Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Bilið milli ríkra og fátækra breikkar

Bilið milli ríkra og fátækra breikkar

Bilið milli ríkra og fátækra breikkar

„Náðst hefur meiri árangur síðastliðin fimm ár í þá átt að draga úr fátækt í heiminum en næstu fimm aldir á undan,“ að sögn tímaritsins UNDP Today sem Þróunarstofnun Sameinuðu þjóðanna gefur út. „Þróunarlöndin hafa helmingað dánartíðni barna frá því sem hún var árið 1960, dregið úr vannæringu um þriðjung og fjölgað innritunum í skóla um fjórðung,“ segir tímaritið en viðurkennir að fátækt sé „enn útbreidd“ í heiminum þrátt fyrir þessar framfarir.

Verra þykir að ójöfnuður fer vaxandi innan ríkja og milli ríkja. Catherine Bertini, framkvæmdastjóri Matvælaáætlunar Sameinuðu þjóðanna, bendir á að „mun fleiri líði vannæringu og hungur í heiminum en var fyrir einu ári.“ Um 840 milljónir manna í þróunarlöndunum búa við hungur að staðaldri, rösklega milljarður hefur ekki aðgang að hreinu drykkjarvatni og næstum einn og hálfur milljarður manna þarf að draga fram lífið á innan við 70 krónum á dag. Mary Robinson, mannréttindafulltrúi Sameinuðu þjóðanna, segir „hættu á því að ástandið verði þannig að heimurinn skiptist ekki aðeins í þróuð ríki og vanþróuð heldur einnig í ofþróuð ríki og ríki sem aldrei þróast .“

Hvað ætli það myndi kosta jarðarbúa, sem eru sex milljarðar, að minnka bilið milli ríkra og fátækra? Minna en ætla mætti. Sameinuðu þjóðirnar áætla að ekki þyrfti nema 630 milljarða króna á ári (rösklega 100 krónur á mann) til að sjá öllum jarðarbúum fyrir hreinlætisaðstöðu og hreinu vatni, og um 910 milljarðar króna til viðbótar á ári (tæplega 150 krónur á mann) til að tryggja öllum jarðarbúum grunnheilbrigðisþjónustu og mat. Þó svo að þetta sé mikið fé virðist það óverulegt í samanburði við það sem heimurinn eyðir til annarra hluta. Ekki alls fyrir löngu fór heimurinn með 30.500 milljarða króna á ári (um 5000 krónur á mann) í auglýsingar og 54.600 milljarða (rúmlega 9000 krónur á mann) til hermála. Ljóst er að það er ekki fjárskortur heldur miklu frekar forgangsröðun sem stendur öðru fremur í vegi fyrir því að hægt sé að minnka bilið milli ríkra og fátækra.