Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Horft á heiminn

Horft á heiminn

Horft á heiminn

Offita er hættuleg

Því er spáð að tíðni sykursýki, hjartasjúkdóma og ýmissa fleiri sjúkdóma aukist mjög í kjölfar „offitufárs sem fer eins og eldur í sinu um Evrópu.“ Þetta kemur fram í Lundúnablaðinu The Independent. Formaður alþjóðlegs starfshóps gegn offitu sagði í ávarpi á fundi lækna og sérfræðinga frá 26 löndum sem haldinn var í Mílanó: „Þetta er heimsvoði og skjótra aðgerða er þörf til að stöðva þennan þögula faraldur alvarlegra sjúkdóma og stigvaxandi útgjalda til heilbrigðismála. Það er mikil heilbrigðisvá fyrir dyrum ef við aðhöfumst ekkert.“ Ekkert Evrópuríki er undanskilið og sums staðar eru 40 til 50 af hundraði íbúa of feitir. Frá 1980 hefur offita meðal enskra kvenna aukist úr 8 í 20 af hundraði og úr 6 í 17 af hundraði meðal enskra karla. Ástæðurnar eru kyrrsetur og fituríkari matur sem hvort tveggja er tengt aukinni velmegun. Alvarlegasta áhyggjuefnið er offita meðal barna. „Margt bendir til að offita verði algengari meðal næstu kynslóðar en þeirrar síðustu og að hennar gæti fyrr,“ að sögn prófessors Jaaps Seidells, sem er formaður Evrópusamtaka um offiturannsóknir.

Skuggahliðar hnattvæðingarinnar

Með hnattvæðingu efnahagslífsins er heimurinn að verða eitt markaðssvæði sem býður upp á aukin tækifæri fyrir marga en einnig aukna áhættu, að sögn breska dagblaðsins The Guardian. Þessi samþjöppun hagkerfisins í heiminum veldur því að þjóðir verða háðari hver annarri svo að einstakur atburður — eins og gengisfelling taílenska batsins árið 1997 — getur valdið miklu uppnámi á fjármálamörkuðum heims. „Fyrir þrjátíu árum var ríkasti fimmtungur jarðarbúa 30 sinnum ríkari en fátækasti fimmtungurinn,“ segir The Guardian. „Árið 1990 var hlutfallstalan orðin 60 og núna er hún 74. . . . Þeir sem hagnast mest á hnattvæðingunni eru glæpamenn sem geta notfært sér alþjóðlega markaði fyrir fíkniefni, vopn og vændi.“

Er hægt að forðast kvef?

Líklega er ekki hægt að komast hjá því að kvefast af og til. Dagblaðið The New York Times bendir hins vegar á ýmsar varúðarráðstafanir sem hægt er að gera. Eftirfarandi er mikilvægast: Forðastu mannfjölda eftir því sem kostur er og reyndu að komast hjá því að heilsa kvefuðu fólki með handabandi. Forðastu að nudda augu og nef og þvoðu þér oft um hendurnar. Þessar varúðarráðstafanir geta komið að gagni því að kvefveirur berast oft með höndunum í viðkvæma slímhúð augna og nefs. Kvefveirur geta lifað á höndum manns í nokkrar klukkustundir og kvefaður maður getur verið smitandi um tíma áður en kvefeinkennin verða augljós og eins eftir að þau dvína. Af öðrum varúðarráðstöfunum má nefna fjölbreytt mataræði og sérstaka varúð í umgengni við börn, því að börn kvefast fimm til átta sinnum á ári!

Mengað regn

Regnvatn er orðið óhæft til drykkjar sums staðar í Evrópu sökum þess hve mikið er af plágueyðandi efnum í því. Þetta kemur fram í tímaritinu New Scientist. Svissneskir efnafræðingar hafa uppgötvað að regnvatnssýni, sem tekin eru fyrstu mínúturnar eftir að stormur brestur á, innihalda oft hærra hlutfall af plágueyðandi efnum en talin eru viðunandi hjá Evrópusambandinu og í Sviss. Plágueyðandi efnum, sem notuð eru í landbúnaði, er kennt um, og styrkleikur eiturefnanna er mestur í fyrsta úrhelli eftir langan þurrkakafla. Sænskir vísindamenn hafa fundið tengsl milli ört vaxandi tíðni æxlisvaxtar í eitlum og mikillar notkunar á nokkrum plágueyðandi efnum. Efnasambönd, sem hindra gróður á þakefnum, menga einnig afrennslisvatn af húsþökum.

Svíar aðskilja ríki og kirkju

Aðskilnaður ríkis og kirkju átti að koma til framkvæmda í Svíþjóð 1. janúar 2000. Þar með er slitið sambandi kirkjunnar við stjórnvöld sem verið hefur allt frá því á 16. öld. „Fram til 1. janúar 1996 var hægt að skrá börn sjálfkrafa í sænsku þjóðkirkjuna við fæðingu, svo framarlega sem annað foreldrið tilheyrði kirkjunni,“ segir á vefsíðu kirkjunnar. „Skírnar var ekki krafist.“ Sænska stjórnin staðfesti þessa breytingu árið 1995 eftir fjörutíu ára deilur og tillagnagerð á kirkjuþingum. Um 88 prósent Svía tilheyra sænsku þjóðkirkjunni.