Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Ef Dóná gæti talað!

Ef Dóná gæti talað!

Ef Dóná gæti talað!

Eftir Fréttaritara Vaknið! Í Þýskalandi

Í meira en eina og hálfa öld hafa frægustu Þjóðverjar sögunnar starað blindum augum út yfir Dóná frá heimkynnum sínum í Valhöll, * marmaramusteri í dórískum stíl sem Loðvík konungur fyrsti af Bæjaralandi lét reisa í minningu frægra Þjóðverja. Byggingu þess lauk árið 1842.

ÞESSI minnisvarði hinna frægu stendur utan í hæð við Dóná nálægt Regensburg í Þýskalandi og er eftirlíking Meyjarhofsins á Akrópólishæð í Aþenu. Þar standa í tugatali brjóstmyndir frægra karla og kvenna sögunnar.

Staðurinn er vel valinn því að höfðingjarnir, ljóðskáldin, listamennirnir, stjórnmálamennirnir, vísindamennirnir og tónskáldin þekktu Dóná vel. Þarna eru mikilmenni eins og Beethoven, Einstein, Goethe, Gutenberg, Kepler og Lúther. Margir þeirra bjuggu á bökkum hennar, áttu leið yfir hana eða sungu henni lof. Dóná hefði frá mörgu að segja ef hún gæti bara talað.

Meira en á

„Í huga landfræðingsins eru árnar æðar verslunar og árframburðar, en í huga sagnfræðingsins eru þær æðar menningar, hugmynda og stundum átaka,“ segir sagnfræðingurinn Norman Davies. „Þær eru eins og lífið sjálft,“ bætir hann við. Dóná rennur um eða á landamærum tíu landa — Þýskalands, Austurríkis, Slóvakíu, Ungverjalands, Króatíu, Júgóslavíu, Búlgaríu, Rúmeníu, Moldavíu og Úkraínu — svo að hún hefur fengið sinn skerf af menningu, hugmyndum og átökum. Það kemur ekki á óvart að margar af borgunum á bökkum hennar hafa gegnt mikilvægu hlutverki í sögu Evrópu og stundum alls heimsins.

Tökum Vínarborg sem dæmi, höfuðborg Austurríkis. Borgin hefur um langan aldur verið ein af óumdeildum menningarmiðstöðvum veraldar, auðug af óperuhúsum, leikhúsum, söfnum, sögufrægum húsum og bókasöfnum. Um aldir var hún einnig fræg fyrir kaffihús og krár. Fílharmóníuhljómsveit Vínarborgar er talin ein sú besta í heimi. Vínarháskóli er elsti háskólinn í hinum þýskumælandi heimi, stofnaður árið 1365.

Og um hugmyndir segir alfræðibókin The New Encyclopædia Britannica að um síðustu aldamót hafi Vín verið „uppspretta hugmynda sem mótuðu heim nútímans til góðs eða ills.“ Af mönnum, sem urðu að minnsta kosti fyrir einhverjum áhrifum af dvöl sinni þar, má nefna Theodor Herzl, stofnanda síonistahreyfingarinnar, Sigmund Freud, föður sálgreiningarinnar og Adolf Hitler sem þarfnast ekki nánari skýringa.

„Skilmörk siðmenningar og villimennsku“

„Til forna var Dóná tákn um ein mestu skilmörk Evrópuskagans,“ segir Norman Davies. „Danuvius, sem svo hét á latínu, myndaði hefðbundin landamæri Rómaveldis á fyrstu öld e.Kr. . . . skilmörk siðmenningar og villimennsku.“

Nokkrar af borgunum á Dónárbökkum gegndu áberandi hlutverki í sögu Rómaveldis og síðar hins svonefnda Heilaga rómverska keisaradæmis. Nefna má Bratislava, sem nú er menningarmiðstöð og höfuðborg Slóvakíu, en hún var höfuðborg Ungverjalands frá 1526 til 1784. Og um hríð var tígulegur kastali, sem trónir um 100 metra yfir Dóná, heimili austurrísku konungsfjölskyldunnar. María Teresía, sem síðar varð keisaradrottning, flúði þangað þegar hersveitir Frakka og Bæjara ógnuðu Vínarborg árið 1741.

María Teresía var af Habsborgaraættinni. Þessi konungsætt — ein sú merkasta í Evrópu — á sér marga fulltrúa í brjóstmyndasafni Valhallar. * Hægt er að rekja þessa einstöku ætt allt aftur til 10. aldar, en hún komst til valda á 13. öld og réð að lokum yfir stærstum hluta Mið-Evrópu — oft í krafti vel úthugsaðra hjónabanda. Frans Ferdínand var af Habsborgaraættinni og erfingi hásætisins, en hann var ráðinn af dögum í Sarajevo árið 1914 sem varð kveikja fyrri heimsstyrjaldarinnar.

Blóði lituð

Heimsveldi hafa komið og farið og Dóná hefur verið vettvangur sífelldra stjórnmálabreytinga. Hún markaði landamæri býsanska heimsveldisins á 11. og 12. öld. Stærstur hluti hennar rann um Ósmanaveldi Tyrkja er Tyrkir lögðu undir sig borgir á bökkum hennar eins og Belgrad og Búdapest. Jafnvel Vínarborg var umsetin árið 1529 og aftur árið 1683 en þó ekki unnin.

Orð þýska rithöfundarins Werners Heiders koma því ekki á óvart: „Ekkert fljót í Evrópu hefur jafnmikla sögulega þýðingu og Dóná.“ Annar höfundur nefnir að áður fyrr hafi hún verið „helsta innrásarleið húna, tartara, mongóla og Tyrkja.“

Dóná hefur einnig verið svívirt í styrjöldum síðari tíma. Rithöfundurinn William L. Shirer skrifar: „Nóttina 28. febrúar [árið 1941] fóru þýskar hersveitir yfir um Dóná frá Rúmeníu og komu sér fyrir á hernaðarlega mikilvægum stöðum í Búlgaríu.“ Árið 1945, fjórum árum síðar, „hertóku Rússar Vínarborg hinn 13. apríl og fóru hraðförum upp Dóná, og þriðji her Bandaríkjamanna geystist niður með ánni til móts við þá.“

Þeir menningar- og hugmyndastraumar, sem runnið hafa um Dóná, hafa allt of oft verið straumar átaka, og styrjaldir mannkyns hafa allt of oft litað hana blóði. En hún hefur líka mengast með öðrum hætti.

Ekki lengur blá

Þegar Jóhann Strauss yngri samdi valsinn „Dóná svo blá“ árið 1867 hefur áin eflaust endurspeglað heiðbjartan himininn í bláum lit eins og vera bar. En hvernig er það núna?

Dóná á upptök sín í Svartaskógi í Þýskalandi og liðast 2850 kílómetra í suðausturátt uns hún rennur í Svartahaf. Hún er næstlengsta á Evrópu á eftir Volgu. Afrennslissvæði hennar er um 817.000 ferkílómetrar. En gerð Gabcikovo-stíflunnar, sem tilheyrir raforkuveri í ánni á milli Vínarborgar og Búdapest, hefur haft sín áhrif á umhverfið. Samkvæmt einni heimild hefur stíflan „valdið verulegri lækkun á vatnsborðinu meðfram Dóná, þurrkað upp þúsundir hektara skóglendis og votlendis og minnkað fiskafla sums staðar á neðri svæðum árinnar um 80 af hundraði.“

Ef Dóná gæti talað myndi hún kannski hika við að segja frá því hvernig fáfræði manna og ágirnd hefur bæði gert hana að sökudólg og fórnarlambi. Í félagi við hinar þrjár stórárnar, sem renna í Svartahaf, hefur Dóná átt sinn þátt í því að gera það að „mengaðasta hafi jarðar,“ að sögn rússneska dagblaðsins Rossíískaja Gazeta. Blaðið segir að Svartahaf sé að „deyja á kvalafullan hátt“ og bendir á að síðastliðin 30 ár hafi það „orðið skólpþró hálfrar Evrópu þangað sem dælt er gríðarlegu magni af fosfórsamböndum, kvikasilfri, DDT, olíu og öðrum eitruðum úrgangsefnum.“

Óseyrar Dónár hafa hlotið sorgleg örlög. Umhverfisspjöllin eru geigvænleg í grennd við Izmaíl í Úkraínu þar sem áin rennur í Svartahaf. Þar var mikið af pelíkönum sem eru orðnir sjaldséðir núna. Þýska tímaritið Geo segir að varðveisla „hins gífurlega fjölbreytta jurta- og dýralífs“ á svæðinu sé „prófsteinn á alþjóðlega umhverfisvernd.“

Betri saga framundan

Árið 1902 settist kona nokkur að í Tailfingen, bæ sem stendur við eina af þverám Dónár um 60 kílómetra norðaustur af upptökum hennar. Konan hét Margarethe Demut en „Demut“ merkir „hógværð“ á þýsku. Þar eð hún boðaði að „gullöld“ væri framundan kölluðu bæjarbúar hana Gull-Grétu. Skömmu síðar var einn af fyrstu söfnuðum votta Jehóva í Þýskalandi stofnaður í Tailfingen.

Árið 1997 voru starfandi 21.687 vottar Jehóva í 285 söfnuðum í tíu löndum meðfram Dóná sem allir boðuðu sama boðskapinn um stofnsett ríki Guðs.

Þar eð Guð hefur ákveðið að jörðin skuli standa að eilífu og verða eilíflega byggð mönnum má vel vera að Dóná eigi eftir að streyma fram endalaust. (Sálmur 104:5; Jesaja 45:18) Ef svo fer mun Dóná hafa fallegri sögu að segja, eftir hina aldalöngu sögu ófullkominnar menningar, meingallaðra mannahugmynda og blóðugra átaka. Hamingjusamir og heilbrigðir menn munu búa á bökkum hennar án þess að tunga eða landamæri sundri. Allir munu hefja upp raust sína til lofs skaparanum. Og þá þarf enga Valhöll á bakka árinnar til að heiðra látna menn því að allir menn, sem það verðskulda, verða reistir upp til lífs á ný. — Jóhannes 5:28, 29.

Tilhugsunin um þessa gleðitíma á bökkum Dónár minna okkur kannski á Sálm 98:8, 9 sem segir: „Fljótin skulu klappa lof í lófa, . . . fyrir [Jehóva] sem kemur til að dæma jörðina. Hann dæmir heiminn með réttlæti og þjóðirnar með réttvísi.“ Hugsaðu þér hvílíka sögu Dóná svo blá getur þá sagt, þegar hún er aftur orðin fögur og hrein!

[Neðanmáls]

^ Í þýskri goðafræði var Valhöll bústaður guðanna en í norrænni goðafræði var hún bústaður vopnbitinna manna.

^ María Teresía, Rúdolf 1., Maximilían 1. og Karl 5. eru öll þessa heiðurs aðnjótandi.

[Rammar/myndir á blaðsiðu 24, 25]

Á BÖKKUM DÓNÁR

ULM Í ÞÝSKALANDI

Albert Einstein, sem setti mark sitt á nútímasögu með vísindauppgötvunum sínum, fæddist í Ulm. Sagt er að hann hafi „í lifanda lífi verið viðurkenndur sem frjóasti hugsuður mannkyns­sögunnar.“

[Mynd]

WELTENBURG Í ÞÝSKALANDI

REGENSBURG Í ÞÝSKALANDI

Á 12. öld var Steinbrúin mikla reist hér (Steinerne Brücke) sem talin var mikið meistaraverk á sínum tíma. Stjörnufræðingurinn Kepler dó hér árið 1630.

MAUTHAUSEN Í AUSTURRÍKI

Nasistar reistu fangabúðir í þessum litla bæ á bökkum Dónár. Vottar Jehóva voru í hópi þeirra tugþúsunda sem voru fangelsaðir þar. Þeirra á meðal var Martin Pötzinger sem síðar sat í hinu stjórnandi ráði votta Jehóva.

[Mynd]

VÍNARBORG Í AUSTURRÍKI

[Mynd]

BRATISLAVA Í SLÓVAKÍU

[Credit line]

Geopress/H. Armstrong Roberts

BELGRAD Í JÚGÓSLAVÍU

Alfræðibókin The World Book Encyclopedia segir að Belgrad hafi mátt þola „stjórnmála- og hernaðarátök“ sem hafi staðið „í hundrað ár.“ Innrásarherir „hafa unnið og eyðilagt Belgrad oftar en 30 sinnum.“

NIKÓPÓL Í BÚLGARÍU

Borgin var mikilvægt virki eftir að Heraclíus Býsanskeisari grundvallaði hana árið 629. Bayezíd Ósmanasoldán vann Sigismund Ungverjalandskonung þar árið 1396 og Tyrkir réðu borginni næstu fimm aldir.

GIURGIU Í RÚMENÍU

Árið 1869 var lögð fyrsta járnbraut Rúmeníu milli Giurgiu og Búkarest, um 65 kílómetrum norðar. Árið 1954 var opnuð tveggja hæða járnbrautar- og bifreiðabrú yfir Dóná milli Rúmeníu og Búlgaríu og nefnd er í bjartsýni Vináttubrúin.

[Kort á blaðsíðu 24, 25]

(Sjá uppraðaðann texta í blaðinu)

ÞÝSKALAND

Svartiskógur

Tailfingen

Ulm

Weltenburg

Regensburg

Valhöll

AUSTURRÍKI

Mauthausen

Vínarborg

SLÓVAKÍA

Bratislava

Gabcikovo-stíflan

UNGVERJALAND

Búdapest

KRÓATÍA

JÚGÓSLAVÍA

Belgrad

BÚLGARÍA

Nikópól

RÚMENÍA

Giurgiu

Búkarest

MOLDAVÍA

ÚKRAÍNA

Izmail

Dónárósar

SVARTAHAF

[Rammi á blaðsíðu 26]

BÚDAPEST Í UNGVERJALANDI

Búdapest var einu sinni kölluð drottning Dónár. Borgin skiptist í Búda vestan árinnar og Pest austan hennar. Árið 1900 var nálega fjórðungur borgarbúa gyðingar en þeim var næstum útrýmt í síðari heimsstyrjöldinni.