Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Blóðgjafir — saga ágreinings og átaka

Blóðgjafir — saga ágreinings og átaka

Blóðgjafir — saga ágreinings og átaka

„Ef rauðkorn væru nýtt lyf á markaðinum núna yrði afskaplega erfitt að fá leyfi fyrir notkun þeirra.“ — Jeffrey McCullough læknir.

VETURINN 1667 var komið með mann til Jean-Baptistes Denisar, hins nafntogaða læknis Loðvíks 14. Frakklandskonungs. Maðurinn var ofbeldishneigður vitfirringur er Antoine Mauroy hét og Denis taldi sig hafa fundið tilvalda „lækningu“ við brjálsemi hans —  að gefa honum kálfablóð í æð til að róa hann niður. En meðferðin endaði með ósköpum fyrir Mauroy. Honum skánaði að vísu eftir síðari blóðgjöfina, en skömmu síðar náði geðveikin yfirhöndinni á nýjan leik og áður en langt um leið var hann allur.

Það kom reyndar á daginn að Antoine Mauroy hefði dáið vegna arsenikeitrunar. Engu að síður vöktu tilraunir Denisar með dýrablóð harðvítugar deilur í Frakklandi og meðferðin var að lokum bönnuð árið 1670. Enska þingið og jafnvel páfinn fylgdu fordæmi Frakka. Blóðgjafir féllu nánast í gleymsku næstu 150 árin.

Hætturnar fyrr á árum

Blóðgjafir voru hafnar á nýjan leik á 19. öld. Fremstur í flokki var enskur fæðingarlæknir er James Blundell hét. Hann kom blóðgjöfum aftur í sviðsljósið með bættri tækni og nýjum áhöldum — og var jafnframt harður á því að einungis mætti nota blóð úr mönnum.

En pólski læknirinn F. Gesellius gerði óhugnanlega uppgötvun árið 1873 sem sló heldur betur á þessa endurvakningu: meira en helmingur blóðþega hafði dáið. Kunnir læknar tóku að fordæma blóðgjafir og vinsældir þeirra dvínuðu á nýjan leik.

Árið 1878 var franski læknirinn Georges Hayem búinn að búa til saltlausn er hann sagði geta komið í staðinn fyrir blóð. Ólíkt blóði hafði saltlausnin engar aukaverkanir, hún hljóp ekki og auðvelt var að flytja hana milli staða. Eins og við var að búast var saltlausnin mikið notuð. En svo undarlegt sem það er snerust menn fljótlega á sveif með blóðgjöfum á nýjan leik. Hvað kom til?

Austurríski meinafræðingurinn Karl Landsteiner uppgötvaði blóðflokkakerfið árið 1900 og komst að raun um að ekki væri hægt að blanda saman öllum blóðflokkum. Engin furða að blóðgjafir fyrri tíma höfðu svo oft endað með ósköpum! Nú var hægt að afstýra því með því að ganga úr skugga um að blóð blóðgjafans og blóðþegans ætti saman. Þessi vitneskja endurvakti tiltrú lækna á blóðgjöfum — rétt í tæka tíð fyrir fyrri heimsstyrjöldina.

Blóðgjafir á stríðstímum

Særðum hermönnum var gefið blóð í stórum stíl í fyrri heimsstyrjöldinni. Blóð hleypur reyndar fljótt, og áður hefði verið næstum ógerlegt að flytja það á vígvöllinn. En í byrjun 20. aldar hafði Richard Lewisohn, læknir við Mount Sinai spítalann í New York, gert árangursríkar tilraunir með storkuvara sem hét natríumsítrat. Sumir læknar litu á þessa merku uppgötvun sem hreint kraftaverk. „Það var næstum eins og sólin stæði kyrr,“ skrifaði Bertram M. Bernheim sem var virtur læknir á þeim tíma.

Eftirspurn eftir blóði jókst til muna í síðari heimsstyrjöldinni. Alls staðar voru veggspjöld með slagorðum: „Gefðu blóð núna,“ „Blóð þitt getur bjargað honum“ og „Hann gaf blóð sitt. Viltu gefa þitt?“ Viðbrögðin létu ekki á sér standa. Almenningur í Bandaríkjunum gaf 13.000.000 einingar af blóði meðan síðari heimsstyrjöldin stóð yfir. Áætlað er að í Lundúnum hafi verið safnað og dreift meira en 260.000 lítrum af blóði. En það sýndi sig fljótlega að það var langt frá því að blóðgjafir væru hættulausar.

Blóðbornir sjúkdómar

Í kjölfar síðari heimsstyrjaldarinnar urðu stórstígar framfarir í læknavísindum og menn gátu farið að gera skurðaðgerðir sem taldar höfðu verið óhugsandi áður. Læknar fóru að líta á blóðgjafir sem fastan þátt í skurðaðgerðum og upp spratt atvinnugrein með milljarða dollara ársveltu á heimsvísu, helguð því hlutverki að sjá læknum fyrir blóði.

En blóðbornir sjúkdómar voru alvarlegt áhyggjuefni. Næstum 22 prósent þeirra, sem gefinn var blóðvökvi í Kóreustríðinu, fengu lifrarbólgu svo dæmi sé tekið, en það var næstum þrefalt hærri tíðni en í síðari heimsstyrjöldinni. Bandarísku sóttvarnamiðstöðvarnar áætluðu á áttunda áratugnum að 3500 manns létust árlega af völdum lifrarbólgu eftir blóðgjöf. Sumir töldu töluna tífalt hærri.

Lifrarbólgu B sýkingum fækkaði sem betur fer með bættum skimunaraðferðum og með því að vanda val þeirra sem gáfu blóð. En þá kom nýtt og stundum banvænt afbrigði veirunnar fram á sjónarsviðið — lifrarbólga C. Áætlað er að fjórar milljónir Bandaríkjamanna hafi smitast, þar af nokkur hundruð þúsund vegna blóðgjafa. Með tímanum tókst að draga úr smiti af lifrarbólgu C með nákvæmri skimun, en sumir óttast að nýjar hættur eigi eftir að skjóta upp kollinum sem menn geri sér ekki grein fyrir fyrr en skaðinn er skeður.

Annað hneyksli: HIV-smitað blóð

Á níunda áratugnum kom í ljós að HIV-veiran, sem veldur alnæmi, getur borist með blóði. Blóðbankarnir voru í fyrstu tregir til að íhuga þann möguleika að blóðforði þeirra gæti verið smitaður. Margir þeirra drógu reyndar í efa fyrst í stað að HIV-hættan væri raunveruleg. Að sögn læknisins Bruce Evatts „voru viðbrögðin áþekk því að maður hefði komið labbandi utan úr eyðimörk og sagst hafa séð geimveru. Þeir hlustuðu en trúðu ekki.“

En blóðforðinn reyndist smitaður HIV víða um lönd. Talið er að á bilinu 6000 til 8000 manns hafi smitast af HIV vegna blóðgjafa í Frakklandi á árunum 1982 til 1985. Í Afríku eru 10 prósent smittilfella rakin til blóðgjafa og 40 prósent í Pakistan. Vegna bættra skimunaraðferða er HIV-smit af völdum blóðgjafa orðið sjaldgæft í hinum þróuðu ríkjum heims. En í þróunarlöndunum er HIV-smit vegna blóðgjafa alvarlegt vandamál enn þá vegna þess að blóð er ekki skimað.

Eins og við er að búast hefur áhugi manna á skurðaðgerðum og annarri læknismeðferð án blóðgjafar vaxið á síðustu árum. En er um öruggar leiðir að velja?

[Rammagrein á blaðsíðu 6]

Blóðgjafir — engin læknisfræðileg viðmiðun

Í Bandaríkjunum eru gefnar ríflega 11 milljónir eininga af rauðkornaþykkni á hverju ári og sjúklingarnir, sem fá þær, eru þrjár milljónir. Miðað við þessar háu tölur mætti ætla að læknar hafi mjög strangar viðmiðunarreglur um það hvenær gefa eigi blóð. En tímaritið The New England Journal of Medicine bendir á að það sé furðulega lítið til af gögnum „til viðmiðunar varðandi ákvarðanir um blóðgjafir.“ Reyndar er ákaflega breytilegt frá einum lækni til annars hvenær blóð er gefið og hve mikið, og jafnframt hvort sjúklingi er yfirleitt gefið blóð. „Blóðgjöf er undir lækninum komin, ekki sjúklingnum,“ segir læknatímaritið Acta Anæsthesiologica Belgica. Í ljósi þessa kemur ekki á óvart niðurstaða rannsóknar sem birtist í The New England Journal of Medicine: „Talið er að 66 af hundraði blóðgjafa séu óþarfar.“

[Myndir á blaðsíðu 5]

Eftirspurn eftir blóði jókst til muna í síðari heimsstyrjöldinni.

[Credit lines]

Imperial War Museum, Lundúnum

Ljósmynd: U.S. National Archives