Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Stafar nokkur hætta af hlutverkaleikjum?

Stafar nokkur hætta af hlutverkaleikjum?

Ungt Fólk Spyr . . .

Stafar nokkur hætta af hlutverkaleikjum?

„Maður gefur ímyndunaraflinu lausan tauminn. Stundum er maður galdramaður, stundum stríðsmaður. Maður getur verið hvaða persóna sem mann dreymir um að vera. Það eru engin takmörk.“ — Kristófer.

„VERTU allt sem þú getur ekki verið,“ stóð í tímariti sem var að lýsa vinsælum tölvuleik. Milljónum unglinga þykir það ákaflega lokkandi að geta forðað sér inn í ímyndunarheim hlutverka- eða spunaleikjanna eins og þeir eru oft kallaðir. En hvers konar leikir eru þetta?

Að sögn bókarinnar Jeux de rôle (Hlutverkaleikir) „fer spilarinn með hlutverk hetju í einhverri sendiför eða leit og hverfur á vit ævintýra í ímynduðum heimi.“ Markmið leiksins er að þroska þessa þykjustupersónu með því að afla henni þeirrar reynslu, fjár, vopna eða töframáttar sem þarf til að ljúka verkefninu.

Hlutverka- eða spunaleikir urðu mjög vinsælir á áttunda áratugnum með tilkomu leiksins Drekar og dýflissur. * Síðan þá hefur sprottið upp atvinnugrein með margra milljarða króna ársveltu í kringum borðspil, skiptispil, gagnvirkar bækur og tölvuleiki og spil þar sem þátttakendur leika beinlínis ævintýrin. Talið er að meira en sex milljónir manna í Bandaríkjunum leiki hlutverka- eða spunaleiki að staðaldri og hundruð þúsunda manna í Evrópu. Spunaleikjaklúbbar eru algengir í frönskum framhaldsskólum og í Japan eru hlutverkaleikir vinsælastir á tölvuleikjamarkaðinum.

Talsmenn og áhugamenn fullyrða að þessir leikir örvi ímyndunaraflið, þroski færni manna í að leysa vandamál og stuðli að hóptengslum. Andstæðingar hafa á hinn bóginn sett þá í samband við sjálfsvíg, morð, nauðganir, vanhelgun grafreita og Satansdýrkun. Tveir unglingar í Madríd voru handteknir, grunaðir um morð á 52 ára gömlum manni er þeir voru að leika atburðarás í spunaleik. Japanskur táningur lauk áþekkum leik með því að myrða foreldra sína og skera sig á úlnliðina. Þetta eru auðvitað undantekningar — flestir spilarar eru greindir og félagslyndir. En kristin ungmenni ættu að spyrja sig hvort hlutverka- og spunaleikir séu við hæfi og hvort þeir þurfi að gæta vissrar varúðar.

Ofbeldi og dulræn öfl

Hlutverka- og spunaleikir eru æði ólíkir, bæði að formi og inntaki, en margir eða flestir eru með einhverju ofbeldisívafi. Reyndar er ofbeldi oft forsenda framfara eða björgunar í sýndarheimi þessara leikja. Hvernig geta þeir þá samrýmst meginreglum Biblíunnar? Orðskviðirnir 3:31 segja: „Öfundaðu ekki ofbeldismanninn, taktu breytni hans aldrei til fyrirmyndar.“ (New Jerusalem Bible) Biblían hvetur okkur jafnframt til að ‚ástunda frið og keppa eftir honum,‘ en ekki ofbeldi. — 1. Pétursbréf 3:11.

Töfrar og galdrar gegna oft stóru hlutverki í þessum leikjum. Leikmennirnir fara oft með hlutverk galdramanna eða annarra persóna sem ráða yfir töframætti. Tálmar og óvinir eru gjarnan yfirunnir með hjálp dulrænna afla. Sagt er að í einum vinsælum leik „geti leikmennirnir annaðhvort farið í hlutverk engla eða djöfla sem eru í þjónustu erkiengla eða djöflahöfðingja . . . Óguðlegur undirtónn gerir hann skemmtilegan.“ Í einum tölvuleik þarf leikmaðurinn ekki annað en að slá inn orðið „Satan“ til að verða almáttugur.

Einstaka kristnir unglingar hafa hugsað sem svo að það sé ekkert rangt við hlutverka- og spunaleiki svo framarlega sem maður eyði ekki of miklum tíma í þá. „Þetta er bara leikur,“ segir einn þeirra. Það má kannski segja það, en Guð varaði Ísraelsmenn við því að koma nálægt hinu dulræna. Móselögmálið lýsti yfir: „Eigi skal nokkur finnast hjá þér . . . sá er fari með galdur eða spár eða fjölkynngi, eða töframaður eða gjörningamaður eða særingamaður eða spásagnamaður . . . Hver sá, er slíkt gjörir, er [Jehóva] andstyggilegur.“ — 5. Mósebók 18:10-12.

Er þá skynsamlegt að fást við leiki með dulrænu ívafi? Er ekki hætta á að maður sé að ‚kanna djúp Satans‘ með því að leika hlutverk einhverra sem búa yfir dulrænu afli? (Opinberunarbókin 2:24) Unglingur viðurkennir: „Ég þorði varla að fara út úr húsi eftir að ég var búinn að vera í hlutverkaleik allan daginn. Mér fannst að það yrði ráðist á mig.“ Getur eitthvað verið heilnæmt ef það vekur svona lamandi ótta?

Aðrir þættir

„Tíminn er orðinn stuttur,“ segir 1. Korintubréf 7:29, þannig að annað alvarlegt umhugsunarefni er tíminn sem fer í hlutverkaleikina. Það getur tekið klukkustundir, daga eða jafnvel vikur að leika suma þeirra. Og hlutverkið getur verið svo skemmtilegt og það er hægt að lifa sig svo inn í það að allt annað situr á hakanum. „Með hverju borði, sem ég lauk, langaði mig í erfiðari og raunverulegri þrautir,“ segir unglingur. „Ég varð virkilega ánetjaður.“ Hvaða áhrif getur slík ánetjun haft á skólaverkefni og andlega iðju unglings? — Efesusbréfið 5:15-17.

Japanskur unglingur segir er hann lítur um öxl: „Ég var alltaf að hugsa um hvað ég ætti að gera næst í leiknum, jafnvel þegar ég var ekki að spila. Ég hugsaði ekki um annað en leikinn, bæði í skólanum og á samkomum. Á endanum komst ekki annað að í huganum. Andlegt hugarfar mitt var í molum.“ Kristófer, sem minnst var á í upphafi greinar, segist hafa verið „úr tengslum við veruleikann.“ Vissulega ‚hefur það sinn tíma að hlæja og sinn tíma að dansa,‘ en við ættum aldrei að láta andleg hugðarefni víkja fyrir afþreyingu. — Prédikarinn 3:4.

Íhugaðu líka hvers konar hugarfar leikurinn ýtir undir. Franskt tímarit lýsir hlutverkaleik nokkrum þannig: „Þú kynnist alls konar úrkynjun, illsku og siðspillingu sem er úthugsað til að vekja hrylling og breyta heimssýn þinni í eitt skipti fyrir öll.“ Getur þetta samrýmst því ráði Biblíunnar að vera „sem ungbörn í illskunni“? (1. Korintubréf 14:20) Kristófer komst loks að þeirri niðurstöðu að leikirnir, sem hann var að spila, „samrýmdust ekki kristnu siðferði“ og bætir við: „Ég gat ekki séð sjálfan mig prédika, sækja samkomur og fræðast um góða eiginleika svo sem kristinn kærleika, og leika samtímis hlutverk sem átti ekkert sameiginlegt með kristni. Það var hreinlega ekki rökrétt.“

Tálmynd eða veruleiki?

Margir unglingar sækja í þessa leiki til að flýja veruleikann. En er heilbrigt að sökkva sér niður í hugaróra? Franski félagsfræðingurinn Laurent Trémel segir: „Heimur veruleikans, hjúpaður óvissu um framtíðina, . . . er ákaflega ólíkur þessum sýndarheimum . . . en þar nærðu loksins tökum á reglunum sjálfur og þar geturðu skapað persónu sem líkist annaðhvort sjálfum þér eða því sem þig langar til að vera.“ Etty Buzyn, sem er barnasálfræðingur, segir: „Í leiknum finnst unglingunum þeir lifa hættulegu lífi og vera að endurgera heiminn, en í veruleikanum eru þeir ekki að taka neina áhættu. Þeir eru að flýja þjóðfélagið og þær skorður sem það setur.“

Slíkur veruleikaflótti er einungis ávísun á vonbrigði því að veruleiki lífsins tekur við að leik loknum. Og fyrr eða síðar þarf að horfast í augu við hann. Engin velgengni eða ævintýri í ímyndunarhlutverki einhvers leiks getur bætt upp mistök eða meðalmennsku í heimi veruleikans. Það er langskynsamlegast að horfast beint í augu við veruleikann — undanbragðalaust! Skerptu skilningarvitin með því að takast á við hið daglega líf. (Hebreabréfið 5:14) Þroskaðu með þér andlega eiginleika sem gera þér kleift að ráða fram úr vandamálum þínum. (Galatabréfið 5:22, 23) Það veitir þér miklu meiri lífsfyllingu en nokkur leikur.

Ekki svo að skilja að allir hlutverkaleikir séu skaðlegir. Á biblíutímanum gáfu börn ímyndunaraflinu lausan tauminn við leik eins og Jesús benti á einu sinni. (Lúkas 7:32) Jesús fordæmdi ekki saklausa skemmtun. En kristin ungmenni og foreldrar þurfa að ‚meta rétt hvað Drottni þóknast.‘ (Efesusbréfið 5:10) Það er gott að spyrja sig hvort ákveðinn leikur, sem verið er að skoða, einkennist af ‚verkum holdsins.‘ Myndi hann spilla sambandi þínu við Guð? (Galatabréfið 5:19-21) Með því að vega það og meta geturðu tekið skynsamlegar ákvarðanir í sambandi við hlutverka- og spunaleiki.

[Neðanmáls]

^ Sjá Vaknið! (enska útgáfu) 22. mars 1982, bls. 26-7.

[Myndir á blaðsíðu 17]

Að hverju stuðla sumir hlutverkaleikir?