Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Vaxandi eftirspurn eftir læknismeðferð án blóðgjafar

Vaxandi eftirspurn eftir læknismeðferð án blóðgjafar

Vaxandi eftirspurn eftir læknismeðferð án blóðgjafar

„Allir sem fást við blóð og umönnun skurðsjúklinga þurfa að hugleiða skurðaðgerðir án blóðgjafar.“ — Dr. Joachim Boldt, prófessor í svæfingalækningum í Ludwigshafen í Þýskalandi.

ALNÆMISFÁRIÐ hefur knúið vísindamenn og lækna til að gera sérstakar ráðstafanir til að auka öryggi við skurðaðgerðir. Það hefur augljóslega kallað á nákvæmari blóðskimun. En sérfræðingar segja að þrátt fyrir þessar ráðstafanir séu blóðgjafir ekki hættulausar. „Þó svo að þjóðfélagið leggi mikið kapp á að gera blóðforðann öruggari en nokkru sinni fyrr teljum við eftir sem áður að sjúklingar reyni að forðast ósamgena [framandi] blóðgjafir af þeirri einföldu ástæðu að blóðforðinn getur aldrei verið fullkomlega hættulaus,“ segir í tímaritinu Transfusion.

Það kemur ekki á óvart að margir læknar eru orðnir varfærnir í að gefa sjúklingi blóð. „Blóðgjafir eru í meginatriðum gagnslausar og við forðumst af öllum mætti að gefa nokkrum manni blóð,“ segir Alex Zapolanski sem er læknir í San Francisco í Kaliforníu.

Almenningur er líka að vakna til vitundar um hættuna sem fylgir blóðgjöfum. Í könnun, sem gerð var árið 1996, kom í ljós að 89 af hundraði Kanadamanna myndu kjósa læknismeðferð án blóðgjafar. „Það hafna ekki allir sjúklingar blóðgjöf eins og vottar Jehóva,“ segir tímaritið Journal of Vascular Surgery. „Engu að síður er ljóst að við verðum að finna aðra kosti fyrir alla sjúklinga vegna hættunnar á smitsjúkdómum og ónæmisröskun.“

Æskileg aðferð

Sem betur fer er um annan valkost að ræða, það er að segja skurðaðgerðir og aðra læknismeðferð án blóðgjafar. Margir sjúklingar líta ekki á þess konar læknismeðferð sem síðasta hálmstráið heldur sem æskilega aðferð. Og þeir hafa fullt tilefni til. Breski yfirskurðlæknirinn Stephen Geoffrey Pollard bendir á að sýkingar- og dánartala þeirra sem fá læknismeðferð án blóðgjafar sé „að minnsta kosti jafnlág og hjá þeim sjúklingum sem fá blóðgjöf, og í mörgum tilvikum sleppi þeir við sýkingar og aukaverkanir eftir aðgerð sem oft má rekja til blóðgjafa.“

Hvernig þróaðist læknismeðferð án blóðgjafar? Í vissum skilningi er undarlegt að spyrja þessarar spurningar af því að lækningar höfðu verið stundaðar án blóðgjafa áður en blóðgjafir komu til sögunnar. Það var ekki fyrr en snemma á 20. öldinni sem blóðgjafartæknin náði því stigi að blóðgjöf yrði venjulegur þáttur læknismeðferðar. En einstaka læknar hafa á síðustu árum beitt sér fyrir skurðaðgerðum án blóðgjafar. Til dæmis gerði hinn nafnkunni skurðlæknir Denton Cooley einhverjar fyrstu opnu hjartaaðgerðirnar án blóðgjafar á sjöunda áratugnum.

Þegar lifrarbólgusýkingum meðal blóðþega fjölgaði á áttunda áratugnum tóku margir læknar að leita annarra leiða en blóðgjafa. Í byrjun níunda áratugarins var fjöldi stórra læknateyma farinn að gera skurðaðgerðir án blóðgjafar. Þegar alnæmisfaraldurinn brast á voru margir óðfúsir að taka upp sömu aðferðir, og ráðgjöf var mikið sótt til þessara læknateyma. Á tíunda áratugnum tóku fjölmargir spítalar að bjóða sjúklingum sínum beinlínis upp á læknismeðferð án blóðgjafar.

Læknum hefur nú tekist með ágætum að beita þessum aðferðum við skurðaðgerðir og bráðameðferð þar sem blóðgjafir voru taldar nauðsynlegar áður fyrr. „Hægt er að gera stórar og velheppnaðar hjarta-, æða-, kven- og fæðingar-, bæklunar- og þvagfæraskurðaðgerðir án þess að gefa blóð eða blóðhluta,“ segir D. H. W. Wong í tímaritinu Canadian Journal of Anaesthesia.

Skurðaðgerðir án blóðgjafar hafa meðal annars þann kost að þær stuðla að betri læknismeðferð. „Færni skurðlæknisins á stærstan þátt í því að koma í veg fyrir blóðmissi,“ segir dr. Benjamin J. Reichstein sem er yfirskurðlæknir í Cleveland í Ohio í Bandaríkjunum. Suður-afrískt lögfræðitímarit bendir á að í sumum tilfellum séu skurðaðgerðir án blóðgjafar „fljótlegri, hreinlegri og ódýrari“ og bætir við að ‚eftirmeðferð hafi í mörgum tilfellum reynst ódýrari og fljótlegri.‘ Þetta eru aðeins fáeinar ástæður fyrir því að rösklega 180 spítalar í heiminum sérhæfa sig í skurðaðgerðum og annarri læknismeðferð án blóðgjafar.

Vottar Jehóva og blóðgjafir

Vottar Jehóva afþakka blóðgjafir af biblíulegum ástæðum. * Hins vegar þiggja þeir og sækjast eftir læknismeðferð án blóðgjafar. „Vottar Jehóva sækjast eindregið eftir bestu læknismeðferð,“ sagði dr. Richard K. Spence þegar hann var yfirskurðlæknir við spítala í New York. „Á heildina litið eru þeir best upplýstu viðskiptavinir skurðlæknisins.“

Læknar hafa þróað margs konar skurðaðferðir án blóðgjafar á sjúklingum sem eru vottar Jehóva. Tökum reynslu hjartaskurðlæknisins Dentons Cooleys sem dæmi. Á 27 ára tímabili gerði teymi hans opnar hjartaaðgerðir á 663 vottum. Árangurinn sýnir greinilega að það er mætavel hægt að gera hjartaaðgerðir án blóðgjafar.

Margir hafa vissulega gagnrýnt votta Jehóva fyrir afstöðu þeirra til blóðgjafa, en í handbók, sem gefin er út af Félagi svæfingalækna á Stóra Bretlandi og Írlandi, er afstaða vottanna kölluð „tákn um virðingu fyrir lífinu.“ Í raun réttri hefur ófrávíkjanleg afstaða vottanna verið ein helsta driffjöður öruggari læknismeðferðar handa öllum sjúklingum. „Segja má að vottar Jehóva . . . hafi orðið til að vísa veginn og flýta fyrir umbótum á mikilvægu sviði norskrar heilbrigðisþjónustu,“ segir prófessor Stein A. Evensen sem starfar á norska Ríkisspítalanum.

Vottar Jehóva starfrækja samskiptaþjónustu í þeim tilgangi að auðvelda læknum að veita meðferð án blóðgjafar. Um þessar mundir eru starfandi rösklega 1400 spítalasamskiptanefndir í heiminum, og þær geta látið læknum og rannsóknarmönnum í té fræðigreinar úr 3000 greina gagnasafni um skurðaðgerðir og aðrar læknismeðferðarleiðir án blóðgjafa. „Starf spítalasamskiptanefnda votta Jehóva hefur haft í för með sér að nú eru minni líkur á því en áður að vottum Jehóva og sjúklingum almennt sé gefið blóð að óþörfu,“ segir dr. Charles Baron sem er prófessor við lagadeild Bostonháskóla. *

Margir heilbrigðisstarfsmenn hafa notið góðs af þeim upplýsingum sem vottar Jehóva hafa tekið saman um læknismeðferð án blóðgjafar. Sem dæmi má nefna að þegar höfundar voru að taka saman efni í bók, sem nefnist Autotransfusion: Therapeutic Principles and Trends (Eiginblóðgjöf: meginreglur og þróun í meðferð), báðu þeir votta Jehóva að láta sér í té efni um aðferðir sem beita má í stað blóðgjafa. Vottarnir létu þeim fúslega í té umbeðnar upplýsingar. Höfundar sögðu síðar: „Af öllu því sem við höfum lesið um þetta efni höfum við aldrei rekist á jafn hnitmiðaðan og ítarlegan lista yfir aðferðir sem beita má til að forðast gjöf framandi blóðs.“

Framfarir í læknavísindum hafa orðið mörgum hvati til að leiða hugann að læknismeðferð án blóðgjafar. Hverju má búast við í náinni framtíð? Prófessor Luc Montagnier, sem uppgötvaði alnæmisveiruna, segir: „Vaxandi skilningur okkar á þessu sviði sýnir að blóðgjafir hljóta að verða lagðar niður einn góðan veðurdag.“ En sem betur fer er nú þegar verið að bjarga mannslífum með öðrum aðferðum.

[Neðanmáls]

^ Spítalasamskiptanefndirnar kynna afstöðu votta Jehóva fyrir heilbrigðisstarfsmönnum ef óskað er. Enn fremur aðstoða þær sjúkling, ef þess er sérstaklega óskað, við að ræða strax við lækninn um afstöðu sína, og hvetja til hreinskilnislegra og áframhaldandi skoðanaskipta þeirra á milli.

[Rammi/myndir á blaðsíðu 7]

Ummæli nokkurra lækna

‚Skurðaðgerðir án blóðgjafa eru ekki aðeins fyrir votta Jehóva heldur alla sjúklinga. Ég álít að allir læknar ættu að gera þannig aðgerðir.‘ — Joachim Boldt, prófessor í svæfingalækningum í Ludwigshafen í Þýskalandi.

„Þó svo að blóðgjafir séu öruggari nú en áður fylgir þeim samt sem áður áhætta, þar á meðal ónæmissvörun, lifrarbólga og samræðissjúkdómar.“ — Dr. Terrence J. Sacchi, aðstoðarprófessor í klínískri læknisfræði.

„Flestir læknar gefa sjúklingum blóð næstum ósjálfrátt, ríkulega og af handahófi. Ég geri það ekki.“ — Alex Zapolanski, ­yfirlæknir hjartaskurðdeildar San Francisco Heart Institute.

„Ég kem ekki auga á neinar hefðbundnar kviðarholsaðgerðir sem útheimta að öllu jöfnu blóðgjöf hjá venjulegum sjúklingi.“ — Dr. Johannes Scheele, prófessor í skurðlækningum í Jena í Þýskalandi.

[Myndir]

Dr. Terrence J. Sacchi, aðstoðarprófessor

Joachim Boldt, prófessor

[Rammi/myndir á blaðsíðu 8, 9]

Læknismeðferð án blóðgjafar

Nokkrar leiðir

Blóðþenslulyf: Ringerslaktat, dextran, hýdroxýetýlsterkja og fleiri lyf eru notuð til að viðhalda blóðrúmmáli og koma í veg fyrir blóðþurrðarlost. Verið er að prófa lyf sem geta flutt súrefni.

Önnur lyf: Prótín framleidd með erfðatækni geta örvað myndun rauðkorna (rauðkornavaki), blóðflagna (interleukin-11) og ýmissa gerða hvítkorna (GM-CSF, G-CSF). Hægt er að draga verulega úr blóðmissi í skurðaðgerðum með aðstoð lyfja (aprótíníns, andfíbrínólýta), og önnur lyf draga úr bráðum blæðingum (desmópressín).

Lífrænir blæðingatálmar: Kollagen- og sellulósapúðar eru notaðir til að stöðva blæðingar með því að leggja þá beint á sár. Með fíbrínlími og þéttiefnum má loka fyrir stungusár eða þekja stór svæði af blæðandi vef.

Endurvinnsla blóðs: Með viðeigandi vélum má endurvinna blóð sem ella tapaðist í aðgerð eða eftir slys. Blóðið er hreinsað og gefið sjúklingi aftur í lokaðri hringrás. Í svæsnum tilfellum er hægt að endurvinna blóð í lítratali með þessari aðferð.

Skurðtæki: Með sumum tækjum er hægt að loka fyrir æðar samtímis og skorið er. Með öðrum er hægt að stöðva blæðingar á stórum vefjasvæðum. Einnig er hægt að lámarka inngrip með kviðarholssjá og öðrum tækjum og gera aðgerðir án þess blóðmissis sem fylgir stórum skurði.

Skurðtækni: Draga má úr hættunni á vandkvæðum í aðgerð með góðum undirbúningi, meðal annars með því að leita ráða annarra reyndra lækna. Mikilvægt er að stöðva allar blæðingar fljótt. Ef það dregst í meira en sólarhring setur það sjúkling í aukna lífshættu. Draga má úr heildarblóðmissi með því að skipta stórri skurðaðgerð í smærri áfanga.

[Rammi/myndir á blaðsíðu 10]

Læknismeðferð án blóðgjafar — hin nýja „staðalmeðferð“

VAKNIÐ! ræddi við fjóra sérfræðinga um kosti læknismeðferðar án blóðgjafar.

Hverjir sýna áhuga á læknismeðferð án blóðgjafar, auk þeirra sem óska eftir henni af trúarástæðum?

Spahn: Á spítalanum okkar eru það yfirleitt mjög vel upplýstir sjúklingar sem óska eftir meðferð án blóðgjafa.

Shander: Árið 1998 voru fleiri sjúklingar sem afþökkuðu blóðgjöf af persónulegum ástæðum en trúarlegum.

Boyd: Til dæmis krabbameinssjúklingar. Það er búið að margsýna fram á að þeir ná sér betur ef þeir fá ekki blóðgjöf, og krabbameinið tekur sig sjaldnar upp á nýjan leik.

Spahn: Oft eru það prófessorar og fjölskyldur þeirra sem við veitum læknismeðferð án blóðgjafar. Jafnvel skurðlæknarnir vilja ekki fá blóðgjöf! Einn skurðlæknir talaði til dæmis við okkur um konuna sína sem þurfti að gangast undir aðgerð. Hann sagði: „Passið bara eitt — að henni sé ekki gefið blóð!“

Shander: Sumir á svæfingadeildinni hjá mér hafa sagt: ‚Þeir sjúklingar, sem er ekki gefið blóð, ná sér alveg eins vel og hinir og kannski jafnvel betur. Af hverju höfum við tvenns konar viðmiðanir við meðferð sjúklinga? Ef þetta er besta meðferðin ættu allir að fá hana.‘ Við bíðum þess með eftirvæntingu að læknismeðferð án blóðgjafar verði staðalmeðferð.

Earnshaw: Það vill svo til að skurðaðgerðir án blóðgjafar skipta sérstaklega miklu máli fyrir votta Jehóva. En þetta er sú meðferð sem við viljum veita öllum sjúklingum.

Er læknismeðferð án blóðgjafar dýrari eða ódýrari en meðferð með blóðgjöf?

Earnshaw: Hún sparar fé.

Shander: Við náum 25 prósenta sparnaði með því að gefa ekki blóð.

Boyd: Þótt það væri eina ástæðan ættum við að beita henni.

Hve langt höfum við náð í læknismeðferð án blóðgjafar?

Boyd: Ég held að framfarirnar séu mjög örar. Þeim er alls ekki lokið. Við erum alltaf að rekast á einhverja nýja og góða ástæðu til að nota ekki blóð.

[Myndir]

Peter Earnshaw, FRCS, yfirlæknir í bæklunarskurðlækningum í Lundúnum.

Dr. Donat R. Spahn, prófessor í svæfingalækningum í Zürich.

Dr. Aryeh Shander, aðstoðarprófessor í svæfingalækningum í Bandaríkjunum.

Dr. Mark E. Boyd, prófessor í fæðingarlækningum og kvensjúkdómafræði í Kanada.

[Rammi á blaðsíðu 11]

Hlutverk sjúklingsins

▪ Talaðu við lækninn um meðferð án blóðgjafar áður en þú þarft að gangast undir aðgerð. Þetta er sérstaklega mikilvægt fyrir barnshafandi konur, foreldra með ung börn og aldraða.

▪ Settu óskir þínar á blað og gerðu bindandi yfirlýsingu um vilja þinn.

▪ Ef læknir er ekki fús til að veita þér meðferð án blóðgjafar skaltu finna þér annan lækni sem er fús til að virða óskir þínar.

▪ Sumt af því sem notað er til að undirbúa skurðaðgerð án blóðgjafar tekur nokkurn tíma að virka. Dragðu ekki að leita slíkrar meðferðar ef þú veist að þú þarft að gangast undir aðgerð.