Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Hermt eftir hönnun lífsins

Hermt eftir hönnun lífsins

Hermt eftir hönnun lífsins

Smábörn kútveltast og reka höfuðið í. Eldri börn hrapa ofan úr tré eða detta á reiðhjóli. Íþróttamenn skella saman á vellinum. Ökumenn lenda í ótal umferðarslysum. En þrátt fyrir höggin, árekstrana og skellina sleppum við oft lítið meidd. Okkur finnst sjálfsagt að líkaminn þoli alls konar högg og hnjask. En eins og vísindamenn eru að uppgötva erum við snilldarlega hönnuð, allt frá hörundi inn í bein.

NÁTTÚRAN er sneisafull af dæmum þar sem saman fer styrkur, seigla og léttleiki. Viðkvæm ungtré þrengja sér gegnum sprungur í klöppum og steinsteypu og víkka þær um leið og þau vaxa. Tré geta staðist storma sem kubba sundur rafmagnsmöstur og tæta sundur hús. Spætur höggva sig inn í tré með slíkum látum að venjulegur heili yrði að mauki. Krókódílar eru með svo sterka húð að spjót, örvar og jafnvel byssukúlur hrökkva af þeim. (Samanber Jobsbók 41:1, 26.) Um þúsundir ára hafa menn fyllst lotningu og undrun yfir styrk náttúrunnar.

Stórstígar tækniframfarir síðastliðinna 40 ára hafa fært vísindamönnum í hendur ný og öflug tæki til að nota við rannsóknir á þeim leyndardómum sem búa að baki þessum undrum náttúrunnar. Flestir leyndardómarnir eru faldir inni í smásæjum heimi frumunnar þar sem hönnunin er óaðfinnanleg og ótrúlega margbrotin. En vísindin ætla sér ekki aðeins að ráða leyndardómana að baki undraefnum náttúrunnar heldur vilja þau jafnframt herma eftir þeim, að minnsta kosti almennt séð. Möguleikarnir þykja svo miklir á þessu rannsóknarsviði að til er orðin ný vísindagrein sem kalla mætti lífhermifræði.

Lífhermifræðin gefur fyrirheit um betri heim

Bókin Biomimetics: Design and Processing of Materials bendir á að „lífhermifræði sé fólgin í rannsóknum á líffræðikerfum [og] starfsemi þeirra.“ Þessar rannsóknir hafa það markmið að ‚kveikja nýjar hugmyndir og þróa af þeim kerfi svipuð þeim sem finnast í lífríkinu,‘ segir bókin.

Vísindamaðurinn Stephen Wainwright heldur því fram að „lífhermifræðin eigi eftir að leggja undir sig sameindalíffræðina og taka sæti hennar sem áhugaverðasta og mikilvægasta líffræðigrein 21. aldarinnar.“ Prófessor Mehmet Sarikaya fullyrðir að „við stöndum á barmi efnabyltingar á borð við járnöldina og iðnbyltinguna. Við erum á harðaspretti inn í tímaskeið nýrra efna. Ég tel að lífhermifræðin eigi eftir að breyta lífsháttum okkar verulega á næstu hundrað árum.“

Reyndar er hún nú þegar farin að breyta heiminum. En áður en við snúum okkur að því skulum við beina athyglinni stundarkorn að örfáum af þeim undrum sem vísindamenn eru að rannsaka en skilja ekki enn sem komið er. Við skulum líka ígrunda þær vísbendingar sem felast óhjákvæmilega í orðinu „hönnun“ og kanna hvernig þær gefa lífheiminum umhverfis okkur gildi.