Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Trúin gerir mann styrkan

Trúin gerir mann styrkan

Trúin gerir mann styrkan

SAUTJÁN ára stúlka sendi bréf til skrifstofu Varðturnsfélagsins í Moldavíu, fyrrverandi lýðveldi í Sovétríkjunum, til að þakka fyrir grein sem birtist 8. júní 1998 í Vaknið! (október-desember 1998 í íslenskri útgáfu blaðsins). Greinin bar heitið „Valið milli tveggja feðra,“ og þar segir frá reynslu armenísks unglings.

„Þegar ég var að lesa greinina,“ útskýrði stúlkan, „fylltust augu mín af tárum af því að saga hans líktist minni sögu.“ Hún hélt áfram: „Þegar ég var fimmtán ára fór ég að nema Biblíuna og foreldrar mínir höfðu ekkert á móti því í fyrstu. En þegar ég fór að fara á samkomur hjá vottum Jehóva mislíkaði þeim verulega. Árið 1997 fór ég að segja öðrum frá því sem ég var að læra og þá sögðu þau við mig: ‚Farðu til vina þinna, vottanna, láttu þá fæða þig og klæða og útvega þér atvinnu. Þú ert mjög óhlýðin dóttir!‘ Foreldrar mínir beittu mig meira að segja líkamsrefsingum, skelltu höfði mínu við vegg.

Þetta var erfið prófraun fyrir mig. Mér leið oft eins og armeníska unglingnum sem sagði að hann efaðist stundum um að Jehóva væri ánægður með hann. Ég hugsaði með sjálfri mér: ‚Er ég einskis virði? Ætli Jehóva fyrirgefi mér fyrri syndir? Þykir Jehóva ekki lengur vænt um mig?‘

Þetta var mjög erfitt, sérstaklega þegar ég hélt að Jehóva þætti ekki lengur vænt um mig. Ég þrábað Jehóva oftsinnis í bænum mínum með tárvotum augum að hjálpa mér og gera mig svo styrka að ég yfirgæfi hann aldrei. Og reyndar skynjaði ég að Jehóva heyrði bænir mínar og svaraði áköllum mínum. Hann gaf mér staðfestu, einbeitni og hugrekki, sérstaklega í orði sínu þar sem sálmaritarinn kunngerir fullur trausts: ‚Enda þótt faðir minn og móðir hafi yfirgefið mig, tekur [Jehóva] mig að sér.‘ — Sálmur 27:10.

Hinn 27. september 1997 táknaði ég vígsluheit mitt til Jehóva með því að láta skírast á svæðismóti votta Jehóva í Kagul. Það liggur alveg ljóst fyrir mér að Jehóva, kærleiksríkur, himneskur faðir okkar, uppfyllir loforðið í Sálmi 84:12: ‚[Jehóva] Guð er sól og skjöldur, náð og vegsemd veitir [Jehóva]. Hann synjar þeim engra gæða, er ganga í grandvarleik.‘

Ég er mjög þakklát armeníska unglingnum fyrir að segja þessa trústyrkjandi sögu í blaðinu Vaknið! Ég vona að foreldrar mínir og foreldrar hans sýni um síðir áhuga á kenningum Biblíunnar.“