989 að ein eining af blóði gæti innihaldið nógu margar alnæmisveirur til að sýkja 1,75 milljónir manna!

Árið 1987, eftir að það uppgötvaðist að alnæmi smitaðist með gjafablóði, sagði bókin Autologous and Directed Blood Programs mæðulega: „Þetta var naprasta kaldhæðni læknisfræðinnar; að hin dýrmæta lífgjöf blóðsins gæti reynst vera verkfæri dauðans.“

Charles Huggins læknir, forstöðumaður blóðgjafaþjónustu við spítala í Massachusetts í Bandaríkjunum, sagði: „Það er hættulegasta efni sem við notum við lækningar.“

Surgery Annual komst að þessari niðurstöðu: „Ljóst er að öruggasta blóðgjöfin er sú sem á sér aldrei stað.“

Með því að endurtekningartíðni krabbameins eftir skurðaðgerð er langtum hærri hjá sjúklingum sem gefið er blóð en þeim sem ekki fá blóð sagði John S. Spratt læknir í The American Journal of Surgery í september 1986: „Krabbameinsskurðlæknirinn þarf hugsanlega að hætta blóðgjöfum.“

Tímaritið Emergency Medicine sagði: „Túlka mætti reynslu okkar af vottum Jehóva á þann veg að við þurfum ekki að treysta eins mikið á blóðgjafir, með öllum sínum hugsanlegu hættum, og við höfum haldið.“

Tímaritið Pathologist minntist á það að vottar Jehóva skuli ekki þiggja blóð og sagði: „Þrátt fyrir fullyrðingar blóðbankamanna um hið gagnstæða er margt sem styður afstöðu vottanna.“

Dr. Charles H. Baron, prófessor í lögum við Boston College Law School, sagði um þá afstöðu votta Jehóva að þiggja ekki blóð: „Bandarískt þjóðfélag í heild hefur notið góðs af. Svo er starfi spítalasamskiptanefndanna að þakka að minni líkur eru á því en áður að ekki aðeins vottar Jehóva heldur sjúklingar almennt fái óþarfar blóðgjafir.“