Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Hönnuðurinn mikli opinberar sig

Hönnuðurinn mikli opinberar sig

Hönnuðurinn mikli opinberar sig

MARGIR, jafnvel vísindamenn, fallast á að bók náttúrunnar, sem svo er nefnd, taki af allan vafa um að til sé hönnuður og skapari. Páll postuli skrifaði endur fyrir löngu að ‚hið ósýnilega eðli Guðs, bæði hans eilífi kraftur og guðdómleiki, er sýnilegt frá sköpun heimsins, með því að það verður skilið af verkum hans.‘ (Rómverjabréfið 1:20) En bók náttúrunnar getur ekki ein sér opinberað Guð og tilgang hans að fullu. Hún lætur til dæmis ósagt hver sé tilgangur lífsins. En sem betur fer hefur höfundur sköpunarverksins opinberað sjálfan sig í annarri bók — Biblíunni sem er innblásin af honum. — 2. Tímóteusarbréf 3:16.

Þó svo að Biblían sé ekki kennslubók í vísindum svarar hún öllum mikilvægu spurningunum sem bók náttúrunnar lætur ósvarað. Hún svarar til dæmis einhverri fyrstu spurningunni sem flestir spyrja þegar þeir virða fyrir sér fagurt handverk: Hver gerði þetta? Líttu til dæmis á það sem hún segir um sköpunarverkið í Opinberunarbókinni 4:11: „Verður ert þú, [Jehóva] vor og Guð, að fá dýrðina og heiðurinn og máttinn, því að þú hefur skapað alla hluti, og fyrir þinn vilja urðu þeir til og voru skapaðir.“ Jehóva Guð er hinn mikli hönnuður og nafn hans stendur um 7000 sinnum í frumhandritum Biblíunnar.

Einum 3500 árum áður en öld vísindanna gekk í garð var uppi skynugur og áhugasamur náttúruskoðari er Job hét, og hann setti nafn Jehóva í samband við sköpunarverkið. „Spyr þú skepnurnar, og þær munu kenna þér,“ sagði hann, „fugla loftsins, og þeir munu fræða þig, eða villidýrin, og þau munu kenna þér, og fiskar hafsins munu kunngjöra þér.“ Og hvað er það sem dýr, fuglar og fiskar kenna okkur um sköpunarverkið? „Hver þeirra veit ekki að hönd [Jehóva] hefir gjört þetta?“ svarar Job. — Jobsbók 12:7-9.

Tilgangur Jehóva með mennina

Biblían opinberar hver sé tilgangur Jehóva með mennina, og hann er sá að réttlátir menn lifi að eilífu í paradís hér á jörð. „Hinir réttlátu fá landið til eignar og búa í því um aldur,“ segir Sálmur 37:29. Jesús tók í sama streng og sagði: „Sælir eru hógværir, því að þeir munu jörðina erfa.“ — Matteus 5:5.

Svo er sérstakri þekkingu fyrir að þakka að jörðin verður friðsæl paradís að eilífu. „Hvergi á mínu heilaga fjalli munu menn illt fremja eða skaða gjöra,“ segir Jesaja 11:9, „því að jörðin er full af þekkingu á [Jehóva], eins og djúp sjávarins er vötnum hulið.“ ‚Þekkingin á Jehóva‘ er reyndar lykillinn að eilífu lífi, friði og hamingju. Jesús staðfesti það og sagði: „Það er hið eilífa líf að þekkja þig, hinn eina sanna Guð, og þann sem þú sendir, Jesú Krist.“ — Jóhannes 17:3.

Með því að fá eilíft líf gefst mönnunum loksins tækifæri til að njóta lífsins eins og Guð ætlaðist til í upphafi. Og eilíft líf verður ekki leiðigjarnt heldur spennandi ævintýri óþrjótandi gleði og endalausra uppgötvana.

Spennandi viðfangsefni

„Allt hefir [Guð] gjört hagfellt á sínum tíma,“ segir Prédikarinn 3:11, „jafnvel eilífðina hefir hann lagt í brjóst þeirra, aðeins fær maðurinn ekki skilið það verk, sem Guð gjörir, frá upphafi til enda.“ Þegar eilífðarþrá okkar er fullnægt getum við reynt að ‚skilja verk Guðs frá upphafi til enda.‘ Segja má að öll jörðin verði skólastofan, Jehóva kennarinn og lífið rannsóknarleiðangur án enda.

Sjáðu sjálfan þig fyrir þér, fullkominn á huga og líkama í paradís. Þú tekst á hendur krefjandi viðfangsefni sem þig myndi ekki dreyma um að gera núna — og þú veist að þú getur leyst þau af hendi, hvort sem það tekur hundrað ár eða þúsund. Kannski geturðu notað fullkomna hæfileika þína til að líkja eftir einhverju sem Jehóva hefur hannað, án þess þó að valda umhverfistjóni eða mengun eins og mennirnir gera oft núna. Þú lætur stjórnast af kærleika í öllu sem þú gerir, líkt og Jehóva. — 1. Mósebók 1:27; 1. Jóhannesarbréf 4:8.

Hvers vegna getum við treyst því að þetta sé ekki bara fjarstæðukenndur draumur? Vegna þess að við lesum það í hinum tveim stórfenglegu „bókum“ Jehóva. Biblían og sköpunarverkið sanna svo ekki verður um villst að hinum mikla hönnuði og skapara er ekkert um megn. Er þá ekki ráð að kynnast honum og syni hans Jesú Kristi nánar? Ekkert getur verið áhugaverðara og meira gefandi.

[Myndir á blaðsíðu 10]

Hönnuðurinn mikli opinberar sig í Biblíunni og bók náttúrunnar.