Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Hvað gerir mann að góðum þjóðfélagsþegni?

Hvað gerir mann að góðum þjóðfélagsþegni?

Sjónarmið Biblíunnar

Hvað gerir mann að góðum þjóðfélagsþegni?

ÞEIR litu á sig sem löghlýðna borgara. En eftir síðari heimsstyrjöldina voru margir þeirra leiddir fyrir rétt í Evrópu og Japan og dæmdir fyrir stríðsglæpi. Þeirra á meðal voru háttsettir herforingjar, vísindamenn og fleira sérmenntað fólk. Sumir þessara glæpamanna reyndu að réttlæta verk sín með því að þeir hefðu einfaldlega verið að hlýða fyrirskipunum eins og góðum þjóðfélagsþegnum sæmir. En þessi svokallaði þegnskapur þeirra fékk þá til að drýgja skelfilega glæpi gegn mannkyninu.

Það er líka til fólk sem virðir ekki yfirráð ríkisins. Sumir hafna opinskátt forræði yfirvalda en aðrir eru tilbúnir til að brjóta lög ef litlar líkur eru á að þeir náist. Fáir andmæla því auðvitað að það sé nauðsynlegt að hlýða yfirvöldum því að án þeirra væri stjórnleysi og ringulreið. En það er nauðsynlegt að velta því fyrir sér hve langt löghlýðni og borgaraleg skyldurækni á að ganga. Við skulum skoða nokkrar grundvallarreglur sem gerðu kristnum mönnum á fyrstu öld kleift að sjá skyldur sínar gagnvart ríkinu í réttu ljósi.

Undirgefni kristinna manna við yfirvöld

Kristnir menn á fyrstu öld hlýddu fúslega lögum og reglum ‚yfirvalda.‘ (Rómverjabréfið 13:1) Þeir litu svo á að það væri rétt að „vera undirgefnir höfðingjum og yfirvöldum.“ (Títusarbréfið 3:1) Þótt Kristur væri himneskur konungur þeirra voru þeir líka löghlýðnir þegnar mennskra valdhafa og ógnuðu ekki á nokkurn hátt öryggi ríkisins. Reyndar voru þeir hvattir til að ‚heiðra keisarann‘ öllum stundum. (1. Pétursbréf 2:17) Páll postuli hvatti jafnvel kristna menn: „Fyrst af öllu áminni ég um að bera fram ákall, bænir, fyrirbænir og þakkargjörðir fyrir öllum mönnum, fyrir konungum og öllum þeim, sem hátt eru settir, til þess að vér fáum lifað friðsamlegu og rólegu lífi í allri guðhræðslu og siðprýði.“ — 1. Tímóteusarbréf 2:1, 2.

Kristnir menn á fyrstu öld greiddu samviskusamlega þá skatta sem á þá voru lagðir, þó svo að þeir væru stundum íþyngjandi. Þeir hlýddu innblásnum fyrirmælum Páls postula um þetta: „Gjaldið öllum það sem skylt er: Þeim skatt, sem skattur ber.“ (Rómverjabréfið 13:7) Lærisveinar Jesú litu svo á að hin rómversku yfirvöld og embættismenn þeirra stjórnuðu með leyfi Guðs og væru í vissum skilningi „Guðs þjónar“ þar eð þau tryggðu þokkalegan frið og stöðugleika í þjóðfélaginu. — Rómverjabréfið 13:6.

„Reiðubúnir til sérhvers góðs verks“

Kristnir menn á fyrstu öld voru hvattir til að axla þær borgaralegu skyldur sem ríkið lagði á þá. Jesús Kristur ráðlagði lærisveinunum að vera fúsir til að gera stundum meira en borgaraleg yfirvöld kröfðust. „Neyði einhver þig með sér eina mílu, þá far með honum tvær,“ sagði hann. (Matteus 5:41) Kristnir menn hlýddu þessu og sýndu að þeir vildu ekki notfæra sér það að búa í siðmenntuðu þjóðfélagi án þess að leggja eitthvað af mörkum í staðinn. Þeir voru alltaf „reiðubúnir til sérhvers góðs verks.“ — Títusarbréfið 3:1; 1. Pétursbréf 2:13-16.

Frumkristnir menn sýndu ósvikinn náungakærleika og leituðu færis að hjálpa öðrum. (Matteus 22:39) Þeir höfðu jákvæð áhrif á samfélagið með náungakærleika sínum og góðu siðferði. Almenningur gat verið ánægður með að eiga þá fyrir nágranna. (Rómverjabréfið 13:8-10) Kærleikur kristinna manna birtist í fleiru en því að forðast vond verk. Þeir voru hvattir til að vera mannblendnir og hjálpsamir og líkja eftir Jesú Kristi með því að ‚gera öllum gott,‘ ekki aðeins trúsystkinum sínum. — Galatabréfið 6:10.

„Framar ber að hlýða Guði en mönnum“

En hlýðni þeirra við veraldleg yfirvöld voru takmörk sett. Þeir gerðu ekkert sem stríddi gegn samvisku þeirra eða spillti sambandi þeirra við Guð. Tökum dæmi. Þegar hin trúarlegu yfirvöld í Jerúsalem skipuðu postulunum að hætta að prédika í nafni Jesú neituðu þeir að hlýða. „Framar ber að hlýða Guði en mönnum,“ sögðu þeir. (Postulasagan 5:27-29) Kristnir menn neituðu staðfastlega að koma nálægt keisaradýrkun. (1. Korintubréf 10:14; 1. Jóhannesarbréf 5:21; Opinberunarbókin 19:10) Það hafði í för með sér að þeir voru „sakfelldir, ekki fyrir það að vera kristinnar trúar heldur fyrir að neita að hlýða lögum.“ — J. M. Roberts: Shorter History of the World.

Af hverju ‚neituðu þeir að hlýða lögum‘ í þessu tilviki? Þeir vissu að ‚yfirvöldin‘ stjórnuðu með leyfi Guðs og voru sem slík „Guðs þjónn“ til viðhalds lögum og reglu. (Rómverjabréfið 13:1, 4) En lög Guðs voru samt sem áður hafin yfir lög manna að þeirra mati. Þeir voru þess minnugir að Jesús Kristur hafði sett væntanlegum fylgjendum sínum þá góðu reglu að ‚gjalda keisaranum það sem keisarans er og Guði það sem Guðs er.‘ (Matteus 22:21) Skyldur þeirra við Guð urðu að ganga fyrir kröfum keisarans.

Það er augljóst að þetta var rétta stefnan því að við sjáum hvað gerðist þegar margir, sem sögðust kristnir, hættu að fylgja þessum góðu grundvallarreglum. Fráhvarfsleiðtogar kristna heimsins urðu til dæmis „auðsveip verkfæri borgaralegra yfirvalda, einkanlega við uppbyggingu og viðhald herja,“ segir hernaðarsagnfræðingurinn John Keegan. Það hafði í för með sér að fylgjendur þeirra fóru að taka afstöðu í styrjöldum þar sem úthellt var blóði milljóna saklausra manna. Keegan segir: „Þeir höfðu lög Guðs að engu þegar þeim hitnaði í hamsi.“

En kristnir menn fyrstu aldar eru fyrirtaksfordæmi um rétta jafnvægið. Þeir voru góðir þegnar. Þeir ræktu borgaralegar skyldur sínar vel. En þeir fylgdu meginreglum Biblíunnar staðfastlega og hlýddu biblíufræddri samvisku sinni á öllum sviðum lífsins. — Jesaja 2:4; Matteus 26:52; Rómverjabréfið 13:5; 1. Pétursbréf 3:16.

[Mynd á blaðsíðu 28]

„Gjaldið þá keisaranum það, sem keisarans er.“